Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 11:22:00 (1697)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum í þessari umræðu um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992. Þessar spurningar varða 1. og 3. gr. frv. sem aftur eru tillögur til breytinga á lögum um grunnskóla.
    Undrun hefur komið fram í máli sumra hv. alþm. á því að nú skuli fluttar breytingartillögur við nýsett lög um grunnskóla og að slílkar breytingartillögur skuli fluttar af þingmönnum eða fulltrúum flokka sem studdu grunnskólafrv. á sl. vetri. Það er rétt að þingflokkur sjálfstæðismanna studdi grunnskólafrv. á síðasta þingi fyrra kjörtímabils. Það mál var eitt af síðustu frv. sem afgreitt var á því kjörtímabili. Umræður um það mál voru til þess að gera litlar undir lokin en höfðu auðvitað farið fram áður og mikil vinna verið í menntmn. þingsins. Samkomulag varð undir lok þingsins um að afgreiða þetta mál. Okkur sjálfstæðismönnum þótti það skynsamleg afstaða að afgreiða málið vegna þess að í því frv. voru mörg mjög mikilvæg ákvæði og markmið sem við vissulega studdum. Við gagnrýndum þó við meðferð málsins ýmislegt sem vantaði í frv. og sem auðvitað vantar enn í núgildandi grunnskólalög. Engu að síður þótti okkur rétt að styðja málið. Við studdum það vegna þess, eins og ég sagði, að þarna var um mörg góð og mjög mikilsverð markmið að ræða. Það vantaði hins vegar veigamikla þætti og sérstaklega vantaði ákvæði um hvernig ætti að standa að fjármögnun þessara mála. Þar voru skyldur lagðar á aðra en ríkið, sérstaklega sveitarfélögin og samstarf við þau var ekki neitt á lokastigi málsins. Þetta gagnrýndum við á sínum tíma. Það eru sem sagt lagðar ýmsar skyldur á sveitarfélögin en þeim er ekki séð fyrir tekjum á móti. Það var í raun og veru augljóst þegar þetta mál var afgreitt að lögin þyrfti að endurskoða fyrr en síðar.
    Einkum eru tvær ástæður fyrir því að gerðar eru í þessu frv. tillögur til breytinga á grunnskólalögunum. Í fyrsta lagi að fjármunir hafa ekki verið tryggðir til þess að náð verði settum markmiðum. Þessir fjármunir hafa hvorki verið tryggðir af ríkisins hálfu né sveitarfélaganna. Það er mat ríkisstjórnarinnar að ekki sé unnt að tryggja þetta fjármagn nú eins og ástatt er í fjármálum ríkisins.
    Vegna fyrirhugaðrar endurskoðunar á löggjöfinni í heild er ekki skynsamlegt að þessi ákvæði komi til framkvæmda nú þótt þau skipti ekki sköpum í sambandi við þann fjármálavanda sem við stöndum nú frammi fyrir.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fór nokkuð ítarlega yfir þessar brtt. og lýsti andstöðu sinni. Hann spurði raunar hvað ylli þeim ósköpum að breytt væri viðamiklum þáttum í lögum um grunnskóla og hvers vegna væri verið að breyta því sem ekki væri ríkisins að greiða og átti við það sem er viðfangsefni sveitarfélaganna. Ég tel mig raunar hafa svarað þessu þegar með því að segja að það sé ekki séð fyrir fjármögnuninni og sveitarfélögunum ekki tryggðir auknir tekjustofnar vegna þess sem á þau er lagt. En þá, eins og ég sagði, væri óskynsamlegt að láta þessa þætti koma til framkvæmda þegar ljóst er að endurskoða þarf lögin.
    Ákvörðunum um að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma er frestað.

Ég veit ekki hvort um það er full samstaða hver eigi að greiða það sem þarna er sagt. Ég veit það að sveitarfélögin eru ósátt við að þessi skylda sé á þau lögð. En ég vil láta það koma fram að það er mitt mat að þarna sé verið að leggja skyldu á sveitarfélögin en ekki ríkið þegar þetta ákvæði er sett inn. Ég legg hins vegar áherslu á að það er ekki verið að fella þetta ákvæði brott úr lögunum. Auðvitað stendur þetta lagaákvæði áfram en það er verið að fresta því eins og öðru sem getið er um í 1. gr. frv. Það er verið að fresta því að þetta ákvæði komi til framkvæmda á árinu 1992. Á þetta legg ég mikla áherslu. Menn mega ekki rugla þessu saman við það verið sé að nema þessi ákvæði brott úr lögum. Það er ekki verið að því. Og þetta á við allt annað sem segir í 1. gr. frv., þar á meðal b-liðinn sem fjallar um grunnskólaráðið. Því ákvæði er frestað líka og ástæðan er einfaldlega sú að starfssvið og starfstilhögun grunnskólaráðs hefur ekki verið útfært nánar. Ekki er alveg ótvírætt að þetta grunnskólaráð sé skipað eins og það best gæti verið en þetta er eitt af þeim ákvæðum sem ástæða þykir til að skoða nánar.
    Í c-liðnum er frestað ákvæðinu um heimildir til þess að ráða aðstoðarskólastjóra, það er breyting á 32. gr. grunnskólalaganna, 2. mgr. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hér er aðeins um heimildarákvæði að ræða en okkur þótti rétt að taka af öll tvímæli um að þessi heimild yrði ekki notuð á árinu 1992 og ástæðan er einfaldlega sá aukni kostnaður sem þessu fylgir. Það er erfitt að meta hversu mikill hann hefði orðið vegna þess að við höfum ekki upplýsingar um það á hreinu hversu margir hefðu sótt um þessa heimild og talið sig eiga rétt á að fá að ráða aðstoðarskólastjóra.
    d-liðurinn fjallar um vikulegan kennslutíma og er breyting á 46. gr. grunnskólalaganna. Þar legg ég enn áherslu á það að verið er að fresta þessum ákvæðum á árinu 1992. Þetta þýðir einfaldlega að vikulegum viðmiðunarstundum fjölgar ekki. En þetta þýðir ekki að farið verði að fækka þeim eins og ég held að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi spurt um í samhengi við lokamálsgrein 3. gr. þar sem menntmrn. fær heimild til að setja í reglugerð ákvæði um vikulegan kennslutíma á bekk í grunnskóla. Þetta verður sem sagt að skoðast í samhengi við það ákvæði að frestunin gildi aðeins fyrir árið 1992. Það hafa að sjálfsögðu þegar verið teknar ákvarðanir um skólaárið sem nú stendur yfir og það eru ekki fyrirhugaðar neinar breytingar á þeim ákvörðunum sem þar hafa þegar verið teknar.
    Ég skil það svo að ekki sé ágreiningur um 2. gr. frv. Það hefur a.m.k. ekki komið fram svo ég hafi tekið eftir í máli þeirra hv. þm. sem hér hafa talað en þar eru tekin af tvímæli um það hver eigi að greiða húsnæði fyrir heilsugæslu og/eða tannlækningar.
    3. gr. er síðan breyting á bráðabirgðaákvæðinu í grunnskólalögunum og reyndar snertir hún fleiri greinar í grunnskólalögunum. Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna, vegna orða hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, þar sem hún talaði um að fellt væri niður ákvæðið um einsetinn skóla. Það er ákvæðið í 3. gr. grunnskólalaganna þar sem segir í 2. mgr.: ,,Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé einsetinn.`` Hv. þm. sagði í ræðu sinni í gær að fellt væri niður ákvæðið um einsetinn skóla. Það má vel vera að þingmaðurinn hafi mismælt sig og ég ætla þá ekki að gera neitt mál úr þessu en það er auðvitað alls ekki svo að það sé verið að fella niður þetta ákvæði. Ákvæðið sem fellt er brott úr bráðabirgðaákvæðum gildandi laga er að stefnt skuli að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu 10 árum frá gildistöku laganna samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband ísl. sveitarfélaga. Þetta er eitt af því sem við viljum endurskoða en alls ekki er verið að nema það brott úr lögunum. Á þetta legg ég líka sérstaka áherslu.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beindi til mín þeirri áskorun að flytja þessar tillögur í sérstöku frumvarpi, ef það væri ásetningur minn að fylgja þessu fram, en ekki hengja þetta í frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í því sambandi vil ég segja að sérstakt frumvarp um endurskoðun grunnskólalaganna verður vonandi lagt fram á þessu þingi, á síðari hluta þessa þings, og þá gefst auðvitað tækifæri til þess að ræða miklu ítarlegar um grunnskólann en þetta frv. gefur tilefni til. Þá gefst áreiðanlega tækifæri til þess að ræða þá skólamálastefnu í málefnum grunnskólans sem við viljum fylgja og sem breiðust samstaða kann að verða um á hv. Alþingi. Það þarf nefnilega að ræða um margt fleira en kostnað í sambandi við skólamál, mjög margt fleira og ég vona að það gefist tilefni til þess síðar á þessu þingi. Ég verð því að svara þannig ákalli hv. þm. um að færa þessar tillögur í sérstakt frumvarp um breytingu á grunnskólalögum að til slíks geti ekki komið nú. Ég legg á það áherslu að þessar tillögur verði samþykktar. Þar er um tímabundna frestun á gildistöku vissra ákvæða grunnskólalaganna að ræða og síðar á þinginu vona ég að gefist tækifæri til ítarlegrar umræðu um málefni grunnskólans. Á því er full þörf.
    Ég sé ekki sérstaka ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Ræða hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur gaf að vísu tilefni til að segja nokkur fleiri orð. Hv. þm. hafði mörg og fögur orð um ágæti grunnskólalaganna sem sett voru á síðasta vetri og ekki ætla ég að draga neitt úr því. En af ræðu þingmannsins mátti jafnvel ráða að með þeim brtt. sem hér eru fluttar, ef samþykktar yrðu, væri nánast öll löggjöfin hrunin til grunna. Það er mikill misskilningur. Þessar tillögur varða aðeins fáa þætti og eftir stendur að sjálfsögðu meginefni grunnskólalaganna. Við erum ekki að breyta þar neinu.
    Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir fann eina skýringu á því að þessi ákvæði varðandi grunnskólann væri að finna í frv. og það er bágur efnahagur höfuðborgarinnar. Ég verð að segja að mér þótti þetta svolítið skondin skýring. Ég hef ekki heyrt hana áður og kannast ekki við að sú sé ástæðan fyrir þessum brtt. og lít á þetta frekar sem grín en alvöru.
    Þingmaðurinn spurði líka hvers vegna Sjálfstfl. hefði staðið að samþykkt grunnskólalaganna og ég hef þegar svarað því. Ástæðan var sú að okkur þótti markmið frv. þess efnis að full ástæða væri til þess að styðja þau. Sú var ástæðan. Við vildum ekki bregða fæti fyrir samþykkt frv. sem okkur var þó innan handar á síðustu dögum þings síðasta kjörtímabils.
    Hv. þm., eins og reyndar fleiri, las upp úr samþykkt Kennarafélags Reykjavíkur þar sem talað er um að lög séu samþykkt á einu þing en ógilt á öðru. Þetta er ekki nákvæmt orðalag hjá Kennarafélagi Reykjavíkur og ekki því til sóma að komast þannig að orði. Hér er ekkert verið að ógilda. Það er ekki verið að ógilda neitt eins og ég hef þegar tekið fram. Það er verið að fresta tilteknum ákvæðum í tiltekinn tíma. Það er málið.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson talaði að vísu svo sem ekkert um þessar greinar og ég þarf þess vegna ekki að svara honum, en hann talaði um að með þessu frv. væri velt stórum upphæðum yfir á sveitarfélögin án þess að nokkuð samráð væri við þau haft. Það má vel vera að eitthvað skorti á samráð við sveitarfélögin en ég hlýt að benda á það, sem ég hef reyndar þegar gert, að við samþykkt grunnskólalaganna sá þáv. ríkisstjórn, sem hv. þm. Jón Kristjánsson studdi, ekki ástæðu til þess að hafa samráð við sveitarfélögin en þar var einmitt velt mjög þungum byrðum yfir á sveitarfélögin og það er hluti af því sem við erum að fresta með þessu frv. vegna þess að sveitarfélögunum hefur ekki verið séð fyrir tekjustofnum til þess að standa undir þeim skyldum sem á þau eru lagðar. Það er því þversögn í málflutningi þessara hv. þm., Jóns Kristjánssonar annars vegar og Hjörleifs Guttormssonar hins vegar, þar sem hv. þm. Jón Kristjánsson er að hneykslast á því að það sé verið að velta byrðum yfir á sveitarfélögin án þess að tala við þau en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að finna að því að verið væri breyta ákvæðum sem kæmu ríkisvaldinu nánast ekkert við vegna þess að það þyrfti ekkert að borga. Ef ég hef skilið þinmgmanninn rétt átti hann þar við t.d. málsverði í skóla og einsetinn skóla sem auðvitað kemur mjög harkalega niður á sveitarfélögunum vegna þess að það er þeirra að byggja skólahúsnæðið.
    Hæstv. forseti. Þetta voru þau ákvæði sem ég vildi gera hér að umtalsefni að gefnu tilefni en sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð.