Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 14:58:00 (1708)

     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
     Herra forseti. Hér kom fram að vöxtum hefði verið stjórnað með blekkingum á fyrri hluta þessa árs. Þetta eru heimildir sem forsrh. hefur nýlega fengið í hendur frá Seðlabankanum. Og það alvarlega við þessar heimildir, ef sannar eru, er að hæstv. forsrh. notast við sama ráðherrann sem yfirmann viðskiptamála og er staðinn að því að hafa stjórnað með blekkingum. Reglan er sú að óhæfir menn eru settir af og hlýtur þetta að leiða til þeirrar spurningar á hvaða forsendum ráðherrann er ekki rekinn strax og það er upplýst að hann hefur staðið þannig að verki á þessu ári. Er virkilega ekki meira mannval sem hægt er að byggja á en svo að það þurfi að notast við ráðherra sem staðnir eru að því að stjórna með blekkingum?
    Hitt er ekki síður alvarlegt, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. hefur talað fyrir gervifjárlögum sl. haust. Hann hefur flutt magnaðar ræður þinginu um gervifjárlög. Hann er staðinn að því að blekkja þingið, lítilsvirða þingið með því að leggja til að Alþingi Íslendinga samþykki gervifjárlög. Og hvað er gert við menn sem standa að slíku? Þeir eru hækkaðir í tign og gerðir að ráðherrum. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að mig undrar að ekki skuli vera meira mannval til staðar í ráðherrastóla en að það þurfi að notast við tvo sem staðnir eru að slíkum hlutum. Og mig undrar það satt best að segja ef hæstv. forsrh. sér ekki til þess að mennirnir verði settir af, í það minnsta fyrir jól.