Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 13:00:00 (1705)

     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hafa af eðlilegum ástæðum fallið mörg orð. Bæði hafa menn orðið undrandi, eins og hefur komið fram, á þeim lítilmótlegu tillögum sem fæðst hafa hjá ríkisstjórninni og að áfram eigi að búa við þá óvissu að engar efnahagsráðstafanir líti dagsins ljós áður en jólahátíðin gengur í garð. Ég verð að fara örfáum orðum um þetta frv. og ýmislegt sem fram hefur komið en síðar í ræðu minni mun ég fjalla sérstaklega um yfirlýsingar fjmrh. og forsrh. um sölu á Búnaðarbanka Íslands.
    Ég vil í fyrstu segja að ég var einn þeirra þingmanna sem kvöddu sér hljóðs hér á vorþingi til að árna nýrri ríkisstjórn heilla í störfum. Ég var það grænn á þeim tíma að ég trúði því að við völdum á Íslandi væru að taka metnaðarfullir menn sem ekki einungis höfðu metnað fyrir hönd þjóðar sinnar heldur metnað gagnvart íslensku atvinnulífi og mundu starfa samkvæmt því. Mér hafði verið kennt það í barnæsku að bera virðingu, hóflega virðingu fyrir Sjálfstfl., ekki síst eins og hann var á þeim tíma, trúr atvinnulífinu, trúr íslenskri stefnu á mörgum sviðum, flokkur sem gekk fram fyrir skjöldu. Ekki var það síst á þeim árum sem hér voru leiðtogar eins og Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson, Geir Hallgrímsson o.fl. En vissulega er það svo að hallað hefur undan fæti hjá þessum flokki og við höfum horft á að sífellt virðist verða erfiðara fyrir menn að taka við forustu í flokknum, hvers vegna sem það er. Ég sagði áðan að ég hefði trú á því að hér hefðu verið að taka við völdum dálítið metnaðarfullir menn. Ég skal viðurkenna að ég er sama sinnis og þjóð mín að mér finnst ég ekki þekkja hæstv. forsrh. fyrir sama mann eftir að hann tók við þessu vandasama starfi. Hvorki í framkomu hér í þinginu né í fjölmiðlum. Hann virðist vera á undanhaldi. Hann virðist vera stefnulaus. Hann virðist vera á flótta. Hann virðist ekki ráða við flokk sinn. Hann virðist vera bandingi í höndum örfárra manna, örfárra manna sem hafa tekið völdin í þessum flokki. Á þessu verða menn að átta sig. Þetta er ekki frjáls flokkur lengur. Þetta er flokkur í höndum lítillar klíku. Hafið þið tekið eftir hvernig hæstv. sjútvrh. hefur breyst eftir að hann losnaði frá stóra fundarstjóraborðinu þar sem valdaklíkan situr? Valdaklíkan sem er að raka að sér auðnum í þessu þjóðfélagi. Hæstv. núv. forsrh. virðist því miður hafa trú á því sem hann er að gera. Á einhvern hátt sannfæra þessir menn við fundarstjóraborðið stóra hann um að hann sé á réttri leið. Hann

þurfi að framfylgja þeirri helstefnu gagnvart íslensku atvinnulífi sem var stöðvuð á síðustu stundu, 1988. Auðvitað var einhver ástæða fyrir því að Sjálfstfl. sá ástæðu til þess í miðri kosningahríð að slá foringjann af baki. ( ÓRG: Ég lýsti bókinni sem Einar Guðfinnsson er að fletta.) Ég vænti þess að hinir ungu sjálfstæðismenn kynni sér ástæðurnar og reyni að frelsa þennan hæstv. forsrh. úr höndum þeirrar valdaklíku sem hann nú situr með á löngum fundum.
    Mér finnst að forsrh. hafi í þessari löngu, illa fluttu ræðu, sem sem við heyrðum í gær, sagt þó þá hluti sem staðfesta þann ótta sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Mesta atvinnuleysi sögunnar er fram undan --- og áttum okkur á því að það er atvinnuleysi af völdum manna. Það er atvinnuleysi af völdum manna sem nú er fram undan. Það er atvinnuleysi af völdum ríkisstjórnar sem ekki stendur með íslensku atvinnulífi, sem ekki hefur kjark til að ganga í mikilvægar aðgerðir til að viðhalda hér þjóðarsátt og stöðu atvinnuveganna í lagi. Ríkisstjórnin hefur gert þjóðfélag okkar hart og ómanneskjulegt á mjög stuttum valdaferli. Hún mun ekki bara valda því að fólk forði sér frá því að reka og eiga fyrirtæki eins og nú er að gerast um allt land. Menn eru í rauninni, vegna viðhorfa ríkisstjórnarinnar og aðgerðarleysis, á flótta úr atvinnulífinu. Hver sem betur getur reynir að losna frá sínu fyrirtæki. Ég er ekkert hissa á því þótt hinir eldri þingmenn Sjálfstfl. sitji vel á fundum og taki eftir því sem sagt er því að þeir hafa þá kannski samvisku og manndóm til þess í þingflokksherbergi Sjálfstfl. að taka málið upp. Það sama verður ekki sagt um þá yngri í flokknum því að þeir virðast lúta þeirri forustu sem nú er. Þeir virðast trúa á hana í blindni. Þeir hafa ekki manndóm til að standa með íslensku atvinnulífi eða þeim hugsjónum sem standa á prenti í stefnuskrá Sjálfstfl.
    Hér mun bresta á landflótti á næsta ári. Það verður landflótti vegna atvinnuleysis. Landflótti vegna lélegra lífskjara, landflótti vegna þess að fólk nennir ekki að þreyja hér þorrann og góuna þar sem örfáir útvaldir munu fá allt fyrir ekkert. Íslenskri alþýðu er ofboðið. Það verður atgervisflótti úr þessu landi ef svo heldur fram sem horfir. Það verður líka flótti af neyðarástæðum og af ýmsum öðrum orsökum.
    Ég verð að segja að mér finnst spor þessarar ríkisstjórnar minna mjög mikið á það tímabil, þá þrettán mánuði, sem Þorsteinn Pálsson hæstv. sjútvrh. var hér forsrh. á árunum 1987--1988. Mér finnst sagan endurtaka sig. Mér finnst ég hafi gengið á vit fortíðarinnar að mörgu leyti. Núv. forsrh. hefur verið settur í föt fyrirrennara síns eins og hann var á þeim árum. Hann hefur verið klæddur í föt fyrirrennara síns og honum gefnar fyrirskipanir í þeim anda sem þá var stjórnað. Úrræðaleysið, trúin á kennisetningar, vaxandi viðskiptahalli, fjárlagahalli, drápsklyfjar lagðar á atvinnulífið og fólkið í landinu. Enginn rekstrargrundvöllur hvorki fyrir heimili eða atvinnulíf. Allt á undanhaldi en þó ekki því að neita að lítill hópur þjóðfélagsins malar gull á þeirri neyð sem er að skapast.
    Þess vegna var það von stjórnarandstöðunnar nú að sá fundur sem ríkisstjórnin átti í ráðherrabústaðnum mundi marka tímamót og í gær hefði komið fram ný áætlun um breyttar áherslur. Hún leit ekki dagsins ljós. Fólkinu er boðið að semja um lækkuð laun og álögur. Hér fengu 600 ríkisstarfsmenn þær kveðjur að þeir yrðu reknir úr starfi svo og að yfirvinnan yrði klipin af. Við vitum hvernig það fer fram, alltaf er lagst á þá sem lægst hafa launin.
    Það er kannski athyglisvert að velta fyrir sér þeim kveðjum sem þessi ríkisstjórn fær, ekki síst þegar í hlut eiga flokksmenn. Þær eru kaldar kveðjurnar sem Lára Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, sendir ríkisstjórninni. Hún sagði hér á fjölmiðlavaktinni að með ráðstöfunum í ríkisfjármálum árið 1992 sé verið að ráðast að launafólkinu. Það sé verið að ráðast á ýmsar alþjóðlegar samþykktir sem hér hafa verið gerðar. Síðan fjallar hún einnig um málefni flokksbróður síns, heilbrrh., og segir að einnig megi nefna aukið sjálfdæmi ráðherra um greiðslur sjúklinga vegna læknisþjónustu og lyfja, útboð á heilbrigðisþjónustu. Þannig er þetta í mörgum atriðum að fólkið í þessum flokkum utan þinghússins er eigi að síður að smá vakna og óttast þá stefnu sem hér er framkvæmd.

    Hæstv. heilbrh. hefur ekki séð sér fært að vera hér eftir matinn eða hvað? Er hann ekki í húsinu? ( Forseti: Hæstv. heilbrrh. er í húsinu.) Mundi hæstv. forseti kalla ráðherrann til fundar?
    Við sjáum að ýmislegt sem þessi ríkisstjórn þó gerir snýr að því að eyðileggja þjóðarsátt og það eftirlit sem mikilvægt er nú í þjóðfélaginu. Ein fyrsta aðgerðin í þessum ráðstöfunum mun hafa verið að reka fjóra menn frá Verðlagseftirliti ríkisins, segja þeim upp störfum og koma þeim í burtu. Maður hefði haldið slík stofnun hefði þurft á öllu sínu að halda í þeim bardaga sem hefur staðið og stendur áfram um að halda hér verðlagi niðri.
    Mig langar á meðan ég bíð eftir heilbrrh. að minnast á rúsínuna sem þeir létu fljóta með í þessum pakka um ráðherrabílana og allt það góða sem þeir ætluðu að gera til að gleðja fólkið fyrir jólin. Auðvitað ber að fagna síku. Ég hef oft velt þessum lúxus ráðherra fyrir mér. Hvaða ástæða, t.d. í sambandi við bílana, er fyrir því hér á Íslandi að vera með þetta dýra kerfi allt saman? Mig minnir að þegar Eysteinn Jónsson var hér ráðherra þá hafi hann komið með strætó. Einar Gerhardsen í Noregi var frægur fyrir að koma með lestinni. Hér búa flestir ráðherrar landsins vestur á Melum. Á hverjum morgni koma bílar sem kosta 4--6 milljónir með stórum og sterkum mönnum undir stýri til að sækja þá og skutla þeim fimm mínútna leið þar sem þeir ganga prúðbúnir inn í ráðuneytin. Bílstjórarnir standa síðan allan daginn við að pússa þessa dýru bíla og bíða eftir því að skjóta þeim einhvern spöl sem er nú lítil ástæða til. Ég hef tekið eftir því t.d. hér fyrir framan þinghúsið að það er varla hægt að komast inn í þinghúsið fyrir öllum þessum dýru bílum ráðherranna sem standa þar. Ég hefði haldið að heilbrrh. ætti að leggja til að ráðherrarnir skokkuðu til vinnu sinnar á morgnana. Ég held að þarna hefði verið hægt að spara enn þá meira en áformað er. Ég hef oft velt því fyrir mér: Er ekki hægt að semja við einhverja leigubílastöðina um að sækja þá kl. 8 á morgnana? Þarf alla þessa fílhraustu menn í forstofu þingsins, 11 að tölu, jafnmarga og ráðherrarnir eru, alltaf til taks? Duga kannski þrír menn? Auðvitað er því ekki að leyna að ýmsir ágætir ráðherrar hafa ekki notað sér þessa þjónustu að vera með bílstjóra og jafnvel ekki bíl. Kannski ekki einu sinni samning um að bílstjóri væri kallaður út, einhver starfsmaður ríkisins gæti annast slíkt. Ég get vel skilið að ráðherrar landsins þurfi á einhverri þjónustu að halda í þessum efnum. En ég velti því fyrir mér: Hefði það kannski ekki verið sparnaður að ríkisstjórnin hefði þrjá bílstjóra og samning við eina stöðina hér í bænum um að skutla þeim þessa stuttu leið héðan vestan af Melum upp í Stjórnarráð.
    Það er eitt sem vekur athygli þjóðarinnar, það er sá mikli mismunur sem er á forsætisráðherrum. Hæstv. núv. forsrh. virðist hafa í höfði sínu einhverja plötu sem snýst öll um fortíðina. Þjóðin er að verða leið á þessu fortíðarstagli. Fyrirrennari hans, Steingrímur Hermannsson, var eiginlega stundum of langt frammi í framtíðinni. Hann skipaði framtíðarnefnd til að skoða framtíð þjóðfélagsins. Núv. forsrh. hefur skipað fortíðarvandanefnd og horfir áratugi aftur í þjóðfélagið. Fólkið er að verða dálítið hrætt við þessa stefnubreytingu. Að forsrh. skuli alltaf horfa aftur fyrir sig. Hitt er annað mál að það væri afar fróðlegt að vita hvaða einstaklingar það eru, og ég spyr hæstv. forsrh. að því, sem sitja í fortíðarvandanefndinni. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þeirrar miklu áherslu sem forsrh. hefur lagt á þessa nefnd að hann upplýsi það í þinginu hverjir eiga sæti í þessari nefnd.
     Hæstv. heilbrrh. gekk hér um sali og mun vera skammt undan. Ég hef haft dálitlar áhyggjur af þessum hæstv. ráðherra. Mér þótti vænt um hann sem mann og ég trúði því að hann væri jafnaðarmaður og drengskaparmaður á öllum sviðum. En einhvern veginn hefur það nú verið svo að í þessari vandræðaríkisstjórn er hann ekkert líkur þeim Sighvati Björgvinssyni sem ungur sá og sigraði á Vestfjörðum og hefur í gegnum tíðina lagt ýmislegt til mála. En hæstv. ráðherra virðist nú hafa gengið lengra en ég ætlaði. ( Heilbrrh.: Ég hlusta nákvæmlega. Ég hef hlustað á alla framsóknarmenn sem hafa talað við þessa umræðu.) Ég þakka þér fyrir, hæstv. heilbrrh.

    Ég hef áhyggjur af ýmsu sem hæstv. ráðherra stendur fyrir þessa stundina. Læknavísindin hafa áhyggjur af ýmsum gerðum ráðherrans. Nú liggur það fyrir að enginn fer til læknis án þess að hafa veskið sitt með. Af þessu hafa margir áhyggjur. Þegar fólkið fer að spyrja sig af efnahagslegum ástæðum hvort það eigi að leita sér læknis. Það er talið stórhættulegt og ekki síst við þær aðstæður sem við búum við í landinu, þ.e. vaxandi atvinnuleysi. En mér sýnist að ráðherrann ætli þarna að taka gjald upp á 600 kr. af hverjum manni. Það sýnist kannski ekki hátt en ég hygg að það muni virka með þeim hætti að ýmsir munu samt sem áður spyrja sig um það hvort þeir eiga að leita læknis í dag eða bíða og sjá hvort takið undir herðablaðinu eða verkurinn í maganum lagist ekki.
    Ég get trúað því að þetta kerfi, sem hæstv. heilbrrh. er nú að setja á, eigi eftir að skapa alvarlegt ástand í landinu. Ég er í rauninni ekki í neinum vafa. Á öðru atriði er ég stórlega undrandi. Það er hversu dýrt er að kalla lækni í heimahús. Gerir hæstv. heilbrrh. sér grein fyrir því að 1500 kr. gjald í útkall vegna læknis þegar barnið er veikt heima eða amma gamla hefur fengið mikil þyngsli fyrir brjóstið getur haft alvarlegar afleiðingar? Ég er sannfærður um að fjöldi fólks mun hika við að kalla lækni í heimahús.
    Ég vil líka vekja athygli á öðru í þessu efni að fjöldi fólks á ekki kost að komast til læknis nema eftir þessum leiðum, að kalla heimilislækninn eftir vinnu heim til sín á kvöldin. Þannig að ég vara ráðherrann við þeim jólaglaðningi sem hann er nú að færa þessari þjóð.
    Það er kannski rétt að ég snúi mér að því efni sem mér þykir mikilvægast að ræða í dag vegna tíðinda síðustu daga. Það gerðist hér í ræðu hæstv. forsrh. ( Gripið fram í: Það verður að ná í viðskrh.) Það er mjög mikilvægt að viðskrh. sé viðstaddur þessa umræðu um Búnaðarbanka Íslands. Það er einnig mikilvægt að fjmrh. komi hér til fundar því að ummæli hans eru auðvitað með þeim hætti að það er spurning hvort hann eigi seturétt í ríkisstjórn í nokkru landi eftir framferði sitt. --- Eru þessir hæstv. ráðherrar til staðar? ( Forseti: Hæstv. viðskrh. er í húsinu og það er verið að gera honum viðvart. Hæstv. fjmrh. hefur einnig verið gert viðvart.)
    Í framsöguræðu hæstv. forsrh. um það frv., sem hér er til umræðu, sló hann því fram að strax eftir áramótin yrði Búnaðarbanki Íslands gerður að hlutafélagi og seldur. Nú er vika af desember og áramótin eru fram undan. Mér fannst þegar ég hlustaði hér á hæstv. forsrh. --- já, hæstv. heilbrrh. getur mín vegna fengið frí frá þingstörfum það sem eftir er dagsins, en mín jólaósk er sú að fá á ný hinn eina sanna Sighvat Björgvinsson. ( Gripið fram í: Það er fróm jólaósk.) Þjóðin biður einnig um hið gamla gervi. Þjóðin er því miður dálítið hrædd við þennan hæstv. ráðherra þessa stundina, ekki vegna þess hversu stór og sterklegur hann er heldur af þeirri ástæðu hversu harkalega hann hefur gengið um bekki þjóðfélagsins gagnvart öldruðum, sjúkum og fjölskyldum sem eiga börn. Því miður kann svo að fara að það þurfi ekki að kalla jólasveinana til þetta árið.
    Mér heyrðist nú að hæstv. forsrh. væri ekki betur að sér um þennan banka í eigu þjóðarinnar og ríkisins en að í sinni furðulegu ræðu sagði hann sem svo: ,,Og svo verður hlutur ríkisins seldur.`` Hver á hinn hlutann? ( Gripið fram í: Góð spurning.) Hver á hinn hlutann? ( Gripið fram í: Spyrjum forsrh. að því.) Ég vænti þess að viðskrh. geti frætt samráðherra sína um hvernig þetta er því að ég hygg að hann þekki þetta nú. En til hvers eru svona ummæli látin falla? Er í þeim ákveðinn tilgangur? Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort í þeim sé ákveðinn tilgangur. Það vita allir að peningastofnanir eru viðkvæmar. Viðskiptamenn banka hafa valið sér stofnun af ýmsum ástæðum, bæði af því að þeir treysta starfsfólkinu og ekki síður forminu sem bankinn er í. Ég verð t.d. mjög var við það eftir þessi ummæli að gamalt fólk hringir og spyr: Er ekki vissara að forða peningunum? Á ekki að fara að selja bankann? Það óttast að það eigi að selja peningana einnig eða það veit hitt að þeir sem gjafirnar eiga að fá eru kannski með þeim hætti að það er hætta á ferðum.
    Það hefur komið fram að Íslendingar vilja fremur ávaxta peninga sína í ríkisbanka

en einkabanka. Þetta hefur komið fram í skoðanakönnunum. Búnaðarbanki Íslands hefur t.d. stóraukið hlut sinn eftir að Íslandsbanki var stofnaður. Búnaðarbanki Íslands er um þessar mundir að verða annar stærsti banki þjóðarinnar. Hvers vegna haldið þið að það sé? Hvers vegna haldið þið að Íslandsbanki hafi ekki haldið hlut sínum þegar hæstv. viðskrh. stóð fyrir því að steypa þar saman í einn einkabanka fjórum bönkum? Það er vegna þess að fólkið í landinu óttast formið. Það treystir ekki bankaráðinu eða bankastjórunum sem ekki eru kosnir af Alþingi heldur valdir af hagsmunahópum, jafnvel hópum sem hafa gengið dálítið gáleysislega um þetta þjóðfélag hvað atvinnulífið varðar.
    Það er engin launung að þeir menn, sem fastir eru í trúarsetningum, hafa alls ekki þolað þessa þróun. Það hefur kannski gerst í fundaherberginu stóra að málið hefur verið rætt því að það er aðalfundarstjórinn og varafundarstjórinn sem nú hafa birst í líki höggormsins gagnvart þessari sterku eign þjóðfélagsins. Það er kannski engin tilviljun að út er að koma jólabók um þessar mundir um kolkrabbann, um hið sterka, fámenna klíkuvald sem er að sölsa undir sig öll völd hvað fjármál varðar á Íslandi og raka að sér auðnum á kostnað almennings. En ég vil nú spyrja hv. þm.: Hverjir kaupa banka hér? Hverjir eru það hér á landi sem nú eru tilbúnir að leggja fram upphæðir til að kaupa banka? Verða það óbreyttir launamenn? Verða það fyrirtæki sem kaupa sér hlut eða verða það stóreignamenn sem þar sækja fast á? Verða það sömu aðilar og ráða einkabankanum? Nei, hér er verið að stíga mikið óheillaskref til að færa fáeinum fjölskyldum enn eina eign ríkisins.
    Hæstv. viðskrh. hefur í gegnum tíðina gengið dálítið frjálslega um eignir ríkissjóðs. Þau eru mörg dæmin um frjálslyndi hans með verðmæti ríkisins. Ég veit að hann gerir það í góðum anda og góðri trú. Hagfræðin hringsólar fyrir eyrum hæstv. ráðherra frá morgni til kvölds. En stjórnmálamaðurinn hefur enn aldrei náð yfirhöndinni í þessum myndarlega ráðherra.
    Hann stóð fyrir því, þessi hæstv. ráðherra, ekki að selja Útvegsbankann, þannig að hálfvirðið á Búnaðarbankanum væri auðvitað gott miðað við fyrri störf hans, nei hann gaf Útvegsbankann og hann gerði meira. Hann gaf Íslandsbanka töpin þannig að Íslandsbanki mun ekki greiða skatta í ríkissjóð það sem eftir lifir af þessari öld. Það er sennilega hroðalegasta meðferð á ríkisfyrirtæki --- og ég ætla að segja það við hv. þm. að það er full ástæða til þess að biðja um skýrslu um þetta mál þar sem farið verður af Alþingi Íslendinga ofan í hvernig þetta fyrirtæki var leikið og hvernig þröngum hópi voru þar færðir ekki milljarður heldur milljarðar að gjöf. Ég ætla ekki að hrella viðskrh. með því að fara að telja upp fleiri af hans gáleysislegu athöfnum eins og söluna á Bifreiðaeftirlitinu o.s.frv. En því miður hefur hann verið staðinn að því að selja fyrirtæki, koma þeim í einokunaraðstöðu sem síðan hafa fengið rétt til að ganga ofan í veski skattborgaranna samkvæmt lögum frá Alþingi og reglugerðum úr ráðuneytum.
    En það gerðist líka --- þau ummæli fjmrh. sem ég sakna að skuli ekki vera hér. Kannski er búið að setja hæstv. fjmrh. af. Kannski hefur honum verið veitt lausn frá störfum. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. er á leiðinni hingað eða rétt ókominn.) Hæstv. forseti, ég hef nú eiginlega svo mikla meðaumkvun með þessum hæstv. ráðherra að ég tími varla að skamma hann. En ummæli hans um að selja Búnaðarbankann á hálfvirði og ummæli forsrh. hér í gær hefðu þýtt það í mjög mörgum þjóðlöndum að þeir hefðu orðið að biðjast lausnar. Slíkar kröfur gera einstaklingarnir í mörgum þjóðlöndum til manna sem fara með eigur almennings að þeir hagi sér ekki með þessum hætti. Við getum litið yfir í hið harða land Margrétar Thatcher sem gekk nú aldrei jafnlangt í hörku sinni og þessir sex menn hafa gert, núv. ráðherrar gera hér í landinu. En hvað hefði gerst í Bretlandi ef ummæli um eitt sterkasta fyrirtækið í eigu þjóðarinnar hefðu verið með þeim hætti sem þessir tveir ráðherrar, forsrh. og fjmrh., hafa látið frá sér fara? Þeir hefðu orðið að biðjast lausnar að morgni næsta dags. Það hefði gerst í fleiri löndum.
    Ég er þeirrar skoðunar að undir þessum lið sé erfitt að ræða þetta mál. Ég hefði talið, hæstv. forseti, að þessi ummæli væru þess eðlis að full ástæða væri til að biðja um

sértaka umræðu utan dagskrár um ummæli forsrh. og fjmrh. um söluna á Búnaðarbanka Íslands. Ég hef þegar beðið um umræðu um áhrif vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar á atvinnulífið og gerð kjarasamninga. Ég hef ekki fengið tímann staðfestan en forseti hefur heitið því að sú umræða fari fram á mánudag. En þessi ummæli eru auðvitað með þeim hætti að það væri full ástæða ekki bara fyrir þann sem hér stendur heldur fyrir mjög marga þingmenn, sem finna til ábyrgðar sinnar, að biðja um sérstaka umræðu um málið. Það er verið að ganga að einu sterkasta fyrirtæki ríkisins og annaðhvort viljandi eða óviljandi að slá undan því fæturna, veikja það í stöðunni, veikja það í baráttunni fyrir heilbrigðu atvinnulífi, hræða sparifjáreigendurna sem eiga þar peninga o.s.frv.
    Ég vil líka spyrja, og það væri auðvitað gott ef hæstv. viðskrh. vildi svara því: Er nokkur glóra í því að selja eign eins og Búnaðarbanka Íslands upp í eyðslu? Er það ekki aðeins í gjaldþrotum sem slíkt gerist að menn verða að láta eignir sínar? Nú er íslenska þjóðin vonandi ekki að verða gjaldþrota. En er það hagfræði að stoppa upp í gatið á halla ríkissjóðs í eitt ár með því að selja Búnaðarbanka Íslands? Eitt ár, aldrei meir. Taka eitt sterkasta ríkisfyrirtæki á Íslandi í eigu almennings, selja það upp í eyðsluna og óráðsíuna sem ráðherrarnir hafa ekki kjark í sér til að taka á. Er hitt ekki mikilvægara að komast fyrir rætur meinsins? Stöðva hallareksturinn með sparnaði annars vegar og niðurskurði og aukinni tekjuöflun hins vegar. Verða menn ekki að gera sér grein fyrir því að það er það verk sem þeir verða að ganga í? En að ætla að taka þessa eign til að fylla upp í gatið verður til þess að veikja peningamarkaðinn og menn standa síðan í nákvæmlega sömu sporum. Það liggur nefnilega fyrir að ríkisbankarnir hafa verið meginundirstaða innlends fjármagnsmarkaðar og svona áform mundu veikja peningakerfið.
    Nú er verið að opna möguleika erlendra banka til að reka hér útibú eða eiga hér hlut í bönkum. Þurfum við ekki fremur að styrkja bankana fyrir þessa auknu samkeppni heldur en að veikja þá? Ég vil ekki trúa að stór hluti þingmanna Sjálfstfl. muni fallast á að bankinn verði eyðilagður með þessum hætti, með þessari aðför og ég vil heldur ekki trúa því að Alþfl. láti fara þannig með sig að hann sætti sig við það að nokkrir gæðingar og valdaklíka Sjálfstfl. komist þannig yfir einn sterkasta banka þjóðarinnar. Enginn maður í pólitík á síðari árum hefur þóst horfa jafn vel út um hinn stóra glugga og hæstv. viðskrh., um hinn stóra viðskiptaglugga heimsins. Að vísu virðist nú sem álljósið blindi honum alltaf sýn þegar hann horfir út um þennan glugga. Síðast í gær í sléttri og felldri ræðu snerist ræðan enn á ný um álljósið sem öllum er ljóst að stjórnmálamenn á Íslandi hafa látið draga sig á asnaeyrunum hvað það mál varðar. Veit viðskrh. hvernig fór fyrir einkabönkum í Noregi eða hvernig er að fara fyrir þeim og hefur verið að fara fyrir þeim á síðustu mánuðum í Noregi, í Svíþjóð og sparisjóðunum í Finnlandi? Þar léku nokkrir glannalegir fjármálamenn þessa einkabanka svo að þeir stóðu uppi gjaldþrota. Einkabankarnir í þessum löndum stóðu uppi gjaldþrota. Til hvaða ráða hafa ríkisstjórnir þessara landa gripið? Hafa þær látið sparifjáreigendur tapa sínu? Nei, í öllum tilfellum hafa ríkisstjórnirnar ákveðið að ríkið yrði að ábyrgjast spariféð. Hinn mikli fjöldi mætti ekki gjalda fyrir hin glannalegu og áhættusömu útlán sem hafa verið tekin. Ríkissjóðir þessara landa taka afleiðingum gerða þessara bankastjóra og bankaráða sem þarna voru.
    Nú sagði viðskrh. í gærkvöldi að ríkið yrði áfram að bera ábyrgð á rekstri Búnaðarbanka Íslands. Hann staðfesti það að þótt hann yrði einkabanki yrði ríkið áfram að bera ábyrgð á öllum fjármunum í bankanum. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta hafi ég ekki skilið rétt. Þar með hefur hann sagt að hann sé andsnúinn því sem hefur verið haldið fram sem aðalrökunum að ríkisábyrgðin yrði bæði að hverfa af lánunum og sparifénu. Eða trúir hæstv. viðskrh. því að ríkið losni við að bera ábyrgð á lánum teknum erlendis? Ríkið mun í reynd verða að ábyrgjast erlend lán í íslenskum bönkum því ef illa fer munu erlendir lánardrottnar segja: Við hækkum vexti á lánum til þessarar þjóðar. Við lánum ekki fé til Íslands. Það verður þjóðin sem líður en ekki einkabankinn ef illa fer. Ég geri hér kröfu um það að hæstv. bankamálaráðherra skýri hér frá því hvort forsrh. og fjmrh. höfðu

samráð við hann um þau alvarlegu tíðindi sem þeir boða viðskiptamönnum og starfsfólki Búnaðarbanka Íslands. Gerðu hér óvænt eins og ég hef rakið. Var það á vitorði hæstv. bankamálaráherra að þessar setningar yrðu sagðar með svo óvæntum hætti? Því hef ég litið svo á að þetta væri trúaratriði viðskrh. og hann ætlaði að reyna að gæta sín miðað við fyrri reynslu að þetta gerðist með skynsamlegum hætti. Ég bið hæstv. ráðherra að svara mér um þetta atriði.
    Búnaðarbanki Íslands er sterkt fyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar. Það á eigið fé upp á 3 milljarða. Hvert ár skilar þetta ríkisfyrirtæki miklum hagnaði, einn allra banka greiðir Búnaðarbankinn skatta til ríkissjóðs, hefur oft á tíðum verið með hæstu skattgreiðendum í fyrirtækjaröð. Þetta ríkisrekna fyrirtæki, ef svo má segja, hefur malað gull fyrir ríkissjóð. 200, 300, 400, 500 millj. hafa runnið beint til ríkissjóðs. Með slíkri gætni hefur þessi banki starfað í yfir 60 ár að hann malar ríkissjóði gull dag hvern. Þar eru töpin færri en í öðrum bönkum, þar er gætnin meiri, þangað hafa margir sterkir atvinnurekendur leitað sér leiðsagnar, styrkt stöðu sína í gegnum þennan trausta banka. Mig langar á þessari stundu að velta fyrir mér því atriði sem stendur í hinni hvítu bók ríkisstjórnarinnar og ég er nú því miður ekki með á borði mínu, en mig minnir að þar standi --- og einhverjir efasemdarmenn hafa nú verið í þessum báðum flokkum þegar fjallað var um að það yrði að selja ríkisbankana því þar er sérstakt ákvæði sem segir að það sé mikilvægt að setja sérstök lög um hringamyndanir áður en menn ráðast í stórkostlegar breytingar á fjármagnsmarkaðinum.
    Velkominn, hæstv. fjmrh., til þings. Ég hef farið yfir þá sögu að hefði einhver önnur þjóð lent í því slysi að hafa fjmrh. sem með svo gáleysislegu tali ræðir um eigur almennings, eins og henti hæstv. ráðherra um Búnaðarbanka Íslands, hefði sá staðið atvinnulaus án þess að hafa ráðherrabíl eða bílstjóra. Hann hefði verið settur af. Ég hef farið yfir það með hæstv. forsrh. og formanni Sjálfstfl. að ég undrast undir hvers konar þrýstingi þessir tveir forustumenn í stærsta stjórnmálaflokki landsins eru. Ég hef líka sagt þingheimi frá því að ég hafi meiri samúð með hæstv. fjmrh. en svo að ég nenni að vera að skamma hann mjög á þessum fundi því að ummælin eru náttúrlega fyrir neðan allar hellur að mínu viti. En ég var að ræða um það að þeir hefðu viljað setja lög um hringamyndanir. Hér er t.d. hinn ungi flóttamaður úr Alþb., hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem nú veitir forustu í þingflokki Alþfl. Hann er bara alls ekkert á þeirri skoðun að svona skuli fara að. Meira að segja vænir hann flokksbróður sinn, ráðherrann, um að hafa gefið fjölskyldunum fjórtán Útvegsbankann því að hv. þm. segir hér um söluna á Búnaðarbankanum: Menn nefna að selja Búnaðarbankann. Ég hef fyrir mér reynsluna af sölu Útvegsbankans og stofnun Íslandsbanka. Þar var fjölskyldunum fjórtán færður bankinn á silfurfati. Þess vegna vil ég ekki undir neinum kringumstæðum að Búnaðarbankinn verði seldur með þeim hætti að hann komist í eigu örfárra auðjöfra.
    Hér er allt staðfest af flokksbróður hæstv. viðskrh. sem ég hef um þetta sagt þannig að fróðlegt væri að vita hvort þessi hv. þingflokksformaður hafi haft hugmynd um hvað í aðsigi var. Og ég spyr eftir því atriði sem stendur í hinni hvítu bók og forsrh. hefur sjálfur sagt í viðtölum við fjölmiðla og dagblöð að áður en einhver slík sala færi fram, eins og sala á Búnaðarbankanum, yrði hér að tryggja það að örfáir aðilar eignuðust ekki þennan banka. Áður yrði að setja lög um hringamyndanir. Ég vil spyrja eftir því atriði.
    Mig langar síðan að fara yfir nokkur efnisleg atriði sem varða banka og bankastarfsemi. Ég hef farið yfir það að óumdeilt er að ríkið ber ábyrgð á fjármálakerfinu og þar með öllum viðskiptabönkum hvernig svo sem eignarhaldi þeirra er háttað, hvort sem það eru ríkisbankar eða einkabankar. Nýleg dæmi eins og ég hef rakið frá Noregi, Svíþjóð og Finnlandi færa okkur heim sanninn um að undan því getur ríkið ekki vikist, eða telur hæstv. forsrh. annað koma til greina? Einkabankar lúta pólitískri stjórn í því tilliti að þar er tekist á um hagsmuni einstakra áhrifahópa, hagsmunabarátta einstakra hópa um völd og áhrif innan einkabanka er ekki síður pólitík en stjórnmálabarátta, enda sé ég að fosrh.

kinkar kolli.
    Þegar opnað verður fyrir möguleika erlendra banka til að reka eigin útibú hér á landi auk möguleika þeirra til að eiga hlut í innlendum bönkum þá orkar það tvímælis að samtímis skuli unnið að sölu ríkisviðskiptabankanna sem óumdeilanlegan veikir innlenda fjármálakerfið þar sem ríkisbankarnir hafa verið meginundirstaða innlends fjármagnmarkaðar allt til þessa. Ég spurði hæstv. viðskrh. í gær hvort hann teldi að hinn veikburða fjármagnsmarkaður eða hlutafjármarkaður á Íslandi þyldi það við þessar aðstæður og ég spyr hæstv. forsrh. að því: Þolir hlutafjármarkaðurinn það við þessar aðstæður að á næsta ári verði steypt út á hann 3--5 milljörðum við sölu á Búnaðarbanka Íslands? Hvaða áhrif hefði það í þjóðfélaginu? Hvað gerist við þær aðstæður? Ég hygg að menn mundu standa frammi fyrir mörgum vandamálunum.
    Ég vil geta þess að Seðlabankinn fékk erlent ráðgjafarfyrirtæki til að gera tillögur um einkavæðingu ríkisbankanna. Stjórn Seðlabankans klofnaði í afstöðu til þessarar skýrslu en minn hlutinn bendir á að enn sé engin reynsla komin á þá uppstokkun sem orðin er með fækkun viðskiptabankanna úr sjö í þrjá auk allra annarra hræringa sem orðið hafi í íslenskum fjármálaheimi á fáeinum árum. Á meðan sú reynsla hefur ekki fengist er einkavæðing ríkisbankanna ótímabær.
    Þarna segir minni hlutinn að það sé vert að doka við og sjá hver þróunin verður. Stendur Íslandsbankinn undir þeim væntingum sem margir gerðu til hans? Það er ekki ástæða við þessar aðstæður til annars en að doka við og sjá hver þróunin verður.
    Reynslan af innlendum bankarekstri sýnir að reksturshagkvæmni og arðsemi ríkisbanka er jafnvel betri en gerist í einkabönkum. Kannski er það þetta atriði sem hefur mjög farið í taugarnar á mörgum einkarekstrarmönnunum að sjá það að þeir standa ekki ríkisbanka á sporði í sínum rekstri. Sala ríkisbankanna nú gæti þýtt að einkaaðilum yrði gert kleift að græða á bönkunum í fáein ár en ríkið, sem hinn eiginlegi ábyrgðaraðili, yrði að leysa bankana og skuldbindingar þeirra til sín síðar með ærnum tilkostnaði ef illa færi. Við skulum segja að það gerðist núna eftir áramótin að bankinn yrði seldur. Þar mundu koma inn margir af þessum, við skulum segja, verstu bisnessmönnum Íslands, fara í áhættusaman atvinnurekstur og valda því að bankinn stæði frammi fyrir gjaldþroti eftir fimm ár. Þá yrði ríkissjóður að taka á sig allar fjárskuldbindingar sem þeir hefðu haft í frammi á þessum tíma. Þetta er reynslan sem ég hef farið yfir frá Noregi, frá Svíþjóð og frá Finnlandi. Undan þessu víkjast ekki ríkisstjórnir þessara landa. Eða hefur núv. forsrh. aðrar skoðanir á því?
    Starfsemi viðskiptabanka er ekki hægt að setja á bekk með hverjum öðrum atvinnurekstri sem býr við almenn samkeppnisskilyrði. Því gildir allt annað um einkavæðingu ríkisviðskiptabanka en t.d. Ferðaskrifstofu ríkisins svo dæmi sé tekið. Koma þar bæði til bein og óbein áhrif ríkisvaldsins á öllum bankarekstri og vegna smæðar markaðarins er aðeins svigrúm fyrir tiltölulega fáa innlenda viðskiptabanka. Það er ekkert svigrúm í þessu landi. Hér eru ekki nema 250 þús. manns. En mér finnst að margir þessir frjálshyggjumenn, sem nú stýra Sjálfstfl. og halda um rófubeinið á þessu unga þingliði flokksins sem hér er mætt, láti alltaf eins og hér séu 25 millj. manna eða 250 millj. Við þurfum ekki annað en fara um þessa borg til að sjá öll þau mistök í fjárfestingum, bæði hjá einstaklingum og því miður hjá borginni sjálfri. Og það þarf ekki einungis að nefna borgina til. Það er hægt að fara um allt land og sjá hvernig þessir fjárglæframenn hafa farið glannalega í mörgum fjárfestingum. Ég vil halda því fram að afnám formlegrar ríkisábyrgðar á viðskiptabönkum auki lántökukostnað og dragi stórlega úr aðgangi þeirra að erlendu lánsfé með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir þjóðfélagið allt.
    Ég vil minna á það að sjálfur forsrh. heldur því fram að greiðsluþrot banka á Norðurlöndum hafi mjög rýrt lánstraust Íslendinga m.a. hindrað framkvæmdir við álver. Þetta hefur hæstv. forsrh. sjálfur sagt. ( Forsrh.: Nei, ekki þetta síðasta.) Ekki álverið? En hæstv. forsrh. hefur sagt að þessi staða einkabankanna á Norðurlöndum hafi færst yfir til Íslands og valdið því að minnkandi traust er á viðskiptum við þetta land.
    Ég held að það séu nú engin skilyrði í þjóðfélaginu um þessar mundir til þess að Íslendingar geti leyft sér að taka þá áhættu að hækka erlendan fjármagnskostnað og draga úr tiltrú erlendra lánastofnana á íslenska bankakerfinu.
    Mér skilst að hér hafi verið Japanir á ferð á dögunum og einn hv. þm. Sjálfstfl. hitti þá að máli og sagði svona í barnalegri einfeldni við þá: Á ég ekki að selja ykkur eitt stykki ríkisbanka, Búnaðarbankann? Þessir Japanir þekktu til bankans og þeir sögðu: Þetta er sterk stofnun. Eru ráðamenn á Íslandi svo vitlausir að þeir ætli að selja þennan banka, taka hann af almenningi í landinu og selja hann einhverjum örfáum aðilum? Það mundum við ekki gera í Japan, sögðu þeir og hristu vonleysislega höfuðið yfir þessari óheillaríkisstjórn sem nú stjórnar þessu litla landi.
    Rekstur trausts bankakerfis er mjög mikilvægur, bæði fyrir traust sparifjáreigenda og rekstur fyrirtækja þar verður að forðast allar stökkbreytingar er valdið geta óróa og vantrausti á markaðnum. Þess vegna hef ég lagt á það áherslu í ræðu minni að við þessar aðstæður í þjóðfélaginu er glórulaust að tala með þeim hætti sem forsrh. og fjmrh. hafa gert. Ég vil trúa því að hinir skynsamari menn í flokknum muni stöðva þá af.
    Þessir erlendu ráðgjafar sem Seðlabankinn fékk í úttekt á ríkisviðskipabönkunum, hvort skyldi selja þá, sögðu um það atriði: Útboð verða að fara fram við hagstæðar aðstæður til þess að það heppnist. Nú væri fróðlegt fyrir ríkisstjórnina að spyrja þessa sömu aðila: Eru aðstæðurnar á Íslandi um þessar mundir heppilegar til þess að ganga í þessa sölu?
    Ég held því fram að sala á opinberum eigum, hvort sem er framleiðslu eða þjónustufyrirtækjum, veitu- eða fjármálastofnunum, verði að gerast með allt öðrum hætti heldur en hér hefur verið gert og á sumum þessum sviðum komi hún alls ekki til greina. Hvar sem sala á slíkum fyrirtækjum hefur farið fram, fer hún fram með það að markmiði að verið sé að bæta hag neytenda, þeirra sem þjónustunnar njóta eða verið sé að jafna samkeppnisstöðu opinberra fyrirtækja eða einkafyrirtækja með sama markmið í huga. Hér má hins vegar ekki fara fram af meira kappi en forsjá því að niðurstaðan gæti hæglega orðið sú að með sölu opinberra fyrirtækja sé verið að skapa einkafyrirtækjum einokunaraðstöðu. Þar skiptir mestu máli hver samkeppnisstaðan er fyrir á þeim markaði sem fyrirhugað er að einkavæða opinber fyrirtæki. Ef ætlunin með einkavæðingu er að bæta hag neytenda verður að skoða samkeppnisstöðu viðkomandi fyrirtækja og möguleika annarra til að keppa við þau fyrirtæki sem fyrir eru. Því verður að gera skýran greinarmun á einkavæðingu samkeppnisfyrirtækja annars vegar og öðrum fyrirtækjum hins vegar. Hvarvetna þar sem rafveitur, símafyrirtæki, vatnsveitur og þess háttar fyrirtæki hafa verið einkavædd um hinn vestræna heim eða veitt einkaleyfi til starfsemi á tilteknu svæði, fylgja þeirri tilhögun ströng skilyrði um eftirlit af opinberri hálfu, bæði um verðlagningu og þjónustu. Þar sem slík einkavæðing hefur farið fram eða þar sem einum aðila hefur verið falinn rekstur veitustofnana spyrja menn sig oft hvort hagsmunum almennings sé í raun betur borgið með því að hafa veitufyrirtækin í einkaeigu og með íhlutunarrétti opinberra aðila heldur en láta opinberum aðilum einfaldlega eftir að reka fyrirtækin. Um einkavæðingu samkeppnisfyrirtækja gildir allt öðru máli. Opinber fyrirtæki í samkeppnisrekstri hafa týnt tölunni jafnt og þétt eftir því sem samkeppninni hefur vaxið fiskur um hrygg.
    Nokkrar tegundir fyrirtækja njóta þeirrar sérstöðu að þau má flokka sem samkeppnisfyrirtæki auk þess að vera fyrirtæki sem þjóna öðrum og ekki síður mikilvægum tilgangi.

Í þessum flokki má nefna til að mynda ríkisrekið útvarp og sjónvarp og í þennan flokk má einnig setja ríkisviðskiptabankana. Á íslenskum fjármagnsmarkaði er samkeppnsistaða innlánsstofnana með þeim hætti að þar ríkir fákeppni. Þetta hafa hæstv. ráðherrar viðurkennt. Það er hæpið að nokkurn tíma verði verulega mikil samkeppni á íslenskum fjármagnsmarkaði. Til þess er hann einfaldlega of lítill. Við erum hvorki 2,5 millj., 25 millj. eða 250 millj. Hér eru 250 þús. manns eða rúm 100 þús. Íslendingar á vinnumarkaði.
    Það er nú svo að jafnvel í hinum stærstu hagkerfum er fákeppni yfirleitt hið ráðandi form á fjármagnsmarkaði. Sala á viðskiptabönkum í eigu ríkisins breytir engu þar um. Sú tilhögun að láta ríkið sjá um starfsemi viðskiptabanka hefur lengi tíðkast og tíðkast enn, jafnt í þeim þjóðfélögum sem hafa kennt sig við áætlunar- og markaðsbúskap. Helsta röksemd fyrir eignarhaldi ríkisins á bankastofnunum er án efa sú að með áhrifum á fjármálamarkaði viðkomandi ríkis væru bankarnir orðnir svo voldug tæki að ekki væri verjandi að þau væru utan yfirstjórnar ríkisvaldsins. Gildir þetta ekki eingöngu um smærri ríki á borð við Ísland, heldur er ríkiseign á viðskiptabönkum ekki síður algeng með stærri þjóðum. Um alla Vestur-Evrópu er að finna viðskiptabanka sem eru að meira eða minna leyti í eigu ríkisins. Í Svíþjóð þótti á árinu 1974 vera ástæða til að setja á laggirnar ríkisbanka. Var það PK-bankinn, nú Nordbanken til mótvægis við einkabankana. Nordbanken er að 70% í eigu sænska ríkisins. Röksemdir fyrir einkaeign á viðskiptabönkum eru m.a. þær að einkaeign eigi að tryggja reksturshagkvæmni stofnana sem slíkra og útlánastefna verði tryggari þar sem ekki verði gengist undir að taka þátt í gæluverkefnum stjórnvalda eða fjárfestingu sem skilar hæpnum eða litlum arði. Reynslan af starfsemi ríkisviðskiptabankanna sýnir ekki nema síður sé fram á lakara mat á fjárfestingarkostum eða hærri rekstrarkostnaði ríkisviðskiptabankanna eins og ég hef rakið. En það er kannski þetta atriði sem ekki síst fer í taugarnar á þessum fjórtán fjölskyldum sem núna eiga að fá gleðilegan dans í kringum litlu jólin að fundarstjórarnir þeirra hafa sagt að nú skuli þessum banka rutt úr vegi. Hann verði ekki hindrun eða skjól fyrir heilbrigt atvinnulíf eða heiðarlega sparifjáreigendur. Litlu jólin verða hátíðleg. Það verður dansað í kringum gullkálfana sem hafa tekið forustu í þjóðfélaginu í niðurrifsstarfsemi á mörgum fyrirtækjum ríkisins.
    Með sama hætti og á árinu 1930, þegar ríkissjóður afréð að ábyrgjast fjárskuldbindingar Íslandsbanka hf. og stofna Útvegsbanka Íslands hf. á rústum hans, er ekki síður ástæða til að ætla að nú á tímum gæti íslenska ríkið ekki heldur setið aðgerðarlaust hjá ef viðskiptabanki í einkaeign kæmist í greiðsluþrot. Slíkt yrði orðstír íslensks fjármálalífs þvílíkur álitshnekkir að hvaða ríkisstjórn sem væri sæi sér hag í því að koma bankanum til bjargar heldur en að hætta á ófyrirsjáanlegar afleiðingar á innlendan sparnað og viðskiptavild þjóðarinnar erlendis. Gjaldþrot eins banka sem íslensk stjórnvöld létu óátalið gæti rýrt álit Íslendinga verulega á erlendum fjármálamörkuðum til skaða bæði fyrir einkaaðila sem og opinbera sem þurfa að leita þar lánafyrirgreiðslu. Skiptir þar engu hvort bankinn sem í hlut á er ríkisbanki eða einkabanki.
    Nýlegt dæmi frá Finnlandi sýnir okkur fram á að hjá stærri þjóðum er þessi skilningur ekki síður í fullu gildi. Fjórði stærsti banki Finnlands, Skopbank, átti í slíkum erfiðleikum að finnski seðlabankinn sá sig knúinn til að taka yfir starfsemi bankans. Þetta var í september í haust. Bankanum var bjargað þrátt fyrir óábyrga útlánastefnu á undanförnum árum. Þessi banki sveifst einskis í samkeppni við aðra banka og ábyrgari, enda var bankinn einn sá allra arðsamasti í Finnlandi á árunum 1984--1988 er hann rataði fyrst í alvarleg greiðsluvandræði vegna þess að hann gekk of langt. En finnska ríkið varð að draga frjálshyggjumenn þess lands að landi.
    Enn þá nýrra dæmi er frá Noregi þar sem Kreditkassen var um miðjan október 1991 kominn í slíka greiðsluerfiðleika að norski seðlabankinn og fjármálaráðuneytið sáu sig knúin til að ábyrgjast allar skuldbindingar bankans til að hindra tap sparifjáreigenda, gjaldþrot og atvinnuleysi sem var sýnt að mundi fylgja í kjölfar á greiðsluþroti bankans. Til þessara aðgerða varð að grípa þrátt fyrir að Kreditkassen hafi í sumar auk Fokus Bank og Den Norske Creditbank orðið aðnjótandi milljarðafyrirgreiðslu hins opinbera. Þetta nægði Kreditkassen hins vegar ekki.
    Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar í Svíþjóð í byrjun nóvember 1991 var að koma Första Sparbanken til hjálpar með ríkisábyrgð á tæpa 4 milljarða sænskra króna. Þannig er ljóst að stærri þjóðir en Íslendingar sjá sér ekki fært að hunsa álit alþjóðlegs fjármálamarkaðar á lánshæfi þeirra. Þeir sem ráða alþjóðlegum fjármálamörkuðum vita sem er að þeir geta gert ákveðnar kröfur til smærri þjóða og hika ekki við að flokka lánastofnanir í einstökum þjóðlöndum sem eina heild hvort sem formlegt eignarhald þeirra er í höndum ríkis eða einkaaðila.
    Ég hef í ræðu minni reynt að leiða að því rök að um þessar mundir er mjög viðsjárvert að ganga þá götu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið gagnvart Búnaðarbankanum. Ég vil trúa því að menn endurskoði þá ákvörðun --- hafi hún verið tekin. Ég sá undir ræðu forsrh. undrunarsvipinn á mörgum hv. þm. Sjálfstfl. Þeir skildu auðvitað ekki þá setningu sem hann sló fram. Þeir höfðu ekki heyrt hana fyrr með þessum hætti og komu því eins og álfar út úr hól eða menn ofan af fjöllum því þeir áttu ekki von á því að þetta yrði sagt með þessum hætti. Ég held að áður en heildstæð stefna er mótuð fyrir íslenskan fjármagnsmarkað kunni sala á viðskiptabönkum í eigu ríkisins að reynast óheppileg ráðstöfun. Líkt og ég hef rakið í ræðu minni þá eru engar viðskiptalegar né fjármálalegar forsendur sem knýja á um að ríkið selji þá viðskiptabanka sem enn eru í þess eigu. Umræðan er fyrst og fremst tilfinningalegs eðlis og sannfæring fámennra áhrifahópa um að til staðar séu óeðlileg áhrif stjórnmálamanna á útlánastefnu ríkisbankanna. Það er löngu liðin tíð ef hæstv. ráðherrar vita það ekki að bankaráðsmenn hafi einhvern sjóð sem þeir úthluta. Það er löngu liðin tíð. Þeir eru ekki í neinni lánastarfsemi. Þeir eru í bankaráði, kjörnir af Alþingi fyrst og fremst til þess að líta eftir því að lögum og reglum sé framfylgt. Það hefur verið þeirra hlutverk. Slá á fingurna á bankastjórum, biðja um aðhald og ábyrgð á fjármunum íslenskrar þjóðar.
    Sala ríkisviðskiptabankanna nú gæti þýtt að einkaaðilum væru afhentir bankarnir til að græða á þeim í fáein ár, eins og ég hef hér rakið, en síðan kæmu þessir menn aftur segðu: Hjálpið okkur, hjálpið okkur, við erum búnir að setja bankana á hausinn, fólkið er að missa peningana sína. Það gæti gerst hér eftir fimm ár ef þessu verður rutt svona eins og hér er ætlað. Ég vil því segja það sem mín lokaorð að meðan stefnumótun fyrir íslenska fjármagnsmarkaðinn hefur ekki farið fram eða hefur stefnumótun fyrir íslenska fjármálamarkaðinn farið fram? Er einhver stefnumótun til fyrir íslenska fjármálamarkaðinn sem hægt er að styðjast við? Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann geti upplýst Alþingi Íslendinga um það hvort einhver slík stefnumótun liggi fyrir. En ég segi að meðan hún hefur ekki farið fram er ríkissjóður í reynd í beinni og óbeinni ábyrgð fyrir skuldbindingum bankanna hvort heldur þeir eru í eigu ríkisins eða einkaaðila. Því skyldi þá ríkið sem í reynd ber ábyrgð á viðskiptabönkunum öllum sleppa hendinni af möguleikum til að hafa áhrif á bankastarfsemina í landinu?
    Ég vil svo að lokum segja að ég hef miklar áhyggjur vegna þess að í ræðu forsrh. kom ekkert fram hvernig hann ætlar að bjarga þjóðarsáttinni, veita launafólkinu í landinu ró, styrk og von til þess að bæta kjör sín og hér verði fyrirtækjunum forðað frá gjaldþroti því að það er einhver dýrmætasta eign sem hver maður á, það er atvinna. Jólaboðskapurinn í ár er sá að þúsund Íslendingar eru nú að fá reisupassann. Jólagjöfin inn á mörg heimilin er sú að ráðalausir forstjórar standa og segja: Farið þið heim. Hér er uppsagnarbréfið, við gefumst upp. Við stöndum ekki í þessu lengur. Það eru 1000 fjölskyldur sem fá fyrirvinnuna með þennan boðskap heim um þessi jól. Þess vegna vonuðust margir eftir því að það væri einhver boðskapur sem hæstv. forsrh. flytti þingi og þjóð hér í gær. Því miður, hann var enginn. Þannig að ég vil lýsa vonbrigðum mínum yfir því að jafnmyndarlegir menn, eins og þeir eru margir þessir ráðherrar, skuli hafa gengið í þau björg frjálshyggjunnar, sótt kennisetningar sínar til þjóða sem margar hverjar hafa á ný snúið frá slíkum aðferðum í pólitík. Ég vil lýsa vonbrigðum mínum yfir því að þeir skuli ekki kunna þá stefnu betur sem einhverjir mætustu stjórnmálamenn Íslendinga á síðari tímum stýrðu Sjálfstfl. heilum í höfn, almenningi til heilla og voru ábyrgir í gerðum sínum á hvaða vettvang sem þeir fóru. Það er harmsefni að ráðherrarnir skuli hafa gengið í björg.