Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 10:32:00 (1696)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. heilbrrh. er í salnum og ég fagna því þar sem ég ætla aðallega að tala um heilbrigðis- og tryggingamál í ræðu minni og þær tillögur í svokölluðum bandormi sem fjalla um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni. Ég þarf líka að eiga orðastað við hæstv. ráðherra um yfirlýsingar hans í sjónvarpi í fyrrakvöld og þætti mér vænt um ef hann gæfi sér tíma til að hlusta á mál mitt. Síðan þyrfti ég að spyrja félmrh. einnar spurningar og væri gott ef forseti gæti gert ráðstafanir til þess að hann væri viðstaddur.
    Í framsöguræðu hæstv. forsrh. í gær og í því frv. sem er til umfjöllunar eru þau boðorð sem ríkisstjórnin gefur alveg skýr. Þau eru í fáum orðum þessi: Halda á áfram að skattleggja sjúklingana og gefa á banka --- bara þeim sem eiga peninga. Þetta eru skýr skilaboð sem þjóðin fær í upphafi aðventunnar. Ríkisstjórninni hefur gengið illa að koma fjárlögum saman. Ráðstafanir í ríkisfjármálum sýna það og yfirlýsingar staðfesta að ekki verði hægt að sýna ýmsar sparnaðartillögur fyrr en við þriðju og síðustu umræðu fjárlaga. Strax í haust bryddaði á því að ríkisstjórninni mundi reynast erfitt að koma fjárlögunum saman. Einstakir þingmenn og ráðherrar Alþfl. þóttust á þeim tíma hafa ýmislegt að athuga við það sem ætti að setja inn í fjárlögin. Umræðunni var haldið gangandi lengi og það virtist alls ekki víst að Alþfl. gæti staðið að fjárlagafrv. eins og það yrði lagt fram á Alþingi. Harðast gengu fram í þessu á sínum tíma hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.
    Hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, var kvöld eftir kvöld í sjónvarpinu og sagðist ekki vera búin að samþykkja eitt eða neitt af því sem lægi á borði ríkisstjórnarinnar varðandi fjárlagagerðina. Eftir sáttafund sem hún átti með hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. kom hún fram og sagði: Ég get sætt mig við þetta sem verður í fjárlagafrv. af þeirri ástæðu að ég náði fram afskaplega mikilvægum kjarajöfnunaraðgerðum og þær munu sjá dagsins ljós þegar fjárlagafrv. kemur fram eða við umræðu þess. Fyrir þetta afrek var hæstv. félmrh. kosinn maður vikunnar á rás 2 í sömu viku og þessi stóra yfirlýsing kom. Nú spyr ég hæstv. félmrh.: Hvar eru þær kjarajöfnunaraðgerðir sem félmrh. lofaði þjóðinni í sjónvarpi að væru í þessu fjárlagafrv. eða í þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin ætlar nú að gera í ríkisfjármálum? Birtast þær í því að skerða atvinnuleysisbætur? Birtast þær í því að þrengja að þeim sjóði sem farið hefur til þess að tryggja ríkisábyrgð á laun í gjaldþroti? Birtast þær í því að leggja aukna skatta og álögur á sjúklinga? Ef þetta eru kjarajöfnunaraðgerðirnar þá eru þær auðvitað í takt við annað sem hefur átt sér stað að undanförnu og Alþfl. hefur beitt sér fyrir.
    Á síðasta þingi lagði fyrrv. heilbrrh. fram frv. til laga um almannatryggingar sem Alþfl. treysti sér ekki til að standa að og bar því við að um tekjutengingu lífeyris væri að ræða. Frv. var ekki betur lesið en svo af hv. þm. Alþfl. á þeim tíma því þar var ekki um tekjutengingu lífeyris að ræða eða a.m.k ekki tekjutengingu við lífeyrissjóðina. Fyrrv. ráðherra lagði frv. hins vegar fram og í því voru raunverulegar kjarajöfnunaraðgerðir en alþýðuflokksráðherrarnir og þingmenn flokksins á þeim tíma treystu sér ekki til að standa að þeim kjarajöfnunaraðgerðum.
    Grundvöllurinn í því frv. sem var lagt fram á þeim tíma var sá að færa frá þeim sem búa við betri aðstæður í almannatryggingunum til hinna sem búa við verulega erfiðar aðstæður og vil ég nefna nokkur dæmi. Lífeyrir öryrkja er hækkaður í þessu frv. um 12%. Vasapeningar til þeirra sem eru inn á stofnunum voru hækkaðir um 30%. Ekkju- og ekkilsbætur voru hækkaðar um 50%. Nýtt ákvæði kom inn í frv. um svokallaðan uppihaldsstyrk sem er í frv. sem við nokkrir þingmenn Framsfl. höfum flutt, umönnunarbætur fyrir sjúk börn og fyrir elli- og örorkulífeyrisþega voru inni í þessu frv. en það kom í staðinn fyrir barnaörorku og makabætur. Barnalífeyrir var hækkaður um 30% og sjúkradagpeningar voru hækkaðir um 55%. En með öðrum aðgerðum, þ.e. með því að tekjutengja lífeyrinn við tekjur á vinnumarkaði, ekki við lífeyri lífeyrissjóðanna, var hægt að ná fram sparnaði sem stóð undir öllum útgjöldunum sem um var að ræða og rúmlega það. 150 millj. kr. voru samt í sparnað ef þetta frv. hefði orðið að lögum. En Alþfl. treysti sér ekki til þess að standa að þessu og þegar horft er á þær aðgerðir sem sá flokkur stendur að með Sjálfstfl. er skiljanlegt að sá flokkur skuli ekki hafa treyst sér til að standa að raunverulegum kjarajöfnunaraðgerðum.
    Í sjónvarpi á föstudagskvöld átti Árni Þórður Jónsson fréttamaður viðtal við þann sem hér stendur og hæstv. heilbr.- og trmrh., Sighvat Björgvinsson, um stjfrv. það sem ráðherra hefur lagt fram um umönnunarbætur til sjúkra barna og frv. það sem við þrír þingmenn Framsfl. höfum lagt fram af þeirri ástæðu að við töldum að stjfrv. gengi ekki nógu langt og hefði enga breytingu í för með sér aðra en þá að taka til í lögum. Í þessu sjónvarpsviðtali segir hæstv. heilbrrh., með leyfi forseta:
    ,,Menn geta auðvitað alltaf yfirboðið og alltaf komið með hærra boð, einkum og sér ef menn eru í stjórnarandstöðu. En ég vek bara athygli á því að það sem hér fyrst og fremst skiptir máli til breytinga í því frv. sem framsóknarmenn flytja er að auka rétt til greiðslu ferðakostnaðar og dvalarkostnaðar.`` Þetta er dálitið merkilegt vegna þess að í valdatíð fyrrv. heilbrrh. var einmitt dregið úr rétti til dvalarbóta og ferðakostnaðar fyrir foreldra barna. Hér er um rangfærslur og hrein ósannindi að ræða. Ég er með þær ferðakostnaðarreglur Tryggingastofnunar ríkisins sem giltu frá 1982 þar til 12. febr. 1991 og í þeim er gert ráð fyrir því að þeir sem þurfa að sækja læknisþjónustu utan heimabyggðar eða þjónustu sjúkrahúsa fái þriðju ferð sem þeir fara til að sækja slíka þjónustu greidda á 12 mánaða tímabili. Á næstu 12 mánuðum þar á eftir fá þeir aðra ferð greidda en þetta gildir einvörðungu um þá sem eru að sækja læknisþjónustu og þjónustu sjúkrahúsanna.
    Í reglugerð, sem fyrrv. heilbrrh. gaf út 12. febr. 1991, er þessu breytt þannig að það er ekki aðeins bundið við þjónustu lækna og sjúkrahúsa heldur allra þeirra stétta sem hafa samning við Tryggingastofnun ríkisins og það er ekki önnur eða þriðja ferð sem verið er að greiða, það er fyrsta ferð sem er greidd. Hér er um slík ósannindi af hálfu heilbr.- og trmrh. að ræða að hann á auðvitað að biðjast afsökunar á slíku og ekki síst í ljósi þeirra fögru orða sem hann fór um fyrrv. heilbrrh. úr þessum ræðustóli í gær.
    Ég minnist þess í sumar þegar hæstv. ráðherra átti orðastað við hv. þm. Svavar Gestsson og bar upp á hann hrein ósannindi út af þessari margumræddu lyfjareglugerð. Vitnaði ráðherrann þá í gamalt húsráð sem amma hans hafði kennt honum en það var að þvo þeim með grænsápu um munninn sem skrökvuðu. Það er slæmt að blessaðrar gömlu konunnar skuli ekki njóta við enn og ekki væri vanþörf á að hún eða einhvern slík væri a.m.k. öðru hverju með grænsápupakkann og skrúbbinn í heilbrrn. ( SJS: En heldurðu að það sé til nóg af grænsápu í landinu?) Ég veit það ekki, hv. þm.
    Þá kem ég að því margumrædda lagafrv. sem er til umræðu og ætla þá fyrst að fjalla þá örlítið um lyfjakostnaðinn og þann sparnað sem á að nást með þessu frv. Ég held að stefna ríkisstjórnarinnar og fyrri ríkisstjórna komi hvergi eins glöggt í ljós og í heilbrigðis- og tryggingamálum og þá kannski sérstaklega er við lítum við lyfjakostnaðar. Fyrrv. heilbrrh. lagði ofurkapp á það í sínum störfum í ráðuneytinu að taka á og breyta því fyrirkomulagi sem gildir í lyfjainnkaupum og lyfsölu. En núv. hæstv. heilbrrh. finnst það engu máli skipta heldur leggur höfuðáherslu á að láta sjúklingana greiða sem allra mest fyrir lyfin. Þarna birtist skýr greinarmunur á stefnu þessara tveggja ráðherra og þessara tveggja ríkisstjórna.
    Í tíð fyrri ráðherra, Guðmundar Bjarnasonar, var álagning lækkuð í smásölu lyfja úr 68% niður í 59%. Álagning í heildsölu var lækkuð úr 17% niður í 13,5%. Tekinn var upp afsláttur sem stærstu apótekin veittu Tryggingastofnun ríkisins fyrir mikil viðskipti. Gefinn var út svokallaður bestukaupalisti, ef læknar ávísuðu á ódýrustu lyf fyrir sjúklinga þá greiddu sjúklingarnir lægra fastagjald. Þetta fyrirkomulag hafði í för með sér 350 millj. kr. sparnað í lyfjum á þeim tíma. Ef ráðherrann hefði haldið áfram á sömu braut og lækkað álagninguna úr 59% niður í 40% hefði hann getað náð öðrum 350 millj. Nei, hann valdi þá leið að láta sjúklingana greiða.
    Ég get hins vegar tekið undir þær breytingar sem hæstv. heilbrrh. er að gera með að taka upp hlutfallsgreiðslu í þátttöku sjúklinganna í lyfjakostnaði og læknisþjónustu. Ég held að þar sé um mjög skynsamlega leið að ræða og ég treysti mér til að greiða atkvæði með þeim þætti þessa frv. í trausti þess að ráðherrann tryggi að þak verði sett á greiðslur einstaklinganna eins og hann hefur lofað. Það er auðvitað framfaraspor og sýnir að hann hefur talsvert lært á þeim tíma sem hann hefur verið í ráðuneytinu. Ráðherrann státar mjög af því að útgjöld til lyfjamála hafi lækkað um 500 millj. kr. og ég hygg að það sé alveg rétt. Það er vegna þess að sjúklingarnir eru farnir að greiða meira en að hluta til er skýringin líka sú, eins og ráðherrann hefur einnig bent á, að menn eru farnir að nota ódýrari lyf og það er vel. En hægt er að fara aðrar leiðir í þeim efnum eins og með svokölluðum bestukaupalista sem farið var að vinna að. Hins vegar getur skýringin auðvitað verið að hluta til sú að fólk sé hætt að kaupa lyf því að það hafi ekki peninga til þess og þá erum við á mjög hættulegri braut vegna þess að þá erum við að vísa vandamálunum á framtíðina og ráðherrann segir að það megi alls ekki gera. En með því erum við auðvitað að vísa þeim kostnaði heilbrigðisþjónustunnar yfir á framtíðina.
    Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir að útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins vegna lyfjakostnaðar verði 1900 millj. kr. Í viðtali við starfsmann ráðuneytisins í sjónvarpi í síðustu viku kom fram að Tryggingastofnun ríkisins greiddi um 200 millj. kr. á mánuði fyrir lyf og það væru um 2,4 milljarðar kr. á ári. Samkvæmt þessu er fjárlagafrv. býsna óraunhæft. Með sérfræðilæknishjálpinni er einnig gert ráð fyrir að vísa vandamálinu sem ríkisstjórnin glímir við yfir á sjúklingana. Þar á að spara í læknishjálp 260 millj. Komugjaldið til sérfræðings á að hækka úr 900 kr. í 1500 kr.
    Í þessum efnum valdi fyrrv. ráðherra allt aðra leið. Þegar Sjálfstfl. fór með forræði heilbrigðis- og tryggingamálanna á árunum 1983--1987 fór kostnaður við sérfræðilæknishjálp stighækkandi á hverju ári á föstu verðlagi. Engar tilraunir voru gerðar til þess að spyrna við fótum og vil ég hér nefna tölurnar. Ég tek fram að þetta er á verðlagi í júní 1990 og allt á föstu verðlagi. Árið 1984 var kostnaður við sérfræðilæknishjálp 440 millj.kr., árið 1985 590 millj. kr., árið 1986 690 millj. kr., árið 1987 878 millj. kr., árið 1988 979 millj. kr. Árið 1989 var annar ráðherra farinn að stjórna og var kostnaðurinn þá 844 millj. eða um 135 millj. kr. lægri. Lækkuninni var ekki náð fram með því að láta þá sem þurfa á þjónustu sérfræðinganna að halda greiða hærra gjald fyrir þjónustuna. Gjaldið var að vísu hækkað til samræmis við þær verðlagshækkanir sem orðið höfðu á því tímabili frá því að þær síðast höfðu hækkað. Hins vegar var hörkuslagur um þessa hluti við lækna og í þann slag fór hæstv. fyrrv. heilbrrh. og hann valdi það frekar en láta sjúklingana greiða. Það þarf nefnilega engan kjark til þess að ráðast að sjúklingunum, en það þarf kjark til þess að taka á kerfinu og þarna skilur að þessa tvo heilbrigðisráðherra. Breyting var gerð á þeim sérfræðilæknissamningi sem hafði verið í gildi þannig að sérfræðingar fóru að veita afslátt af

þjónustu við sjúklinga sem Tryggingastofnunin greiddi fyrir, og með þeim aðgerðum sem þar var gripið til náðist sparnaður upp á 135 millj. kr.
    Í febrúar árið 1990 var aftur gerð breyting á samskiptum við sérfræðinga og samskiptum milli sérfræðinga og heimilislækna. Hún fólst í því að það var hætt að taka gjald af þeim sem sóttu þjónustu heilsugæslustöðva. En gjaldið til sérfræðinga var hækkað úr 630 kr. upp í 900 kr. Þetta varð til þess að á föstu verðlagi lækkaði sérfræðilæknishjálpin árið 1989 úr 844 millj. niður í 800 millj. Nú er hins vegar snúið af þessari leið og aftur á að fara að taka upp gjald fyrir komu á heilsugæslustöðvarnar en hækka gjaldið til sérfræðinganna.
    Ég hef heyrt hæstv. heilbrrh. oft lýsa því yfir að hann hyggist gera ýmsar breytingar á samningi við sérfræðinga. Það væri gaman að heyra hverjar þær breytingar eiga að vera. Kostnaður við hverja komu til sérfræðings í dag er í kringum 1900 kr. að meðaltali og inni í þeirri upphæð er ekki kostnaður við rannsóknir. Ef þær væru teknar inn væri kostnaðurinn kominn upp í 2400--2500 kr. Kostnaður við hverja heimsókn til heimilislæknis starfandi utan heilsugæslustöðva er í kringum 1400 kr., þ.e. um 500 kr. lægri en til sérfræðingsins. En kostnaður við heilsugæslulækni, sem starfandi er inni á heilsugæslustöð og veitir mun víðtækari þjónustu en heimilislæknir er ekki yfir 1000 kr. þegar heilsuverndin, heimahjúkrun hefur verið einangruð út úr kostnaði heilsugæslustöðvanna. En af þessari braut sparnaðar er auðvitað verið að hverfa yfir í það að halda áfram að vísa fólkinu til sérfræðinganna. Rök hæstv. heilbrrh. í þessum efnum eru vafalaust þau að gjaldið til sérfræðinganna verður miklu hærra en gjaldið á heilsugæslustöðvarnar. Það er að vísu alveg rétt og ekki fjarri lagi að sá munur sem nú er verði sá sami ef gjaldið fyrir komu á heilsugæslustöð verður um 600 kr. En gallinn er bara hins vegar sá að ég hugsa að það séu fáir eins fegnir og sérfræðingarnir að ná þessari breytingu fram. Og af hverju? Jú, ef meðalkostnaður við hverja komu til sérfræðings er 1900 kr. en sjúklingurinn greiðir 1500 kr., þá er ríkisstjórnin að leggja freistingu fyrir sérfræðinga. Þeir sem skrifa reikningana þurfa að velta því fyrir sér hvort það borgi sig fyrir þá að að skrifa reikning upp á 1900 kr. því að í mörgum tilvikum kostar heimsókn til sérfræðings langt undir 1500 kr. þannig að enginn reikningur verður skrifaður með þessum hætti. Það erfiðasta sem fyrrv. heilbrrh. átti við að glíma var að fara ekki svo hátt með gjaldið til sérfræðinganna að þessi freisting væri lögð fyrir þá.
    Ég er ekki að segja að sérfræðingar falli í þessa freistingu. Það vona ég að enginn geri en hana er ríkisstjórnin að útbúa. Það var auðvitað umhugsunarefni á sínum tíma að fara með gjaldið til sérfræðinganna hærra en í 900 kr. og halda gjaldinu fyrir heimsókn í heilsugæslustöðvarnar. En það vildi hæstv. heilbrrh. ekki gera og þess vegna ákvað hann að afnema gjaldið inn á heilsugæslustöðvarnar. Auðvitað eru til fleiri leiðir í þessum efnum en það að hækka gjaldið eitt og vil ég í því sambandi benda á tilvísanakerfið, sem reyndar hefur verið numið brott úr almannatryggingalögunum fyrir þrýsting frá sérfræðingum. Með því kerfi er þeim sem eru með tilvísun heimilað að greiða fast gjald sem gæti verið lágt, það gæti verið áfram 900 kr. En þeir sem kjósa að fara beint til sérfræðings án þess að hafa tilvísun ættu auðvitað að greiða reikninginn að fullu. Með þessum hætti er í fyrsta lagi hægt að koma á eðlilegum samskiptum milli heimilislækna og sérfræðinga og í öðru lagi hægt að takmarka heimsóknir til sérfræðinga. Við erum búnir að byggja upp heilbrigðiskerfi sem gerir ráð fyrir því að heimilislæknar og heilsugæslulæknar veiti grunnlæknis- og heilsugæsluþjónustu. Sérfræðingarnir veita sérfræðiþjónustu og þess vegna er gjaldskrá þeirra 33% hærri en heimilislækna vegna þess að þeir eiga að að veita sérfræðilega læknishjálp en ekki vinna í grunnþjónustunni.
    Í Reykjavík hefur verið byggt upp tvöfalt kerfi heimilislækna og heilsugæslulækna sem ég veit að hæstv. heilbrrh. þekkir. Það þekkist hins vegar hvergi annars staðar. Sem betur fer sýnist mér að hæstv. heilbrrh. hafi sömu stefnu í því og fyrrv. ráðherra að vilja draga úr þjónustu heimilislækna og færa hana inn á heilsugæslustöðvarnar þar sem víðtækari þjónusta er veitt en hjá heimilislæknum. Gert er ráð fyrir því að sértekjur heilsugæslustöðvanna hækki um 375 millj. kr. og það á að gera með því eins og ég sagði áðan að hækka komugjaldið á stöðina úr 0 kr. í 600 kr. Hæstv. forsrh. lét að því liggja í gær að þetta hefði verið gert í tilraunaskyni. Fyrrv. heilbrrh. svaraði því að um hreina stefnu að væri ræða og í þá átt sem ég var að lýsa hér áðan.
    Uppbygging heilsugæslunnar hefur verið mjög mikil á undanförnum árum, sérstaklega úti á landi. Uppbygging hefur því miður orðið eftir í Reykjavík og er einkum tvennt sem því veldur. Í fyrsta lagi algert áhugaleysi Sjálfstfl. í Reyjavík fyrir uppbyggingu heilsugæslunnar og hitt að fjármunir hafa að undanförnu verið takmarkaðaðir og hafa fyrst og fremst farið í uppbyggingu heilsugæslunnar úti á landi en það hefur farið saman við áhugaleysi sjálfstæðismeirihlutans í Reykjavík um uppbyggingu.
    Með þeim breytingum sem gerðar voru á verkaskiptalögum milli ríkis og sveitarfélaga var heilsugæslan öll flutt frá sveitarfélögunum til ríkisins og við það hefur orðið nokkur breyting á uppbyggingu heilsugæslustöðva í Reykjavík. Fyrrv. heilbrrh. lagði fyrir ríkisstjórn áform um uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var stefna að hans hálfu, stefna sem ríkisstjórnin samþykkti og honum og fyrrv. fjmrh. var falið að framkvæma. Af hálfu ríkisstjórnarinnar var talsvert unnið í þeim efnum. Síðan þá hefur lítið gerst. Hins vegar hefur núv. heilbrrh. óskað eftir því, sem er lofsvert, að svokallað samstarfsráð heilsugæslustöðva í Reykjavík geri tillögu um uppbyggingu heilsugæslunnar í borginni. Það hefur verið gert og þeim tillögum hefur verið skilað til hæstv. ráðherra og ég vonast auðvitað til þess að þær verði framkvæmdar, en því miður er hins vegar margt sem bendir til þess eins og fjárlagafrv. lítur út núna að uppbyggingin stöðvist. Ég veit hins vegar af samtölum mínum við ráðherra að hann hefur fullan hug á að halda uppbyggingunni áfram en hún hefur byggst á því að í 6. gr. fjárlaga hefur verið heimild fyrir fjmrh. til þess að taka á leigu eða kaupa húsnæði til uppbyggingar heilsugæslunnar í Reykjavík. Síðan í júní á þessu ári hefur legið ýmist í heilbrrn. eða í fjmrn. fullbúinn leigusamningur við aðila í Reykjavík um að taka á leigu húsnæði undir heilsugæslustöð í Grafarvogi en íbúar þar eru nú tæplega 5000. Þeir þurfa allir að sækja sína heilbrigðisþjónustu yfir í Árbæjarhverfi á stöð þar sem ekki er hægt að bæta nokkrum sjúklingi við af þeirri ástæðu að þar eru svo margir fyrir að stöðin er fullbókuð og er ekki hægt að stækka. Um næstu áramót rennur úr gildi þessi heimild sem ráðherra hefur til þess að ganga frá leigusamningi á grundvelli 6. gr. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. núna að þessu 6. gr. ákvæði verði haldið inni. Því spyr ég heilbrrh. eins og ég hef reyndar oft spurt áður hvað líður því að gengið verði frá þessum leigusamningi? Við samstarfsráð heilsugæslustöðva í Reykjavík, við stjórn umdæmisins, við íbúasamtökin í Grafarvogi er margoft búið að segja: Þetta er alveg að koma. Nú eru menn orðnir nokkuð langeygir því að frá því í júní hafa menn beðið eftir því að eitthvað gerðist. Með þeirri áherslubreytingu sem varð í tíð fyrrv. ráðherra átti sér stað veruleg tilfærsla á fólki sem nýtur þjónustu heimilislækna og þeirra sem njóta þjónustu heilsugæslustöðvanna. Árið 1987 voru í Reykjavík 52 þús. Reykvíkingar sem nutu þjónustu sjálfstætt starfandi heimilislækna en 30 þús. sem nutu þjónustu heilsugæslustöðvanna. Þá voru 15 þús. Reykvíkingar sem engan heimilislækni höfðu. Árið 1991 hefur þetta snúist við. Það eru 36 þús. Reykvíkingar sem njóta þjónustu heimilislækna en 53 þús. Reykvíkingar sem njóta þjónustu heilsugæslustöðvanna. Þetta sýnir best þá stefnubreytingu sem varð í tíð fyrri ríkisstjórnar í þessum efnum og ég vonast til þess að hæstv. núv. heilbrrh. haldi áfram á sömu braut því að enn eru 10--12 þús. Reykvíkingar sem engrar heilsugæsluþjónustu njóta.
    Það mætti segja margt um þær sértekjur sem fram koma í fjárlagafrv. og gert er ráð fyrir að innheimtar verði á heilsugæslustöðvunum. Þær eru sífellt að breytast þannig að ég ætla ekki að fara ofan í þær tölur nákvæmlega, læt það bíða til seinni tíma, þar til umræða um fjárlagafrv. fer fram. En ég vil þó segja fyrst sú leið er farin að taka upp aftur að innheimta þetta gjald á þá sem inn á heilsugæslustöðvarnar koma, að ég tek undir það

að mér finnst skynsamlegra að láta það ganga inn sem sértekjur til heilsugæslustöðvanna en að það fari beint inn til Tryggingastofnunar ríkisins, inn í læknishjálpina. Þetta mun veita, að mínu viti, heilsugæslustöðvunum frjálsari hendur en þær hafa í dag til þess að ráðstafa sínum fjármunum.
    Mig langar að minnast á deiluna um tannréttingarnar sem ég kom aðeins inn á í andsvari í gær og ég skil þreytu hæstv. heilbr.- og trmrh. vegna samskipta sinna við tannréttingamenn. Ég þekki það nokkuð. Síðan í desember 1989 má eiginlega segja að þessi deila hafi staðið, frá því að hér voru samþykkt lög á Alþingi um að taka upp þriggja flokka skiptingu á greiðslum til þeirra sem almennra tannréttinga njóta. Tannréttingasérfræðingarnir sögðu upp þessum samningi sem búið var að gera við Tannlæknafélag Íslands og gengu þannig út úr viðskiptum sínum við Tryggingastofnun Íslands. Að mínu viti má ekki refsa þeim sem á þjónustunni þurfa að halda, eins og nú á að gera, þó að glíman sé erfið við tannréttingalæknana, en það er hæstv. ríkisstjórn að gera hér með 15 gr. þessa frv. vegna þess að núna á að hætta allri greiðsluþátttöku almannatrygginga í almennum tannréttingum. Í gildandi lögum var gert ráð fyrir því að þessi flokkun yrði þrískipt og hlutfallsgreiðslur réðust af því um hversu alvarlega sjúkdóma eða skekkjur væri að ræða. Staðreyndin er nefnilega sú að þetta er eitt af því sem hægt er að tala um, þ.e. tannréttingarnar, sem forvarnarstarf því á meðan barn er á aldrinum 6--10 ára getur verið hægt að ná miklum árangri í tannréttingum og tannréttingakostnaður á þessum tíma er ekki nema brot af því sem verður þegar farið er út í réttingu eftir að fólk er komið á fullorðinsaldur. Það er því alvarlegt, svo að ekki sé meira sagt, að hverfa frá þessu atriði laganna og í raun og veru er ráðherrann með þessu að vísa sparnaðinum sem hann ætlar að ná með þessum breytingum yfir á útgjöld heilbrigðisþjónustunnar í framtíðinni eða yfir á útgjöld einstaklinganna í framtíðinni sem munu verða miklum mun meiri heldur en ef menn nytu þessara greiðslna úr almannatryggingum núna. Mér sýnist í fljótu bragði að áætlað sé með þessum breytingum að greiðslur á árinu 1992, verði 15. gr. frv. að lögum, verði greiðslur fyrir tannréttingarnar kringum 13 millj. kr. til þessara alvarlegu galla og sjúkdóma. Á verðlagi ársins 1991, og miðað við þá þjónustu sem veitt er á grundvelli 39. gr. almannatryggingalaganna á árinu 1989, þá voru þessi útgjöld 50 millj. en mér sýnist að samkvæmt frv. sé gert ráð fyrir að í þetta verði settar á árinu 1992 13 millj. kr. Um allar greiðslur vegna ákvæða 39. gr. 1989 gilti um það sama og 15. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir að greitt sé til. Í raun á að draga úr þessum greiðslum enn frekar en lýst er í þessu frv. vegna þess að gert er ráð fyrir því að það verði í valdi hæstv. ráðherra að setja reglugerð um það hvernig þetta skuli framkvæmt.
    Í 17. gr. er gert ráð fyrir því að spara í tannlækningum um 280 millj. kr., 150 millj. í tannréttingum, 50--60 millj. kr. í skólatannlækningum, 70 millj. kr. með því að koma á 10% kostnaðarþátttöku. Það kemur fram í frv. að ef það bráðabirgðaákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir, verður að lögum muni þessi sparnaður upp á 150 millj. kr. ekki nást. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir sem mér þótti gott að heyra að hann ætlar að standa við þau fyrirheit sem formaður tryggingaráðs hefur gefið og fyrrv. heilbrrh. hafði gefið og ítrekað hér á Alþingi. Sá sparnaður, sem þarna er gert ráð fyrir, mun því miður ekki nást. 50--60 millj. kr. er hægt að spara í skólatannlækningum. Ég tek undir þetta með hæstv. ráðherra. Ég held að þarna sé verið að fara inn á skynsamlega braut. Það hljómar hins vegar dálítið einkennilega að hv. sjálfstæðismenn skuli ætla að standa að þessum breytingum. Ég man eftir mörgum yfirlýsingum borgarfulltrúa Sjálfstfl. í Reykjavík um að það væri frelsið sem ætti að gilda í þessum efnum og það ætti ekki að skylda fólk til þess að fara til skólatannlæknanna og nýta sér þá þjónustu sem þar væri veitt, heldur ætti ríkið að greiða þá reikninga sem foreldrarnir kæmu með frá hinum almenna tannlækni úti í bæ. En þarna hefur sýnilega orðið stefnubreyting. Ég held að þetta sé skynsamleg leið sem hæstv. ráðherra er þarna að fara. 70 millj. kr. er hægt, að mati ráðherrans, að ná með því að breyta kostnaðarþátttökunni í tannlækningunum, þ.e. á aldrinum 0--16 ára. Ég tek undir þetta einnig og

mun greiða atkvæði með því að þessi 10% kostnaðarþátttaka komi á alla. Reyndar er verið að færa svolítið til. Það var önnur greiðsluþátttaka á aldrinum 0--5 ára, síðan var þetta frítt frá 6--15 ára. Ég held að það sé skynsamlegt að færa þetta yfir í það form að allir taki einhvern þátt. Hins vegar má náttúrlega við því búast, ef þessi ríkisstjórn verður lengi áfram, að þetta hlutfall verði hækkað smám saman þannig að smátt og smátt færist þessi kostnaðarauki yfir á foreldrana.
    Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra að sinni. Full ástæða er þó til að ræða hér mjög margt um sjúkrahúsin og hugmyndir sem þar eru uppi og þær breytingar sem á að gera á rekstri sjúkrahúsanna hér í Reykjavík. Það er ekki beint í því frv. sem hér er til umfjöllunar þannig að mér þykir ekki rétt að eyða tímanum nú til þess en mun gera það við umræður um fjárlög þegar um þau verður fjallað.