Starfsmenntun í atvinnulífinu

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 15:27:00 (1637)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð í viðbót varðandi þetta frv. en aðeins langar mig þó til að lýsa ánægju minni með það að hæstv. menntmrh. skuli ætla að leggja hér fljótlega fram frv. um fullorðinsfræðslulög eins og hann skýrði frá áðan. Þess vegna þykir mér enn þá frekar ástæða til þess að líta á þetta mál í samhengi við það boðaða frv. og þá enn frekar ástæða til þess að menntmn. fái þetta mál til umfjöllunar á sama hátt og ég reikna með að menntmn. fái til umfjöllunar frv. til fullorðinsfræðslulaga. Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi hvers vegna ríkisstjórnin leggur áherslu á að þetta frv. sé rætt núna, þ.e. svo skömmu fyrir jólahlé þegar ætla mætti að lægi frekar á öðrum málum en einmitt þessu og segi ég það ekki síst í ljósi þess sem kom fram í máli hæstv. menntmrh. Það hefði verið nær að nýta tímann til einhvers annars sem kannski lægi meira á. Er þetta sú forgangsröð sem hæstv. ríkisstjórn telur vera rétta? Ég set ákveðið spurningarmerki við að þetta sé mál sem liggur svo mikið á að við í stjórnarandstöðunni séum að verja tíma okkar til nú í ljósi þess að talað er um a.m.k. annan hvern dag eða á hverjum degi að við séum að tefja hér umræðu.
    Varðandi fyrirspurn mína, sem ég bar hér fram, um þau rök sem væru fyrir því að þetta mál ætti fremur að falla undir félmrn. en menntmrn., þá heyrði ég þau rök alls ekki. Ég var búin að lesa það sem stendur á bls. 12 í frv., í fskj. I, og þar koma engin rök fram um það að það eigi frekar að vera undir hatti félmrn. en menntmrn. Ég er enn þá sannfærðari eftir þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag að starfsmenntun í atvinnulífi eigi að falla undir menntmrn. og ég heyrði alls ekki neitt í máli hæstv. félmrh. sem fær mig til að hverfa frá þeirri skoðun. Hún sagði einungis að hún hefði skipt um skoðun en ekki hvers vegna.
    Í fskj. I, sem hæstv. ráðherra vitnaði til, segir að hér sé fyrst og fremst um vinnumarkaðsmálefni að ræða. Það má vel vera að hérna sé um vinnumarkaðsmálefni að ræða, eins og flestöll menntamál sem koma auðvitað vinnumarkaðnum við, en ég lít á þetta sem menntamál og fyrst og fremst sem mjög mikilvægt menntamál þannig að ég sé ekki nein rök fyrir því að það eigi ekki að falla undir menntmrn. eins og önnur menntamál.
    Ég ítreka þá tillögu mína sem ég bar fram áðan að þetta mál muni fara til menntmn. Alþingis. Ef ákveðið verður að vísa því samt sem áður til félmn., þá fái menntmn. þetta mál til umfjöllunar og það verði skoðað í samhengi við boðað frv. um fullorðinsfræðslulög sem menntmrh. skýrði okkur frá áðan.