Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 16:16:00 (1640)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég óskaði eftir því úr ræðustól að hæstv. utanrrh. yrði við þessa umræðu því mér þykir eðlilegt að spyrja að því hvaða samningar voru gerðir milli Íslands og Bandaríkjanna þegar Ísland fékk Marshall-aðstoð og Mótvirðissjóðurinn var stofnaður. Hefur hæstv. ráðherra þá samninga undir höndum? Er möguleiki að alþingismenn fái afrit af þeim? Eða mun hann gera grein fyrir því héðan úr ræðustól hvernig við skuldbundum okkur til að fara með þá fjármuni sem við fengum?
    Ég held að það sé ærið umhugsunarefni að það sem þeir óttuðust mest á þeim tíma var að sjóðurinn yrði fljótur að fara ef ríkisvaldið fengi hann til meðferðar. Það hefur ræst. Þess vegna vildu þeir að það yrði sjálfstæður sjóður en enginn undirsjóður fjmrn., hvorki lánasýsla né annað, sem fengi þessa fjármuni til varðveislu. Þetta áttu að vera fjármunir til að efla íslenskt atvinnulíf. Og þeir voru notaðir til þeirra hluta og þetta gekk nokkuð vel.
    Ég ætla ekki að hefja stórar árásir á þá ákvörðun á sínum tíma að menn skyldu fara í fiskeldi. Þessi þjóð lifir ekki án þess að taka áhættur. Þegar það dæmi var á sínum tíma reiknað út blasti við að Íslendingar áttu að eiga góða möguleika í fiskeldi. Hitt er svo annað mál að við fórum seinna í fiskeldi en aðrar þjóðir, aðalsamkeppnisþjóðir okkar, og Norðmenn notuðu þá aðferð að loka okkur af eins og menn vita. Þeir hættu að kaupa af

okkur seiði þegar við vorum komnir með verulega mikla seiðaframleiðslu. Ég held aftur á móti að það megi með fullum rökum segja, eins og kom fram hjá hv. 8. þm. Reykn., að það hefði mátt fara öllu hægar í sakirnar en þá var gert og það hefði í ljósi sögunnar verið farsælla. Hins vegar er gjörsamlega vonlaust annað en að víkja örlítið að þeim þætti sem Álafoss á í að setja þennan sjóð um koll. Ég segi Álafoss vegna þess að mér er minnisstætt á sínum tíma þegar einhver hámenntaðasti Íslendingur í rekstrarfræði var settur yfir það fyrirtæki af stjórn Álafoss hf. og sá einstaklingur tengist mjög hæstv. utanrrh. Hann var stór í sniðum og skömmu seinna hélt hann beint til Kína til að afla sér upplýsinga um það hvernig ætti m.a. að standa að rekstri svona fyrirtækis. Hafi nokkurn tímann ævintýraleg blysför verið sett á stað í rekstri í ullariðnaði á Íslandi þá var það undir forustu þessa manns. Enda verður að segjast eins og er að þótt fyrirtækið hefði verið tuttugu sinnum stærra þá hefði það ekki haft efni á að hafa svo stóran forstjóra. Álafoss sigldi með ævintýralegum hraða niður á við. Það væri fróðlegt fyrir hæstv. forsrh., sem vill nú hafa valinn mann í hverju skiprúmi, að kynna sér hver þetta var og hvaða trúnaðarstörf sá hinn sami hefur hlotið hjá íslenskri þjóð eftir að afreksverkin á sviði ullariðnaðarins eru úr sögunni. Það er nefnilega ærið umhugsunarefni þegar svona lagað gerist. Það er eins og sumir sigli hraðbyri enn þá hærra eftir að þeir hafa gert enn þá stærri vitleysur.
    Ég læt þetta koma fram vegna þess að á sínum tíma efaði ég mjög að þeir, sem réðu til starfa mann sem enga þekkingu hafði á ullariðnaðinum sem slíkum en aftur á móti mikla þekkingu á rekstri og var mjög hátt skrifaður í íslensku kerfi sem hæfileikamaður, hefðu gert rétt. Ég efaði það mjög að hann mundi henta til þessa verkefnis. Ég held nefnilega að tímabært sé, eins og fram kom hjá hv. 8. þm. Reykn., að það sé skilgreint ofan í kjölinn hvaða tvær ákvarðanir það eru sem verða þess valdandi að Framkvæmdasjóður er nú settur jafnlangt niður og menn eru að tala um. En ég er jafnframt viss um að það verður sjóðnum ekki til neinnar gæfu að færa hann fjmrn. Ég er sannfærður um að það mun leiða til þess að hann mun tapa enn þá meiri fjárhæðum ef það verður framkvæmt. Hafi verið þögn og launung um það sem menn voru að bralla eftir að framkvæmdarvaldið tók við sjóðnum þá verður þögnin margföld í skúffunum niðri í Lánasýslu ríkisins. Þeir verða margir sem koma með góðan passa og fara fram á að Framkvæmdasjóður sýni nú tilhliðrunarsemi. Ég tel þess vegna að það sé ekki gæfulegt spor hjá hæstv. forsrh. sem hann er að leggja til núna. Og kannski er hæstv. forsrh. svona þungur á brúnina vegna þess að honum er sjálfum ljóst að það er ekki góð tillaga að gera sjóðinn að hálfgerðum felusjóði undir Lánasýslu ríkisins. Ég held nefnilega að tímabært sé að fram komi hér að á meðan Alþingi Íslendinga kaus þessum sjóði stjórn og menn þurftu að standa fyrir því hér í þessari pontu, þeir sem voru ábyrgðarmenn velflestir að öllum hans ákvörðunum, þá vegnaði þessum sjóði vel.
    Mér er verulegt áhyggjuefni þegar menn telja að þær hugmyndir sem hér koma fram um afgreiðslu málsins séu til góðs. Framkvæmdasjóður þarf að innheimta mikla fjármuni. Vissulega er rétt að 80% munu vera hjá opinberum sjóðum af útlánafé hans. En engu að síður sé ég ekki að það muni bæta stöðuna að fara í það sem hér er lagt til.
    Herra forseti. Nokkuð er kvartað undan því að við stjórnarsinnar (Gripið fram í.), stjórnarandstæðingar séum langorðir. Eftir 20 ára setu er ekki skrýtið þó að það komi einstaka sinnum fram á varirnar að menn minnist þess að þeir hafi verið í ríkisstjórn eða stuðningsmenn ríkisstjórnar. Mér þætti aftur á móti vænt um ef hægt væri með einhverjum ráðum að koma því þannig fyrir að þrátt fyrir mikil umsvif hjá ráðherrum fáist þeir til að slaka á einstaka sinnum og sitja í ráðherrastólum sínum. Það er vissulega rétt að þeir geta ekki gegnt sínum störfum, þingskyldu sinni eins og aðrir. Þeir hafa ekki neina vinnuskyldu í nefndum og það er fullur skilningur á því. Yfirleitt hefur ekki verið kvartað undan fjarveru þeirra þó að verið sé að ræða mál annarra ráðherra. En þegar sérstaklega er óskað eftir viðveru þeirra eins og í þessu tilfelli er það ekki góð niðurstaða að þeir hverfi á braut og sú ræða sem hér hefur verið flutt berist þeim e.t.v. fyrst þegar þeir eru komnir á eftirlaun, ákveðnir í að fara að gramsa í þingtíðindum.