Endurvinnsluiðnaður

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:43:00 (1615)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegi forseti. Það er sannarlega þörf á því að við hér á hv. Alþingi fylgjumst með hvernig staða þeirra fyrirtækja er sem sinna endurvinnslu. Hér er um að ræða fyrsta vísi að því sem koma skal í þessum efnum. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta einstaka mál upp sem er auðvitað liður í miklu stærra máli og hæstv. ráðherra var að víkja að í svari sínu.
    Ég held að fram undan sé í rauninni að taka öll mál sem snúa að úrgangi og mögulegri endurvinnslu föstum tökum. Það gerist auðvitað ekki einangrað hérlendis heldur sem liður í alþjóðlegu átaki. Þetta hlýtur að hafa áhrif á viðskiptasamninga og viðskiptastefnu almennt séð, þannig að framleiðendurnir og innflytjendurnir þurfi að taka eðlilegan og gildan þátt í því hvernig málið er til lykta leitt, þ.e. það sem af gengur.