Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

45. fundur
Laugardaginn 07. desember 1991, kl. 16:17:00 (1717)

     Steingrímur Hermannsson :
     Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að það er ekki þess virði að eltast við ýmis ummæli hæstv. forsrh. og mun ég ekki lengja tímann með því og reyndar ætla ég ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði.
    Það mætti að vísu flytja nokkuð langt mál um ýmislegt af því sem kom ekki fram í síðari ræðu hæstv. forsrh. Hann svaraði þar mjög fáum spurningum. Hann svaraði nánast engri spurningu frá mér. Hann svaraði engri spurningu um það hvort ætlunin væri að auka tekjur ríkissjóðs á einhvern máta. T.d. spurði ég að því hvort vænta mætti að við fengjum að sjá skattlagningu fjármagnstekna, svo að ég nefni þar aðeins dæmi. ( Forsrh.: Ég svaraði því.) Var það, þá bið ég afsökunar. Ég held að ég hafi hlustað nokkuð vel og hæstv. forsrh. var ekki svo hraðmæltur í seinni ræðunni að mér tækist ekki að fylgjast þar með að því er ég taldi. En það komu fram margar fleiri spurningar um slíkt hvernig ætlunin væri að auka tekjur ríkissjóðs.
    Ég gæti að vísu flutt nokkuð langt mál um vextina því að hæstv. forsrh. vék nokkuð að þeim en það gerði síðasti ræðumaður og skal ég ekki endurtaka það. Ég er að vísu ekki búinn að lesa alla skýrslu Seðlabankans en ég verð þó að taka undir það með þeim hv. ræðumanni að þar kennir margra grasa og mikils fróðleiks. Ekki bara það að þessi mikla hækkun vaxta um 2% sem hefur kostað atvinnulífið nokkra milljarða hefur gert afar lítið til þess að bæta stöðu ríkissjóðs heldur kemur einnig fram á þessum sömu síðum í skýrslu Seðlabankans að skuldsetning fyrirtækjanna og einstaklinganna í landinu hefur aukist um 90 milljarða og skuldir einstaklinga um 45 milljarða. Nú er það ein hagfræðikenningin í sambandi við hækkun vaxta að hún eigi að draga úr eftirspurn eftir lánsfé. Það hefur ekki gerst í þessu tilfelli enda eru margir sem halda því fram að hávaxtakenning hagfræðinga áratugarins hafi verið einhver mestu mistök sem hafi verið gerð í langri sögu hagfræðinnar í heiminum. Þarna hefur það sýnt sig að alls ekki hefur dregið úr eftirspurn eftir fjármagni. Það er reyndar athyglisvert sem kom fram í leiðara Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum þar sem vísað var í The Financial Times og athygli vakin á því að hávaxtastefnan hefur víða nánast komið bönkunum sjálfum á kné og svo hefur t.d. orðið í Noregi. Þar hafa bankarnir hver eftir annan farið á hausinn eins og nú er sagt, orðið gjaldþrota, og rakið er í Financial Times að þetta megi e.t.v. kenna hávaxtastefnunni um og þetta liggur út af fyrir sig í hlutarins eðli. Viðskiptavinir bankans hafa ekki efni á að greiða slíka vexti. Viðskiptavinir bankans verða gjaldþrota og bankinn fylgir stundum á eftir. En ég vona að við fáum tækifæri til að ræða þetta miklu betur síðar þegar við ræðum vaxtamálin almennt og þá getum við tekið þessa furðulegu samlíkingu um handleiðslu í kirkjunni og svo hins vegar útkastara á skemmtistöðum þeim sem mér skildist að hæstv. forsrh. leitaði til á sínum yngri árum. Ég hygg að hann geri það ekki lengur en á sínum yngri árum skilst mér að hann hafi leitað til slíkra staða þar sem handaflinu var beitt. En ég ætla ekki að lengja tímann með umræðu um það hér og nú.

    Ég bað fyrst og fremst um orðið vegna þess að mér fannst á hæstv. forsrh. að hann auglýsti eftir aðgerðum í efnahagsmálum og mér fannst eiginlega vera hálfgerður undrunarsvipur á hæstv. forsrh. þegar hann lýsti því að það að draga úr fjárlagahallanum væri vissulega sú --- að manni skildist --- eina aðgerð í efnahagsmálum sem nokkurt vit væri í og mér fannst undrunarsvipur á hæstv. forsrh. þegar hann auglýsti eftir einhverju fleiru. Hvað þarf fleira? Ég er ekki að gera lítið úr því að draga úr halla ríkissjóðs og ég vek athygli á því að við framsóknarmenn höfum í þessari umræðu stutt ýmsar aðgerðir sem fram eru komnar til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Við höfum meira að segja sagt að við getum litið á sumt af því sem lagt er til í heilbrigðiskerfinu þó að það sé vissulega sársaukafullt. Það sem við höfum lagst þar helst gegn hafi verið greiðsla fyrir komur á heilsugæslustöðvar, enda er mjög vafasamt að draga úr komum fjöldans á heilsugæslustöðvar. Það á miklu frekar að stuðla að því að menn komi þar með sjúkdóma sína og vandræði í heilbrigðismálum sem tíðast. En ég vek athygli á því að við höfum yfirleitt stutt af ábyrgð margt það sem þar hefur komið fram af því að við gerum okkur grein fyrir því að það syrtir í álinn og nauðsynlegt er að draga úr útgjöldum eins og frekast er unnt. Hins vegar hlýt ég að vekja athygli á því að þetta er langt frá því að vera eina og í sumum tilfellum skynsamlegasta aðgerðin í efnahagsmálum. Ég efa t.d. stórlega að sú hugmynd ríkisvaldsins að draga úr greiðslu launa í gjaldþrotum, eins og ég rakti fyrr í ræðu minni, stuðli að þjóðarsátt. Þar er verið að fórna miklu stærra markmiði fyrir minna og reyndar hefur hæstv. forsrh. að því er mér heyrist viðurkennt þetta. Vitanlega er rétt að þau auknu útgjöld sem lögð eru á einstaklingana í landinu stuðla ekki að þjóðarsátt og þess vegna verður að vega það og meta hvert gegn öðru. Staðreyndin er sú að það er reynsla margra ríkisstjórna að tök nást ekki á efnahagsmálunum með því að ráðast á einn þáttinn. Það verður að skoða þá alla og hæstv. forsrh. getur rakið þetta allt í gegnum áratugina, allt frá viðreisnarárunum þegar gefin var út hvít bók um efnahagsráðstafanir. Hann getur líka farið til fyrirrennara síns í stóli formanns Sjálfstfl. sem skipaði á sumarmánuðum 1988 merka nefnd til að gera heildartillögur um aðgerðir í efnahagsmálum, svokallaða niðurfærslu. Það voru mjög athyglisverðar tillögur sem þar komu fram. Ég er ekki að segja að þær gildi nú en allar ríkisstjórnir hafa lagt sig fram við það að ná samstöðu við aðila atvinnulífsins, bæði vinnuveitendur og launþega í því skyni að koma fram með heilsteyptar aðgerðir sem í sumum tilfellum hafa verið nauðsynlegar til þess að koma okkur yfir öldudalinn og í öðru tilfelli til þess að ráðast gegn verðbólgunni og koma jafnvægi á í íslensku efnahagslífi. Ég vildi gjarnan fá að ræða það við betra tækifæri við hæstv. forsrh. hvað núv. ríkisstjórn hefur gert að þessu leyti. Hefur hún t.d. átt ítarlegar og formlegar viðræður við aðila vinnumarkaðarins? Hefur hún skipað einhverja lærða menn eins t.d. þessa ágætu menn sem eru í fortíðarkönnunarnefndinni í það verkefni?
    Ef ég má skjóta því inn í var því stungið að mér hverjir þeir eru ef ég má aðeins lífga upp á minni hæstv. forsrh. Þetta eru hinir mætustu menn. Það er Hreinn Loftsson sem var nefndur, Finnur Sveinbjörnsson, Hrafn Sigurðsson, Þorsteinn Guðnason, Jón Ragnar Blöndal. A.m.k. eru tveir þeirra með mikla og lærdómsríka reynslu í atvinnulífinu.
    Hefur ríkisstjórnin sett einhverja góða menn í að skoða efnahagsmálin á breiðum grundvelli og stuðla að samstarfi við aðila vinnumarkaðarins sem hefur ætíð reynst farsælt og er nauðsynlegt?
    Ég gæti vel minnst á ýmsar aðgerðir í efnahagsmálum en ég má ekki lengja umræðurnar um of. Þó vil ég vekja athygli á því að ég rakti fyrr í ræðu minni tillögur hæstv. sjútvrh. og ég hef ekki enn þá fengið svar nema það hafi einnig farið fram hjá mér hvenær gera má ráð fyrir því að tillögur hæstv. sjútvrh. verði framkvæmdar. Hvenær verða þær framkvæmdar? Eða er það rétt sem ég hef heyrt á hlaupum að hæstv. forsrh. hafi jafnvel

lagt til að öllum slíkum tillögum verði frestað? Er það rétt? Sem sagt, þessu var ekki svarað. Þarna er um ýmsar tillögur að ræða sem ganga að vísu ekki nógu langt en eru í áttina.
    Við höfum rætt vextina og ég hef vakið máls á því og fært að því rök að ég tel að lækkun vaxta sé grundvallaratriði til þess að stöðugleika megi ná hér, koma í veg fyrir mikil gjaldþrot og stuðla að þjóðarsátt. Reyndar hafa allir forustumenn launþega lagt áherslu á það að vaxtalækkunin er nauðsynleg ef ná á árangri í kjaramálum.
    Hér hefur verið rakið hvernig vaxtaþróunin hefur verið. Nafnvextir voru 12% í sumar, núna 14% þrátt fyrir minnkandi verðbólgu, sagði hæstv. forsrh. Þetta er ekki að stuðla að þjóðarsátt. Þetta er hvorki handleiðsla né handafl í vaxtalækkun, kannski þvert á móti í vaxtahækkun.
    Herra forseti, ég skal ekki lengja umræðurnar en ég vil enn auglýsa eftir frekari tillögum hæstv. ríkisstjórnar. Ég vona að við fáum að sjá þær í næstu viku. Það vekur að sjálfsögðu mjög mikla athygli að hæstv. forsrh. sagði í fyrstu ræðu sinni að frekari niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar mundu koma til umræðu við 2. og 3. umr. fjárlaga. Venjulega hefur 3. umr. fjárlaga verið lokaumræða fjárlaga. Ég vona að ég hafi misskilið hæstv. forsrh. að hann ætli ekki að fara að kynna niðurskurðartillögur við 3. umr. fjárlaga. Nógu slæmt er að fá tillögur um að mér skilst 6 milljarða niðurskurð við 2. umr. fjárlaga sem er í næstu viku. Það hefði verið ástæða til að spyrja að því, hvar er hv. fjárln. stödd í vinnu sinni ef hún hefur ekki fengið þessar 6 milljarða niðurskurðartillögur í hendurnar í dag? Við gætum vitanlega staðið í allan dag og auglýst eftir slíku og mundum við eflaust engin svör fá. Eflaust er hæstv. fjmrh. nú að sjóða þessar tillögur saman eða við skulum vona það. En ég get ekki annað en lýst vonbrigðum mínum enn með það að við höfum fengið svo lítið fram af tillögunum um efnahagsaðgerðir og ég vil lýsa því að ég er því algerlega ósammála að það að draga úr halla ríkissjóðs sé nánast eina efnahagsaðgerðin sem eitthvað gagn er í. Það þarf miklu meira til til að komast upp úr þeim öldudal sem við erum í og ég vil lýsa því að við framsóknarmenn erum reiðubúnir að taka þátt í ábyrgum aðgerðum til þess að koma íslensku atvinnulífi upp úr öldudalnum og til þess að stuðla að því að kjarasamningar náist.