Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:17:00 (1648)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Þetta er umræða um Framkvæmdasjóð Íslands. Hv. 8. þm. Reykn. komst að orði á þá leið að sá sem hér stendur hefði sem fjmrh. átt sérstakan fulltrúa í stjórn þess sjóðs og nafngreindi hann, Sigurgeir Jónsson. Ég vil taka fram að þá 14 mánuði sem ég var fjmrh. átti ég engan trúnaðarmann í stjórn Framkvæmdasjóðs, hvorki ég persónulega né minn flokkur. Sigurgeir Jónsson var sem kunnugt er á þessum tíma formaður efnahagsnefndar Sjálfstfl. og eftirmanni mínum á stóli fjmrh. var kunnugt um að milli okkar var ekki samstarf. Þetta þýðir að ég sem fjmrh. átti þarna engan fulltrúa. Auk þess hafði ég engin afskipti af ákvörðunum í stjórn sjóðsins og minnist þess ekki að neinar slíkar ákvarðanir hafi verið undir mig bornar.
    Í annan stað er þess að geta að í minni tíð sem fjmrh. beitti ég mér fyrir hugmyndum og tillögum um breytingar á þessu sjóðakerfi, bæði um skattskyldu sjóða sem og um breytingar á þeim að því er það varðar að breyta þeim í hlutafélög og í sumum tilvikum að vista slíka sjóði sem yrðu aflagðir annars staðar í bankakerfinu.
    Þriðja atriðið sem hann beindi til mín var hvers vegna ég hefði þá ásamt öðrum beitt mér fyrir því á árinu 1988 að taka erlent lán vegna fiskeldis. Svarið við því er að það gerði ég aldrei. Vissulega beitti ég mér ekki fyrir því. Hitt er annað mál að það var niðurstaða af nefndarstarfi á vegum þeirrar ríkisstjórnar fyrir tilstilli fulltrúa þeirra atvinnuvegaráðuneyta sem um þetta fjölluðu, einkum landbrn. sem bar ábyrgð á fiskeldi, að fyrir voru lagðar slíkar tillögur og þær voru teknar upp af þáv. ríkisstjórn sem hluti af lánsfjáröflun. En það er misskilningur að ég hafi beitt mér fyrir því.
    Að því er varðar Mótvirðissjóð og Marshall-aðstoð, þykir mér miður að geta ekki svarað svo að gagn sé að spurningu hv. þm., þ.e. um þær samningsskuldbindingar sem við tókum á okkur að því er það varðar. Mér er í minni að Marshall-aðstoðin var skipulögð með þeim hætti að fyrir andvirði varnings frá Bandaríkjunum sem inn var fluttur og seldur hér var myndaður sjóður. Hann átti að vera m.a. til þess að efla íslenskt atvinnulíf. Hvernig þær skuldbindingar voru í smáatriðum og hvort þær samningsskuldbindingar voru tímabundnar, þeirri spurningu get ég því miður ekki svarað hér og nú.