Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 14:29:00 (1633)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Herra forseti. Eins og komið hefur fram þá er hér ekki nýtt mál á ferðinni. Það hefur verið flutt áður á hv. Alþingi. Þetta frv. er óbreytt frá því frv. sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi en það frv. var samið í samræmi við niðurstöðu sem fulltrúar frá félmrn. og menntmrn. komust að snemma árs 1989 um að sett yrði sérstök löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu, löggjöf sem heyrði til verkssviðs félmrn. og önnur um almenna fullorðinsfræðslu sem heyrði til verksviðs menntmrn. Þetta varð sem sagt niðurstaðan á þeim tíma og niðurstaða síðustu ríkisstjórnar.
    Ég hef hins vegar séð í viðtali við hv. fyrrv. menntmrh. Svavar Gestsson að hann hefði kosið að hafa annan hátt á en samkomulag varð um í síðustu ríkisstjórn en bæði frumvörpin, um starfsmenntun og almenna fullorðinsfræðslu voru lögð fram að ég held bæði á 112. og 113. löggjafarþingi en hlutu ekki afgreiðslu. Þessi tvö frumvörp voru hins vegar látin fylgjast að á þeim þingum.
    Ég vil taka fram að ég tel mjög brýnt að efla möguleika fullorðinna til að afla sér hvers konar menntunar hvort sem um er að ræða grunnmenntun eða endurmenntun, almenna menntun eða starfstengda. Það er einnig mjög brýnt að góð tengsl séu á milli grunnmenntunar í skóla og endurmenntunar í tengslum við atvinnulífið.
    Það er áreiðanlega æskilegast --- ja, ég segi áreiðanlega, það er mín skoðun að æskilegast sé að hafa eina rammalöggjöf um fullorðinsfræðslu á vegum menntmrn. en tryggja tengsl við önnur fagráðuneyti og ekki hvað minnst við aðila vinnumarkaðarins. Ýmsir líta hins vegar á starfsmenntun í atvinnulífinu sem málefni aðila vinnumarkaðarins þar sem oft sé stofnað til hennar með ákvæðum í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Það er hins vegar spurning, sýnist mér, hvort aðilar vinnumarkaðarins gætu ekki eins haft áhrif þó svo að um ein lög væri að ræða á vegum menntmrn.
    Það er einnig nauðsynlegt að líta á samspilið og tengsl á milli almennrar menntunar og meira starfstengdrar en í umræðum erlendis um starfsmenntun er mjög mikið rætt um þörfina fyrir aukna almenna hæfni og kunnáttu til að hægt sé að þjálfa ný vinnubrögð og tækni og endurmennta fólk til nýrra starfa. Víða er reynt að skipuleggja sérstök námstilboð sem ná til beggja sviða og á þann hátt byggja brú á milli þeirra þar sem þau eru aðskilin með mismunandi lögum og eru á vegum tveggja eða fleiri ráðuneyta. Ég tel að hér sé sem sagt hreyft mjög þörfu máli en tek það fram að mér sýnist nauðsynlegt að líta á þetta mál í samhengi við hina almennu fullorðinsfræðslu og svara spurningu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og reyndar fleiri um að ég muni fljótlega leggja fram frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Það frv. sem áður hefur verið lagt fram er nú til athugunar í menntmrn. og er ekki sem sagt tekin endanleg ákvörðun um það hvort það verður lagt fram alveg í óbreyttri mynd frá því sem það var en frv. um almenna fullorðinsfræðslu verður lagt fram.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði hvert væri viðhorf mitt til frv. og einstakra fræðsluþátta sem nú eru á víð og dreif í kerfinu og hjá mismunandi ráðuneytum. Viðhorf mitt er í höfuðdráttum það að ég tel æskilegt að hafa sem flest þessara mála ef ekki öll undir menntmrn. og ég bendi á þá þróun sem átt hefur sér stað að undanförnu. T.d. var Þroskaþjálfaskólinn færður nú á síðasta sumri frá heilbrrn. til menntmrn. skv. lögum sem sett voru á síðasta þingi. Og fyrir þetta þing hefur verið lagt fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Lyfjatæknaskóla Íslands, lög um sjúkraliða, lög um Ljósmæðraskóla Íslands og breytingu á ljósmæðralögum þess efnis að þessir þættir falli undir menntmrn. Ég tel þetta rétta þróun og styð hana.
    Hér hefur aðeins verið minnst á ákvæði í 4. gr. frv. sem kveður á um að starfsmenntun í atvinnulífinu skuli heyra undir félmrn. en starfsfræðsla í fiskvinnslu skuli þó heyra undir sjútvrn. Ég lýsi efasemdum um að þetta sé skynsamleg leið og veit ekki alveg hvar við endum. Mér er kunnugt um að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur komið á framfæri þeirri skoðun sinni að að breyta eigi 4. gr. í þá veru að viðhalds- og endurmenntun löggiltra heilbrigðisstétta heyri undir heilbr.- og trmrn. og raunar menntmrn. Þessa skoðun hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. látið í ljós og ég býst við að honum þyki það eðlilegt miðað við að starfsfræðsla í fiskvinnslu skuli heyra undir sjútvrn. Ég hugsa að það hafi orðið honum tilefni til að láta þessa skoðun í ljós en ég lýsi miklum efasemdum mínum um að þetta sé hin rétta leið.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson gerði ákvæðið í 15. gr. að umtalsefni, þ.e. sem kveður á um að nám sem styrkt er samkvæmt lögum þessum sé hægt að fá metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi samkvæmt reglum sem þar um gilda af hálfu menntmrn. og hann spyr hvernig þetta tengist. Ég held að þetta sé einmitt dæmi um hversu nauðsynlegt er að athuga þetta allt í samhengi við fullorðinsfræðsluna og annað það sem heyrir undir menntmrn. í skólakerfinu og kallar beinlínis á að þessi mál séu skoðuð í mjög nánu samhengi.
    Hv. þm. Kristín Einarsdóttir hreyfði þeirri hugmynd, og hefur gert það áður ef ég hef skilið þingmanninn rétt, að Félagsmálaskóli alþýðu ætti að heyra undir menntmrn. Ég held að það sé mjög athugandi að Félagsmálaskóli alþýðu heyri undir menntmrn. og eitt af því sem einmitt kallar á þetta er að samræmi sé t.d. á réttindum þeirra kennara sem kenna við slíka skóla og þeirra sem kenna í hinu almenna skólakerfi. Það er ekki í dag. Það er sem sagt er eitt af því sem mér sýnist að kalli á þessa samræmingu.
    Ég held að í sjálfu sér sé ekki fleira sem ég tel ástæðu til þess að nefna hér við þessa umræðu. Ég ítreka það aðeins að ég mun leggja fyrir hv. Alþingi frv. um almenna fullorðinsfræðslu og legg mikla áherslu á að þetta frv. og væntanlegt frv. um almenna fullorðinsfræðslu verði athuguð í nánu samhengi og er sammála því að hv. menntmn. Alþingis fái tækifæri til þess að ræða þetta mál líka hvort sem því verður nú vísað formlega beint til hennar eða félmn. Ég geri ekki ágreining um það, tel að nefndirnar gætu annaðhvort starfað saman eða menntmn. fengið beint tækifæri til þess að tjá sig um þetta frv.