Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 14:18:00 (1632)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir með þeim öðrum sem hér hafa talað að á ferðinni er ákaflega mikilvægt mál, mál sem mjög hefur verið til umfjöllunar á síðustu árum og alls ekki að ástæðulausu. Flestir hafa gert sér grein fyrir því að einn þáttur í því að efla atvinnulífið í landinu er einmitt sá að bæta menntun starfsfólksins og menn hafa talið sig sjá að þar sem tekið hefur verið á af myndarskap í þeim efnum, eins og t.d. í fiskvinnslunni, hefur það skilað þeirri atvinnugrein árangri þrátt fyrir allt og án þessarar starfsfræðslu væri margt verr komið í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar. Það leikur þess vegna ekki nokkur vafi á því að þetta mál er afar þýðingarmikið. Í fyrsta lagi til þess, eins og ég sagði, að eiga sinn þátt í því að efla það atvinnulíf sem við búum við í landinu en ekki síður til þess að taka á móti þeim miklu breytingum sem við erum að ganga í gegnum í atvinnulífi okkar vegna tækniþróunar og vegna margs konar annarra aðstæðna sem óhjákvæmilega munu breyta atvinnulífinu í landinu á allra næstu árum. Samskipti okkar við aðrar þjóðir eru að aukast og hver svo sem afstaða manna kann að vera til einstakra þátta í því sambandi er ljóst að sú þróun út af fyrir sig verður ekki stöðvuð og sú þróun í sjálfu sér kallar á breytingar í atvinnulífinu sem starfsfólkið þarf sjálft að vera tilbúið að taka á móti og það verður ekki gert nema starfsfræðslan verði efld.
    Sagt hefur verið að á undanförnum árum hafi orðið eins konar hljóðlát bylting í íslensku menntakerfi. Það sem átt er við er sú staðreynd að til hafi orðið eins konar nýtt skólastig utan við hið formlega skólakerfi sem hafi tekið til sín og boðið upp á margs konar menntun sem hið formlega og eiginlega opinbera skólakerfi í landinu hafi ekki haft til reiðu á undanförnum árum.
    Í ræðu sem Margrét S. Björnsdóttir, endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands, flutti á ráðstefnu um þessi mál í lok nóvember 1987, fyrir um fjórum árum síðan dró hún fram þær upplýsingar að á árinu 1986--1987, og ég geri ráð fyrir að fyrst hún tekur þannig til orða hafi hún átt við skólaárið 1986--1987, hafi ekki færri en 25--30 þúsund Íslendingar, um fjórðungur af vinnandi fólki í landinu, tekið þátt í skipulagðri fræðslu af því tagi sem

ég nefndi áðan í lengri eða skemmri tíma. Þá er ekki meðtalin sú fræðsla sem ávallt hlýtur að eiga sér stað innan fyrirtækjanna, bæði fyrir þá sem eru að byrja störf og einnig fyrir þá sem eldri eru. Þetta segir okkur það að hér er um að ræða gríðarlega veigamikinn þátt sem þegar er kominn til framkvæmda í okkar þjóðfélagi, þáttur sem atvinnulífið sjálft hefur framkallað og eftirspurn starfsfólksins eftir aukinni þekkingu. Í framangreindri ræðu Margrétar Björnsdóttur kemur líka fram að í skýrslu, sem Jón Torfi Jónasson dósent hafi á þeim tíma verið að vinna fyrir svonefnda framtíðarnefnd forsrn., hafi hann áætlað að kostnaður af þeirri starfsemi, sem ég rakti áðan, hafi verið í kringum 300 millj. kr. Mjög grófur framreikningur leiðir í ljós að hér er væntanlega um að ræða ekki lægri tölu en 450 millj. kr. og segir þetta okkur hversu stór þáttur þetta er orðinn í okkar þjóðlífi, þessi símenntun, starfsmenntun, endurmenntun eða hvað sem við kjósum að kalla þetta mál.
    Ég tel að það frv. sem liggur fyrir sé afar þýðingarmikið skref í þessu máli og sé liður í því að fella starfsfræðsluna í ákveðnar skorður þó að ég geti ekki verið sammála eða deilt áhyggjum með hv. þm. Finni Ingólfssyni um það að hætta sé á því að hér sé verið að stefna öllu í eina allsherjarmiðstýringu. Ég bendi á, í fyrsta lagi, að það er gert ráð fyrir því, eins og hefur verið reyndar gagnrýnt, að hluti starfsfræðslunnar, þ.e. starfsfræðsla fiskvinnslunnar, fari fram á svipaðan hátt og verið hefur og einnig hitt sem fram kemur í síðustu mgr. 5. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir því að þetta starfsmenntaráð, sem annars á að fara með framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, eigi að hafa samráð við og efla frumkvæði fræðslunefnda atvinnulífsins. Með öðrum orðum þá er greinilega gert ráð fyrir því í þessum frumvarpstexta að sú almenna, víðtæka og öfluga og vissulega nauðsynlega fræðslustarfsemi sem núna fer fram úti í atvinnulífinu, eftir á margan hátt óhefðbundnum leiðum, eigi sér stað áfram. Ég lít þannig á að sá lagarammi sem hér er mælt fyrir sé fyrst og fremst stuðningur við þetta og fyrirheit um að hægt verði að efla þessa starfsfræðslu á allan hátt.
    Ég er ósammála þeim, sem hér hafa talað áður og telja eðlilegt að fella þetta undir menntmrn. Ég tel þvert á móti að höfuðkosturinn í þessu frv. komi fram í því að ætlunin er að þessi starfsfræðsla fari fram í sem nánustu tengslum við það fólk sem á að njóta hennar, finnur hvar eldurinn brennur heitast og gerir sér best grein fyrir því hvernig nauðsynlegt er að þetta starfsfræðslunám fari fram. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því sem fram kemur í umsagnarkafla greinargerðarinnar þar sem það er rakið að 36. þing Alþýðusambands Íslands, sem haldið var árið 1988, hafi einmitt samþykkt tillögu um að sett skuli rammalöggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu sem allra fyrst í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna þar sem eigi m.a. að kveða á um yfirumsjón félmrn. með starfsmenntun í landinu. Þetta eru samtök sem helst geta talað í nafni þess fólks sem á að njóta starfsmenntunar og þau tala hér einum rómi og alveg afdráttarlaust. Ég tel þess vegna algerlega ástæðulaust að vinna gegn óskum þessara samtaka og þessa fólks sem á að nýta starfsmenntunina og það væri að mínu mati fráleitt að skipuleggja þetta með þeim hætti að það væri í andstöðu við hugmyndir þess fólks sem á að njóta starfsfræðslunnar í landinu. Ég tel með öðrum orðum að það sé ekki rétt sem hv. 4. þm. Austurl. sagði áðan að í þessu frv. birtist forneskjuleg hugsun. Ég get a.m.k. ekki komið því heim og saman að þankagangur í þessum dúr sem er í raun og veru rökrétt framhald af samstarfi við verkalýðshreyfinguna og atvinnulífið í landinu geti á nokkurn hátt talist forneskjuleg hugsun nema síður sé.
    Ég tel hins vegar að það sé tvennt sem þurfi sérstaklega að skoða við málið í meðförum félmn. þingsins. Í fyrsta lagi það hvernig skipa beri starfsfræðsluráðið. Ég vek athygli á því að gert er ráð fyrir að opinberir starfsmenn eigi aðild að starfsfræðsluráðinu. Hins vegar er auðvitað ljóst að starfsfræðsla á vegum ríkisins er nú þegar í mjög föstum

skorðum og mjög veigamikil og óeðlilegt að ætlast til eða búast við því að hið opinbera muni sækja í opinbera sjóði af þessu tagi sem starfsfræðsluráðinu er ætlað að hafa yfirumsjón með. Þess vegna tel ég að það beri að skoða hvort ekki eigi að skipa fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar með nokkuð öðrum hætti en þarna er gert ráð fyrir og þetta hljóti að verða eitt af verkefnum félmn. hv. Alþingis að fara ofan í nokkuð betur.
    Í annan stað vil ég líka nefna mál sem ég hygg að skipti nokkuð miklu í þessu sambandi. Eins og ég rakti fyrr í ræðu minni er nú þegar mjög mikið námsframboð af þessu taginu úti á hinum almenna markaði og þess vegna væri ekki úr vegi og raunar nauðsynlegt að fyrir lægju þessar upplýsingar með skipulögðum hætti á einum stað og það þyrfti e.t.v að fella það í lagatextann með hvaða hætti eigi að gera það þannig að allir hafi sem gleggstar upplýsingar um þessi mál og þar með sem beinastan og greiðastan aðgang að þeim.
    Virðulegi forseti. Ég hyggst ekki orðlengja þetta mál frekar. Ég tel að framfaraspor yrði stigið með samþykkt þessa frv. og tel þess vegna nauðsynlegt að það fái ítarlega og góða umfjöllun hér á hinu háa Alþingi og í nefndum þingsins.