Endurvinnsluiðnaður

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:44:00 (1616)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
     Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Mér var að sjálfsögðu ljóst að þetta mál gæti eins heyrt undir hæstv. umhvrh. en fyrirspurninni varð að beina til ákveðins ráðherra og þar sem þessi mál féllu eingöngu undir hæstv. iðnrh. þar til fyrir skömmu þá kaus ég þessa leið. Líka vegna þess að þó að hér sé um endurvinnsluiðnað að ræða og því mikilvægt að því leyti, þá er þetta líka álitlegt iðnfyrirtæki og ánægjulegt hvernig hægt er að nota þessa möguleika ef vel er að verki staðið.
    Það kom fram í svari hæstv. iðnrh. að það eru margir sem geta komið þarna að og veitt sinn atbeina til þess að þetta gangi sem best. Það er kannski einhver hætta við slíkar aðstæður að hver vísi á annan og það verði a.m.k. viðkomandi aðila sem eftir leitar erfiðara að festa hendur á því hvar helst er að knýja á. Ég vænti þess að í þessu tilviki og öðrum reyni menn að sameina krafta sína. Miðað við þær undirtektir sem komu fram í máli hæstv. iðnrh. vil ég láta í ljós þá von að þarna og á öðru sviðum finnist farsæl og góð lausn til þess að þetta geti orðið árangursríkt fyrir okkur að öllu leyti, bæði til þess að leysa umhverfisvandamál og líka til þess að skapa arðbæra atvinnu.