Sjómælingaskipið Baldur

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:02:00 (1600)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
     Frú forseti. Í umræðum utan dagskrár um kaup á björgunarþyrlu spurðist ég fyrir um sjómælingaskipið Baldur og fjármögnun þess úr Landhelgissjóði Íslands. Þar sem lítið varð um svör að því sinni lagði ég fram fsp. á þskj. 163 sem nú er til umfjöllunar.
    Í 1. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands frá 1967 er í átta liðum kveðið á um verkefni gæslunnar. Þar kemur ótvírætt fram að auk almennrar löggæslu á hafinu umhverfis landið er eitt meginverkefni hennar að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska eða á landi, aðstoða skip sem eiga í erfiðleikum og byggðarlög sem lokast inni.
    En þó að þessi verkefni séu tvímælalaust þau mikilvægustu hefur gæslan líka önnur á sinni könnu. Eitt slíkt eru sjómælingar, en gæslan á að sjá um þær og taka þátt í hafrannsóknum eftir því sem kveðið er á um hverju sinni. Með tilvísun til þessa verksviðs hefur væntanlega verið ráðist í smíði sjómælingaskipsins Baldurs og ákveðið að fjármagna skipið úr Langhelgissjóði Íslands en í 18. gr. laga um Landhelgisgæsluna segir um verkefni sjóðsins, með leyfi hæstv. forseta: ,,Sjóðnum skal varið til að koma upp strandgæzluskipum eða öðrum varanlegum tækjum til þarfa Landhelgisgæzlunnar. Þó getur fjárveitingavaldið ákveðið, að hluta af árlegum tekjum og vöxtum sjóðsins megi verja til rekstursútgjalda Landhelgisgæzlunnar.``
    Ég skal játa að ég hef ákveðnar efasemdir um að rétt sé að verja fé í sjómælingaskip þegar fjármuni skortir í annað og þarfara tæki í þágu Landhelgisgæslunnar, það er björgunarþyrlu. Þess vegna spyr ég nú hæstv. dómsmrh. eftirfarandi spurninga:
  ,,1. Hvar og hvenær var ákvörðun tekin um smíði sjómælingaskipsins Baldurs og hver ákvað að verkið skyldi fjármagnað úr Landhelgissjóði Íslands?
    2. Hver sá um hönnun og smíði skipsins og var verkið boðið út?
    3. Hver er heildarkostnaður við smíði skipsins orðinn og hversu miklum fjármunum, á núvirði, hefur verið varið til verksins úr Landhelgissjóði?
    4. Hver er áætlaður rekstrarkostnaður skipsins á þessu ári og því næsta og hvernig er reksturinn fjármagnaður?``