Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:13:00 (1645)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það var óskað eftir því að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og svaraði örfáum spurningum. Hæstv. utanrrh. getur gert það í tiltölulega mjög stuttu máli, fáeinum mínútum. Sérstaklega ef hann kýs að tala skýrt og stillir sig um að vera með þann pólitíska skæting sem hæstv. forsrh. var með í ræðustólnum og ég mun víkja að þegar ég fæ orðið með almennum hætti í þessari umræðu.
    En ég verð að segja, virðulegi forseti, að við höfum, undir þessari umræðu, látlaust verið settir í þá stöðu að ræðumenn hafa þurft að gera hlé á ræðu sinni vegna þess að utanrrh. hefur ekki verið í salnum. Þingmenn hafa orðið að fara upp undir liðnum þingsköp til að biðja um það að náð væri í hæstv. utanrrh. Nú er komið að því að enginn er á mælendaskrá og við sem vildum tala aftur, sérstaklega eftir ræðu hæstv. forsrh., hljótum að fara fram á það að hæstv. utanrrh. og reyndar einnig hæstv. núv. sjútvrh. svari þeim einföldu spurningum sem til þeirra var beint. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að við tökum þátt í umræðum hér um alvarleg mál þegar annars vegar er fram borinn skætingur af hálfu hæstv. forsrh., sem ég mun koma að hér á eftir, og þeir aðrir ráðherrar sem beint er til málefnalegum og skýrum spurningum hirða ekki um að svara þeim. Er þó verið að fjalla um ákvarðanir sem þeir tóku á sínum tíma og fela í sér milljarða skuldbindingar fyrir íslenska þjóð. Milljarða skuldbindingar.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, ítreka þá ósk að hæstv. ráðherrar tali í þessari umræðu, svari þeim spurningum sem til þeirra er beint svo hægt sé með eðlilegum hætti að láta fara fram efnislega umræðu um málið. Ég veit að vísu að þeir sessunautarnir tveir hafa báðir, annar í blaðaviðtali og hinn í útvarpsviðtali, líkt Alþingi Íslendinga við gagnfræðaskóla og málfundasamkomu í gagnfræðaskóla. Ráðherrarnir eru sjálfir að leggja meginframlag sitt til þess að svo kunni að verða hér á þinginu ef þeir hafa ekki nennu til þess að sitja í umræðum og svara einföldum spurningum sem til þeirra er beint.
    Ég vil þess vegna ítreka þá ósk áður en haldið verður áfram að hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. svari, þó í stuttu máli sé, þeim spurningum sem til þeirra var beint.