Lánshlutföll Fiskveiðasjóðs til skipasmíða

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:13:00 (1605)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda hefur það þegar komið fram í umræðum á Alþingi að í síðustu viku beindi ég þeirri ósk til stjórnar Fiskveiðasjóðs að lækka lánshlutfall til nýsmíði fiskiskipa og auka verulega það bil sem verið hefur á milli lána til innlendra og erlendra skipasmíða. Stjórn Fiskveiðasjóðs hefur rætt þessa ósk á einum fundi og ég geri ráð fyrir því að hún muni taka ákvörðun í samræmi við þessi tilmæli á næsta fundi sínum. Ég vænti þess að þá verði lánshlutfall til nýsmíði á fiskiskipum erlendis komið niður í 40%.
    Það er mín skoðun að ekki sé þörf á mikilli nýsmíði fiskiskipa eins og á stendur í sjávarútvegi okkar Íslendinga nú um stundir. Sjóðurinn hefur að mínu mati gengið of langt í að veita lánsloforð á undanförnum mánuðum til nýsmíði og það er full ástæða til að draga úr lánveitingum í þessu efni. Um leið tel ég mjög eðlilegt að lánshlutfallið annars vegar til innlendra smíða og hins vegar til smíða erlendis verði breikkað mjög verulega. Að því laut ósk mín til stjórnar Fiskveiðasjóðs og ég vænti þess að niðurstaða sjóðstjórnarinnar verði í samræmi við þau tilmæli og niðurstaða fáist í því máli innan fárra daga.