Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 13:49:00 (1630)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og Hjörleifi Guttormssyni að hér er á ferðinni afskaplega mikilvægt mál og því ekki sama hvernig með það er farið. Ég les hins vegar út úr þessu frv. að góður vilji býr að baki, ég er sannfærður um það. Hæstv. félmrh. vill með þessu frv. ná fram aukinni starfsmenntun í atvinnulífinu frá því sem nú er. Ég er hins vegar ekki alveg viss um að það muni verða þannig verði þetta frv. að lögum. Starfsmenntun í atvinnulífinu er mjög mismunandi mikil eftir atvinnugreinum. Í mörgum atvinnugreinum er þetta mjög gott, mikil starfsmenntun sem þar fer fram. Ég nefni iðnaðinn og ýmsar greinar á vegum hans eins og í rafiðnaði. Þar fer fram mikil starfsmenntun. Sama gildir í sjávarútveginum. Þar fer fram að ég hygg einhver víðtækasta starfsmenntun hér á landi.
    Þetta er auðvitað mjög gott, en í mörgum atvinnugreinum er hins vegar sáralítil sem engin starfsmenntun. Ég hef viljað líta svo á að þetta frv. sé kannski fyrst og fremst til þess að reyna að ýta undir hjá atvinnugreinum þar sem starfsmenntun er engin. Gallinn við frv. að mínu viti er hins vegar sá að það felur í sér afskaplega mikla miðstýringu. Það er verið að færa frumkvæðið, sem ég segi að hafi verið úti í atvinnulífinu hjá samtökum launafólks og hjá samtökum atvinnurekenda, inn í félmrn., frá þessum aðilum sem ég fullyrði að hafi í öllum tilfellum haft frumkvæði að því að koma þessari starfsmenntun af stað. Ráðuneytin sem slík hafa ekki haft þetta frumkvæði nema að því leyti til að þau hafa tekið undir með aðilum vinnumarkaðarins og aðstoðað við að koma á mjög víðtækri starfsmenntun. Í 1. gr. frv. eru sett fram fögur og hástemmd markmið um það hvernig að þessu skuli staðið. Og ég veit að hjá hæstv. félmrh. býr að baki frv. góður hugur. En því miður held ég að skipulag fræðslustarfsins, verði þetta frv. að lögum, verði með þeim hætti að það nái ekki tilætluðum árangri. Efasemdir mínir í garð þessa frv. eru fyrst og fremst út frá þessum skipulagslegu þáttum og ég vil skipta þeim í fjögur meginatriði.
    1. Ég tel að félmrn. eigi ekki að fara með yfirstjórn þessara mála. Ég tel að hún eigi að vera í fagráðuneytunum. Þar er ég ekki sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni sem telur að þessu verði best fyrir komið í menntmrn. Það kann vel að vera að þetta sé eðlilegur hluti af menntun í landinu. Ég tek undir það. Staðreyndin er bara hins vegar sú að það eru mjög lítil tengsl milli menntmrn. og atvinnulífsins og skólakerfisins í landinu og atvinnulífsins. Það samband tel ég að þurfi að bæta, og sé auðvitað hægt að bæta, og ná þannig fram aukinni samvinnu þarna á milli þegar slíkt væri komið á. Þá get ég tekið undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að þeirri fræðslustarfsemi sem hér um ræðir væri best fyrir komið inni í menntmrn. sem yfirstjórnanda og inni í skólakerfinu sem hluta af hinu almenna fræðslukerfi í landinu.
    2. Ég hef ýmislegt við skipun og hlutverk þessa starfsmenntaráðs að athuga.
    3. Gert er ráð fyrir starfsmenntasjóði og að hann veiti styrki til starfsfræðslunnar. Ég efast mjög um þetta því ég tel að hæstv. félmrh. sé fyrst og fremst að gera menn að bónbjargarmönnum. Það verður lítið til skiptanna. Við vitum það, við þekkjum þá hluti og þetta mun að vissu leyti, held ég, draga úr því frumkvæði sem er úti í atvinnulífinu í dag.
    Og að síðustu eru tengsl starfsmenntunarinnar við hið almenna menntakerfi sem ég ætla að koma að hér svolítið á eftir.
    Árið 1985 hóf þáv. sjútvrh. undirbúning að því að koma af stað víðtækri starfsmenntun í sjávarútveginum. Þetta gerði hann í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, Verkamannasambandið og Vinnuveitendasambandið. Haustið 1986 hófst á vegum starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar, sem stofnuð var upp úr þessu samstarfi, mjög víðtæk starfsmenntun innan sjávarútvegsins. Í dag held ég að mér sé óhætt að fullyrða að 5--6 þús. sérhæfðir fiskvinnslumenn séu í landinu, þ.e. verkamenn sem hafa lokið öllum 10 námskeiðunum sem kröfur eru gerðar um að þeir ljúki hjá starfsfræðslu fiskvinnslunnar og sérstöku hálfs mánaðar starfsþjálfunarnámskeiði úti í atvinnulífinu inni á vinnustöðunum.
    Áhersla var lögð á það, þegar þessi fræðslustarfsemi fór af stað, að reynt yrði að nýta dauðu tímana, sem kallaðir voru, úti í atvinnulífinu til þess að halda þessi námskeið. Það hefur tekist að stærstum hluta til. Meginþunginn í þessari fræðslu hefur verið í kringum áramótin, í desember- og janúarmánuði. Það fólk sem sækir þessi námskeið fær greidd laun í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð á meðan á þessum námskeiðum stendur og um það var samið í febrúarsamningunum 1986. En forsendan fyrir því að menn geti nýtt sér þessa starfsfræðslu er sú að gerður hafi verið fastráðningarsamningur milli viðkomandi fyrirtækis og viðkomandi starfsmanns og hann þarf að hafa unnið tvo mánuði í fyrirtækinu áður en hann getur sótt slík námskeið. Eftir að hafa lokið öllum 10 námskeiðunum og verkþjálfunarnámskeiðinu hækka menn í launum um tvo launaflokka. Þetta var leið til að bæta kjör þess fólks sem vinnur við þessa undirstöðuatvinnugrein.
    Vinnuveitendur hafa fullyrt að þessi starfsfræðsla í sjávarútveginum hafi skilað aukinni framleiðni í atvinnugreininni og það er ekki lítill árangur. Þetta er auðvitað sameiginlegt verkefni launafólks og atvinnurekenda. Það er hægt að bæta kjörin á þessum grundvelli og það er hægt að auka framleiðnina sem þarf oft og tíðum að fara saman. Ég hef því mikla vantrú á því að setja þessa fræðslu undir félmrn. og fyrir því tel ég mig hafa fært nokkur rök áðan.
    Í 4. gr. er gert ráð fyrir því að þrátt fyrir að starfsmenntun í atvinnulífinu eigi almennt að heyra undir félmrn., skuli starfsfræðsla í fiskvinnslu heyra undir sjútvrn. Ég kannast vel við þetta vegna þess að fram komu sterkar kröfur frá starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og frá Sambandi fiskvinnslustöðva um að þessi þáttur fræðslunnar yrði ekki settur undir félmrn. vegna þess að sú fræðsla sem fram hefur farið í samvinnu aðila vinnumarkaðarins og sjútvrn. hefur skilað miklum árangri. Ég er sannfærður um að það muni skila miklu meiri árangri að hafa þetta úti í atvinnulífinu en færa þetta undir eitthvert sérstakt ráðuneyti.
    Í 10. gr. er gert ráð fyrir því að sækja eigi um styrki fyrir þeim námskeiðum sem haldin eru á vegum samtaka launafólks og atvinnurekenda. Einstök fyrirtæki, einkaaðilar eða opinberir aðilar geti staðið að slíkum fræðslunámskeiðum og þau séu styrkt úr þessum starfsmenntasjóði. Ég sé ekki í frv. hvernig takmarka á aðsókn í þennan sjóð. Ég get ekki betur séð en með frv. sé gert ráð fyrir því að t.d. bankarnir, sem hafa staðið straum af öllum kostnaði við rekstur bankaskólans, geti nú farið að sækja í þennan starfsmenntasjóð um styrk fyrir sinn skóla. Teljum við það æskilegt? Þegar slíkt er opnað með þessum hætti munu aðilar nýta sér þennan rétt sem þeir hafa samkvæmt lögunum. Sú starfsemi, sem fram fer á vegum bankaskólans, er auðvitað í þágu starfsfólksins og þágu þeirrar atvinnugreinar. Og bankarnir hafa að sjálfsögðu eins og aðrir rétt til þess að sækja um styrk í þennan sjóð. Ég geng út frá því að fjármunir sem við höfum til skipta séu takmarkaðir. Finnst okkur þá rétt að dreifa þeim til þeirra aðila sem þó hafa séð um þetta sjálfir hingað til eða að færa fræðsluna í bankakerfinu undir ríkisvaldið?
    Ég sé ekki annað, ef starfsmönnum í einhverju fyrirtæki dytti í hug að halda námskeið, t.d. í blómaskreytingu, en þeir eigi fullan rétt á því að fá styrk úr þessum starfsmenntasjóði. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gera lítið úr þeirri atvinnugrein. En það þarf, hv. þm., að gera þessa hluti með skipulögðum hætti og spurningin er: Hverjum og hvernig nýttist þetta blómaskreytinganámskeið ef það hefði gerst að einhverjir starfsmenn Flugleiða hefðu tekið sig saman og haldið slíkt námskeið, hvernig kæmi slíkt blómaskreytinganámskeið til með að nýtast Flugleiðum sem fyrirtæki? (Gripið fram í.) Við kransagerðina, það kann að vera rétt hjá hv. þm.
    Þannig sýnist mér, sérstaklega í 10., 11. og 9. gr. frv. sé gríðarlega mörgum spurningum ósvarað og menn hafi ekki séð fyrir í raun hvaða leið þeir eru að fara með þessu frv.
    Ég er sannfærður um það, af því að ég hef gert nokkuð að umtalsefni í minni ræðu þá starfsmenntun sem átt hefur sér stað og er enn við lýði í sjávarútveginum, að hún ætti

með tíð og tíma að færast í skólakerfið. Fyrir tveimur eða þremur árum síðan voru uppi hugmyndir um það að sameina í einn skóla Vélskólann, Stýrimannaskólann og Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði sem ég held að væri mjög skynsamleg ákvörðun, deildaskipta þeim skóla, nýta betur þau tæki og búnað sem til er í þessum skólum. Það er því miður lítil aðsókn í þessa skóla núna. Það er verið að kenna sömu fögin að stofni til á þremur stöðum hér á höfuðborgarsvæðinu í hálfsetnum bekkjum. Mikið af þeirri kennslu sem þarna fer fram og er er sameiginleg, væri hægt að hafa sameiginlega í stærri bekkjardeildum. Ég tel að í svona stórum og öflugum sjávarútvegsskóla sem hægt væri að koma upp með þessum hætti væri þessari fræðslu í sjávarútveginum best fyrir komið. Ég kem því miður ekki auga á það hvort hægt er að notast við félmrn. í þessum efnum. Ég átti þátt í því sem formaður starfsfræðslunefndar fiskvinnslunnar að koma starfsfræðslu í fiskvinnslunni undan félmrn. og halda henni áfram undir sjútvrn. Það voru einfaldlega tilburðir í þá veru að ekki yrði gengið að þessari fræðslu dauðri með því að koma henni undir fjármálin sem gert er ráð fyrir í 8. og 9. gr. og með umsóknafarganinu sem gert er ráð fyrir í 10. og 11. gr.
    Það er hins vegar margt í frv. og kannski fyrst og fremst hugsunin sem ég tek undir. Það ætti að vera hlutverk ríkisvaldsins að ýta undir þær atvinnugreinar, þar sem starfsfræðsla er ekki fyrir hendi, að henni verði komið á, ýta undir aðila vinnumarkaðarins og atvinnurekendur í því að koma þessari fræðslustarfsemi á en ekki að vera að úthluta styrkjum eða hafa á hendi yfirstjórn þessara mála. Félmrn. sem vinnumálaráðuneyti --- og þarf ekki nein slík lög sem leiða til þess --- ætti auðvitað að hafa frumkvæði að því að koma upp starfsmenntanefndum í öllum atvinnugreinum í landinu. Það getur ráðuneytið auðvitað gert án þess að þetta frv. þurfi að fara í gegnum þingið og verða að lögum.
    Að lokum, út af því sem í 15. gr. stendur, þá er bara ein spurning til hæstv. menntmrh. sem situr hér og hlustar. Í 15. gr. stendur: ,,Nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, er hægt að fá metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi samkvæmt reglum sem þar um gilda af hálfu menntamálaráðuneytisins.`` Ég les ekki annað út úr þessari grein en um þetta séu ákveðnar reglur til í dag og þá spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvernig sér hann að þessir hlutir tengist? Og af því að við gerðum nú að umtalsefni þetta blómaskreytinganámskeið áðan, getur hann séð það fyrir sér að slík starfsfræðsla geti með einhverju móti nýst inn í framhaldsskólakerfið? Áður en þetta verður lögfest, þá held ég að svona hlutir þurfi að vera á hreinu.