Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

44. fundur
Föstudaginn 06. desember 1991, kl. 16:10:00 (1671)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Í fjarveru formanns þingflokks Alþb. og varaformanns þingflokksins vil ég vekja athygli forseta á því að þegar stjórnarandstaðan lýsti sig reiðubúna til þess að umræðan færi fram í dag og byrjaði fyrir hádegi og gengi fram með eðlilegum hætti var það ósk okkar að forsenda þess væri sú að þeir fagráðherrar sem eiga lög inni í svokölluðum bandormi væru að meginhluta viðstaddir umræðurnar svo að hægt væri að ræða við þá um þá þætti frv. sem snerta ráðuneyti þeirra. Þegar ríkisstjórn kýs að flytja

mál með þeim hætti að steypa saman í eitt frv. breytingu á lögum sem heyra undir mörg ráðuneyti, er það eðlileg ósk frá stjórnarandstöðuflokkunum og frumskylda viðkomandi ráðherra að vera viðstaddir umræðuna.
    Við höfum fylgst með því í nokkra klukkutíma að fæstir ráðherranna hafa verið hér. Oft hefur liðið hálftími og upp undir klukkutíma þannig að enginn þeirra eða einungis einn hefur verið viðstaddur. Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Guðmundi Bjarnasyni, gat hann ekki haldið áfram ræðu sinni vegna þess að hæstv. heilbrrh. var ekki mættur og þetta getur ekki gengið svona til, virðulegi forseti. Við höfum ekki mikinn áhuga á því að lengja umræðurnar en við teljum að þingið sé vettvangur samræðna milli þingmanna og ráðherra. Þess vegna setjum við fram þá eðlilegu ósk að áður en umræðurnar halda áfram --- fyrst svo er komið að ræðumenn geta ekki einu sinni haldið áfram ræðu sinni og borið upp fyrirspurnir til ráðherra sem ekki eru mættir --- að forseti geri ráðstafanir til þess að allir þeir ráðherrar sem hlut eiga að máli --- sem mér skilst að séu menntmrh., heilbrrh., félmrh., fjmrh., dómsmrh., landbrh. fyrir utan forsrh. ( Gripið fram í: Ég ætlaði að segja samgrh.) já, samgrh., séu viðstaddir umræðuna eða a.m.k. í næsta hliðarherbergi svo að þeir geti komið í salinn þegar viðkomandi ræðumenn vilja tala við þá. Þetta gengur ekki svona lengur. Og væri auðvitað réttast að halda umræðunni ekki áfram fyrr en búið er að ráða bót á þessu. Við ræddum þetta við einn af forsetunum fyrir stundu en þegar það gerðist að hv. þm. Guðmundur Bjarnason gat ekki haldið áfram ræðu sinni vegna fjarveru heilbrrh. var nauðsynlegt að láta þetta koma hér fram.