Lánshlutföll Fiskveiðasjóðs til skipasmíða

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:16:00 (1607)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. svar hans við fsp. og fagna að sjálfsögðu afstöðu hans og þeim skilningi sem hann hefur á þessu máli. Ég vil minna á það í leiðinni að mér finnst að þetta eigi ekki eingöngu að gilda um nýsmíðar skipa heldur einnig um lánveitingar til stærri breytinga- og viðgerðaverkefna. Ég held að það eigi að beina þeim hingað heim með sama hætti og gert er ráð fyrir hvað varðar nýsmíðar.
    Ég tel reyndar að stjórn Fiskveiðasjóðs hafi hlaupið á sig þegar hún samþykkti þessar lánveitingar til smíði nýrra skipa erlendis upp á 5--6 milljarða nýverið. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé það stór ákvörðun við þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu í dag að maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort stjórnvöld eigi ekki að hafa eitthvað um það að segja þegar menn ákveða skipabyggingar upp á 5--6 milljarða erlendis.
    Að lokum ítreka ég þakkir mínar til hæstv. sjútvrh. og vona að hann fylgi þessu máli fast eftir.