Aðgerðir til stuðnings íslenskum skipasmíðaiðnaði

42. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 11:57:00 (1620)

     Tómas Ingi Olrich :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa hreyft þessu mikilvæga máli og eins hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Ég vil taka fram að nú er í undirbúningi í þinginu mál sem koma til með að liðka fyrir skipasmíðaiðnaðinum og vil ég þar sérstaklega nefna þær upplýsingar sem sjútvrh. kom með í fyrirspurnatímanum áðan að því er varðar lækkun lánshlutfalls Fiskveiðasjóðs. En hann hefur einnig farið fram á það við Fiskveiðasjóð að hækkaðar verði eiginfjárkröfur þeirra sem njóta framlaga úr sjóðnum til skipakaupa erlendis. Ég geri ráð fyrir að lagabreytingar er varða möguleika Íslendinga til að sinna viðgerðaverkefnum, viðhaldi og þjónustu hjá erlendum fiskiskipum komi til með að hafa áhrif á afkomu skipasmíðaiðnaðarins. En ég tek það skýrt fram að ég tel að þessar ráðstafanir séu ófullnægjandi og miðað við stöðuna í dag þurfi fleira til að koma. Staðan í dag er þannig að verkefnin eru mjög takmörkuð. Þau gætu að vísu aukist allverulega á komandi árum og það er einmitt undir þann tíma sem við þurfum að búa okkur.
    Ég verð vegna orða hæstv. iðnrh. að draga mjög í efa að viðræður okkar um Evrópska efnahagssvæðið leiði til að á þeim vettvangi verði dregið verulega úr niðurgreiðslum til sjávarútvegs.