Framkvæmdasjóður Íslands

43. fundur
Fimmtudaginn 05. desember 1991, kl. 17:22:00 (1650)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég hafði að vísu vænst þess að hæstv. sjútvrh. mundi biðja um orðið og svara einnig þeim spurningum sem til hans var beint. En ég verð að segja það að ég hef fullan skilning á því að eftir ræðu hæstv. forsrh. og ræðu hæstv. utanrrh. skuli hæstv. sjútvrh. kjósa þögnina í þessari umræðu. Ásakanir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. í garð Þorsteins Pálssonar, hæstv. sjútvrh., í ræðum þeirra tveggja hér áðan, þó undir rós væru, voru auðvitað slíkar að eðlilegt er að hæstv. sjútvrh., vegna friðsamlegrar sambúðar á stjórnarheimilinu, kjósi frekar af visku sinni þá afstöðu að sitja hjá og þegja en að koma upp á eftir eftir ræðu hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh.
    Hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. báðir sóru algjörlega af sér hér í stólnum ábyrgð á því tapi sem milljarða ráðstafanir vegna lánveitinga til fiskeldis á vegum Framkvæmdasjóðs hafa haft í för með sér. Ég mun koma að þessu nokkuð ítarlega hér á eftir en vildi strax í upphafi vekja athygli á þeirri staðreynd að einnig í þessu máli endurspeglast sá sambúðarvandi og persónulegi samskiptavandi sem einkennir þessa ríkisstjórn. Nú ætla ég, virðulegi forseti, að gera hlé á ræðu minni þar til náð verður í hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þeir eru enn á ný byrjaðir þá siðvenju sem þeir hafa stundað hér, sérstaklega hæstv. utanrrh., í allan dag, að koma í fáeinar mínútur í salinn og fara svo út. Ég vil benda á það t.d. að þegar ég var fjmrh. var það talin sjálfsögð skylda að ráðherra sæti hér í salnum undir umræðu væri þess óskað og með undantekningartilvikum færi út úr salnum í örfáar mínútur, en ekki það að ræðumenn þyrftu hvað eftir annað að gera hlé á máli sínu eða gera athugasemdir undir liðnum þingsköp vegna þess að ráðherrarnir væru ekki í salnum. Enn á ný, virðulegi forseti, verð ég að óska eftir því að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. komi hér í salinn. ( Forseti: Forseti hélt nú að þessir hæstv. ráðherrar væru hér rétt fyrir innan dyr í hliðarsal og ef svo er þá heyra þeir væntanlega hvað hv. þm. er að segja hér og vill forseti taka undir það að það væri æskilegt að þeir sætu hér inni í salnum.) Ég ekki ekki athugasemdir þó að þeir sitji í þessum tveimur hliðarherbergjum þannig að þeir megi heyra mál mitt, en það hafa þeir ekki gert. Ég sé að vísu hæstv. forsrh. birtast hér og ég

þakka honum fyrir það, en þá verður að bíða eftir hæstv. utanrrh. ( Forseti: Þá mun forseti gera ráðstafanir til að gera hæstv. utanrrh. viðvart.) Virðulegi forseti, ég get gert hlé á ræðu minni og beðið í sæti mínu eftir að hæstv. utanrrh. komi í salinn svo hægt sé að halda umræðunni áfram, ef forseti leyfir mér það. ( Forseti: Hæstv. utanrrh. mun vera hér í sjónvarpsviðtali niðri í Kringlu.) Virðulegi forseti, ég ætla þá að fá leyfi til þess að bíða í sæti mínu þar til hann kemur inn aftur þannig að hægt sé að halda áfram þessari umræðu. ( Forseti: Þá frestar hv. 8. þm. Reykn. ræðu sinni og þá verður umræðunni frestað.) Virðulegi forseti. Áður en ég geri það formlega þá vil ég hafa það alveg á hreinu að sú frestun er aðeins meðan hæstv. utanrrh. er í sjónvarpsviðtalinu. Ég ætla ekki að láta umræðuna enda í dag á þeim hætti sem gert var af hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. einfaldlega vegna þess að ráðherrarnir mega ekki vera að því að vera hér í salnum. Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort það væri ekki ætlunin að halda þessari umræðu síðan áfram eftir að hæstv. utanrrh. hefur lokið sjónvarpsviðtali sínu. ( Forseti: Það hafði forseti hugsað sér.)