Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 15:08:00 (1670)

     Guðmundur Bjarnason :
     Hæstv. forseti. Við höfum nú hlýtt á boðskap hæstv. forsrh. er hann mælir fyrir þessu frv. sem hér er til umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Ég verð að segja að það minnti mig á gamla setningu sem einhvern tímann var sögð: ,,Það er stórt orð Hákot``.
    Að tala um að þetta séu ráðstafanir í ríkisfjármálum er a.m.k. ekki það sem við áttum von á þegar við hlýddum á hæstv. forsrh. og héldum að hann ætlaði að ræða um efnahagsaðgerðir í víðara samhengi. Þetta frv. er fyrst og fremst fylgifrv. með fjárlagafrv. og getur vart talist efnahagsráðstafanir nema að mjög takmörkuðu leyti og reyndar sýnist mér að í frv. sé ýmislegt sem dregur úr þeim aðgerðum til aðhalds og sparnaðar sem fjárlagafrv. þó gerði ráð fyrir. Sumu af því get ég fagnað og vil lýsa stuðningi við en kem nánar að þeim atriðum síðar.
    Hér er um það að ræða að sparnaði er í verulegum mæli velt t.d. yfir á sveitarfélögin. Einnig er verulegum byrðum velt yfir á atvinnulífið. Hvar eru efnahagsráðstafanirnar sem við teljum að nauðsynlegar séu fyrir atvinnulífið sem nú á í vök að verjast? Hvenær á að snúa frá þessari ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur í för með sér gjaldþrot og atvinnuleysi og á örugglega eftir að sýna sig og sanna enn betur á næstu vikum og mánuðum en við sjáum í dag og er það þó farið að segja til sín á nokkrum stöðum? Hvenær á að sýna hugmyndir um þann mikla sparnað sem hæstv. forsrh. talaði um áðan og nefndi líka í sjónvarpsfréttum og fréttum fjölmiðla undanfarna daga, að nú væri verið að glíma við 11 milljarða halla á ríkissjóði? Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir 4 milljarða kr. halla og það á að reyna að halda við það markmið, að því er mér skilst, og þá spyr ég hvar á að ná þessum 7 milljörðum?
    Eins og ég nefndi áðan þá sýnist mér hér vera dregið úr áður boðuðum sparnaði. Í ræðu sinni eyddi hæstv. forsrh., í upphafi umræðna, verulegum tíma í að tala um liðna tíð eins og honum er tamt og ræddi m.a. um hvernig Framsfl. og framsóknarmenn hefðu staðið að málum hér áður. Því hefur reyndar hv. þm. Steingrímur Hermannsson svarað að nokkru leyti og ég ætla ekki að orðlengja um það. Nokkur atriði fundust mér þó sérkennileg í ræðu hæstv. forsrh., t.d. þegar hann talar um að þær aðgerðir, efnahagsaðgerðir og björgunaraðgerðir, sem gripið var til 1988 eftir gjaldþrotastefnuna sem þá hafði því miður verið fylgt um tíma og leiddi til þess að sú ríkisstjórn sem þá var við völd gafst upp eða sagði af sér, fór frá völdum. Sú gjaldþrotastefna sem þá var við lýði leiddi til þess að gripið var til björgunaraðgerða og það kallaði hæstv. forsrh. að hygla sér og sínum --- ef ég náði rétt hans ummælum --- að aðstoða burðarása í atvinnulífi hinna ýmsu byggðarlaga eins og vissulega var gert. Síðan bætti hæstv. forsrh. um betur og bætti við: Þeir skulu fá að horfa framan í staðreyndirnar. --- Þeir skulu fá að horfa framan í staðreyndirnar. --- Horfa framan í hvað? Horfa framan í þessa úrræðaleysisstefnu hæstv. núv. ríkisstjórnar, horfa framan í gjaldþrotin og atvinnuleysið sem við blasir. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann sé þarna, þegar hann segir ,,þeir skulu fá að horfa framan í þetta``, að tala t.d. til fólksins á Árskógsströnd sem nú stendur frammi fyrir því að rækjuvinnslan þar er að lokast. Það var lokað á rafmagn þar í gær. Lítil skuld upp á tæpa 1 millj. kr. réði þar úrslitum sem þýðir að fyrirtækið stöðvast og þá er auðvitað stutt í gjaldþrotið, líklegt að það blasi við. Fólkið í því byggðarlagi er þar með orðið atvinnulaust. Útgerðarfyrirtæki sem eiga inni hjá þessari litlu rækjuvinnslu verða sjálfsagt einnig gjaldþrota í kjölfarið ef ríkisstjórnin ætlar að halda sig við þetta aðgerðaleysi. Þá er það þetta sem blasir við, ekki bara á Árskógsströnd heldur í fjölmörgum öðrum byggðarlögum.
    Ég vona sannarlega að við fáum fyrr en seinna að heyra eitthvað nýtt og eitthvað annað frá hæstv. ríkisstjórn um það hvernig við getum brugðist við vanda af þessu tagi. Mér sýnist að að öllu óbreyttu muni landsbyggðinni blæða út.
    Fjárlagavinnan er nánast í strandi. Þar veit ég að er ekki við hv. formann fjárln. að sakast heldur miklu fremur við hæstv. ríkisstjórn sem gefur ekki svör, a.m.k. ekki enn þá, um það hvernig eigi að grípa til aðgerða. Það er til lítils að glíma við fjárlagafrv., eins og það liggur nú fyrir með þeim tölum sem þar er að finna, ef við eigum í vændum næstu daga að fá einhverjar allt aðrar niðurstöður. Ég hygg að þar sé um að ræða stóra hluti ef marka má þessar hugmyndir sem settar eru fram um þörf á niðurskurði upp á marga milljarða króna.
    Forsrh. ræddi hér lítils háttar um vexti í sinni ræðu og talaði um, eins og stundum áður, að skilyrði þyrfti að skapa fyrir almennri vaxtalækkun. Hvað á hæstv. forsrh. nánar við með því þegar hann talar um að það þurfi að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkuninni? Ríkisstjórnin stóð fyrir því í vor, skömmu eftir að hún kom til valda, að hækka alla vexti í landinu með handafli. Vissulega var það ekkert annað en handafl sem leiddi til gífurlegrar vaxtahækkunar sem varir enn. Ég spyr því eftir því, bæði hæstv. forsrh. og reyndar einnig hæstv. sjútvrh., sem því miður er nú ekki hér í salnum, en hann hefur látið að því liggja að á handleiðslu þurfi nú að halda frá stjórnvöldum, handleiðslu ríkisvaldsins til þess að koma vöxtunum niður.
    Ég veit ekki hvort það er mikill munur á að tala annars vegar um handleiðslu við þetta verkefni og handafl, sem stundum hefur verið rætt um áður, og ég leyfi mér a.m.k. að fullyrða að handafl var notað þegar ríkisstjórnin hækkaði vextina í vor og það virðist erfiðara að knýja þá niður heldur en upp.
    Ég heyrði bankastjóra halda því fram á fundi sem ég sat á nýlega, bankastjóra eins af stærri bönkunum, að nú væri hægt að ná niður vöxtum. Til þess væri svigrúm og menn ættu að beita sér að því. En það er eitthvað sem vantar, það er einhver tregða, það vantar eitthvert samstarf og handleiðslu um að ganga í verkið. Reyndar hafa aðilar vinnumarkaðarins reynt að beita sér fyrir því og átt viðræður við bankana, bæði vinnuveitendur og launþegar, en því miður þá virðist sem bankakerfið vilji ekki vinna með og engin viðbrögð komu frá stjórnvöldum og ríkisstjórn í þessu sambandi.
    Mig langar að grípa niður í viðtal við fulltrúa sem hafa tekið þátt í þessum viðræðum, sem voru í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 3. des. sl. en þá var rætt við Björn Grétar Sveinsson, formann Verkamannasambandsins, þar sem hann ræðir m.a. um að það sé nauðsynlegt að vekja tiltrú í sambandi við lækkun vaxta og það sé mikilvægt markmið í sambandi við kjarasamninga. Björn Grétar Sveinsson segir, með leyfi forseta:
    ,,Mér virðist svona eins og aðilar í þjóðfélaginu sem fara með efnahagsmálin og

fjármálin séu jafnvel ekki tilbúnir í þessar aðgerðir, sameiginlegu aðgerðir, um að forða því að allt fari héðan til helvítis á of háu vaxtastigi.``
    Of hátt vaxtastig í landinu er nú einn aðalvandi atvinnulífsins. Eitt aðalviðfangsefnið sem ríkisstjórnin ætti að snúa sér að er að reyna að ná vöxtum niður. Við vitum það að eftir aðgerðir, m.a. skuldbreytingar og aðgerðir í gegnum sjóðakerfið undanfarin ár, þá er atvinnulífið veikt fyrir vaxtahækkununum. Ég geri mér alveg fyllilega grein fyrir því og það er alvarlegast í stöðunni eins og er.
    Ég spyr því eftir handleiðslunni. Hvenær er von á því að ráðherrar í ríkisstjórninni treysti sér til þess að taka á þessum málum, eins og reyndar Björn Grétar Sveinsson var spurður að í viðtalinu á dögunum, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins? Þegar hann er spurður að því hvort ekki sé komið að því að ráðherrar í ríkisstjórninni verði að grípa inn í málin ef eitthvað eigi að verða af kjarasamningum svarar Björn Grétar því, með leyfi forseta, svo:
    ,,Það þýðir ekkert fyrir einhverja menn í einhverri ríkisstjórn að segja að þetta sjáist eftir einhvern ákveðinn tíma. Þeir verða að fá að koma inn í þessar viðræður og sýna lit. Það er eini ráðherrann sem ég hef heyrt sýna lit í sambandi við nafnvextina og síðan raunvextina, það er Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra. En ég hef bara ekkert orðið var við stuðning annarra í því máli. Það er enginn stuðningur í ríkisstjórninni við það verkefni, sem nú er eitthvað það brýnasta, að ná niður vaxtastiginu.``
    Ég held að það sem hér er til umræðu og það frv. sem liggur fyrir sé ekki gott innlegg í kjarasamningana sem nú eru í gangi í þjóðfélaginu. Það er sem sagt ekkert gert í sambandi við vaxtamálin. Gjaldþrotastefnunni er framfylgt áfram, ráðist er á réttindi þess fólks sem verður atvinnulaust við gjaldþrot og reyndar hafa samtök launþega og vinnuveitenda mótmælt þessu. --- Það er ánægjulegt að hæstv. félmrh. gengur nú í salinn og ég ætla einmitt að fá að ræða svolítið við hana á eftir um þetta atriði frv., þ.e. breytingarnar hvað varðar ríkisábyrgð á gjaldþrotum. --- Síðan er boðað líka, þó að það sé ekki í þessu frv., að þrengja eigi bótarétt hjá atvinnuleysistryggingunum. Það er m.a. boðað í greinargerð fjárlagafrv. Í yfirliti í fjárlagafrv. um þær lagabreytingar sem nauðsynlegt sé að grípa til vegna fjárlagagerðarinnar eru m.a. taldar upp þær breytingar, sem eru fluttar í þessu frv., en það vantar ýmislegt annað sem þar er talið upp og er ekki nefnt, t.d. í sambandi við tekjurnar.
    Við höfum ekki enn séð hér í hv. Alþingi, og þar af leiðandi ekki heldur fengið til umfjöllunar í nefndum þingsins, nema eitt frv. sem varðar tekjumálin. Það er frv. um skattinn á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og allir hafa orðið vitni að því hér í hv. þingi hvers lags þrautaganga það hefur verið fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma því máli áfram í sínum eigin röðum.
     En fleira er boðað. Boðaðar eru breytingar á tekjuskattinum í fjárlagafrv. en við höfum ekki séð neitt af því sem þar er á döfinni, hvaða hugmyndir eru nú uppi hjá hæstv. ríkisstjórn hvað varðar breytingar á tekjuskatti.
    Það er einnig boðað í fjárlagafrv. að breyta þurfi ákvæðum um Lánasjóð ísl. námsmanna og við höfum reyndar fengið upplýsingar um það í hv. fjárln. að þar vanti að óbreyttu a.m.k. 600 millj. kr. Það er töluvert mikil upphæð og væri forvitnilegt að heyra það frá hæstv. ráðherrum hvað rætt hefur verið um það á ríkisstjórnarfundum seinustu daga, í gær og í morgun, og á hverju við eigum von hvað varðar málefni lánasjóðsins. Við vitum það líka, í sambandi við þessar hugsanlegu breytingar á ákvæðum um Atvinnuleysistryggingasjóðinn, að nú stefnir því miður í meira atvinnuleysi en áður var áætlað og þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir. Í staðinn fyrir 2% er spáð 2,6% og gæti jafnvel orðið enn meira. Á sama tíma er gert ráð fyrir skerðingu á fjárveitingu til Atvinnuleysistryggingasjóðsins og einnig að breyta eða þrengja ákvæði um hvernig bótum úr sjóðnum skuli háttað.
    Þá eru og boðaðar í fjárlagafrv. breytingar á lyfjalögum og kannski gerir hæstv. heilbrrh. okkur einhverja grein fyrir því síðar í þessari umræðu hvað þar er á döfinni, því það sem við höfum enn séð varðandi lyfjamálin, það sem hefur komið hér fram í frumvarpsformi og tillögum, m.a. í fyrirhuguðum reglugerðum sem hæstv. forsrh. gerði grein fyrir áðan, eru fyrst og fremst ákvæði um það hvernig eigi að láta einstaklingana borga. Mér finnst vanta í viðbót við það ákvæði um hvernig eigi að breyta skipulaginu. Ætla menn virkilega ekki að hafa sig í það að taka eitthvað á skipulagi því sem var þó búið að undirbúa breytingar á í síðustu ríkisstjórn og var lagt fram í lok síðasta þings, ýmsar hugmyndir um skipulagsbreytingar varðandi lyfjadreifingu, innflutning, verðlagningu o.s.frv.? Þær ráðstafanir sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur hingað til gripið til hafa fyrst og fremst miðast við það að láta einstaklinginn borga.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því í greinargerð fjárlagafrv. að breyta hafnalögum á þann hátt að sveitarfélögin taki aukinn þátt í eða beri stærri hluta kostnaðar við framkvæmdir í höfnum. Þetta höfum við ekki séð enn þá, kannski hefur ríkisstjórnin guggnað á þessum hugmyndum enda hefur hún nú þegar hlaðið nokkuð af böggum eða kannski má segja hlössum á sveitarfélögin og m.a. í þessu frv. T.d. er það í ákvæðunum um breytingarnar á lögum um Húsnæðisstofnunina að gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin taki þátt í byggingarkostnaði upp á 3,5% sem mundi þýða 116 millj. kr., hæstv. félmrh., á næsta ári, 116 millj, sem þar eru settar yfir á sveitarfélögin. Þá er gert ráð fyrir að auka sértekjur Fasteignamats ríkisins um eins og 35 millj. kr. eða svo. Hvaðan eiga þær að koma, hæstv. félmrh.? Þær eiga að koma frá sveitarfélögunum. Það á að hækka kostnaðargreiðslur sveitarfélaganna til Fasteignamats ríkisins um 35 millj. kr. af þeim 37,9 millj. sem hér er gert ráð fyrir að spara.
    Og einn liður enn. Ef fer fram sem horfir varðandi hugmyndir um ábyrgðasjóð launa í staðinn fyrir ríkisábyrgðina á launum vegna gjaldþrota eiga sveitarfélögin að koma þar inn líka með 23 millj. kr. Samtals er því verið að bæta á sveitarfélögin 174 millj. kr. samkvæmt ákvæðum þessa frv. Og meira er boðað, bæði varðandi hafnamálin og ef ekki verður hreinlega hætt við að eyða refum og minkum. Ég veit reyndar ekki hver stefnan er í væntanlegu frv., en eins og við vitum hafa hér verið á ferðinni upphæðir upp á tugi millj. kr. á ári. Okkur ætti að vera það í fersku minni eftir að hafa nýlega breytt fjáraukalögum á þann hátt að bæta þar við 50--60 millj. kr. til þess að gera upp við sveitarfélögin í landinu. Ef á að hverfa frá því hlýtur annaðhvort að eiga að velta þeim kostnaði yfir á sveitarfélögin eða að hætta hreinlega þessari starfsemi og væri fróðlegt að vita aðeins um það hvað hæstv. ráðherrar hugsa sér í því sambandi.
    Hæstv. forsrh. nefndi það einu sinni enn í ræðu sinni að núv. ríkisstjórn ætlaði að snúa af þeirri braut fyrrv. ríkisstjórna að hækka skatta. Hæstv. forsrh. nefndi það í ræðu sinni að hún ætlaði að snúa af þeirri braut að hækka skattana. Ég vil fá að ítreka það aftur, sem reyndar kom fram við 1. umr. um fjárlagafrv., að hér er auðvitað verið að blekkja. Það er verið að færa nýja tegund skattheimtu, sem birtist í þjónustugjöldum og auknum sértekjum bæði á einstaklinga og atvinnulíf, gjaldamegin í frv., hæstv. forsrh. Þannig lækkar auðvitað heildartalan. Í stað þess að færa skattana eins og venja er tekjumegin og láta síðan gjöldin koma fram eins og þau eru, er auðvitað hægt að reyna að blekkja sjálfan sig með því að viðhafa svona bókhaldsaðgerðir eða kúnstir. En það blekkir ekki þann sem þarf að borga þessa nýju skatta og þessar nýju og auknu álögur hvort heldur það eru einstaklingarnir eða atvinnulífið. Og þeir nýju skattar sem hér eru boðaðir eru t.d. í sambandi við þau ákvæði frv. sem koma fram í 9. og 10. gr. og fjalla um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. Þar er verið að flytja nýjar álögur á atvinnulífið og því langar mig til þess að spyrja hæstv. félmrh., sem hér situr, aðeins út í þessi mál.
    Ef ég má aftur vitna aðeins til frétta í fjölmiðlum undanfarna daga, þar sem hefur verið fjallað um þessi mál, þá kemur það m.a. fram hjá framkvæmdastjóra ASÍ, sem heitir Lára V. Júlíusdóttir, að með frv. þessu um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1992 sé verið ,,að ráðast að launafólkinu í landinu`` eins og framkvæmdastjórinn segir. Og einkum og sér í lagi nefnir framkvæmdastjórinn, Lára V. Júlíusdóttir, atlöguna varðandi ríkisábyrgð á laun við gjaldþrot. Hún talar um það að hér sé ríkisstjórnin að leggja til breytingar sem hafi alvarlegar afleiðingar fyrir launafólkið í landinu. Orðrétt segir Lára, með leyfi forseta:
    ,,Það er verið að leggja til gjald á atvinnurekendur sem á að skila þessum sjóði sem verið er að stofna, þ.e. ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrota, 374 millj. kr. og það nægir engan veginn fyrir þeirri ábyrgð sem ríkissjóður ber í dag á launum fólks vegna gjaldþrota.``
    Í fjárlögum ársins í ár, 1991, eru 261,5 millj. kr. í þennan sjóð. Í nýsamþykktum fjáraukalögum var bætt við 286,9 millj. þannig að samtals var gert ráð fyrir, og er trúlega gert ráð fyrir, að útgjöld vegna þessa í ár séu nær 548,4 millj. kr. eins og við höfum gengið frá þessu í fjárlögum og fjáraukalögum. Í fjárlagafrv. fyrir næsta ár er hins vegar aðeins gert ráð fyrir 100 millj. kr. til þess að standa undir kostnaði sem af þessu leiðir, 100 millj. kr. Ef áætlanir eða hugmyndir, sem hér eru settar fram, ná fram að ganga þá er gert ráð fyrir því að ríkið dragi aðeins úr sínum hlut hvað þetta varðar, lækki hann um 23 millj. sem fer yfir á sveitarfélögin og ríkissjóður beri rúmar 70 millj. En til að ná þeim 374 millj., sem sjóðurinn á að nema samtals, er gert ráð fyrir að atvinnulífið greiði 280 millj. Nú má ímynda sér að hér sé um of lága upphæð að ræða miðað við reynslu ársins í ár og svo auðvitað miðað við það sem við blasir og fram undan er miðað við óbreytta stefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Þess vegna spyr ég hæstv. félmrh. hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér í þessu efni.
    Mig langar að vitna áfram í Láru Júlíusdóttur í þessu viðtali við Sjónvarpið í kvöldfréttum 3. des. sl. þar sem hún segir, með leyfi forseta:
    ,,Þetta er geysilega stórt mál fyrir verkalýðshreyfinguna. Og sérstaklega í dag, þegar gjaldþrot fyrirtækja fara vaxandi, gjaldþrotin verða stærri og fleiri. Launamenn þurfa á þessum greiðslum að halda og þetta er ekki síst stórmál fyrir landsbyggðarfólk í litlum byggðarlögum þar sem kannski aðalvinnuveitandinn fer á höfuðið.``
    Þá skerðir þetta verulega kjör fólksins á staðnum, þannig að þar sem atvinnulífið er einhæft, einn stór atvinnurekandi sem á í vök að verjast eins og t.d. það dæmi sem ég var að greina frá áðan varðandi ástandið á Árskógsströnd en er ábyggilega ekki einsdæmi, þá munu þessar breytingar koma alvarlega við launafólkið á þessum stöðum.
    Forseti Alþýðusambands Íslands mótmælir líka þessum hugmyndum sem hér er verið að boða og segir í viðtali við Morgunblaðið 4. des. sl. að Alþýðusambandið muni beita sér af fremsta megni til þess að þessi réttindi launafólks séu áfram tryggð. Og með leyfi foseta segir Ásmundur Stefánsson í þessu viðtali:
    ,,Við lítum á þetta sem mjög alvarlegt mál ef það fer fram með þeim hætti sem boðað er í frv. því hér er verið að brjóta grundvallarsjónarmið. Við stöndum frammi fyrir því sem ósköp einfaldri staðreynd að hér er rekin efnahagsstefna sem miðar við það opið og klárt að ef fyrirtæki standa illa, þá eigi ekki að veita þeim aðstoð til að komast yfir þá erfiðleika, heldur eigi ósköp einfaldlega að láta þau fara á hausinn. Það að láta fyrirtæki verða gjaldþrota er þess vegna í dag viðurkennd hagstjórnaraðferð og það er stórfurðulegt ef þeir sem telja eðlilegt að beita slíkum hagstjórnaraðferðum telja sér ekki jafnframt skylt

að verja það fólk sem fyrir verður.``
    Mig langar enn að spyrja hæstv. félmrh. hver hennar viðbrögð séu við svona boðskap og við þeim hugmyndum sem hér eru settar fram. Ég á bágt með að trúa því að hæstv. félmrh. sé fullkomlega sátt við þetta eins og það lítur út.
    Virðulegi forseti. Mig langar að fara nokkrum orðum um einstaka þætti þessa frv. og rekja nokkur atriði úr frv. Ég sagði það áðan að við framsóknarmenn gætum út af fyrir sig hugsað okkur að styðja ýmislegt sem hér er sett fram en erum hins vegar á móti öðru eins og gengur, því sem betur fer er ekki allt alómögulegt sem hæstv. ríkisstjórn er að reyna að gera þó að fátt sé þess virði að því sé hrósað. Það á a.m.k. við um fyrstu greinarnar þar sem ráðist er að nýjum grunnskólalögum. Þeim er ekki hægt að hrósa. Ég verð að taka undir með öðrum ræðumönnum, sem talað hafa næst á undan mér, og lýsa undrun minni með að hér skuli ráðist að menntakerfinu á þann hátt sem gert er eftir nýgert samkomulag sem náðist hér í Alþingi um samþykkt þessara grunnskólalaga. Gæti ég vel ímyndað mér að hæstv. núv. menntmrh. hafi átt einhvern þátt í því að ná samkomulagi um frv. þegar það var hér til meðferðar og eins og það varð að lögum.
    Nú er hins vegar ráðist að því á nýjan leik og ekki eru sparnaðarhugmyndirnar stórar en þó 40 millj. kr. eða svo sem þetta á að spara. Og það sem er kannski sorglegast við það, eins og mál standa í dag, er að við höfum verið að leggja áherslu á það og reynt að halda fram þeim boðskap að styrkja beri menntakerfið í landinu. Mig minnir að ég hafi jafnvel heyrt hæstv. utanrrh. stundum tala um að laga þurfi ýmislegt í okkar íslenska skólakerfi en af því að hæstv. utanrrh. er hér staddur kemur þetta upp í huga mér. Mig minnir að ég hafi oftar en einu sinni heyrt hann tala um að laga þurfi til í skólakerfinu og hér var sannarlega reynt að gera tilraunir til þess og það strax á grunnskólastigi. Hæstv. utanrrh. hefur stundum talað meira um æðri menntastofnanir og talið að það þyrfti að gera þar hluti til úrbóta og vafalaust er það rétt hjá honum.
    Ég hef heyrt skólamenn í landinu hafa áhyggjur af grunnskólastiginu. Ég hef heyrt þá tala um að það sé áhyggjuefni að jafnvel læsi barna fari hrakandi og að styrkja þurfi grunnskólann til að sporna þarna við fótum. Fækka þurfi í bekkjardeildum og grípa til ýmissa aðgerða til að bæta grunnskólamenntakerfið okkar.
    Mig langar til þess að vitna í bréf sem þingmönnum öllum hefur vafalaust borist frá Kennarasambandi Íslands þar sem varað er við þeim breytingum sem hér er verið að fitja upp á þar sem m.a. segir, með leyfi forseta:
    ,,Grundvallarmenntun þjóðarinnar er byggð á lögum um grunnskóla. Framvinda skólastarfsins er háð því að festa ríki í skipulagi skólanna. Festa og ró í skólastarfinu er líka undirstaða þess að gagnkvæmt trúnaðartraust ríki milli þeirra sem starfa við skólana og hinna sem njóta þjónustu þeirra, nemenda og foreldra. Starfið í skólunum er því enn viðkvæmara en starf flestra annarra opinberra stofnana fyrir þeirri hentistefnu sem nú virðist ríkja hjá stjórnvöldum.
    Með nýju grunnskólalögunum var m.a. stefnt að einsetnum grunnskóla, samfelldum sjö stunda skóladegi og fækkun nemenda í stórum bekkjardeildum. Þessi ákvæði laganna voru fyrst og fremst nemendum til hagsbóta og tryggðu þeim markvissari menntun en komu auk þess til móts við þarfir þjóðfélagsins sem byggir á vinnuframlagi beggja foreldra. Með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum ráðgera núv. stjórnvöld að fresta eða fella niður öll þessi mikilvægu ákvæði og mörg fleiri.``
    Ég verð að taka undir þessi sjónarmið, sem koma fram hjá Kennarasambandinu. Ég tel að hér sé vegið að mikivægum undirstöðum í okkar þjóðfélagi þegar dregið er úr getu skólakerfisins til þess að byggja upp nýta þjóðfélagsþegna.
    Varðandi 2. gr. frv. --- því miður eru hvorki hæstv. menntmrh. né hæstv. heilbrrh.

viðstaddir, a.m.k. ekki hér í salnum, en eru kannski í hliðarsölum. Það væri æskilegt, virðulegur forseti, að ráðherrar væru hér í salnum eftir því sem tök eru á þar sem frv. er með þeim ósköpum gert að fjalla um svo marga málaflokka, eins og raun ber vitni, og koma inn á svo mörg lög að líklega mundu einhverjir lögfróðir telja að það væri tæknilega gallað ef það væri ekki eitthvað enn verra, tæknilega hreinn ósómi að frv. sem þessu. Ég læt aðra lögfróðari menn en mig fjalla um slíka hluti en vil þá nota tækifærið og minna á það að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að vinna við þetta frv. sé á þann hátt í nefndum að einstakar fagnefndir þingsins fjalli um þá liði sem undir þær heyra, t.d. varðandi breytingar á grunnskólalögunum að menntmn. hv Alþingis fái að koma að því máli. Það getur ekki talist fullnægjandi að frv. af þessu tagi fari aðeins til einnar nefndar til meðhöndlunar. Ég veit að ég mæli þar fyrir munn fleiri hv. þm. þegar ég óska eftir því að frv. verði skipt upp og það fái umfjöllun eftir efnisatriðum í fleiri en einni nefnd.
    Í 2. gr. frv. er fjallað um það að byggingarkostnaður húsnæðis grunnskóla, sem nota eigi undir heilsugæslu eða tannlækningar, eigi að teljast til byggingarkostnaðar skólahúsnæðisins og greiðast þar með af sveitarfélögunum. Ég hélt að um þetta hefðu verið skýr ákvæði í lögum en svo er sjálfsagt ekki fyrst hér eru lagðar til breytingar. Í greinargerð með frv. segir á bls. 16 að ákvæði þetta sé ,,til að taka af öll tvímæli um að sveitarfélög beri kostnað af stofnkostnaði þar sem nauðsynlegt er talið að ætla sérstakt húsnæði í skóla fyrir heilsugæslu og/eða tannlækningar``. Ég skil þetta hins vegar ekki alveg svo skýrt í greininni sjálfri, 2. gr. þar sem segir:
    ,,Þar sem að mati sveitarstjórna er nauðsynlegt að ætla sérstakt húsnæði í skóla fyrir heislugæslu og/eða tannlækningar . . . `` --- Hér finnst mér vanta svolítið á hvort nægilega skýrt er kveðið á um, eins og segir í greinargerðinni, það eigi að taka af öll tvímæli, en á hinn bóginn er það sett í hendur sveitarstjórninni að meta þetta. Ég er ekki að gera lítið úr hlutverki sveitarstjórnanna og sveitarfélaganna, sem eiga að bera uppi kostnaðinn, að þau fjalli að sjálfsögðu um þetta, en mér finnst að það ætti að gerast í samráði við yfirvöld, annaðhvort mennta- eða heilbrigðismála, því að það eru heilbrigðisyfirvöld sem leggja mesta áherslu á að geta veitt þessa þjónustu innan skólanna og hafa stundum orðið að reka á eftir því að aðstaða væri fyrir hendi í skólum til þess að geta veitt þessa þjónustu.
    Aðrir hafa á undan mér rætt um breytingar á jarðræktarlögum. Ég ætla því ekki að eyða löngum tíma í það en vil taka undir þær hugmyndir sem þar eru settar fram. Ég held að það sé nauðsynlegt að kveða skýrar á um í lögum hvernig Alþingi eða ríkisvaldið stendur straum af kostnaði sem til er stofnað og ekki sé stofnað til kostnaðar af þessu tagi nema í samráði við yfirvöld landbúnaðarmála. Það komi ekki sjálfkrafa kröfur á ríkissjóð sem ríkissjóður getur ekki haft nein áhrif á hvernig stofnast til. Það á ekki við um þetta atriði sérstaklega, vafalaust eru víðar í lögum slík ákvæði og ég tel nauðsynlegt að taka á slíkum hlutum og ég lýsi stuðningi mínum við það.
    Varðandi 5. gr. um veiðieftirlitið get ég líka sagt að mér finnst ekki óeðlilegt að leitað sé leiða til þess að atvinnulífið taki í meira mæli þátt í kostnaði við þjónustu sem eingöngu er fyrir það. Hins vegar hljótum við að verða að skoða það nú hvort þetta er tímabært eða réttur tími til að leggja slíkt til þegar atvinnulífið, ekki síst sjávarútvegurinn, á í þeim miklu erfiðleikum sem hann býr nú við. Ríkisvaldið verður vafalaust hvort sem því líkar betur eða verr fyrr eða síðar að sýna í spilin sín, hvernig á að bregðast við þeim vanda og þá finnst mér nú langt seilst að vera að leita hér eftir 40 millj. kr. við þessar aðstæður til þess að láta sjávarútveginn borga.
    Um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota var ég búinn að ræða nokkuð og ætla því ekki að orðlengja meira um hann en minni þó aftur á að hér er verið að leggja auknar

álögur á atvinnulífið í miklum mæli og það er auðvitað ekki enn sýnt hvað úr þessu verður. Það er getið um það í greinargerð frumvarpsins á bls. 11 að leitað hafi verið álits Vinnuveitendasambandsins og Alþýðusambandsins á þeim kostum eða hugmyndum sem uppi eru varðandi þennan sjóð eða framkvæmd mála en þeir hafnað viðræðum á grundvelli þessara kosta. Ef ég tók rétt eftir hjá hæstv. forsrh. nefndi hann það líklega sem eitthvert viðbótarákvæði við þær hugmyndir sem hér eru settar fram að ríkið yrði eftir sem áður að vera ábyrgt fyrir því sem upp á kynni að vanta og taka á sig greiðslur með lántökum til að byrja með og síðar skuldbindingum í gegnum fjárlög eða fjáraukalög. Hér virðist því ýmislegt vera óljóst og ég eyði ekki lengri tíma í það nú, virðulegi forseti.
    Varðandi hugmyndir í 11. gr. um málefni fatlaðra, um breytingar á lögum eða ákvæðum er varða Framkvæmdasjóð fatlaðra, lýsi ég stuðningi mínum við þær hugmyndir sem hér eru settar fram og minni á að á síðasta þingi beitti ég mér fyrir hliðstæðum breytingum varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta er reyndar eitt af því sem við þurfum að horfa alvarlega til, stjórnvöld, fjárveitingavaldið og Alþingi, að það er algerlega ófært hvert stefnir með viðhald á opinberu húsnæði. Það er meira og minna að grotna niður af viðhaldsleysi og síðan þarf að leggja í stórkostlegan kostnað annaðhvort við að endurbyggja húsnæði eða jafnvel að kaupa eða byggja nýtt í staðinn fyrir það sem hefur orðið ónýtt vegna þess að það hefur ekki fengið nægjanlegt viðhald. Þannig má ekki halda áfram að vinna og verður að gera á breytingar.
    Varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins vil ég aðeins segja það, og veit reyndar að það verður rætt hér nánar á eftir, að hér er enn verið að ýta kostnaði yfir á sveitarfélögin. Þess vegna hefði ég viljað bæta því við spurningar mínar til hæstv. félmrh.: Hvað hefur verið rætt við sveitarfélögin um þetta mál, um þau atriði sem eru í þessu frv., um þau ákvæði, þær álögur sem lagðar eru á sveitarfélögin? Ég spyr hæstv. forsrh. að því, í fjarveru hæstv. félmrh., hvað um það hafi verið rætt, hvort þetta sem er lagt til og annað í þessu frv. sé gert með vitund og kannski vilja eða samþykki Sambands ísl. sveitarfélaga eða fulltrúa sveitarfélaganna í landinu og þá væri fróðlegt að heyra það.
    Annað, sem hér er lagt til, er að m.a. er verið að leggja niður Byggingarsjóð ríkisins, það form sem við höfum búið við um tíma varðandi húsnæðismálin og mér sýnist reyndar á ákvæðum í grg. með frv. að ekki sé gert ráð fyrir að það breyti miklu. Það a.m.k. sparar ekki mikið. Neðst á bls. 20 í greinargerðinni segir:
    ,,Framlag sveitarfélaga styrkir eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs verkamanna miðað við óbreytt lög.`` Enda er hér verið að tala um að sveitarfélögin greiði 3,5% og það kosti þau á annað hundrað millj. kr. En síðan segir: ,,Heildaráhrif til lækkunar á vaxtaniðurgreiðslum ríkissjóðs við lokun almenna lánakerfisins frá 1986 eru óviss.`` Þau eru náttúrlega engin. Það er enginn sparnaður að þessu. Það er fyrst og fremst verið að koma endanlega á húsbréfakerfinu sem fær ekki par góða dóma í þessari nýju skýrslu Seðlabanka Íslands sem ber yfirskriftina: Greinargerð um þróun og horfur í peningamálum, gjaldeyrismálum og gengismálum. En þar er m.a. sagt um lántökur að langstærsti hlutinn, um 45 milljarðar kr., hafi verið lán til heimila, sem jukust hlutfallslega um 27,7%. Og, með leyfi forseta, orðrétt segir:
    ,,Þessi gífurlega skuldasöfnun einstaklinga átti að langmestu leyti rót sína að rekja til húsbréfa og annarra lána hins opinbera íbúðalánakerfis. Líkur benda til þess að ekki meira en helmingur lánsfjárnotkunar einstaklinga hafi gengið til fjárfestingar í nýju húsnæði svo að afgangurinn hefur verið til ráðstöfunar til annarrar fjárfestingar og neyslu.``
    Þetta finnst mér, virðulegi forseti, ekki vera góður dómur um það hvernig húsbréfakerfið hefur þróast og ég verð að segja við hæstv. félmrh., sem nú er kominn aftur,

að mér finnst þetta mál alla tíð hafa verið rekið með nokkru offorsi. Við náðum samkomulagi á síðasta þingi um hvernig staðið skyldi að því að hið eldra form útlána húsnæðismálastjórnar í gegnum Byggingarsjóð ríkisins skyldi ganga fyrir sig og ég skil því ekki hvað það er sem rekur á eftir því hér og nú að knýja fram þessar breytingar enda hafa þær engin áhrif á ríkisfjármálin eftir því sem séð verður á greinargerð þessa frv.
    Þá langar mig til þess, virðulegi forseti, að fara nokkrum orðum um þær hugmyndir sem hér eru settar fram um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni. Við sem vorum að glíma við heilbrigðismálin í tíð fyrrv. ríkisstjórnar reyndum að beita okkur fyrir breytingum á greiðslum hins opinbera vegna tannréttinga. Það lenti því miður í þeim ógöngum að ekki náðist samkomulag við tannlækna sem hafa tannréttingar sem sérgrein. Mér er því ljóst að núv. hæstv. heilbrrh. hefur þurft að taka á þessum málum og er með hugmyndir og tillögur um hvernig að skuli staðið. Mér sýnist þó á 15. gr. að allmjög sé þrengt að því hverjir eigi rétt á stuðningi almannatryggingakerfisins og hvað þurfi að koma til, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði hér ítarlega grein fyrir í ræðu sinni áðan. Ég er þó auðvitað tilbúinn til þess að hlusta á skýringar hæstv. heilbrrh. við þessum ákvæðum sem lögð eru til. Ég vil líka lýsa yfir stuðningi mínum við þær breytingar sem eru settar fram um það að þau gjöld sem á annað borð eru tekin af sjúklingum vegna hluta kostnaðar við heilbrigðisþjónustuna geti verið hlutfallsgjöld. Ég tel að það sé ekki óeðlilegt að standa þannig að málum, m.a. til þess að reyna að vekja kostnaðarvitund almennings eða neytenda heilbrigðisþjónustunnar með því að gjöld geti verið hlutfallsleg. Þessu hef ég lýst yfir áður hér í Alþingi og ítreka það nú en það verður auðvitað að gerast á þann hátt að um sé að ræða greiðslur með ákveðnu þaki eða hámarki þannig að ekki verði um óbærilegan kostnað að ræða fyrir þá sem sjúkir eru.
    Að öðru leyti eru hér raktar hugmyndir hæstv. heilbrrh. um hvernig staðið skuli að sparnaði í heilbrigðiskerfinu og það byggist enn að mestu leyti á því að láta einstaklingana borga. Einstaklingarnir skulu taka meiri og meiri þátt í kostnaði við heilbrigðisþjónustuna. Á bls. 19 í greinargerðinni er rakið hvernig þessi gjöld eru hugsuð og þar segir m.a. að þau hefðu samtals átt að gefa um það bil 800 millj. kr. í lægri útgjöld sjúkratrygginganna en nú sé sýnilegt bæði vegna fyrirhugaðra breytinga sem hér eru lagðar til, m.a. það að gjald vegna komu á heilsugæslustöðvar verði lækkað, þá er dregið úr sparnaði um 300 millj. þannig að hér er nú þegar komið gat, sem er þó auðvitað lítið miðað við það sem hæstv. forsrh. hefur talað um þegar hann er að ræða um marga milljarða kr. sem vanti hér upp á. Ég get lýst ánægju minni með að það skuli vera dregið úr þessari gjaldtöku sem áður var boðuð en vil segja nokkur orð út af því sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. áðan, að gjaldið sem áður var vegna heimsókna á heilsugæslustöðvar hafi verið fellt niður í tilraunaskyni. Það var af minni hálfu alls ekki gert í neinu tilraunaskyni heldur gert sem liður í breyttum áherslum heilbrigðisyfirvalda þar sem við vildum reyna að leggja áherslu á það sem við leyfðum okkur að kalla forvarnarstörf og vildum markvisst beina einstaklingunum inn á heilsugæslustöðvarnar fremur en þeir leituðu ókerfisbundið að dýrari þjónustu, hvort heldur það væri hjá sérfræðingum eða sjúkrahúsum, þjónustu sem hægt væri að inna af hendi, að áliti fróðustu manna, með ódýrari aðferðum og jafnframt að koma þá á tengslum heilsugæslustöðvanna og almennings eða einstaklinga til upplýsinga og til fræðslu og til forvarnastarfs, það er einmitt einn hlutinn af verkefnum heilsugæslunnar. Þannig að í mínum huga var um að ræða kerfisbreytingu eða breytingu á áherslum og ég lýsi því andstöðu minni við þær hugmyndir sem hér eru settar fram um þetta háa komugjald á heilsugæslustöðvarnar. Ég vil aðeins segja þetta við hæstv. forsrh. að það var a.m.k. ekki mín hugmynd að þetta væri gert í tilraunaskyni heldur í því skyni að breyta áherslum í heilbrigðisþjónustunni almennt.

    Fyrst ég er að vitna til ræðu hæstv. forsrh. hér áðan þá nefndi hann líka hugmyndir um það að láta einstaklingana greiða verulega háar upphæðir fyrir þjónustu sem nú er verið að taka upp hér á landi, svokallaða glasafrjóvgun. Ég veit að þær hugmyndir hafa verið uppi og þær hafa verið til umræðu að menn greiddu eitthvað fyrir þessa nýju þjónustu og réttlættu það hugsanlega með þeim rökum, sem komu fram í máli hæstv. ráðherra í framsöguræðu hans, að fólk sem nú sækir þessa þjónustu til útlanda þurfi að greiða fyrir hana verulegar upphæðir í ferðakostnað og uppihaldskostnað þó að meðferðin sjálf sé greidd af hinu opinbera. Þó verð ég að segja að hér finnst mér vera um mikið prinsippmál að ræða, spurningu um hvernig á að taka á þessu og hvort við getum fallist á það að greiða fyrir þessa þjónustu yfir höfuð og ég tala nú ekki um hvort það er réttlætanlegt að greiða svo háar upphæðir sem hér eru nefndar, kannski um 100 þús. kr. Mér finnst þessi upphæð sláandi en vil þó frekar velta hinu upp að hér sé um prinsippákvörðun að ræða. Á heilbrigðisþjónustan að vera ókeypis eða svo til ókeypis eða á að fara að taka það upp að menn greiði gífurlega háar upphæðir fyrir einstaka þætti þeirrar þjónustu sem veitt er? Hvar endum við þá? Er það bara glasafrjóvgun sem á að borga fyrir 100 þús. kr. eða gætum við lent í því að taka fleiri þætti, fleiri atriði inn í slíka gjaldskrá sem mundi þá enda með því að við værum komin með heilbrigðiskerfi af allt annarri tegund en við höfum áður og hingað til búið við.
    Þá langar mig að nefna í sambandi við þessar hugmyndir um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni, hugmyndir um útboð, hugmyndir um það að heimila Tryggingastofnuninni og heilbrigðisyfirvöldum að leita eftir útboðum í þeim tilgangi að gera heilbrigðisþjónustuna ódýrari eða væntanlega með það að markmiði. Ég tel að í ýmsum tilfellum sé hægt að ná sparnaði með slíkri framkvæmd ef verið er að tala um t.d. innkaup, innkaup á lyfjum, innkaup á hjúkrunarvörum og einhverjum einstökum afmörkuðum þáttum en ég vil hafa alla fyrirvara á hugmyndum um að útboð séu heimiluð á einstökum þáttum heilbrigðisþjónustunnar sjálfrar. Þó kann það líka að vera réttlætanlegt, ef um mjög afmarkaða þætti er að ræða eins og hér eru reyndar tilgreindir, t.d. skólatannlækningar, að það megi ekki gera tilraunir til þess, ég vil ekki leggjast gegn slíkum hugmyndum og tel að huga megi að því og jafnvel gera tilraun með það. Það fer þá aldrei verr en svo, sú tilraun leiðir í ljós hvort hún ber tilætlaðan árangur. Ef við ætlum hins vegar að fara að beita svona vinnubrögðum við heilbrigðisþjónustu almennt, þá held ég að við stöndum fljótlega frammi fyrir því að við erum að búa til nýtt form heilbrigðisþjónustu, þjónustu sem leiðir fljótlega til þess að við búum hér við svokallaða tvöfalda heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisþjónustu sem annars vegar er greidd af hinu opinbera og hins vegar greidd af einstaklingum sem telja sig hafa efni á að greiða fyrir þjónustuna eða kaupa sér til þess sérstakar tryggingar og þá held ég að við séum komnir í slæma stöðu. Ég lýsi mig algerlega andvígan slíkum hugmyndum. Ég hef reyndar sagt hæstv. heilbrrh. það þannig að ég geri ekki endilega kröfu til þess að hann hlýði á þessa skoðun mína hér og nú en hann er ekki frekar en aðrir ráðherrar, að hæstv. forsrh. frátöldum, hér í salnum á þessu augnabliki þannig að þeim virðist eitthvað vera órótt, blessuðum, og ekki gefa sér tíma til þess að fylgja þessum ráðstöfunum í ríkisfjármálum eftir, eins og þeim þó auðvitað ber að gera, hverjum fyrir sinn málaflokk.
    Mig langar að fara yfir hvernig þau mál standa, sem áður var búið að gera ráð fyrir að ættu að leiða til verulegs sparnaðar í útgjöldum almannatrygginga samkvæmt ákvæðum fjárlagafrv. eins og þau liggja fyrir, þá átti að spara 800 millj. kr. á þessum þjónustugjöldum, þessum nýju sköttum sem sjúklingarnir eiga að greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna. Þeir hafa að vísu lækkað um 300 millj. kr. Þá er í öðru lagi gerð grein fyrir því að lyfjakostnaður hafi átt að sparast um 800 millj. kr. eins og fjárlagafrv. gerir ráð fyrir en

fjmrn. hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að sparnaðurinn muni ekki verða nema um 400 millj. þannig að hér eru líka tapaðar 400 millj. kr. frá fyrri hugmyndum. Það kátlega í þessu sambandi er kannski að sparnaðurinn sem búið var að ná áður, sparnaðurinn sem hafði náðst vegna aðgerða fyrrv. ríkisstjórnar og þess heilbrrh. sem þá var við völd, þess sem hér stendur, hafði leitt til 300--400 millj. kr. sparnaðar þá þegar og sá sparnaður hafði áhrif fyrir alla framtíð af því að það varð kerfisbreyting, það varð breyting á álagningu, það varð breyting á verðlagningu lyfja, en eftir því sem best verður skilið á þessum upplýsingum sem hér liggja fyrir og upplýsingum úr heilbrrn. þá hefur mönnum orðið það á að reyna að tvítelja þennan sparnað. Enn langar mig að vitna í fréttaviðtal, nú viðtal í Þjóðviljanum 5. des. sl., þar sem haft er eftir Halldóri Árnasyni, skrifstofustjóra í fjmrn., að þessi útreikningur hafi ekki verið réttur eins og hann var settur fram en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Halldór Árnason, fjármálaráðuneyti, sagði að útreikningur á sparnaði upp á 800 millj. vegna breytinga Sighvats hefði verið á misskilningi byggður, að því er fulltrúar í heilbrrn. upplýstu hann um. Hann sagði að nýir útreikningar sýndu að reglugerðarbreytingin um aukna þátttöku almennings gæti skilað 400--500 millj. kr. minni útgjöldum. En breytingar Guðmundar, sé tekið mið af árinu 1990, skila 300 millj. kr. lægri útgjöldum á árinu 1992. Þannig að sparnaður upp á 700--800 millj. kr. gæti náðst.``
    En þá þýðir auðvitað ekki að tvíreikna það sem áður var búið að gera ráð fyrir. Hér gerir því fjmrn., í grg. með þessu frv. sem hér er til umræðu, ráð fyrir að ekki muni sparast nema 400 millj. í staðinn fyrir áður ráðgerðar 800 millj.
    Þá er að lokum nefnt varðandi það sem átti að spara við tannlæknakostnaðinn og breytingar á reglum um tannréttingar, endurgreiðslur um tannréttingar, átti að spara 280 millj. Okkur er að lokum sagt í þessari greinargerð að að áliti fjmrn. muni umræddar 150 millj. kr. sem tengdar voru tannréttingunum ekki sparast nema fallið verði frá bráðabirgðaákvæði því sem er að finna aftast í frv. þessu enda var ekki gert ráð fyrir því ákvæði þegar fjárlagafrv. var samið. Nú hefði ég viljað að hæstv. heilbrrh. svaraði okkur hvort með þessu sé verið að gefa undir fót að falla frá þessu bráðabirgðaákvæði til þess að ná umræddum 150 millj. kr. sparnaði. Ég hefði viljað, virðulegi forseti, að hæstv. heilbrrh. kæmi hér, vonandi er hann í húsinu, og svaraði mér þessum spurningum sérstaklega. Ég er ekki að gera að öðru leyti kröfu til þess að hann hlýði á þetta mál allt, því það varðar hann ekki allt, en ég hefði viljað fá svar við því hvað er fyrirhugað varðandi þennan þátt sparnaðaraðgerðanna og ég vona sannarlega að það sé ekki meiningin að fella niður þetta bráðabirgðaákvæði.
    Þá kemur í ljós að niðurstaðan af þessum áætluðu sparnaðaraðgerðum sem áttu að vera tæpir 2 milljarðar kr., 1.980 millj., verða ekki þegar upp er staðið nema 1 milljarður og 100 millj. kr. Reyndar segir í úttekt fjmrn. í greinargerð með frv. að það ættu að vera 1.270 millj. sem spöruðust, og það bendir til þess að fjmrn. sé enn að gæla við það að þessi 150 millj. kr. sparnaður náist, þ.e. að fallið verði frá bráðabirgðaákvæðinu sem þýðir að þeir sem hafa verið í tannréttingum að undanförnu eigi ekki rétt á endurgreiðslu. Þetta ætla ég að fá að ræða aðeins nánar við hæstv. heilbrrh.
    Síðan eru í frv. smávægilegar breytingar eins og t.d. breytingar á lögum um eiturefni og hættuleg efni sem ég skil nú ekki að hafi verið svo brýnt að koma hér inn, að leggja niður eina nefnd og breyta formi varðandi stjórnun þessara mála. Mér finnst það eigi lítið skylt við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum en látum gott heita.
    Í 23. gr. frv. er rætt um skráningu og mat fasteigna, þ.e. sértekjur Fasteignamats ríkisins sem á að velta yfir á sveitarfélögin í landinu. Það má gera ráð fyrir að sveitarfélögin taki á sig þann sparnað sem ríkið ætlar að ná fram með auknum sértekjum Fasteignamatsins. Í grg. frv. er ítarlega gerð grein fyrir því hvernig þetta er hugsað. Eins og formið er í dag, þá eru tekjur Fasteignamats ríkisins upp á 49,4 millj., eftir breytingarnar áætlaðar 87,3 millj. kr. eða sparnaður upp á 37,9 millj. Af þessum tekjum er samkvæmt núverandi fyrirkomulagi gert ráð fyrir því að sveitarfélögin greiði 26 millj. kr. en samkvæmt nýju fyrirkomulagi eiga sveitarfélögin að greiða 61,6 millj. kr. eða 35,6 af þessum 37,9 sem sértekjurnar eiga að aukast. En hér eiga sveitarfélögin að taka við rekstri stofnunarinnar að verulegu leyti.
    Um hina ýmsu liði sem koma í II. kafla frv. ætla ég ekki að fjalla ítarlega. Sumt af þessu eru gamlir kunningjar sem ég get út af fyrir sig lýst stuðningi mínum við þó að ég sé ekki sáttur við það allt saman. Ég vil sérstaklega nefna 34. gr. þar sem gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði á framlögum ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Gert er ráð fyrir því að framlagið verði skorið niður um það bil að hálfu, 340 millj. kr. verði veittar til sjóðsins en samkvæmt lögum ætti hann að hafa líklega helmingi hærri upphæð eða kannski ríflega það, 680--700 millj. kr., og ég leyfi mér að fullyrða að farið sé á skjön við þau ákvæði sem lágu til grundvallar þegar búvörusamningurinn svokallaði var gerður af hálfu fyrrv. ríkisstjórnar og raunverulega sé verið að svíkja viss ákvæði úr þessum búvörusamningi. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. hvort geti verið að ég hafi heyrt eða skilið rétt í fjölmiðlum að skerða ætti Framleiðnisjóðinn enn frekar, hvort hugmyndir séu um það í þessum viðbótarniðurskurði, sem allir bíða nú eftir að fá að heyra eitthvað um, að taka kannski þessar 340 millj. kr. líka af Framleiðnisjóðnum og hann verði þá á núlli. Vonandi hefur þetta verið misskilningur en einhvern veginn komst það svo inn hjá mér við að hlusta á fréttir í einhverjum af okkar ágætu fjölmiðlum að hugmyndir væru um það. Vera kann að málum hafi þó verið blandað eitthvað saman eða ég misskilið fréttina.
    Virðulegur forseti. Var hæstv. heilbrrh. væntanlegur? ( Forseti: Forseti getur upplýst hv. þm., að heilbrrh. var á fundi með fréttamönnum og hefur fengið þau boð um að hans sé óskað hér í þingsalnum þannig að hann veit um þessar óskir og kemur eins fljótt og mögulegt er.) Virðulegi forseti, ég ætlaði að fara að ljúka máli mínu. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta miklu lengra mál. Ég tel mig vera búinn að fara nokkuð yfir þau atriði sem ég taldi nauðsynlegt að koma á framfæri og ræða sérstaklega en átti þó eftir að fjalla frekar um málefni heilbrigðisþjónustunnar og var með eina sérstaka fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. sem mig langaði að bera upp við hann og svo reyndar að ræða við hann aðeins um aðra þætti. ( ÓRG: Er ekki rétt að gera bara hlé á ræðu þinni þangað til við fáum ráðherrann inn í sal?) Ég hef ekki mikla ánægju af að standa þegjandi í ræðustólnum. Ég hef yfirleitt ekki haldið langar ræður eða tafið þingstörf með löngum ræðuflutningi. ( ÓRG: Þeir eru búnir að vera hlaupandi hérna út úr salnum í allan dag. Þetta gengur ekki lengur.) Virðulegur forseti, ef það væri hins vegar hægt að gera slíka undantekningu á þingsköpum að ég mætti fresta ræðu minni og umræður gætu haldið áfram og það þýddi ekki að ég væri þar með búinn að ljúka mínum rétti til málflutnings hér í hv. þingi mundi ég fallast á það. ( Forseti: Forseti fellst á tillögu ræðumanns og mun gefa honum orðið þegar hann getur ávarpað hæstv. heilbrrh.)