Fæðingarorlof

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 10:47:00 (1594)

     Fyrirspyrjandi (Sólveig Pétursdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svarið. En ég vek athygli á því að ekki er um að ræða greiðslur úr ríkissjóði heldur er þetta spurning um samningsfrelsi á almennum vinnumarkaði og að foreldrum er mismunað í þeirri framkvæmd sem nú er viðhöfð í Tryggingastofnun. Ég legg á það áherslu að opinberir starfsmenn njóta fullra launa í fæðingarorlofi og enn fremur hafa bankamenn getað samið sig sérstaklega fram hjá þessari túlkun Tryggingastofnunar þannig að þeir hljóta nú viðbótargreiðslur en samt sem áður er réttur þeirra ekki skertur í greiðslum frá Tryggingastofnun.
    Ég legg áherslu á að þetta mál er mjög mikilvægt. Ég tek undir orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur sem minnti á það áðan að það væri nokkuð sérstakt ef það þyrfti að bíða eftir dómi Hæstaréttar í málinu þótt ég skilji þau rök reyndar að vissu leyti. En ég vona að þetta frv. verði tekið í þá endurskoðun sem nú er unnið að í ráðuneytinu og að það fái farsæla úrlausn.