Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 12:23:00 (1703)

     Jón Helgason (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég hygg að ekki hafi verið efi í huga nokkurs þeirra sem sátu í landbúnaðarnefnd efri deildar þegar lagabreytingin var gerð síðast á jarðræktarlögum hvernig þetta bæri að skilja. Það ætti að gera í samræmi við túlkun Ríkisendurskoðunar og hún hafi komist að þeirri niðurstöðu vegna þess að hún kynnti sér málin. Ég veit ekki til þess að ríkislögmaður hafi talað við þá alþingismenn sem að þessu máli stóðu eða aðra aðila.

En ég undirstrikaði það að við þessa lagabreytingu var mjög dregið úr þessum útgjöldum ríkisins og reynt að setja ákvæði sem settu þau í fastari skorður. Þannig að hér yrði ekki hægt að segja að væri opinn reikningur heldur færu framlög eftir umsóknum og samþykktum sem gerðar væru í samræmi við lögin og ákvörðun landbrn.
    Hvað varðar síðari liðinn, um Framleiðnisjóð, þá tók ég fram að ég teldi alls ekki útilokað að semja um einhverjar breytingar þar, m.a. vegna þess sem hæstv. landbrh. var að benda á. En það hefði litið allt öðruvísi út ef slíkt samkomulag hefði verið gert þannig að menn vissu að þarna væri ekki um tapaða fjármuni að ræða heldur aðeins frest á greiðslu.