Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:52:00 (1619)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort iðnrn. hafi á prjónunum einhverjar aðgerðir til stuðnings íslenskum skipaiðnaði.
    Því er til að svara að í fyrsta lagi verður haldið áfram aðgerðum til stuðning skipaiðnaðinum sem verið hafa í gangi um nokkurt skeið. Ég nefni þar m.a. starf og tillögur skipaiðnaðarnefndar sem skipuð er fulltrúum Félags dráttarbrauta og skipasmiðja og fulltrúum launþegasamtaka sem í greininni starfa auk fulltrúa iðnrn. Þessi nefnd hefur staðið fyrir nokkrum verkefnum. Meðal þeirra er átak til aukinnar framleiðni í skipaiðnaði og sérstakt markaðsátak vegna hans. Framleiðniátakið byggist á úttekt sem breska fyrirtækið A. P. Appeldore gerði á árinu 1989. Í framhaldi af þeirri úttekt voru skipulagðar aðgerðir til að auka framleiðni í íslenskum skipasmíðastöðvum. Markaðsátakið hófst á liðnu ári og mun standa fram á næsta ár. Það byggist m.a. á kynningarátaki bæði innan land og erlendis.
    Þá má nefna að iðnrn. hefur veitt skipasmíðastöðvum styrki til hönnunarverkefna við ákveðnar aðstæður. Ég nefni þar styrki til hönnunar hafnsögubáta þar sem samgrn. átti einnig hlut að máli. Eins hefur komið til greina að veita slíka styrki til sérhæfðra skipasmíðaverkefna. Ég nefni þar fjölkjalabáta til innfjarðaveiða og reyndar einnig sérhæfð aðstoðarskip.
    Þá vil ég geta nefndar sem nú er að störfum og er að kanna horfur um verkefni skipaiðnaðarins á næstu árum og leiðir til að tryggja hlut hins innlenda iðnaðar í fyrirsjáanlegri endurnýjun fiskiskipaflotans. Í þessari nefnd eru fulltrúar iðnrn. og sjútvrn. auk fulltrúa málm- og skipasmiðja. Þessi nefnd mun væntanlega skila áliti sínu síðar á þessum vetri. Erfiðleikar skipaiðnaðarins stafa að sjálfsögðu fyrst og fremst af því að sjávarútvegurinn, sem er uppspretta verkefnanna, hefur mætt andstreymi nú um nokkur ár. Þess vegna hefur verkefnunum fækkað mjög og breytingar á samkeppnisstöðu iðnaðarins hafa ekki getað fært honum þær bætur í afkomu sem æskilegt hefði verið. Ég vil benda á það að viðgerðarverkefni hafa mjög flust inn í landið og er alveg áberandi þróun í þá átt sem sérstaklega kemur fram á árinu 1990 en um það höfum við tölur.
    Þá vil ég geta þess að frá því á árinu 1989 og reyndar síðar á árinu 1990 hefur iðnrn. óskað eftir því við sjútvrn. að ákvæðum í lögum frá 1922, sem banna komur erlendra fiskiskipa í hafnir landsins, verði breytt vegna þess að þau draga úr möguleikum íslenskra skipasmiðja til að veita þeim þjónustu. Slíkt frv. er nú komið fram og mikilvægt að því verði fylgt eftir af hálfu skipaiðnaðarins með kynningu og markaðsátaki.
    Vegna þess sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda um bankaábyrgðirnar vildi ég benda á að þeim tilmælum hefur ítrekað verið beint til innlendra lánastofnana að gera þar sömu kjör fyrir þá sem smíða heima og erlendis. En á móti má náttúrlega segja það sem einfalt er að þörf fyrir bankaábyrgðir er miklu minni þegar skipti fara fram milli kunnugra aðila. Og það má náttúrlega segja að það sé óþarfa kostnaður fyrir skipasmíðastöðina og útgerðarmanninn ef báðir þekkjast og treysta hvor öðrum að vera að taka þar bankaábyrgð í viðskiptunum. Þetta er nú of sjaldan sagt þegar þetta mál er rætt.
    Þá vil ég benda á að ég hef nýlega lagt til í ríkisstjórn að útlánareglum Fiskveiðasjóðs verði breytt á þann veg að opið útboð meiri háttar nýsmíða og breytinga á fiskiskipum og fiskvinnslutækjum verði gert að skilyrði fyrir lánveitingum úr sjóðnum. Ég hef einnig ítrekað lagt til að lánareglum sjóðsins verði breytt á þann veg að lánshlutfall til nýsmíða erlendis verði verulega lækkað frá því sem nú er. Með þessum tillögum er verið að koma fram máli sem skipasmíðaiðnaðurinn hefur lengi barist fyrir og ég hef ítrekað flutt tillögur um á vettvangi ríkisstjórnar. Ég bind vonir við það að nú náist um þetta samstaða og að lánahlutfallið til erlendra smíða verði mjög verulega lækkað með tilliti til allra aðstæðna.
    Að lokum vil ég segja, vegna þess sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, að niðurgreiðslur annarra Vestur-Evrópuríkja á skipasmíðakostnaði valda okkur miklum erfiðleikum. Ríkissjóður Íslands getur ekki, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, veitt slíka smíðastyrki. En í samkomulaginu um hið Evrópska efnahagssvæði er fengið fyrirheit um það að niðurgreiðslurnar í Evrópubandalagsríkjunum verði teknar til endurskoðunar og samráð verði haft við EFTA-þjóðirnar um framtíðarskipan þessara mála. Ég vil því leyfa mér að vona að samkeppnisstaða íslenska skipaiðnaðarins muni styrkjast á næstu árum vegna lækkunar eða niðurfellingar skipasmíðastyrkja í samkeppnisríkjum okkar. Þar skiptir ekki minnstu máli að Noregur, okkar helsta samkeppnisland, er aðili að þessu samkomulagi.