Lánshlutföll Fiskveiðasjóðs til skipasmíða

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:10:00 (1604)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Fsp. mín til hæstv. sjútvrh. er svohljóðandi:
    ,,Má vænta þess að útlánareglum Fiskveiðasjóðs verði breytt þannig að aukinn verði sá munur sem er á lánshlutfalli til innlendrar og erlendrar nýsmíði skipa?``

    Það hefur komið fram í fréttum undanfarið að Fiskveiðasjóður hefur samþykkt lánveitingar til smíði nokkurra skipa sem byggð verða erlendis. Samanlagt munu þessi skip kosta 5--6 milljarða ísl. kr. Ekki mun hafa verið leitað eftir tilboðum í smíði þessara skipa innan lands þrátt fyrir að íslenskar skipasmíðastöðvar séu verkefnalausar og verði því að fækka starfsmönnum jafnt og þétt.
    Ástæðan fyrir því að þessi verkefni streyma úr landi er sjálfsagt fyrst og fremst gylliboð erlendra skipasmíðastöðva, m.a. niðurgreiðslur, fjármagnsfyrirgreiðsla og í sumum tilfellum uppítökur eldri skipa. Það er óþolandi að horfa eftir þessum 5--6 milljörðum í gjaldeyri og störfum fyrir nokkur hundruð iðnaðar- og tæknimenn fara úr landi á sama tíma og allt bendir til þess að innlend skipasmíði leggist af vegna verkefnaskorts.
    Nú er það viðurkennd staðreynd að skip byggð á Íslandi eru yfirleitt gæðaframleiðsla og standast fyllilega samkeppni við það besta sem kemur erlendis frá. Það er raunar eðlilegt því að íslenskir hönnuðir og skipasmiðir eru auðvitað í beinu sambandi við þá sem eiga að nota skipin og skilja best þarfir þeirra. Sjósókn Íslendinga er miklu harðari en flestra annarra og því þurfum við sterk og vel útbúin skip. Það verður að segjast eins og er að sum þeirra skipa sem keypt hafa verið erlendis frá hafa alls ekki verið byggð fyrir okkar aðstæður og því hefur oft á tíðum orðið að gera á þeim kostnaðarsamar breytingar svo að þau væru nothæf.
    Flestir eru sammála um að ríkið geti ekki niðurgreitt íslenska skipasmíði. Við getum hins vegar mætt niðurgreiðslum annarra þjóða með aðgerðum sem hvetja menn til að kaupa innlenda framleiðslu, t.d. með því að auka verulegan þann mun sem er á lánshlutfalli Fiskveiðasjóðs til innlendrar og erlendrar nýsmíði skipa og að sami munur gildi um stærri viðgerða- og breytingaverkefni. Jafnframt verði ekki veitt lán eða ábyrgðir til slíkra viðskipta erlendis nema að undangengnu útboði á innlendum markaði.
    Í dag er lánshlutfall Fiskveiðasjóðs 65% til innlendrar smíði en 60% til erlendrar. Enginn munur er hins vegar á lánum til viðgerða og breytinga hvort sem þær eru unnar heima eða erlendis.
    Virðulegi forseti. Ég lagði þessa fsp. fram í síðustu viku. Hæstv. sjútvrh. kaus að svara henni í umræðum á Alþingi í fyrradag er hann upplýsti um viðræður sínar við stjórn Fiskveiðasjóðs. Spurningin er því hvort hann hefur einhverju við það svar að bæta hér og nú.