Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 16:29:00 (1642)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Ég hafði ekki kvatt mér hljóðs vegna þess að í dag hafa verið lagðar fram allmargar spurningar í þessu máli, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um Framkvæmdasjóð Íslands, og ég hafði reiknað með því að einhverjum þeirra yrði svarað. Svo virðist ekki vera og kvartað er undan því að ekki sé hægt að halda uppi málefnalegri umræðu og ég skal a.m.k. gera það sem ég get til þess að halda mig við efni frv. en það fjallar í stuttu máli um það að leggja Framkvæmdasjóð Íslands niður.
    Auðvitað er allt í lagi að leggja einstaka sjóði og lánastofnanir niður og fækka þeim og reyna að hagræða á þeim vettvangi eins og víða er í samfélaginu. Aðalatriðið er að sjálfsögðu hver á að taka við hlutverki þeirra lánastofnana sem starfa í íslensku þjóðfélagi, hver eigi að stjórna þeim og hverjir eiga stofnanirnar.
    Nú vill svo til í gegnum tíðina að íslenska ríkið, sem er nú ekki mjög gamalt að árum, á mikið af þeim lánastofnunum sem starfa í samfélagi okkar og ég held að það sé sammerkt öllum lánastofnununum, hvort sem þær heita Framkvæmdasjóður Íslands, ríkisbankarnir eða Byggðastofnun, að alls staðar hafa einhvern tíma og einhvers staðar verið gerð mistök í útlánum. En menn sjá ekki allir jafn vel fram í tímann og eru ekki tilbúnir að spá nægilega langt um framvindu mála. Sumir eru ekki færir um að spá nokkra daga fram í tímann vegna þess hvernig hlutirnir breytast og aðrir telja sig vera færa um að spá mörg ár fram í tímann hvort sem það eru átta ár eða enn þá fleiri. Í samfélagi okkar breytast öll ytri skilyrði snöggt og það sem var talið rétt fyrir tveimur árum telst ekki rétt í dag, m.a. vegna þess að forsendur hafa breyst. Þetta er sá veruleiki sem menn lifa við og alltaf má deila um hvort rétt var að taka svo mikla áhættu og raun ber vitni. Ég get sagt það

sem skoðun mína að of mikil áhætta var tekin í fiskeldi og of mikið lagt undir. En ég held að það sé mjög ósanngjarnt ef litið er til þeirrar umræðu sem hefur átt sér stað á Alþingi um þennan málaflokk að kenna þar einhverjum sérstökum um. Það er aðalsmerki núv. ríkisstjórnar að grafa í fortíðinni og reyna að finna sökudólga og má segja að hún hafi lítið annað gert. Má vel vera að þetta frv. sé flutt með því hugarfari að leggja þennan sjóð niður sérstaklega með tilliti til þess að síðasta ríkisstjórn hafi komið honum í koll. Ég tek eftir því að hæstv. forsrh. heldur því fram að sú ríkisstjórn hafi ekki viljað beita almennt viðurkenndum hagstjórnaraðferðum og hafi trúað á lækningamátt opinberrar íhlutunar. Þetta er skoðun núv. forsrh. Íslands.
    Þetta á sjálfsagt að kallast málefnaleg umræða. En ég segi það fyrir mig að ég kannast ekki við þennan veruleika og kannast ekki við það að hafa verið í ríkisstjórn þar sem almennum hagstjórnaraðferðum hafi verið neitað og menn hafi fyrst og fremst trúað á lækningamátt opinberrar íhlutunar. Vel má vera að hæstv. utanrrh. kannist við að hafa verið í slíkri ríkisstjórn og ég hef tekið eftir því að það er kært á milli hans og núv. forsrh. og má vera að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu úti í Viðey. Það má vel vera að við hinir kunnum illa hagfræði og kunnum lítt til hagstjórnaraðferða nútímans. En ég veit það a.m.k. að hæstv. viðskrh. kann ýmislegt fyrir sér í þeim efnum og er að góðu kunnur fyrir það að þekkja vel til hagfræði. Aldrei man ég eftir því að það hafi verið sérstaklega rætt í þeirri ríkisstjórn að réttast væri að beita opinberum íhlutunum sem víðast. Það er hugmyndafræði kommúnismans og reyndar sósíalismans að einhverju leyti og þótt sósíalisminn hafi haft nokkur áhrif á Íslandi þá hefur hann aldrei haft svo mikil áhrif að þessar hagstjórnaraðferðir hafi algerlega ráðið ríkjum hér. Þetta kemur líka fram í sameiginlegu plaggi ríkisstjórnarinnar, velferð á varanlegum grunni eins og hún heitir, en það stendur að ríkisstjórnin muni hverfa frá miðstýringu og forsjárhyggju sem lengi hefur einkennt stefnu íslenskra stjórnvalda í atvinnumálum. Ég verð að líta svo á að með þessu sé það orðin almenn skoðun í núv. ríkisstjórn að hagstjórnaraðferðum opinberrar íhlutunar hafi sérstaklega verið beitt hér á landi.
    Hið opinbera hefur oft og tíðum komið mjög að atvinnumálum og ég get í sjálfu sér tekið undir það að stundum hefur það verið um of og menn hafa um of treyst á hið opinbera í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins. Í því sambandi verður að gæta að því að hlutabréfamarkaður á Íslandi hefur verið mjög ófullkominn og áhugi almennings hefur ekki verið fyrir hendi til að taka þátt í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum. En ég minni jafnframt á það að nokkuð langt er síðan hið opinbera tók upp þá stefnu að ýta undir áhuga almennings til þátttöku í íslensku atvinnulífi og það hefur borið allmikinn árangur. Það var ekki fundið upp núna á síðustu mánuðum. Þótt það hafi tekið nokkurn tíma í umræðunni er lengra síðan og ég verð því að játa að ég fæ ekki alveg skilið hvað menn eru að fara hér. Ef þetta á að vera sérstakt innlegg hæstv. forsrh. í málefnalega umræðu um efnahagsmál Íslendinga þá er ég ekki með á nótunum. Hann segir jafnframt að fjármagni hafi sérstaklega verið beint í gegnum millifærslusjóði og þar hafi átt sér stað margvísleg mistök.
    Ég vil taka undir að það sem hefur gerst í fiskeldinu verður að flokkast undir mistök og ég tel að það sé rétt að viðurkenna að þar hafi verið farið offari, en hins vegar mega menn ekki ganga svo langt í því að missa alla trú á framtíð fiskeldisins. Það var í sjálfu sér eðlilegt að menn reyndu að finna nýjar atvinnugreinar til að byggja á og það var mjög eðlilegt að menn litu til fiskeldisins þegar séð var hvað það skilaði miklum hagnaði hjá mörgum fyrirtækjum víða um lönd. Það var eðlilegt að álykta sem svo að Íslendingar hlytu að hafa þekkingu og atgervi til þess að gera það líka. En undirbúningur var ónógur. Fjármögnun var oft og tíðum ófullnægjandi og rannsóknir voru ekki nægilegar.

Þetta eru allt saman ástæður sem rétt er að hafa í huga en svo geta menn í sjálfu sér leikið sér að því að draga fram einstaklinga og ríkisstjórnir hér og þar til þess að finna sökudólga. Ég held að það skili a.m.k. ekki miklum árangri upp á framtíðina, en ef menn vilja nota tíma sinn í það þá geta þeir það mín vegna.
    Annar þáttur málsins er skuldbreyting útflutningsatvinnuveganna en það mál má rekja til sumarsins og haustsins 1988 þegar menn stóðu frammi fyrir því að atvinnugreinarnar voru nánast að falla um og menn spurðu sjálfa sig hvað gera skyldi. Það má segja að þar hafi líka átt sér stað viss mistök við hagstjórn. Það hafði verið tekin upp mikil festa í gengismálum á Íslandi og menn ætluðu sér að ráða við verðbólguna með þeim hætti. Því miður var ekki tekið nægilegt tillit til þess af hálfu samfélagsins og menn höfðu gert þá tilraun það lengi að ekki varð lengur við neitt ráðið. Öllum var ljóst að breyta varð genginu en mikilvægt þótti að gera það ekki í mjög stórum skrefum til þess að fá ekki í gang keðjuverkun kostnaðarhækkana, t.d. launahækkana. Þess vegna varð það niðurstaðan að rétt væri að lengja lán helstu útflutningsfyrirtækja, gera strangar kröfur um möguleika fyrirtækjanna til endurgreiðslu og reyna að skapa þeim skilyrði til þess að þau gætu hagrætt í sínum rekstri upp úr því. Um þetta má að sjálfsögðu deila eins og allt annað, en ég er sannfærður um að þetta var rétt og ég er líka sannfærður um að almennt má álíta að fyrirtækin geti greitt skuldir sínar til baka. Þau þurfa e.t.v. að beita misjöfnum aðferðum til þess að þeim sé það kleift og vel má vera að sum þessi fyrirtæki standi jafnvel frammi fyrir því að leggja rekstur sinn af og selja til annarra fyrirtækja, jafnvel annars staðar á landinu til þess að það reynist unnt. En þá koma upp viðkvæm mál eins og byggðasjónarmið, mannlíf á viðkomandi stöðum og þetta er allt saman atriði sem ekki verður litið fram hjá.
    Ég vil minna á í þessu sambandi að síðan var farið í þessar aðgerðir og í framhaldi af því var stofnaður Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins, ætli það hafi ekki verið vorið 1989, og inn í þann sjóð hefur komið mikið fjármagn. Ætli séu ekki í honum í dag rétt innan við 3 milljarðar. Þannig að þrátt fyrir allt hefur þessi atvinnugrein, sjávarútvegurinn, getað safnað miklum peningum í Verðjöfnunarsjóð og það sýnir að hann hefur fulla burði og fulla getu til þess að borga skuldir sínar niður hratt ef skilyrðin eru góð. Það verður að sjálfsögðu að skoðast í samhengi við þetta mál að jafnframt var ákveðið að koma Verðjöfnunarsjóði á fót til þess að atvinnugreinin væri frekar fær um það í framtíðinni að standa við skuldbindingar sínar, til að tryggja það að tekjur hennar færu ekki allar í almenna eyðslu í samfélaginu heldur til þess að standa undir þessum miklu skuldum í framtíðinni. Menn gerðu sér að sjálfsögðu ljóst að þarna voru miklar ábyrgðir af hendi ríkisins sem var mikilvægt að ekki féllu á ríkissjóð.
    Þetta eru kallaðir millifærslusjóðir og sagt að þarna hafi verið viðhöfð óeðlileg vinnubrögð, að ekki hafi verið unnið á faglegum grundvelli en ég hygg að það sé erfitt að finna slík dæmi, jafnvel þó að menn geti tínt til einhver dæmi þar sem hlutirnir hafi verið ranglega metnir. En ég spyr nú: Hefur það ekki komið fyrir neina aðra lánastofnun íslenska að meta hlutina ranglega? Hefur það aldrei gerst þar sem aðrir aðilar eru við stjórnvölinn? Ég man ekki betur en það hafi verið fyrir tveimur eða þremur dögum að menn töldu að einhver mistök hefðu átt sér stað í Fiskveiðasjóði Íslands. Það er alveg ljóst að það sem þar er gert er ekki yfir gagnrýni hafið. En stjórnarmenn þar koma fyrst og fremst frá atvinnugreininni og lánastofnunum og þessir aðilar stjórna útlánum þess sjóðs.
    Ríkisendurskoðun hefur verið sérstaklega beðin um að athuga ákveðna sjóði eins og Framkvæmdasjóð og sjóði Byggðastofnunar. Ég hef spurt um það áður hvort til standi að þetta verði almenn regla í öllum þeim lánastofnunum sem ríkið kemur að og hvort ekki sé rétt að fara sömu höndum um aðra sjóði sem eru með eignaraðild ríkisins. Þeir eru taldir upp í frv. til lánsfjárlaga, en í lánsfjárlögum stendur nokkurn veginn upp á punkt hvað

þessir sjóðir mega taka að láni. Það stendur líka að fjmrh. skuli ákveða hvort lántaka allra þessara aðila fari fram innan lands eða utan, í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli. Ég spyr nú hæstv. forsrh.: Er þetta forsjárhyggjuhagfræði? Er þetta miðstýringarhagfræði eða er þetta hin frjálsa hagfræði sem núv. ríkisstjórn aðhyllist? Ef ég les rétt út úr því sem sagt er, eða með orðum sem hæstv. forsrh. notar, að fyrri ríkisstjórn vildi ekki beita almennum viðurkenndum hagstjórnaraðferðum heldur opinberri íhlutun.
    Nú hlýtur það að falla undir opinbera íhlutun að fjmrh. ákveði fyrir hönd sjóða hvort viðkomandi sjóðir eigi að taka lán sín í innlendum peningum eða erlendum. Það hlýtur að falla undir opinbera íhlutun þegar sagt er að fjmrh. sé heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán að hluta eða öllu leyti í stað þess að veita ríkisábyrgð á lántökur þeirra aðila sem tilgreindir eru í II. kafla þessa frv., en þeir eru Landsvirkjun, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna, Húsbréfadeild Byggingarsjóðs ríkisins, Stofnlánadeild landbúnaðarins, Byggðastofnun, Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður, Fiskveiðasjóður og Útflutningslánasjóður.
    Ég sé ekki betur en þarna sé um opinbera íhlutun að ræða en ég vil ekki að það sé skilið svo að ég telji að það komi alls ekki til greina og ekki megi viðhafa nein slík vinnubrögð. Ég vil bara biðja hæstv. ríkisstjórn að vera ekki að fara þess á leit við okkur að ræða málin með málefnalegum hætti ef hún er ekki tilbúnin til þess að skýra betur út við hvað er átt þegar slík orð eru notuð.
    Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að leggja Framkvæmdasjóð Íslands niður en ég hlýt að spyrja um það hvað menn ætlist fyrir í sambandi við þessi mikilvægu mál. Nú hefur það komið fram að til standi að lengja lán Atvinnutryggingarsjóðs og Byggðastofnunar sem ég er sammála. Það er ekki um neitt annað að ræða þegar menn sjá hin miklu áföll sem hafa orðið í atvinnulífinu, sjávarútvegurinn er ekki lengur fær um að greiða skuldir sínar jafnhratt niður og reiknað hafði verið með. Ég er hins vegar viss um að hann mun geta greitt þessar skuldir niður ef hann fær að vera í friði og kemst hjá því að lenda í skattaklóm þeirra manna sem vilja skattleggja hann sérstaklega og hef ég þó ekki ávallt verið á móti því að hækka skatta. En ég er andvígur því að hækka skatta á þeim sem eru ekki færir um að greiða skuldir sínar til baka við núverandi skilyrði. Það er ósköp eðlilegt að viðkomandi aðilar séu svartsýnir þegar þeir geta ekki staðið í skilum með skuldir sínar og ávallt er verið að tala um að þeir skuli borga til opinberra útgjalda hér á landi.
    Það verður að líka að flokkast undir sértækar aðgerðir og e.t.v. opinbera íhlutun að lengja þessi lán, en verða menn ekki að viðurkenna þá staðreynd að við búum í sveiflukenndu samfélagi þar sem þarf að taka nýjar ákvarðanir og bregðast við því sem upp kemur á hverjum tíma? Er það ekki líka sértæk aðgerð að fella niður greiðslur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins um þessar mundir, jafnvel þótt lög segi fyrir um annað? Að sjálfsögðu er það sértæk aðgerð vegna þeirra skilyrða sem upp eru komin og þar af leiðandi ber að gera það.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að hafa þetta mál lengra þó ærið tilefni sé til. Ég get fallist á það að Framkvæmdasjóður verði lagður niður enda verði fyrir því séð að eðlilega sé búið að íslensku atvinnulífi en ekki ávallt hrópað á það ef eitthvað kemur upp á sem menn sjá ekki fyrir og menn standi vörð um aðrar mikilvægar lánastofnanir sem þetta atvinnulíf verður að treysta á. Að sjálfsögðu er ég sammála því að ríkið á ekki að taka óþarfa áhættu. Það er hins vegar matsatriði á hverjum tíma hvernig áhætta skuli metin og það verður ekki aðeins verkefni þeirra sem í atvinnulífinu eru, það verður líka verkefni þeirra sem lánastofnunum stjórna og stýra. Eins og íslenskt samfélag er upp byggt kemur ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti þar að. Sjálfsagt má reyna að deila þeim verkefnum betur niður milli fulltrúa ríkisvaldsins og annarra fulltrúa innan lands, svo sem fulltrúa atvinnulífsins eins og reynt hefur verið eða þá að viðkomandi stofnanir komist í hendur annarra eigenda. Það skal ekkert útilokað, en aðalatriðið er að hér sé til það fjármálakerfi sem getur þjónað atvinnulífi landsmanna, því atvinnulíf landsmanna er það sem stendur undir velferð og verðmætasköpun og því er mjög bagalegt, svo ekki sé meira sagt, að um þessi mál skuli vera rætt af hæstv. forsrh. með ómálefnalegum hætti. Látum vera þótt við óbreyttir þingmenn án allra einkenna --- voru það ekki kölluð fráhvarfseinkenni sem ýmsir þingmenn áttu að vera haldnir? (Gripið fram í.) Aðeins fyrrv. ráðherrar. En það má vel vera að einhverjir séu haldnir slíkum einkennum og látum það vera þótt þingmenn taki stundum upp á því að tala um málin, ekki á ómálefnalegan hátt, ég vil ekki halda því fram, en e.t.v. með öðrum hætti en öllum líkar. En mér finnst að hæstv. forsrh. hafi þær skyldur að ræða þessi mál með málefnalegum hætti á grundvelli staðreynda en ekki með þessum órökstuddu fullyrðingum sem koma bæði fram í stefnuræðu hans og þessu plaggi sem heitir ,,Velferð á varanlegum grunni`` sem að vísu er þannig úr garði gert að hæstv. stjórnarliðar, sumir hverjir, vilja lítt við það kannast. Með því að þeir vilja lítt við það kannast tel ég að þeir séu að taka undir þá gagnrýni sem ég hef hér sett fram á þennan málflutning.