Takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:32:00 (1612)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vísa því á bug sem fram kom í máli hv. þm. að það hafi verið gagnrýni vert að minni hálfu á undanförnu ári að grípa ekki til sérstakra aðgerða til takmörkunar á starfsemi þessara sendiráða. Það kynni að hafa komið til álita við þær aðstæður þegar ályktun var gerð árið 1985. Við skulum ekkert fara í kringum þetta eins og kettir í kringum heitan graut. Þá var sú skoðun uppi að starfsemi sendiráða, sérstaklega Sovétríkjanna, væri ekki með eðlilegum hætti að því er varðar eðlilega diplómatíska starfsemi. Á því geta menn haft þær skoðanir sem þeir vilja.
    Ég endurtek að ég tel ekki ástæðu til sérstakra aðgerða af minni hálfu nú. Gagnrýni, ef hún er réttmæt, hlýtur fyrst og fremst að beinast að þeim forverum mínum sem þessi ályktun beindist að, sem voru þrír, og ætla ég þó alls ekki að taka undir þá gagnrýni út af fyrir sig. Aðstæður eru gerbreyttar. Það er því ekki sérstök ástæða til aðgerða af minni hálfu að mínu mati.