Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 13:23:00 (1629)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Við ræðum hér frv. sem hæstv. félmrh. hefur mælt fyrir um starfsmenntun í atvinnulífinu. Ég ætla að fara nokkrum almennum orðum um þetta mál og það sem því tengist, atvinnuþróunina í landinu og þörfina á nýbreytni þar og auðvitað skiptir menntunargrunnur allra, sem á vinnumarkaði eru, miklu í því samhengi. Við erum því að fjalla um málefni sem varðar mjög miklu fyrir lífskjör og atvinnustarfsemi í okkar landi og því eðlilegt að um það sé farið nokkrum orðum hér við 1. umr.
    Ég tel það mjög góðra gjalda vert að stjórnvöld taki á þessum málaflokki og raunar þó fyrr hefði verið og Alþingi látið sig þetta efni varða. Það hafa verið gerðar mjög margar atrennur að því um áratugi að setja löggjöf um fullorðinsfræðslu en það hugtak hefur almennt verið notað sem samheiti yfir fræðslustarfsemi utan hins lögboðna skólakerfis. Þó er það svo að vissir þættir fullorðinsfræðslu hafa verið felldir með beinum hætti að skólakerfinu. Þar á ég við framhaldsskólastigið og öldungadeildir framhaldsskóla sem starfa á grundvelli framhaldsskólalaga. Um þær gegnir því nokkuð öðru máli þannig að þeirra staða er skýrari í menntakerfi landsmanna en gildir um aðra þætti fullorðinsfræðslu.
    Ég fagna því, virðulegur forseti, að hæstv. menntmrh. ætlar að vera viðstaddur þessa umræðu því það efni sem við erum að ræða snertir að mínu mati enn frekar hans málasvið en málasvið hæstv. félmrh. þó það sé hæstv. félmrh. sem ber frv. fram sem við ræðum hér. Við erum að fjalla um einn þátt menntamála í landinu og ég mun koma að því í samhengi þessa frv. Það er kannski rétt að ég byrji á þeim þætti vegna þess að hæstv. menntmrh. er nú í þingsal og hæstv. félmrh. er einnig kominn til þings eftir nokkra bið.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki farsæl stefna að kljúfa umsjón með fræðslustarfsemi í landinu innan stjórnkerfisins með þeim hætti sem gert er með flutningi þessa frv. á vegum félmrn. og með þeim hætti sem tíðkaður hefur verið á ýmsum málasviðum, að láta einstök fagráðuneyti önnur en ráðuneyti menntamála fara með málefni einstakra þátta fræðslumála í landinu. Um það eru vissulega mýmörg dæmi að menn hafa falið öðrum ráðuneytum en menntmrn. að fara með málefni einstakra skóla. Ég vísa til búnaðarskólanna í landinu sem dæmi. Ég vísa einnig til starfsemi sem ekki hefur sérstaklega verið lögbundin en getið er um í þessu frv. og á að lögfesta með nokkuð sérstökum hætti skv. 4. gr. frv. sem við ræðum hér, en það er starfsfræðsla í fiskvinnslu. Í 4. gr. frv. er tekið fram að hún skuli heyra undir sjútvrn.
    Ég er á þeirri skoðun að menn séu á alrangri braut í sambandi við meðferð þessara mála. Það hefur sínar sögulegu ástæður að einstakir þættir í fræðslustarfsemi í landinu hafa verið settir undir þetta eða hitt ráðuneyti fyrr á tíð, búnaðarskólarnir undir landbrn. o.s.frv. Ég er ekkert að lasta það út af fyrir sig. Ég er ekki að lasta það að einstök fagráðuneyti á sviði atvinnumála t.d. eru að ýta við starfsfræðslu varðandi sinn málaflokk. En hér er verið að búta sundur af hálfu hins opinbera það sem saman á með mjög óréttmætum og varhugaverðum hætti sem ekki er líklegur til þess að bæta árangurinn sem að er stefnt því ekki ætla ég neinum sem ber fram þessi mál að vilja draga úr árangri sem hlýst af íhlutun ríkisins og hugsanlegum fjárveitingum til þessara málaflokka. En að koma starfsmenntun í atvinnulífinu fyrir innan félmrn. með sérstakri löggjöf, svo dæmi sé tekið vegna þessa frv. sem við ræðum hér, er slík tímaskekkja miðað við það sem þyrfti að stefna að í Stjórnarráðinu að ég hlýt að taka það sem einn gildan þátt og gagnrýnisverðan í sambandi við þetta mál.
    Hvers vegna er það gagnrýni vert að verið sé að búta hlutina sundur með þeim hætti? Vegna þess að fjárráð og mannafli til opinberrar umsýslu í landinu er takmarkaður og því er afskaplega mikils virði að unnið sé samhent og samstætt að þeirri aðstoð við

fræðslustarfsemi sem hið opinbera leggur af mörkum. Það er afar þýðingarmikið að menn séu ekki að vinna einangrað í ráðuneytum sem eðli málsins samkvæmt hafa auðvitað mjög takmarkaða innsýn inn í hið almenna fræðslustarf í landinu og ekki er ætlast til að standi fyrir slíku, að ætla þeim að byggja upp sérstakt kerfi til þess að vinna að þeim þáttum. Og það kerfi er síðan ótengt við menntmrn., ráðuneyti kennslu- og fræðslumála í landinu, eins og sjá má af því hvernig í pottinn er búið í sambandi við þetta frv.
    Ég vek athygli á í því samhengi að skv. 5. gr. er gert ráð fyrir að sérstakt sjö manna starfsmenntaráð fari með framkvæmd þessara laga. Hvernig er þetta starsfmenntaráð svo skipað? Það eru þrír fulltrúar frá Samtökum atvinnurekenda, þrír fulltrúar tilnefndir af samtökum launafólks og svo fulltrúi skipaður af félmrh. án tilnefningar. Ég vek sérstaka athygli á þessu. Það er ekki verið að tryggja eitthvert samhengi eða samstarf við menntmrn. og tengsl í gegnum þetta starfsmenntaráð. Ó nei. Það kemur fram að engan slíkan fulltrúa er finna í þessu starfsmenntaráði.
    Þannig er frágengið í öðrum greinum frv. að verið er að hólfa þetta og halda þessu innan félmrn. Mér sýnist af rökstuðningi, ef rökstuðning skal kalla, að hann sé --- Já, virðulegur 11. þm. Reykn. Ég veit að hæstv. félmrh. hefur tvö eyru og má vel vera að hún kunni að halda vel sundur reitunum í heilabúinu. Ég efast ekkert um það. Mér þætti gott ef hæstv. ráðherra fengi að hlýða á mál mitt ótrufluð. --- Ég held að þær girðingar sem verið er að reisa í Stjórnarráðinu í sambandi við þessa starfsemi séu mjög ófarsælar og kannski eitt meginatriði í sambandi við meðferð þessa máls að tryggja að horfið verði frá þeirri ófarsælu stefnu sem hér er verið að marka að þessu leyti.
    Ég vek athygli á því að það er ekki aðeins við skipun þess ráðs sem á að sjá um framkvæmd laganna sem unnið er einangrað heldur eru aðrar greinar sama marki brenndar. Nægir þar að benda á 7. gr. Þar er það félmrn., út af fyrir sig eðlilega eins og þetta er hugsað af hálfu þess, sem á að safna upplýsingum og félmrh. á að bera fram tillögur sem starfsmenntaráð mótar. Í ýmsum ákvæðum frv. er gert ráð fyrir því að félmrn. hafi einnig íhlutun um námsefni og námsefnisgerð. Allur búnaður þessa máls er með þeim hætti að hér er verið að byggja upp sérstakt kerfi innan félmrn. til þess að vinna að þessum málum.
    Er það svo að hægt sé að líta á að starfsmenntun í atvinnulífinu --- þó að þar eigi fyrst og fremst að reyna á frumkvæði atvinnulífsins sjálfs, eins og við orðum það stundum, þ.e. forráðamanna fyrirtækjanna í samvinnu við samtök launafólks --- sé í rauninni einangruð og ekki skipti máli í því samhengi hvernig staðið er að öðrum þáttum fræðslustarfsemi sem flokka má undir fullorðinsfræðslu í landinu og þeirrar starfsemi sem fer fram innan hins lögboðna skólakerfis?
    Ég er þeirrar skoðunar að þá fyrst verði sæmilega að þessum málum staðið þegar, í fyrsta lagi, verður betur staðið að starfsmenntunarmálum allmennt innan hins lögboðna skólakerfis og síðan að fullorðinsfræðsla, sem fram fer á vegum frjálsra samtaka og samtaka atvinnulífsins, verði tengd, eins og kostur er og ástæða þykir til á hverjum tíma, við fræðslukerfið í landinu, skólana í landinu og þá sem innan veggja þeirra starfa og ráðuneyti þeirra mála sem á að fjalla um þau mál öðrum fremur, þ.e. menntmrn.
    Það er hins vegar svo, virðulegi forseti, að hér er ekki um einstakt mál að ræða, sundurgreiningu og sundurvirkni, eins og verið er að leggja til með þessu frv., að því er snertir yfirstjórn þessa málaflokks af hálfu stjórnvalda. Þetta hefur, má segja, gengið sem rauður þráður innan Stjórnarráðsins á mörgum fleiri málasviðum um allt of langan tíma. Svo ég nefni kannski það dæmi sem mér finnst mestu varða, það er meðferð atvinnumálanna almennt, málefna atvinnulífsins innan Stjórnarráðsins, þar sem menn hafa búið við að hólfa sundur málefni atvinnulífsins í meðferð Stjórnarráðsins í mismunandi ráðuneytum. Ráðuneyti iðnaðarmála, ráðuneyti sjávarútvegsmála, ráðuneyti landbúnaðarmála, þessi þrjú ráðuneyti sem enn eru starfandi sem sjálfstæð ráðuneyti, nú er að vísu verið að tengja viðskrn. við iðnrn. Þetta er að mínu mati grein af sama meiði þó að sá meiður sé miklu stærri og veigameiri heldur en það litla frv. sem við erum að ræða. En ég nefni þetta vegna þess að það er svipuð hugsun sem er hér að baki, að greina sundur í meðferð Stjórnarráðsins með óeðlilegum hætti sem mun leiða til lakari árangurs á viðkomandi málasviði.
    Ég er þeirrar skoðunar og hef verið það lengi að skipting atvinnulífsins á mismunandi ráðuneyti, eins og gert hefur verið, sé til mikils óhagræðis og standi beinlínis í vegi fyrir eðlilegri atvinnuþróun í landinu vegna þess að þar heldur hver í sinn skækil og það er í rauninni enginn til þess að tryggja að þar fari fram sú samhæfing sem þarf. Forsrn., sem gjarnan er gripið til ef menn óska eftir samhæfingu milli ráðuneyta, er svo veikburða, starfslega séð í Stjórnarráði Íslands, að það hefur í raun enga burði til þess og raunar ekki lagalega stöðu heldur eins og á málum er haldið.
    Hér þarf sannarlega endurskoðunar við og hið sama gildir þegar við lítum til fræðslumálaþáttarins. Þar eigum við ekki að byggja upp einhverjar fræðsludeildir innan félmrn. eða innan sjútvrn., eins og greinilega er ætlunin að gera með því að halda einum þætti fræðslu, fullorðinsfræðslu, starfsfræðslu í fiskvinnslu, sérstaklega innan sjútvrn. Hér er svo forneskjuleg hugsun á ferðinni og röng að mínu mati að við eigum að staldra við og taka þetta mál með allt öðrum hætti og tengja það við starfsemi menntmrn. þar sem sannarlega þarf að efla tök og stefnu varðandi fullorðinsfræðslu í framhaldi af því starfi sem þar hefur verið unnið. Í því sambandi vísa ég til frv. um almenna fullorðinsfræðslu sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi 1990 af þáv. hæstv. menntmrh. Þar er gerð atrenna að því, sem tilraunir höfðu gerðar um áður, að setja lagaramma utan um fullorðinsfræðslu í landinu. En þar er vissulega tekið fram að gert sé ráð fyrir því að félmrh. taki á einum þætti fullorðinsfræðslunnar með flutningi frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu sem á þeim tíma var í undirbúningi á vegum félmrn.
    Ég held ég fari rétt með það að hæstv. fyrrv. menntmrh., nú hv. þm. Svavar Gestsson, hafi kosið að þetta mál yrði tekið allt öðrum tökum en hins vegar ekki náð því fram að á málum yrði tekið með þeim hætti að starfsmenntun í atvinnulífi í þrengri merkingu heyrði einnig undir menntmrn. og væri tekin með inn í löggjöf um fullorðinsfræðslu.
    Nú vil ég inna hæstv. menntmrh. eftir því hvert sé viðhorf hans til þessa máls. Hæstv. menntmrh. má gjarnan tengja þetta nokkuð víðar, þ.e. hvaða viðhorf hann hafi til einstakra fræðsluþátta sem nú eru á dreif hér og þar í Stjórnarráðinu, hvort hann telji að það sé eðlilegt að stefna að því að færa þá þætti undir menntmrn. og a.m.k., sem ég tel algjört lágmark, að ganga tryggilega frá eðlilegu og góðu samstarfi þeirra aðila, skilmerkilegu samstarfi þeirra aðila, sem þar eiga að halda á máli. Það er ekki gert með þessu frv. eins og búningur þess er, því miður.
    Ég vil einnig spyrja hæstv. menntmrh. eftir því hvort hann hafi í hyggju að leggja fram frv. um fullorðinsfræðslu í svipuðum búningi eða breyttum frá því sem fyrir lá á 113. löggjafarþingi. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að taka þar til hendi því það er þörf á slíkri löggjöf og ég vænti þess að það komi fram í máli hæstv. ráðherra hvort hann ætlar að beita sér í þeim málum.
    Það mætti, virðulegur forseti, nefna margt fleira í tengslum við þetta frv. Ég vek athygli á því að í umsögnum, sem fylgja frv. um starfsmenntun í atvinnulífinu, koma fram hjá nokkrum aðilum áhyggjur út af því að ekki sé gengið frá eðlilegum tengslum við meginstoðir fræðslustarfs í landinu. Þó að það sé ekki hjá öllum sem þar veita umsögn þá er það svo að að því er vikið í nokkrum af þeim umsögnum sem prentaðar eru sem fskj. með þessu frv.

    Ég held það séu margir þættir sem snerta þetta mál sem við þurfum að athuga mjög vel við meðferð þess í þinginu. Hv. 2. þm. Vestf. vék að því, alveg réttilega, að nú eru dekkri og alvarlegri blikur á lofti en verið hefur um langt skeið í sambandi við atvinnuhorfur. Hættan á atvinnuleysi, auknu atvinnuleysi, blasir við eins og haldið er á málum og eins og árar í okkar þjóðfélagi. Það er mjög eðlilegt og réttmætt, eins og hv. þm. vék að, að það skiptir miklu að þeir sem verða fyrir þeirri ógæfu að geta ekki nýtt sér þann sjálfsagða rétt sem ætti að vera stjórnarskrárbundinn, réttinn til atvinnu, eigi a.m.k. völ á því að geta notað tíma sinn til að afla sér þekkingar og auka möguleika sína á því að verða þátttakendur í skapandi atvinnustarfsemi. En ég er ansi hræddur um að þetta frv. sem við ræðum hér breyti þar afar litlu vegna þess að frumkvæðið að þessu máli er hjá samtökum atvinnulífsins, þeirra sem eru í starfi, þeirra sem hafa atvinnu, þó að fulltrúar launafólks sem eiga að koma að þessu máli hafi væntanlega og örugglega allir áhyggjur af óvissu á vinnumarkaði og ríkjandi atvinnuleysi á hverjum tíma. En það þarf áreiðanlega margt annað að koma til en þetta frv. og lögfesting þess ef þau markmið eiga að nást sem hv. 2. þm. Vestf. var með réttu að víkja að í sínu máli.
    Þá kemur spurningin sem einnig snýr að tengslum starfsmenntunar og fræðslukerfis og hún er: Hvaða réttindi veitir það nám sem stutt er af ríkisins hálfu með framlögum, ef einhver verða, til starfsmenntunar í atvinnulífinu? Hvernig verður háttað skipulagi þeirra námskeiða og annars náms sem fram á að fara skv. lögum, ef þetta frv. verður lögleitt? Sama gildir vissulega um aðra lagasetningu eða aðra fullorðinsfræðslu í landinu. Það skiptir afar miklu að það séu sem skýrust tengsl, einnig réttindalega séð, fyrir þá sem eru að afla sér menntunar eftir þessum brautum.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að lengja mál mitt. Ég hef gert að meginefni, gagnrýnisefni í sambandi við þetta frv. hvernig ráðgert er að koma þessu máli fyrir í stjórnkerfinu og ég vænti þess að viðbrögð komi fram hjá hæstv. ráðherrum menntamála og félagsmála sem eru viðstaddir umræðuna. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér hvernig með þessi mál er farið í nágrannalöndum, t.d. á Norðurlöndunum, en vafalaust hefur hæstv. félmrh. vitneskju um það og kann að vera að ráðherrann miðli okkur af þeirri vitneskju hvernig þessum málum er þar fyrir komið. Þó að það eitt þurfi ekki að verða ráðandi fyrir okkar stefnu í þessu, þá er fróðlegt fyrir okkur að átta okkur á því hvernig farið er með þessi mál í nágrannalöndum.
    Þetta mál gengur samkvæmt tillögu hæstv. ráðherra, að ég trúi, til félmn. Alþingis, sú mun vera ætlunin. En ég neita því ekki að mér fyndist það mjög miður ef menntmn. þingsins hefði ekki aðstöðu til að fjalla um þetta mál. Og ég vil beina því til beggja viðstaddra ráðherra og formanna viðkomandi þingnefnda að þeir tryggi að það verði samvinna milli þeirra nefnda um meðferð þessa frv. Ég held að ég þurfi ekki að rökstyðja það sérstaklega að ég ber hér fram þá beiðni.
    Ég ætla ekki, ef undirtektir eru jákvæðar við það efni að menntmn. þingsins fái einnig aðstöðu til þess að fjalla um þetta frv. í samvinnu við félmn., að hafa ágreining uppi um það að málinu verði vísað til félmn. þó að ég hefði talið hitt eðlilegra, alveg eins og með málafylgjuna alla á þessu sviði að það kæmi frá menntmrn. en ég legg á það ríka áherslu að menntmn. þingsins fái aðstöðu til þess að fjalla um málið.