Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 14:56:00 (1707)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Enn á ný dregur hæstv. forsrh. rangar ályktanir enda eru upplýsingar hans greinilega ekki byggðar á réttum forsendum. Það er rangt sem hæstv. forsrh. sagði að minna hefði selst af spariskírteinum ríkissjóðs meðan fráfarandi ríkisstjórn starfaði á þessu ári en eftir að núv. ríkisstjórn hækkaði vextina í 8%. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins þegar spariskírteini ríkissjóðs báru um 6% vexti seldist mun meira af þeim en fyrstu fjóra mánuðina sem núv. ríkisstjórn sat þegar vextirnir voru 8%. Það getur hæstv. forsrh. kynnt sér að 8% vextirnir á spariskírteinunum skiluðu minni sölu á sama tímabili á þessu ári en 6% vextirnir. Hann má ekki rugla þessu saman við ríkisvíxlana þar sem allt önnur lögmál gilda vegna þess að þeir eru fyrst og fremst í keppni við millibankavexti.
    Það er svo líka athyglisvert að hæstv. forsrh. segir að í frv. sé varanlegur sparnaður þegar hæstv. menntmrh. hér fyrr í dag flutti það sem sín meginrök að hann væri eingöngu að fresta útgjaldatilefnum en ekki væri um varanlegar ákvarðanir að ræða. Hér greinir þessa tvo ráðherra algerlega á um eðli þess sparnaðar sem snýr a.m.k. að menntamálunum. Hitt er svo mikilvægt, virðulegi forseti, að í gærkvöldi og í dag komið hefur fram tvíþættur grundvallarágreiningur innan ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum. Annars vegar milli hæstv. sjútvrh. og viðskrh. og forsrh. sem hægt væri að rekja í löngu máli ef tími væri til og hins vegar milli viðskrh. og forsrh. sem greinilega styðja niðurstöðu Seðlabankans varðandi húsbréfakerfið og hæstv. félmrh. Um þennan tvíþætta grundvallarágreining er nauðsynlegt að ræða við betra tækifæri.