Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 16:26:00 (1641)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að beina þeirri ósk til forseta þingsins að þeir reyni að tryggja það að hæstv. ráðherrar geti setið hér þó ekki væri nema í um 20 mín. undir stuttum ræðum. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, hafði sérstaklega óskað eftir því að ræða við nafngreindan hæstv. ráðherra, en ráðherrann gengur úr salnum tveimur til þremur mínútum eftir að þingmaðurinn hóf ræðu sína og talaði hann ekki lengi --- mér telst til í u.þ.b. 10 mín. eða svo.
    Ég vil þess vegna setja fram þá formlegu ósk við forseta þingsins að ef hægt á að vera að ræða málefnalega við ríkisstjórnina um hennar eigin stjfrv. þá er óhjákvæmilegt að þeir ráðherrar sem verið er að tala við sitji í salnum. Ég virði hæstv. forsrh. fyrir það að hann hefur setið mjög vel undir umræðunum og það er ekkert undan því að kvarta. En hæstv. utanrrh. verður að hafa tíma til að sitja í salnum þó ekki sé nema tæpa klukkustund á þessum degi þegar ítrekað var óskað eftir því fyrir tveimur dögum að hann væri viðstaddur þessa umræðu. Við höfum að vísu lesið það í ákveðnu blaði, sem ég ætla ekki að ræða mikið um hér vegna þess að það er viðkvæmt mál, að honum leiðist Alþingi. En ég vil formlega óska eftir því við forsetann að tryggt verði áður en umræðan heldur áfram að hæstv. utanrrh. sé hér við umræðuna. Það var ekki ætlun okkar að þetta yrði löng umræða en það er óhjákvæmilegt að ráðherrann sé hér og hlýði á þær ræður sem fluttar eru svo að hann geti tekið þátt í umræðunni eins og óskað hefur verið eftir.