Sjómælingaskipið Baldur

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:07:00 (1602)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
     Frú forseti. Ég þakka ráðherra fyrir skýr svör við þessum fsp. Það kom fram í hans máli að ákvörðun um smíði sjómælingaskipsins hefði verið tekin í ríkisstjórninni og málið hefði verið lagt fyrir ríkisstjórnina af þáv. dómsmrh. Jóni Sigurðssyni. Það var því ekki að furða þó það reyndist erfitt fyrir mig þegar ég var að leita upplýsinga í fjárlögum og kanna málið hjá fulltrúum okkar í fjárln. að ekkert hefði komið um málið þar inn. Þetta virðist vera eitt af þeim málum sem ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að ráðist skuli í og hvernig skuli fjármagnað. Það er kannski ekkert undan því að kvarta því kveðið er á um það í lögum um Landhelgisgæsluna að Landhelgissjóður skuli vera undir stjórn dómsmrh. Ég tel hins vegar eðlilegt að mál eins og þessi fari fyrir fjárveitingavaldið og því sé forgangsraðað rétt eins og öðru sem hér er tekin ákvörðun um. Það er ekki síst vegna þess að við stöndum andspænis mjög brýnum verkefnum eins og því að kaupa björgunarþyrlu. Á lánsfjárlögum þessa árs voru 100 millj. til þess verkefnis og það hefði óneitanlega komið sér vel að geta sótt í Landhelgissjóð t.d. tæpar 70 millj. til viðbótar.
    En það þýðir víst ekki að sýta orðinn hlut. Þetta hefur verið gert en auðvitað vaknar sú spurning hvort ekki hefði verið nær, ef nauðsynlegt er að stunda þær sjómælingar, sem ég efast ekkert um, sem á að gera með þessu skipi, að leigja til þess skip þann takmarkaða tíma ársins sem þetta skip er notað til þessara verka. Ef ég veit rétt þá eru m.a. öll tæki leigð og spurningin er sú hvort ekki hefði verið hægt að leigja skip með tækjum og nýta í þetta verkefni í stað þess að smíða fyrir tæpar 70 millj. nýtt skip.