Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 15:03:00 (1711)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég kemst ekki hjá því að gera athugasemdir við það og mótmæla því að hæstv. forsrh. skuli verja tíma sínum í það að snúa út úr fyrir manni með fullkomlega óréttmætum og ómálefnalegum hætti. Hann gerði að umtalsefni umfjöllun mína um útboð. Það lá í orðum hæstv. forsrh. að ég hefði lýst einhvers konar fornaldar- og forneskjuviðhorfum, 50 ára gömlum, í garð útboða almennt sem aðferðar. Ég var að ræða um útboð í heilbrigðisþjónustu og heilsugæslu, hæstv. forsrh. Ég fer fram á að forsrh. vandi sig og taki eftir því sem hér er rætt um í þingsalnum, þannig að við þurfum ekki að eyða tíma okkar í að ræða útúrsnúninga og misskilning af þessu tagi. Ég var að vara við þeim hættum sem væru því samfara annars vegar vegna eðlis og viðkvæmni þessarar þjónustu

að stunda þar útboð og hins vegar vara við útboðum í þessum rekstri í þeim tilvikum að um svo sérhæfða starfsemi væri að ræða að fákeppnis- eða einokunarmarkaður væri á ferðinni. Þetta var það sem ég sagði hæstv. forsrh. Það kemur mér mjög á óvart ef mönnum hefur tekist að misskilja þetta, fleirum en hæstv. forsrh. Ég mun útskýra það nánar í síðari ræðu úr því að svo hefur til tekist a.m.k. hvað snertir hæstv. forsrh. En í öllu falli fundust mér þessi ummæli ekki gefa tilefni til þeirrar umfjöllunar sem hæstv. forsrh. varði tíma sínum í hér áðan. Þeim mun mikilvægara er að hæstv. forsrh. taki rétt eftir og misskilji menn ekki sem hann tekur stærra upp í sig en aðrir menn.