Verndun Stýrimannaskólans

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:36:00 (1588)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Svar mitt við fsp. hv. þm. Láru Margrétar Ragnarsdóttur er svohljóðandi:
    Ég tek í upphafi fram að ég hef fyrir mitt leyti fullan hug á að stuðla að verndun gamla Stýrimannaskólahússins sem tengist merkum þætti í atvinnu- og skólasögu þjóðarinnar og hefur þannig menningarsögulegt gildi eins og hv. þm. nefndi.
    Fyrir nokkrum árum var hætt að nota húsið til kennslu. Það hefur þó ekki staðið með öllu ónotað. Búið er í hluta hússins og er með þeim hætti séð fyrir nokkru eftirliti. Hins vegar hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um framtíðarnotkun hússins þótt ýmsar hugmyndir hafi verið um það efni. Nauðsynlegt er að finna húsinu hentugt og viðeigandi hlutverk og það mál er til athugunar í menntmrn. Ljóst er að húsið þarfnast umfangsmikilla viðgerða sem ætla má að kosti jafnvel einhverja tugi millj. kr. Í fjárlögum þessa árs

er 1 millj. kr. ætluð til viðhalds húsinu og í fjárlagafrv. næsta ár, sem nú er til meðferðar á hv. Alþingi, er gert ráð fyrir 3 millj. kr. í sama skyni. Fjármununum er ætlað að duga til bráðaaðgerða, þ.e. til að forða húsinu frá frekari hrörnun. Forsendur eru tæpast til að ráðast í meiri háttar endurbyggingu fyrr en ljósara verður hvaða starfsemi verður ætlað rúm í húsinu.
    Af því sem hér hefur verið rakið má sjá að nokkur viðbúnaður er af hálfu menntmrn. til að tryggja verndun gamla Stýrimannaskólans. Ég tel hins vegar ekki eðlilegt að ráðuneytið hlutist til um forgangsröðun verkefna á vegum húsafriðunarnefndar. Rétt er að þar ráði sjálfstætt mat nefndarinnar á grundvelli þeirra lagareglna sem gilda um starfsemi hennar.