Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 10:48:00 (1666)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Til þess að unnt verði að standa við áform ríkisstjórnarinnar hvað snertir útgjöld ríkissjóðs á næsta ári er nauðsynlegt að breyta nokkrum lögum. Rétt þótti að safna þeim brtt. saman í eitt frv. til þess að leggja á það áherslu að öll tengjast þau stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda og viðleitni hennar til þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Verði frv. að lögum felur það í sér að útgjöld ríkissjóðs verða 1,9 milljörðum kr. lægri á næsta ári en ella yrði. Frv. þetta nær þó ekki til allra þeirra laga er breyta þarf til að markmið fjárlagafrv. nái fram að ganga. Sumar lagabreytingar eru það viðamiklar að þær kalla á meiri háttar endurskoðun gildandi laga. Það hafa því ekki verið efni til að leggja þau frumvörp öll fram nú heldur munu þau verða lögð fram hvert af öðru eftir því sem undirbúningur þeirra vinnst. Í heild er talið að með þeim lagabreytingum verði unnt að spara nær 2 milljarða kr. til viðbótar.
    Í þessari framsöguræðu mun ég fyrst fara nokkrum orðum almennt um stöðu efnahagsmála, þá víkja að nokkrum atriðum öðrum er tengjast afgreiðslu fjárlaga og almennum aðgerðum til að bregðast við þeim vanda sem við er að etja. Því næst verða helstu markmið frv. skýrð og loks mun ég greina frá helstu efnisatriðum þess.
    Erfið staða efnahagsmála nú um stundir gerir markmið ríkisstjórnarinnar jafnvel enn mikilvægari en í haust þegar menn vonuðust m.a. eftir því að til framkvæmda vegna álvers kæmi á næsta ári. Er nú talið að frestun álversframkvæmda og frekari rýrnun viðskiptakjara en áður var ætlað muni rýra fjárhag ríkissjóðs um 1 1 / 2 milljarð kr. umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Þessum vanda mun ríkisstjórnin mæta með enn frekari samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir.
    Þjóðhagsstofnun hefur nýlega endurskoðað helstu þjóðhagsstærðir ársins 1991 og horfur fyrir árið 1992. Meginniðurstöður fyrir árið 1991 eru eftirfarandi:
    Landsframleiðsla eykst um 1,1% en þjóðartekjur aukast um 1,8%. Þessi hagvöxtur er eingöngu vegna mikillar aukningar einkaneyslu. Viðskiptahallinn er áætlaður rúmlega 18 milljarðar kr. eða 4,9% af landsframleiðslu.
    Meginniðurstöður fyrir árið 1992 eru eftirfarandi:
    Landsframleiðsla dregst saman um 3,6% og þjóðartekjur minnka um 5,7%. Viðskiptahalli verður nær 16 milljarðar kr. eða 4,2% af landsframleiðslu. Atvinnuleysi verður 2,6% af vinnuafli samanborið við 1,4% árið 1991.
    Í þessari spá, sem ég var að rekja, er gert ráð fyrir heldur meiri fjárlagahalla en er í fjárlagafrv. vegna minni tekna og meiri útgjalda. En eins og ég gat um er nú unnið að undirbúningi ákvarðana í því skyni að halli á fjárlögum verði ekki meiri en miðað var við í fjárlagafrv.
    Helstu óvissuþættir spárinnar eru þessir:
    Frávik í útflutningsspá gætu frekar orðið til lækkunar en hækkunar. Þetta á m.a. við um verðlag á sjávarafurðum. Endanleg afgreiðsla fjárlaga skiptir afar miklu máli. Miðað

við fjögurra milljarða kr. halla á fjárlögum næsta árs verður halli á utanríkisviðskiptum minni en spá Þjóðhagsstofnunar segir til um. Spáin um atvinnuleysi er óviss þar sem viðbrögð í einstökum greinum eða fyrirtækjum við breyttum aðstæðum geta haft veruleg áhrif. Einnig getur niðurstaða kjarasamninga haft áhrif á atvinnuástand.
    Spá Þjóðhagsstofnunar sýnir í almennum dráttum þá mynd af efnahagshorfum sem líta verður á við mörkun efnahagsstefnunnar.
    Hinn mikli halli á utanríkisviðskiptum er stærsta vandamálið sem við er að glíma í efnahagsmálum. Þessi halli stafar öðru fremur af of miklum útgjöldum, einkum neysluútgjöldum, miðað við útflutningstekjumöguleika þjóðarinnar. Þar sem ekki eru neinar horfur á umtalsverðri aukningu útflutningstekna á næstu árum er ekki hægt að rekja hallann til tímabundinna aðstæðna. Samdráttur útflutningstekna og almennur samdráttur í þjóðarbúskapnum kemur fram í margháttuðum vanda í flestum atvinnugreinum og í einstökum fyrirtækjum. Þessi vandi er augljós í sjávarútvegi en hann er alls ekki bundinn við þá atvinnugrein eingöngu. Þess vegna þarf að horfa á allan þjóðarbúskapinn þegar þessi mál eru rædd. Áhrif af samdrættinum birtast í atvinnuástandi í einstökum byggðarlögum en þau eru mismunandi eftir því hvernig fjárhagsstaða einstakra fyrirtækja er.
    Við mörkun efnahagsstefnu hafa stjórnvöld oft sett fram of mörg markmið sem síðan vilja stangast á. Við núverandi aðstæður þarf að leggja höfuðáherslu á eftirfarandi markmið:
    Að draga enn úr verðbólgu þannig að hún verði til frambúðar minni en í helstu viðskiptalöndum. Lág verðbólga er veigamesta forsenda þess að skapa smám saman forsendur fyrir vexti í sem flestum atvinnugreinum.
    Að draga úr viðskiptahalla. Langvarandi mikill viðskiptahalli grefur undan efnahagslegum stöðugleika og þrengir stöðugt svigrúm til efnahagslegra framfara.
    Helstu viðfangsefni í efnahagsmálum eru að einbeita sér að því að ná ofan ofangreindum markmiðum.
    Öflugasta tækið til að viðhalda sem minnstri verðbólgu er stöðugt gengi krónunnar. Viðfangsefnið er því að treysta gengið í sessi og gera það trúverðugt. Stöðugleiki í gengismálum verður áfram einn af hornsteinum í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er eini raunhæfi grundvöllurinn sem á verður byggt í stjórn efnahagsmála hér á landi á komandi árum. Með stöðugleika í gengismálum eru jafnframt skapaðar forsendur fyrir því að launþegar og atvinnurekendur geti gert kjarasamninga sem treysta stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Raungengi er um þessar mundir nálægt meðallagi síðustu tveggja áratuga. Það er lægra en á árunum 1987--1989 en hærra en það var á árunum 1982--1986. Ekki er því tilefni til gengisbreytinga með vísan til hás raungengis.
    Draga verður úr viðskiptahalla með því að minnka þjóðarútgjöld, einkum neysluútgjöld. Hér þarf bæði að halda opinberum útgjöldum í skefjum og auka almennan sparnað.
    Á vettvangi ríkisstjórnarinnar eru brýnustu úrlausnarefnin þessi: Halli á fjárlögum má alls ekki verða meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., 4 milljarðar kr. Styrkja þarf stjórn peningamála þannig að hún verði öflugra tæki til að styðja við stöðugleika í gengi. Setja þarf peningastefnunni skýr markmið. Engar aðgerðir geta leyst stjórnvöld undan þeirri meginskyldu sinni að beita hagstjórn, ríkisfjármálum og peningamálum á sem öflugastan hátt til að ná fram settum markmiðum. Hagstjórnin verður að styðja gengisstefnuna í því skyni að viðhalda stöðugleika í verðlagsmálum.
    Hagvöxtur á Íslandi hefur fyrst og fremst byggst á því að nýta auðlindir, sjávarafla og orku. Á allra næstu árum getum við ekki treyst á nýtingu þessara auðlinda til að tryggja sambærilegan hagvöxt og í nálægum löndum þótt vonandi rætist úr þegar lengra

líður. Því þarf að leggja grundvöll að hagvexti og bættum lífskjörum með nokkuð öðrum hætti en áður: Skapa verður skilyrði hagvaxtar í öllum greinum atvinnulífsins, á öllum vígstöðvum, en ekki einblína á einstakar greinar.
    Eins og áður sagði er stöðugleiki og lág verðbólga mikilvægasta forsenda þess að koma hagvexti í gang á ný. Einnig þarf að gera ýmsar skipulagsbreytingar á efnahagskerfinu sem stuðla að traustari hagstjórn og aukinni samkeppni. Þátttaka Íslendinga í Evrópska efnahagssvæðinu er mikilvægt tilefni til að gera þessar breytingar auk þess sem aðildin að EES getur skapað íslensku atvinnulífi ný tækifæri, tækifæri til að snúa vörn í sókn.
    Skattlagning atvinnurekstrar hefur mikil áhrif á samkeppnisstöðuna gagnvart erlendum keppinautum. Ríkisstjórnin hefur þegar lýst því yfir að skattlagning fyrirtækja verði samræmd því sem gerist með samkeppnisþjóðum. Hins vegar er ekki nóg að lýsa því yfir að tilteknir skattar verði afnumdir eða lækkaðir þótt það væri e.t.v. auðveldasta leiðin í bráð. Breytingar af þessu tagi verður að undirbúa vel. Við núverandi aðstæður í opinberum fjármálum, bæði ríkis og sveitarfélaga, mundi lækkun skatta að öðru óbreyttu kollvarpa því markmiði að draga úr viðskiptahalla, halda verðbólgu í skefjum og stuðla að lækkun vaxta. Skattbreytingar þarf því að undirbúa þannig að þær raski ekki mikilvægustu markmiðunum í efnahagsmálum. Þegar þessum undirbúningi er lokið verða ákvarðanir kynntar og mun þá liggja fyrir hvernig skattlagningu atvinnurekstrar verður hagað til frambúðar.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir þeirri stöðu sem blasir við í efnahagsmálum og hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við í þeirri stöðu. Það er afskaplega mikilvægt að halda ákveðinni rósemi og rasa ekki um ráð fram hvað viðvíkur þeim aðgerðum sem grípa verður til. Því hefur t.d. verið haldið fram að á tímum sem þessum beri ríkinu að auka útgjöldin, auka halla ríkissjóðs og blása þannig nýju lífi í atvinnureksturinn með aukinni eyðslu. En við verðum að gera okkur ljóst að slíkar ráðstafanir mundu fljótlega leiða til aukins halla á viðskiptajöfnuði við útlönd og þar með hafa í för með sér stóraukna skuldasöfnun. Erlendar skuldir þjóðarinnar eru nú þegar of miklar og verulega hefur þrengst að erlendum lántökumöguleikum. Þessi leið er því ekki fær.
    Forustumenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að gripið verði til gamalkunnra ráðstafana af framangreindu tagi en það er alveg ljóst með tilliti til reynslunnar hverjar afleiðingarnar yrðu. Þeir vilja stórhækka skatta og aðrar álögur á almenning. Þeir vilja grípa til stóraukinnar erlendrar lántöku eins og áður sagði. Þeir vilja veita fjármunum á báða bóga í fyrirtækin án tillits til þess hvernig staðið er að rekstrinum. Umfram allt vilja þeir að skömmtunarvaldið sé hjá sér í því skyni öðru fremur að hygla sér og sínum. Við erum nú að súpa seyðið af þessari stefnu vegna þess að framsóknarmenn fengu tækifæri á síðasta kjörtímabili til að fara með þjóðina á óvænt stefnumót við fortíðina. Þeir fengu tækifæri til að reyna gömlu kreppuúrræðin sín en þau dugðu ekki. Afleiðingin er sú að við höfum miklu minna svigrúm en ella væri til að bregðast við þeim erfiðleikum þjóðarbúsins sem ég lýsti hér að framan. Það voru tekin erlend lán til að fjármagna þá óráðsíu alla en endurgreiðslan mun að verulegu leyti lenda á skattgreiðendum framtíðarinnar. Ríkissjóður var auk þess rekinn með gífurlegum halla svo ekki sé minnst á sjóðakerfið.
    Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að úttekt á þessum vanda og þegar er komið í ljós að heimatilbúinn efnahagsvandi framsóknaráranna er víðfeðmari og djúpstæðari en nokkurn óraði fyrir. Þetta verk er nauðsynlegt. Þegar því lýkur geta menn betur séð og gert sér grein fyrir heildarmyndinni og brugðist rétt við vandanum. Á framsóknarárunum var þagað yfir upplýsingum af þessu tagi og forustumenn Framsfl. kveinka sér mjög undan því að athyglinni sé beint að viðskilnaði þeirra. En þeir skulu þurfa að horfa framan í afleiðingar eigin verka. Fortíðarvandi framsóknaráranna verður okkur víti til varnaðar. Þegar fyrrv. forsrh., fyrrv. sjútvrh. og fyrrv. fjmrh. tala um aðgerðaleysi núv. ríkisstjórnar skulu menn íhuga hvað það er sem þeir biðja um. Þeir vilja komast á nýtt stefnumót við fortíðina, efna til annarrar veislu á kostnað framtíðarinnar þar sem þeir bjóða mönnum til sætis og útvega veisluföngin á kostnað afkomenda okkar. En ég segi við þá: Slíkar aðgerðir eru verri en engar aðgerðir.
    Virðulegi forseti. Auk þeirra almennu aðgerða sem ríkisstjórnin grípur til og ég greindi frá í upphafi ræðu minnar hefur ríkisstjórnin hugað að úrbótum í einstökum atvinnugreinum og fjárhagslegri endurskipulagningu atvinnulífsins. Atvinnulífið gengur nú á mörgum sviðum í gegnum mikið breytingaskeið og erfiðleika við að laga sig að breyttum aðstæðum. Fjölgun frystitogara hlýtur t.d. að hafa áhrif á rekstrarskilyrði frystihúsa og þau eru að bregaðst við því um þessar undir með sameiningu í stærri og styrkari heildir. Vegna þessa og áhrifa nýgerðra samninga um Evrópska efnahagssvæðið er brýn þörf á nýju og sérstöku átaki í fiskiðnaði landsmanna sem byggist á því að gera framleiðsluna fjölbreyttari og koma henni í hærri verð- og gæðaflokka. Þannig má auka þann virðisauka sem skapaður er hérlendis. Beina þarf fjármagni Fiskveiðasjóðs frá skipakaupum að þessu verkefni. Einnig þarf að fara vandlega yfir þá möguleika sem í sjávarútvegi gefast með samningi um Evrópskt efnahagssvæði og kynna þá sérstaklega til að efla atvinnu og nýsköpun.
    Aflasamdráttur síðustu missira hefur ekki aðeins komið niður á sjávarútveginum heldur hefur hann einnig valdið samdrætti í iðnaði og þjónustu sem tengist sjávarútveginum, t.d. málm- og skipaiðnaði. Nýsmíðar skipa innan lands hafa stöðvast og stærri verkefni við breytingar skipa eru í lágmarki. Forustumönnum í íslenskum málm- og skipaiðnaði þykir sárt að sjá á eftir verkefnum til erlendra keppinauta og það jafnvel án þess að íslenskum aðilum sé gefinn kostur á að bjóða í verkin. Því hefur verið lagt til að nú þegar verði útlánareglum Fiskveiðasjóðs breytt á þann veg að opin útboð verði gerð að skilyrði fyrir lánum til meiri háttar nýsmíða eða breytinga á fiskiskipum og fiskvinnslufyrirtækjum. Í þessu sambandi kemur einnig til álita að settar verði skýrar leikreglur um það hvernig staðið skuli að útboðum og íslenskur málm- og skipaiðnaður fái aðild að stefnumörkun í málefnum sjávarútvegsins. Þá hefur einnig verið lögð áhersla á að lánareglum Fisveiðasjóðs verði breytt þannig að lánshlutfall til nýsmíði erlendis verði lækkað verulega frá því sem nú er.
    Fyrir Alþingi liggur nú frv. til laga um að heimila erlendum veiðiskipum að leita hér hafnar til að fá þjónustu og vistir. Það er mikilvægt skref til að styrkja málm- og skipaiðnað í landinu. Nauðsynlegt er að efla markaðssókn í því sambandi.
    Afkoma fyrirtækja í sjávarútvegi verður væntanlega um þremur milljörðum kr. lakari á næsta ári en í ár vegna aflasamdráttar. Erfiðleikar í sjávarútvegi eiga öðru fremur rætur sínar að rekja til tveggja ástæðna. Annars vegar er um að ræða tekjuskiptingarvandamál milli útgerðar og fiskvinnslu í landi. Hins vegar fjárfestingu í sjávarútvegi, fjölda veiðiskipa og vinnslustöðva sem miðast miklu meiri afla en nemur afrakstursgetu íslenskra fiskimiða nú og í næstu framtíð.
    Aðgerðir stjórnvalda verða að taka mið af þessum orsökum. Annars vegar verða aðgerðirnar að miðast við að jafna afkomumöguleika í veiðum og vinnslu, m.a. með eflingu fiskmarkaða og aðgerðum til þess að bæta samkeppnisstöðu fiskvinnslu í landi miðað við útflutning á óunnum fiski og fiskvinnslu á hafi úti. Hins vegar verða allar aðgerðir stjórnvalda til skamms tíma, t.d. hugsanlegar lánalengingar eða frestun á afborgunum lána, að taka mið af því að þær torveldi ekki óhjákvæmilega hagræðingu í sjávarútvegi þar sem atvinnugreinin lagar sig að afkastagetu fiskimiðanna með því að fækka fiskiskipum og vinnslustöðvum.

    Þá verða greiðslur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins felldar niður frá næstu áramótum samkvæmt frv. sem sjútvrh. hefur mælt fyrir. Skuldbreytingar þær sem gripið verður til verða að vera almennar og ekki bundnar eingöngu við atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar. Þá er nú til athugunar að Landsbanka Íslands verði afhentar kröfur atvinnutryggingardeildar að verulegum hluta til eignar og verða væntanlega í sérstakri deild innan bankans. Slík ráðstöfun mun breyta eiginfjárstöðu Landsbankans strax og þegar fram í sækir greiðslustöðu hans jafnframt. Mikilvægt er að þessi öflugasti þjónustubanki atvinnulífsins sé sem best í stakk búinn til að veita atvinnulífinu nauðsynlega og eðlilega þjónustu.
    Rétt er að geta þess að ríkisstjórnin mun leggja fram tillögur til breytinga á lögum um ónýtt skattatap sem fela munu í sér að slíkt tap afskrifast á 5--7 árum, jafnframt því sem ríkari kröfur verða gerðar til þess að færsla á slíku tapi á milli fyrirtækja eigi sér eingöngu stað ef um raunverulegan samruna fyrirtækja er að ræða.
    Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórnin kom til valda fyrr á þessu ári blasti við mikill vandi í ríkisfjármálum. Þá þegar var ljóst að halli á ríkissjóði yrði mun meiri en fjárlög höfðu gert ráð fyrir. Fyrstu drög að fjárlögum fyrir næsta ár sýndu og að halli mundi aukast enn yrði ekkert að gert. Allir sjá hvaða afleiðingar slíkt hefði í för með sér fyrir raunvaxtastigið og þar með á hag launþega og atvinnufyrirtækja. Ríkisstjórnin átti um tvo kosti að ræða, þ.e. annars vegar að grípa til þeirra ráðstafana sem stjórnarandstaðan hefur mælt með og hækka skatta eða hins vegar að lækka ríkisútgjöld. Ríkisstjórnin valdi seinni kostinn þar eð hún telur skattbyrði almennings of mikla, auk þess sem aukin skattbyrði á samdráttartímum þrengir enn frekar að heimilunum og atvinnulífinu í landinu.
    Ríkisstjórnin hefur af þessum sökum lagt út í meiri sparnaðaraðgerðir en nokkur önnur ríkisstjórn hefur gert á undan henni. Hún hefur lagst út á alveg nýja braut og tekist á hendur vandasamara viðfangsefni en nokkur önnur ríkisstjórn. Þetta kemur fram í því að ríkisútgjöldum er ætlað að vera um 2 milljörðum kr. lægri að krónutölu í frv. til fjárlaga 1992 en þau eru áætluð 1991. Þetta jafngildir um 6,5 milljörðum kr. eða 6% lækkun á útgjöldum ríkissjóðs að raungildi frá fjárlögum og fjáraukalögum 1991 til fjárlagafrv. 1992.
    Í fjárlagafrv. hafa þegar verið kynntar hugmyndir um margvíslegan sparnað í ríkiskerfinu. Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa síðan frv. var lagt fram verður nauðsynlegt að grípa til enn frekari ráðstafana á því sviði. Þær aðgerðir verða nánar kynntar við 2. og 3. umr. fjárlaga. Í því sambandi má geta þess að sparnaður í rekstri ríkisins verður aukinn. Allar nýráðningar verða stöðvaðar. Forsendur frv. gera ráð fyrir að starfsmönnum ríkisins fækki um 600. Yfirvinna verður skorin niður. Risna og kostnaður vegna utanlandsferða verða skorin niður og aukið aðhald haft með ákvörðunum um slíka þætti jafnt á vegum ráðuneyta sem stofnana. Ákveðið hefur verið að herða stórlega eftirlit með ferðakostnaði ríkisins með því m.a. að skikka ríkisstofnanir til þess að skila mánaðarlega skýrslum til viðkomandi ráðuneytis með upplýsingum um fjölda ferða og kostnað. Fjmrn. mun síðan með reglubundnum hætti draga saman heildaryfirlit yfir þennan lið og kynna í ríkisstjórn. Loks hefur verið tekin ákvörðun um að bjóða kaup ríkisins á farseðlum út hjá ferðaskrifstofum með það fyrir augum að lækka fargjaldakostnað. Dagpeningagreiðslur í utanferðum ráðherra, alþingismanna og embættismanna verða lækkaðar. Reglum um ráðherrabifreiðar verður breytt þannig að tryggt verði að ráðherrar greiði skatt af einkaafnotum slíkra bifreiða. Aðkeypt sérfræðiþjónusta verður skorin niður svo og sérstakt ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar, svo nokkurra atriða sé getið.
    Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála mun einkavæðing á starfsemi hins opinbera verða þýðingarmikill þáttur í stefnu núv. ríkisstjórnar. Sérstök ráðherranefnd, forsrh., iðn.- og viðskrh. og fjmrh. mun hafa yfirumsjón með henni. Ráðherranefndin mun skýra frá tillögum um heildaráætlun einkavæðingar í upphafi næsta árs. Undirbúin verður sala á hlut ríkisins í Ferðaskrifstofu Íslands, Bifreiðaskoðun Íslands, Endurvinnslunni hf., Gutenberg hf. og Sementsverksmiðjunni. Búnaðarbanka Íslands verður breytt í hlutafélag í upphafi næsta árs og hafin sala á hlut ríkisins í honum. Framkvæmdanefnd einkavæðingar verður skipuð fulltrúum forsrn., iðn.- og viðskrn., fjmrn. og viðkomandi fagráðuneytis auk þess sem 2--3 starfsmenn fjmrn. munu annast ýmsa undirbúningsvinnu við framkvæmd einkavæðingar.
    Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í upphafi er tilgangur þessa frv. að tryggja framgang helstu markmiða fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Lýtur það fyrst og fremst að því að heildarútgjöld ríkissjóðs dragist saman eins og hér hefur verið lýst og að halli ríkissjóðs minnki úr 10 milljörðum kr. í ár niður fyrir 4 milljarða kr. á næsta ári. Hrein lánsfjárþörf ríkissjóðs ætti þannig að geta minnkað úr um 13 1 / 2 milljarði kr. í ár niður fyrir 4 milljarða kr. á næsta ári. Þetta er langmikilvægasta aðgerðin á sviði efnahagsmála. Það getur ekkert komið í staðinn fyrir þá ákvörðun að halda útgjöldum innan þeirra marka sem ríkisstjórnin hefur einsett sér. Þetta er mikilvægasta forsenda þess að raunvextir geti lækkað. Menn geta talað um það að lækka þurfi vextina eins og fyrrv. forsrh. gerir í sífellu en hér er með raunhæfum hætti verið að stuðla að því að svigrúm skapist fyrir almennri vaxtalækkun. Hinn mikli halli ríkissjóðs stendur nú öðrum þáttum þjóðarbúsins fyrir þrifum. Miklar lántökur ríkissjóðs á innlendum markaði spenna upp vextina og það kemur niður á atvinnuvegunum og heimilunum. Það fjármagn sem ríkið tekur þannig til sín er ekki til ráðstöfunar í atvinnulífinu og takmarkar því umfang þess.
    Nafnvextir víxla og óverðtryggðra skuldabréfa hafa lækkað nokkuð sl. þrjá mánuði eða að meðaltali úr 21,6% í 17,5%. Verðbólga hefur þó lækkað enn meira. Ríkisstjórnin mun fylgja því fast eftir að þessir vextir lækki mjög ört á næstunni, enda er ljóst að slíkt er forsenda þess að kjarasamningar geti tekist. Raunvextir hér á landi eru um þessar mundir hærri en algengt er í nágrannaríkjum. Þar sem nú virðist ljóst að fjmrh. og ríkisstjórnin munu ná markmiðum sínum um lækkun ríkisútgjalda og að draga verulega úr lánsfjárþörf hins opinbera mun skapa skilyrði þess að í upphafi næsta fjárlagaárs verði unnt að lækka raunvexti á þeim pappírum sem ríkissjóður hefur upp á að bjóða hverju sinni. Sú aðgerð nær þó aðeins fram ef jafnvægi ríkir og ljóst sé að samstaða skapist um það í íslensku þjóðfélagi að tryggja að verðlag sé stöðugt og verðbólga lægri en í nálægum löndum. Auk jafnvægis í ríkisfjármálum er frekari opnun íslenska fjármagnsmarkaðarins mikilvæg forsenda fyrir lækkun raunvaxta í framtíðinni. Því er afar mikilvægt að áform þar að lútandi í frumvörpum um viðskiptabanka, Seðlabanka og um gjaldeyrisviðskipti hljóti stuðning þingsins.
    Með ráðstöfunum sínum í ríkisfjármálum, sem birtast í framlögðu frv., er leitast við að draga úr hinum geigvænlega halla sem stefndi í hjá ríkissjóði. Þessu verður ekki náð án þess að tekið sé á stærstu útgjaldapóstum ríkisins. Heilbr.- og tryggingamál vega þar þyngst en þau krefjast um 40% ríkisútgjalda.
    Helstu aðgerðir sem hrundið hefur verið af stað eða áformaðar eru til aðhalds í þessum málaflokki eru:
    Lækkun lyfjakostnaðar. Á sl. sumri var breytt ákvæðum um hlutdeild almennings í lyfjakostnaði o.fl. Að flestra dómi var lyfjakostnaður landsmanna óhóflegur. Árangur aðgerðanna hefur verið verulegur. Stórlega hefur dregið úr útgjöldum þjóðarinnar á þessu sviði. Með hinum breyttu reglum hefur tekist að glæða kostnaðarvitund almennings og heilbrigðisstarfsmanna þannig að dregið hefur úr lyfjakaupum og í auknum mæli er neytt ódýrra lyfja í stað dýrra þar sem þau ódýru koma að sama gagni. Árangurinn verður endurmetinn nú þegar hálfs árs reynsla er fengin og frekari ráðstafanir undirbúnar til að ná fram þeim sparnaði í lyfjaútgjöldum sem að er stefnt í fjárlagafrv. Ráðstafanirnar munu einkum beinast að því að lækka kostnað við innkaup og að frjálsari reglum við dreifingu lyfja. Breytt verður reglum um greiðsluþátttöku almennings þannig að í stað fastagjalds fyrir lyf komi hlutdeildarkostnaður sjúklings upp að vissu marki.
    Hafnar eru viðræður um samruna tveggja sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu og verkaskiptingu sjúkrahúsanna allra. Línur eru að skýrast í þeim málum og þess er vænst að fram komi raunhæfar tillögur nú alveg á næstunni. Að dómi flestra innlendra sem erlendra sérfræðinga er óhagkvæmt að reka fjögur sjúkrahús með bráðavakt á höfuðborgarsvæðinu. Unnt á að vera með bættu skipulagi að ná fram umtalsverðum sparnaði með bættri nýtingu mannafla. Samtímis ætti að vera kleift að bæta um á þeim sviðum þar sem skórinn kreppir en það er ekki hvað síst hvað varðar hjúkrunarvist fyrir aldraða. Að þessu verður einnig unnið með skipulagsbreytingum á landsbyggðarsjúkrahúsum og verður byrjað á því verki á tilteknum sjúkrahúsum nú við afgreiðslu fjárlaga.
    Kostnaður ríkissjóðs vegna tannlækninga barna og aldraðra hefur farið mjög vaxandi. Er það reyndar sá liður opinberra heilbrigðisútgjalda sem einna mest hefur vaxið seinasta aldarfjórðunginn. Frumvarpið um ráðstafanir í ríkisfjármálum tekur á ýmsum þáttum þessara mála. Reglur eru samræmdar og tekin upp almenn kostnaðarhlutdeild sem nemur 10%. Þá verður dregið úr greiðslum ríkissjóðs vegna tannréttinga.
    Á sama hátt og aukin hlutdeild fólks í lyfjakostnaði hefur skapað kostnaðarvitund og þar með dregið úr útgjöldum er stefnt að því að ná fram nokkrum sparnaði fyrir ríkissjóð með því að auka hlutdeild almennings í lækniskostnaði bæði í heilsugæslu og við sérfræðilækningar. Þannig verður um hnúta búið að greiðslugetu verði ekki ofboðið. Sett verður greiðsluhámark á útgjöld hvers og eins og sérstaklega hugað að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum í því sambandi. Öryggisnet þetta verður aukið og bætt frá því sem nú er. Reglugerð um slíkar greiðslur verður kynnt um leið og mælt verður fyrir frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Verður vikið nánar að reglugerðinni á eftir.
    Með ákvæðum í frv. eru opnaðar ýmsar leiðir til sparnaðar í rekstri sjúkrahúsa svo sem heimild til útboða af ýmsu tagi. Þá er stefnt að því að draga úr útgjöldum vegna hjálpartækja svo sem með því að setja staðla um eðlileg útgjöld vegna slíkra tækja. Einnig verður efnt til útboðs á öðrum þáttum heilbrigðisþjónustu svo sem í utanspítalarannsóknum og skólatannlækningum.
    Lög um lífeyristryggingar almannatrygginga verða endurskoðuð og er þess vænst að frv. til laga þar að lútandi verði lagt fram næstu daga. Þar verður bótakerfið einfaldað og dregið úr tekjuskerðingu bóta í þeim tilvikum þar sem hún er óhófleg. Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt í þeim þrengingum sem nú steðja að ríkissjóði að draga úr greiðslum lífeyrisbóta almannatrygginga til þeirra er búa við góð kjör.
    Lagaákvæði um Atvinnuleysistryggingasjóðinn verða tekin til endurskoðunar með það að markmiði að skerpa reglur um rétt til bóta. Verður þetta m.a. gert með breyttri umsjón með úthlutun. Stefnt er að nokkrum sparnaði í þessum málaflokki.
    Allar þessar aðgerðir miða að því að treysta stoðir velferðarkerfisins. Meginmarkmiðið með þeim er að vekja almenning til sameiginlegrar ábyrgðar á varðveislu þeirrar góðu heilbrigðisþjónustu og almannatryggingakerfis sem við njótum. Almenningur verður að veita kostnaðaraðhald, en það er örðugt að kalla það fram án þess að láta hluta kostnaðar við þjónustuna birtast neytendum hennar. Aðgerðir í þessa veru eru ýmist komnar til framkvæmda eða eru í bígerð í öllum helstu velferðarríkjum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku.
    Hvergi verður slakað á því markmiði að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að þeirri

heilbrigðisþjónustu sem frekast er unnt að veita og að enginn þurfi að fara á mis við hana fyrir fátæktar sakir.
    Eins og að framan segir er ein af stærstu ráðstöfununum til að hemja útgjöld ríkisins til heilbrigðismála fólgin í því að auka nokkuð kostnaðarhlutdeild almennings í lækniskostnaði bæði í almennri heilsugæslu og í sérfræðilækningum. Jafnframt er endurskoðað og bætt það öryggisnet sem felst í því að hafa hámark á slíkum útgjöldum. Það hámark er ekki hækkað frá því sem nú er og er í raun lækkað hjá barnafjölskyldum. Jafnframt er útgjaldahámarkið látið taka til fleiri þátta.
    Reglugerð um þessi atriði verður kynnt í dag en helstu atriðin í henni varðandi heilsugæslu eru:
    Tekið verður aftur upp gjald fyrir komu á heilsugæslustöðvar og til heimilislækna, en það hafði verið fellt niður í tilraunaskyni snemma árs 1990. Gjaldið mun nema 600 kr. fyrir hverja heimsókn. Miðað við verðlagshækkanir frá því að gjaldið var síðast ákvarðað er hér um tvöföldun gjaldsins að ræða að raungildi. Aftur á móti mun lífeyrisþegum einungis gert að greiða þriðjung gjalds, eða 200 kr., og er þar beinlínis um raunlækkun þess að ræða frá því gjaldi sem áður tíðkaðist en lífeyrisþegar nutu þá engrar sérstöðu. Hvorki verður tekið gjald fyrir ungbarna- né mæðravernd né heldur fyrir heilsugæslu í skólum. Gjald fyrir vitjanir læknis verða hækkaðar til samræmis en hagur lífeyrisþega bættur í þessu tilliti þar sem tekið verður upp það nýmæli að þeir greiði einungis um þriðjung gjaldsins.
    Gjald fyrir komu til sérfræðings verður 1.500 kr. en það nemur nú 900 kr. Lífeyrisþegar greiða þó aðeins 500 kr. Jafnframt verður gjald fyrir rannsóknir hækkað í 600 kr., en lífeyrisþegar greiða aftur þriðjung, eða 200 kr.
    Samkvæmt núgildandi ákvæðum skal enginn greiða meira fyrir sérfræðilækningar en 12 þús. kr. á hverju almanaksári og 3 þús. kr. sé um lífeyrisþega að ræða. Þessu útgjaldahámarki verður haldið óbreyttu en það jafnframt látið ná til fleiri þátta en verið hefur eða til allra þeirra gjaldaþátta sem nefndir hafa verið bæði í heilsugæslu og hjá sérfræðilæknum. Það er nýmæli að útgjaldahámarkið tekur nú einnig til kostnaðar við rannsóknir og að hluta til heimavitjana. Veigamesta breytingin á útgjaldahámarkinu er fólgin í því að börn sömu fjölskyldu lúta sameiginlegu útgjaldahámarki en samkvæmt fyrri reglum gat fjölskylda orðið fyrir allt að 12 þús. kr. útgjöldum á ári vegna lækniskostnaðar vegna hvers barns í fjölskyldunni. Þar með er verulega aukið tekjutryggingaröryggi barnmargra fjölskyldna.
    Svokallaðar glasafrjóvganir eru að hefjast hér á landi en hingað til hefur fólk sem þurft hefur á þessari aðstoð að halda orðið að leita meðferðar erlendis og hefur greitt allan kostnað sjálft annan en við meðferðina sjálfa sem greidd hefur verið af Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt sérstökum samningi. Ferða- og dvalarkostnaður vegna meðferðarinnar ásamt vinnutapi hefur verið vart undir 500 þús. kr. Aðgerðir þessar eru dýrar en sjúkratryggingar almannatrygginga munu taka verulegan þátt í kostnaðinum auk þess sem dvalar- og ferðakostnaður til útlanda mun hverfa og vinnutap verða minna. Gjald fyrir fyrstu meðferð verður 105 þús. kr. en fyrir tvær næstu 60 þús. kr. Það sem vart er talið að frekari tilraun til frjóvgunar geti skilað árangri munu sjúkratryggingar ekki taka þátt í frekari meðferð en að sjálfsögðu verður hverjum í sjálfsvald sett að leita hennar á eigin kostnað.
    Það var haft að leiðarljósi við undirbúning þessarar reglugerðar að láta þá sem sjaldan þurfa að leita læknis taka aukinn þátt í kostnaði við þjónustuna. Jafnframt er treyst það öryggisnet sem felst í einstaklingsbundnu útgjaldahámarki þannig að þeir sem hafa brostna heilsu verði ekki fyrir verulegum skakkaföllum. Þá er leitast við að fyrirbyggja að barnafjölskyldur verði fyrir miklum útgjöldum með þeirri stórauknu tryggingu sem felst í sameiginlegu útgjaldahámarki allra barna innan sömu fjölskyldu. Enn fremur er sérstaklega hugað að hag lífeyrisþega og gjöld sumpart lækkuð hvað þá varðar.
    Vissulega geta komið upp sértilvik þar sem óréttmætt er að fólk greiði fyrir sérhverja komu til heilsugæslustöðva, t.d. þegar sama meinsemdin kallar á tíðar endurkomur. Gefnar verða út sérstakar leiðbeiningar í samvinnu við starfsfólk heilsugæslustöðvanna um framkvæmd reglugerðarinnar hvað þetta varðar.
    Þessi aukna kostnaðarhlutdeild í lækniskostnaði hefur þann tvíþætta tilgang að hvetja til nokkurs aðhalds varðandi þessa þjónustu og spara með þjóðinni hugsanleg óþörf útgjöld en jafnframt að draga nokkuð úr útgjöldum ríkissjóðs í þeirri erfiðu stöðu sem hann býr nú við. Hér er þó engan veginn verið að velta nema broti af heilbrigðisútgjöldunum yfir á neytendur þjónustunnar. Áætlað er að umrædd gjaldtaka lækki útgjöld ríkissjóðs um ríflega 500 millj. kr. Þá upphæð verður að skoða í ljósi þess að heildarútgjöld ríkisins til heilbrigðismála nema nú vel á þriðja tug milljarða kr. á ári. Bein kostnaðarhlutdeild vex því aðeins um 2%. Hér eftir sem hingað til verður langstærsti hluti heilbrigðismála kostaður af landsmönnum sameiginlega með fjárveitingum úr ríkissjóði.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú fara nokkrum orðum um helstu efnisatriði þess frv. sem hér er til umræðu.
    Í 1., 2. og 3. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingum á nokkrum ákvæðum laga nr. 49/1991, um grunnskóla. Má þar nefna frestun á tilteknum útgjaldaþáttum, t.d. að því er snertir lengingu kennslutímans, fækkun nemenda í bekkjum, ráðningu námsráðgjafa og einsetningu í skóla, svo nokkuð sé nefnt.
    Í 4. gr. er kveðið á um breytingu á jarðræktarlögum, nr. 56/1987, sem felur í sér nánari skýringu á 10. gr. þeirra laga varðandi rétt bænda til framlaga vegna framræslu og túnræktar. Er markmið þessarar breytingar að taka af allan vafa um það að framlög, sem ákveðin eru á fjárlögum hverju sinni, takmarki greiðsluskyldu ríkissjóðs til þessa viðfangsefnis.
    Í 5. gr. er ákvæði um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Þar er lagt til að veiðieftirlitsgjald, sem veiðileyfishafar greiða, standi undir öllum kostnaði af rekstri Veiðieftirlits sjútvrn. í stað helmings þess kostnaðar eins og nú er. Þetta er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að atvinnuvegirnir beri í ríkari mæli en nú er kostnað af þjónustu sem fram fer í þeirra þágu. Ásamt frv. til fjárlaga ársins 1992 er gert ráð fyrir að innheimta 80,7 millj. kr. í veiðieftirlitsgjald í stað 40,4 millj. kr. að óbreyttum lögum.
    Í 6., 7. og 8. gr. frv. er kveðið á um breytingu á lögum nr. 80/1987, um kosningar til Alþingis. Þær breytingar fela í sér að verulega verði dregið úr auglýsingakostnaði vegna alþingiskosninga.
    Í 9. og 10. gr. frv. eru ákvæði um sérstakan ábyrgðasjóð vegna gjaldþrota en verkefni hans verður að standa undir ábyrgð á vinnulaunakröfu sem launþegi á hjá vinnuveitanda við gjaldþrot. Sjóður þessi verður fjármagnaður af gjaldi sem allir atvinnurekendur, einnig ríki og sveitarfélög, greiði á sama hátt og tryggingagjald. Umfang sjóðsins og ábyrgð er hann veitir verða skilgreind í frv. til laga um réttindi launþega við gjaldþrot er lagt verður fyrir Alþingi á næstunni. Fyrirkomulagið er eins og algengast er í nágrannalöndum okkar, þ.e. að slík launatrygging sé greidd með skylduframlögum atvinnurekenda.
    Samkvæmt áætlunum sem lagðar eru til grundvallar í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er gjaldstofninn sem lagt er til að miðað verði við 187 milljarðar kr. og skiptist þannig: Ríki 36,5 milljarðar kr., sveitarfélög 11,5 milljarðar kr., aðrir atvinnurekendur 139 milljarðar kr.
    Ef gjaldstofninn væri fullnýttur árið 1992 mundi gjaldið verða þannig: Ríki 73 millj.

kr., sveitarfélög 23 millj. kr., aðrir atvinnurekendur 278 millj. kr., samtals 378 millj. kr.
    Þótt hér sé lagt til að komið verði á fót sérstökum sjóði til að standa straum af þessum kostnaði er engu að síður gert ráð fyrir því að ákvæði um réttindi launþega við gjaldþrot verði þrengd. Það verði einkum gert með eftirgreindum breytingum: Felld verði niður ábyrgð á kröfum lífeyrissjóða, ábyrgðin miðist við almenna vexti í stað dráttarvaxta, þak verði sett á greiðslur til lögmanna og heildargreiðslur til hvers launþega og tíminn sem ábyrgðin nær til styttur. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að í samvinnu við dómsmrn. og viðskrn. verði unnið að öðrum lagabreytingum til að draga úr hættu á að stjórnendur og eigendur fyrirtækja komist undan ábyrgð við gjaldþrot.
    Hér er valinn annar þeirra tveggja kosta sem getið er í fjárlagafrv. til að stemma stigu við síauknum útgjöldum ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot. Hinn kosturinn var óbreytt fyrirkomulag í fjármögnun, þ.e. að ríkissjóður stæði einn undir útgjöldum vegna ríkisábyrgðar á launum við gjaldþrot en ábyrgðin yrði þrengd verulega frá því sem nú er og áætluð útgjöld ríkissjóðs 100 millj. kr. á fjárlögum næsta árs.
    Við meðferð málsins í nefnd verður lögð fram tillaga að nýrri málsgrein, sem bætist við 10. gr. frv., svohljóðandi:
    Ráðherra setur reglugerð um það hvaða vinnulaunakröfur, sem viðurkenndar hafa verið sem forgangskröfur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum, njóti ábyrgðar.
    Reglugerðin skal sett að fengnum tillögum stjórnar ábyrgðasjóðs. Með henni skal tryggt að launþegar njóti a.m.k. bóta vegna:
    a) vinnulaunakröfu fyrir síðustu þrjá starfsmánuði,
    b) orlofslauna sem áttu að koma til útborgunar á síðustu þremur starfsmánuðum,
    c) riftunar eða uppsagnar vinnusamnings enda liggi fyrir vottorð viðkomandi vinnumiðlunar.
    Skorti ábyrgðasjóð reiðufé til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum og reglugerð skal stjórn sjóðsins þegar í stað tilkynna það ráðherra. Ríkissjóður skal útvega það fé er sjóðinn vantar og skal það gert með láni, allt eftir nánari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni. Lánið skal endurgreitt með álagningu sérstaks aukagjalds á næsta almanaksári.
     Jafnframt þessum brtt. mun nefndin taka til athugunar þær ábendingar og þá gagnrýni sem fram hefur komið að undanförnu frá forustumönnum launþega.
    Í 11. gr. frv. er ákvæði um breytingu á lögum nr. 41/1983, um málefni fatlaðra. Á þeim tíma sem liðinn er frá setningu þeirra laga hefur orðið talsvert mikil uppbygging stofnana og heimila fatlaðra og er nú komið að því að fjármagn vantar til viðhalds vegna þess að sá þáttur hefur verið vanræktur á undanförnum árum. Í frv. er því lagt til að heimilt verði að verja allt að þriðjungi af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs fatlaðra til meiri háttar viðhalds á byggingum stofnana og heimila fatlaðra. Jafnframt er í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 fallið frá hugmyndum um skerðingu á ráðstöfunarfé sjóðsins. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er fjárveiting til sjóðsins 320 millj. kr.
    Í 12., 13. og 14. gr. frv. er kveðið á um breytingar á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, með síðari breytingum. Þessar breytingar fela í sér að sveitarfélög leggi fram sérstakt óafturkræft framlag sem nemi 3,5% af kostnaðarverði eða kaupverði hverrar félagslegrar íbúðar í sveitarfélaginu. Bygging félagslegra íbúða er hagsmunamál sveitarfélaganna og því þykir eðlilegt að þau leggi fram fjárhæð sem samsvarar gatnagerðargjaldi af íbúð í fjölbýlishúsi.
    Þá er einnig lagt til að lán til félagslegra íbúða nemi aldrei hærri fjárhæð en 90% af þeim kostnaðargrundvelli að lánveitingu sem húsnæðismálastjórn hefur samþykkt, að frádregnum 3,5% sérstöku framlagi sveitarfélaga til hverrar félagslegrar íbúðar, sbr. 2. mgr.

58. gr. Þetta mun í raun leiða til lækkunar á kostnaðarverði íbúðanna og þar með minni greiðslubyrði íbúðarkaupenda.
    Loks er lagt til varðandi húsnæðismálin að almennum lánveitingum til einstaklinga úr Byggingarsjóði ríkisins verði hætt um næstu áramót, en nái ekki til 1. mars 1994 eins og lög 47/1991 gera ráð fyrir. Það verði gert með því að þeir einir fái lán úr Byggingarsjóði ríkisins sem þegar hafa fengið lánsloforð. Þeir sem aðeins hafa fengið svar almenns eðlis fá ekki almenn lán úr sjóðnum. Útreikningar hafa sýnt að það mundi kosta Byggingarsjóð ríkisins um 12 milljarða kr. að veita þeim 5000 umsækjendum lán sem fengið hafa svör almenns eðlis sem lánsrétt. Lánin þyrfti sjóðurinn að óbreyttu að borga út á næstu þremur árum. Vegna fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og þeirra aðstæðna sem þjóðarbúskapurinn býr nú við er ljóst að halda verður almennum útlánum sjóðsins í algeru lágmarki. Með hliðsjón af öllu framansögðu er það mat ríkisstjórnarinnar að framhald á útlánum úr Byggingarsjóði ríkisins verði að takmarkast við þá sem fengið hafa lánsloforð.
    Í þessu sambandi skal bent á að fólk sem hefur fengið svör um lánsrétt hefur ekki eignast kröfu á hendur Byggingarsjóði ríkisins. Í tilkynningu um lánsrétt er tekið fram að lánsréttur geti breyst eða fallið niður, verði gerð breyting á gildandi lögum. Allir, sem sótt hafa um lán en ekki fengið lánsloforð frá Húsnæðisstofnun, hafa átt kost á að nýta sér fyrirgreiðslu húsbréfadeildar stofnunarinnar. Vextir af almennum lánum Byggingarsjóðs ríksins hafa nú hækkað í 4,9%. Vextir í húsbréfakerfinu eru nú 6% en með vaxtabótum er vaxtakostnaður meðaltekju- og lágtekjufólks greiddur niður.
    Með lagabreytingu þessari, ef af verður, hafa húsbréf í reynd tekið við af almennum lánum Byggingarsjóðs ríkisins. Húsbréfakerfið hefur þegar sýnt að það leysir þau fyllilega af hólmi. Allir þeir, sem hafa greiðslugetu til að koma sér upp húsnæði á hinum almenna markaði, eiga aðgang að húsbréfum. Seðlabankinn hefur í umsögn sinni um útgáfu á 1. flokki húsbréfa á árinu 1991 bent sérstaklega á vandkvæði þess að hafa tvö lánakerfi í gangi á sama tíma. Endanleg lok almennra lánveitinga úr Byggingarsjóði ríkisins dregur úr lánsfjárþörf sjóðsins hjá lífeyrissjóðunum og mun um leið efla starfskilyrði húsbréfakerfisins. Staða ríkisfjármála er með þeim hætti að nauðsynlegt er að hverfa strax frá þeirri beinu niðurgreiðslu vaxta af húsnæðislánum sem á sér stað með almennum útlánum úr Byggingarsjóði ríkisins. Rétt er að Húsnæðisstofnun tilkynni þeim sem fengið hafa svör almenns eðlis um lánsrétt að vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu og lagabreytinga í kjölfar þeirra komi réttur til húsbréfa í stað almennra lána frá Byggingarsjóði ríkisins.
    Í 15., 16., 17., 18., 19. og 20. gr. eru ákvæði sem fela í sér breytingar á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með síðari breytingum. Í sem stystu máli fela þær breytingar í sér að hætt verði að greiða fyrir tannréttingar nema í sérstökum undantekningartilvikum. Vegna þessa er 44. gr. almannatryggingalaga breytt og tannréttingar felldar út sem greiðsluskylda, sbr. 7. gr. frv. Jafnframt eru gerðar breytingar á 39. gr. laganna, sbr. 15. gr. frv. til að tryggja að hin sérstöku undantekningartilvik tannréttinganna, sem áfram verða greidd, falli þar undir.
    Í frv. eru gerðar nokkrar minni háttar breytingar á 43. gr. laganna um almannatryggingar, sbr. 16. gr. frv. Annars vegar er um að ræða breytingar sem leiða af breyttri framkvæmd. Hins vegar er um að ræða breytingar sem opna möguleika á hlutfallsgreiðslum bæði fyrir lyf og læknishjálp. Þá er og gert ráð fyrir því að ákveða megi sérstaklega greiðsluhlutdeild vegna sérhæfðrar göngudeildarþjónustu óháð reglum um greiðsluhlutdeild í sérfræðilæknishjálp. Þetta þykir nauðsynlegt í ljósi sívaxandi aðgerða og rannsókna sem gerðar eru utan sjúkrahúsa.
    Í 17. gr. frv. er gert ráð fyrir breytingu á 44. gr. laga um almannatryggingar sem

fjallar um greiðslu sjúkratrygginga fyrir tannlækningar. Þar er gert ráð fyrir að fyrir börn og unglinga 15 ára og yngri greiði sjúkratryggingar 90% kostnaðar við tannlækningar. Er það breyting frá gildandi reglum sem gera ráð fyrir 75% greiðsluhlutdeild sjúkratrygginga í tannlækningum hjá börnum 5 ára og yngri og fullri greiðslu sjúkratrygginga í tannlækningum barna og unglinga 6--15 ára. Eðlilegt þykir að samræma greiðsluhlutdeild sjúkratrygginga vegna tannlækninga þannig að hún verði 90% til 15 ára aldurs. Þarna er því greiðsluhlutdeild sjúkratrygginga í tannlækningum barna undir 5 ára aldri aukin úr 75% í 90%. Er þess vænst að þessi aukning skili sér í bættri tannheilsu eldri barna og unglinga. Greiðsluhlutdeild sjúkratrygginga vegna tannlækninga 16 ára unglinga verður óbreytt, 50%.
    Þá felur frv. í sér að á þeim svæðum þar sem skólatannlækningar eru skipulagðar og starfræktar, sem er einkum í Reykavík, taki sjúkratryggingar ekki þátt í almennum tannlækningum barna á aldrinum 6--15 ára utan skólatannlækninganna sem reknar eru. Í ljósi ráðagerða um að bjóða tannlæknaþjónustu út þykir eðlilegt að láta sömu reglur gilda um tannlækningar þar sem samningar nást um tannlæknaþjónustu í kjölfar útboðs og eiga að gilda þar sem skólatannlækningar eru skipulagðar. Í þessu felst að sjúkratryggingar munu ekki greiða tannlæknakostnað barna og unglinga 15 ára og yngri hjá öðrum tannlæknum en þeim sem aðilar eru að samningum í kjölfar útboðs.
    Gert er ráð fyrir tvíþættum breytingum á 46. gr. laganna um almannatryggingar og um þær breytingar er fjallað um í 18. gr. frv. Annars vegar eru leiðréttingar á ákvæðinu sem leiða af breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og sem láðist að láta fylgja með á sínum tíma. Hins vegar er sú breyting gerð að fella niður daggjaldanefnd og færa daggjaldaákvörðun í hendur ráðherra. Í þessu sambandi er rétt að benda á að eingöngu lítill hluti sjúkrahússrekstursins fellur um daggjaldakerfið eða sem svarar um 10% af heildarkostnaði við sjúkrahús. Í framkvæmd hefur raunin orðið síðasta áratuginn að daggjaldaákvörðun daggjaldanefndar hefur ætíð verið háð samþykki ráðherra fjármála og heilbrigðis- og tryggingamála.
    Gert er ráð fyrir að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar fái almenna heimild til að leita útboða um þá þjónustu sem henni ber að veita samkvæmt almannatryggingalögum og felst hún í 19. gr. frv. Geri sjúkratryggingadeild samninga um tiltekna þjónustu í framhaldi af útboði verður henni óheimilt að greiða öðrum aðilum vegna slíkrar þjónustu. Sem dæmi um þjónustu sem til greina kemur að bjóða út má nefna utanspítalarannsóknir og tannlækningar.
    Vegna fyrirætlana um að leita útboða í ríkara mæli en gert hefur verið þykir eðlilegt að í lögin um heilbrigðisþjónustu komi almennt ákvæði sem heimilar að útboða sé leitað. Í 20. gr. frv. er þessa heimild að finna. Sem dæmi um þjónustu sem hér fellur undir og til greina kæmi að bjóða út má nefna ýmsar rekstrarvörur og lyf.
    Í 22. gr. frv. er kveðið á um breytingu á lögum um eiturefni og önnur hættuleg efni. Þær fela það í sér að eiturefnanefnd verði lögð niður og að Hollustuvernd ríkisins yfirtaki verkefni hennar.
    Í 23. gr. frv. er kveðið á um breytingu á lögum nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna. Breytingin miðar að því að treysta í sessi heimild til gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem Fasteignamat ríkisins veitir. Gert er ráð fyrir að á næsta ári muni fjármögnun stofnunarinnar með þjónustugjöldum aukast umtalsvert, eða úr um 55% af rekstrarkostnaði í tæplega 80%.
    Í 24. gr. frv. er kveðið á um breytingu á lögum nr. 76 frá 1987, um Iðnlánasjóð. Þar er í raun ekki um að ræða neina breytingu frá núverandi skipan. Ríkisframlag til sjóðsins hefur verið fellt niður með ákvæðum lánsfjárlaga síðustu árin. Iðnlánasjóður er orðin fjárhagslega mjög sterk stofnun og því fullfær um að standa á eigin fótum. Sjóðurinn nýtur auk þess enn iðnlánasjóðsgjalds sem innheimt er af iðnrekstri í landinu en á móti veitir hann sérstakan stuðning við vöruþróun og markaðsleit iðnfyrirtækja.
    Í 25. gr. frv. eru ákvæði um breytingu á lögum um eyðingu refa og minka sem felur í sér að í upphafi árs verði ljóst hvaða fjármunir séu til ráðstöfunar í endurgreiðslu á hlut ríkissjóðs í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu. Endurgreiðsla á að berast sveitarfélögunum sama ár og veiðarnar fara fram. Þá er einnig ráðgert að veiðistjóri úrskurði reikninga í stað sýslumanna og að kostnaðarhlutur ríkissjóðs lækki úr 3 / 4 hlutum í helming af kostnaði vegna veiðanna. Við meðferð málsins í nefnd verður gerð tillaga um breytingar á þessari grein frv. Breytingarnar fela m.a. í sér:
    1. að dregið verður úr heildarkostnaði vegna refa- og minkaveiða,
    2. að hlutur ríkissjóðs í kostnaði vegna veiðanna verði greiddur sama ár og veiðarnar fara fram,
    3. að í upphafi árs verði ljóst hvaða fjármunir eru til ráðstöfunar í endurgreiðslu á hlut ríkissjóðs í kostnaði vegna veiðanna og komið verði í veg fyrir skuldasöfnun,
    4. að hlutur ríkissjóðs í kostnaði vegna veiðanna lækkar úr 3 / 4 hlutum í helming af heildarkostnaði,
    5. að umhvrh. verður heimilt í samráði við veiðistjóraembættið að ákveða að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði vegna veiða á svæðum þar sem framkvæmd er dýrust og minnst hætta er á tjóni af völdum dýranna.
    Með hliðsjón af þessum breytingum verður framlag ríkisins á fjárlögum ársins 1992 vegna veiða á ref og mink 22 millj. kr. í stað 9,7 millj. kr.
    Í 26.--45. gr. er lögð til skerðing á sjálfvirkum framlögum til ýmissa aðila sem bundin eru í sérlögum og er þetta í samræmi við markaða stefnu í fjárlagafrv. Slíkur kafli hefur venjulega verið í frv. til lánsfjárlaga en samræmisins vegna þótti eðlilegra að hafa hann í þessu frv. eins og hæstv. fjmrh. greindi frá í framsöguræðu sinni með frv. til lánsfjárlaga fyrr í haust.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu þáttum frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Ég mælist til þess að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til efh.- og viðskn. til frekari umfjöllunar og afgreiðslu.