Almannatryggingar o. fl.

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 13:55:00 (1728)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa til máls um þetta frv. og lýst stuðningi sínum við meginefni þess þó að, eins og vænta mátti, leggi þessir ágætu stjórnarandstöðuþingmenn til að gert sé heldur betur en reynt er að gera í þessu frv. og er það skiljanleg afstaða. Út af orðum hv. 4. þm. Suðurl. vil ég taka fram í fyrsta lagi að þarna er ekki bara gerð sú breyting að fundin er formleg lagastoð undir þær greiðslur sem inntar eru af hendi til foreldra eða forsjármanna sjúkra barna. Með þessum breytingum er líka verið að gera það sem hv. þm. óskaði eftir að yrði gert, þ.e. að samræma afgreiðsluna. Í núverandi kerfi hefur því verið þannig háttað að svæðisstjórnirnar hafa gert tillögur og félmrn. úrskurðað en Tryggingastofnun greitt. Það er því rétt hjá hv. þm. að það hafa fundist dæmi um nokkurt misræmi í þessum afgreiðslum, bæði innan hinna einstöku svæðisstjórna og ekki síður, og jafnvel miklu frekar, milli þeirra afgreiðslna annars vegar sem svæðisstjórnirnar hafa ákvarðað og hins vegar sambærilegra ákvarðana sem Tryggingastofnun ríkisins hefur tekið vegna þess að þarna hafa tveir aðilar verið að fjalla um og komist að mismunandi niðurstöðu um bótagreiðslur þótt einn og sami aðilinn inni greiðslur af hendi. Nú er verið að fela úrskurðarvaldið í hendur Tryggingastofnunar ríkisins. Hún hefur hið endanlega ákvörðunar- og úrslitavald, þannig að það er í öllum tilvikum sami aðilinn sem úrskurðar. Með þessu næst einmitt það takmark sem hv. þm. talaði um, að menn reyni að eyða misræminu sem hefur verið á þessari afgreiðslu vegna þess að tveir ólíkir aðilar hafa úrskurðað. Hér er ekki aðeins um það að ræða að verið sé að búa til ótvíræða lagastoð undir þessum greiðslum, það er einnig verið að framkvæma þá samræmingu sem hv. þm. óskaði eftir.
    Það skal aðeins tekið fram í þessu sambandi að um þetta var nokkur ágreiningur vegna þess að formælendur fatlaðra barna vildu halda því hlutverki áfram að svæðisstjórnirnar ákvörðuðu hvernig umönnunarbætur skyldu greiddar en Tryggingastofnun væri aðeins greiðsluaðilinn. Um þetta náðist það samkomulag milli ráðuneytanna að Tryggingastofnun yrði í öllum tilvikum hinn endanlegi úrskurðaraðili en svæðisstjórnunum skyldi gefinn kostur á að gera tillögu til tryggingaráðs um hvernig að afgreiðslunni skyldi staðið, eða öllu heldur Tryggingastofnunar ríkisins, en síðan yrði tryggingayfirlæknirinn eða tryggingalæknir hinn endanlegi úrskurðaraðili.
    Um framkvæmdina er það að segja að gert er ráð fyrir því að þegar verið er að fjalla í svæðisstjórnum um umönnunarbætur til sjúkra barna er undir öllum kringumstæðum gert ráð fyrir því að læknir verði kallaður til, þannig að hann verði í þeim hópi eins og hv. þm. óskaði eftir.
    Annað atriðið, sem fram kemur í frv. og ég óskaði sérstaklega eftir að skoðað yrði í nefndinni er að umönnunarbætur komi í stað barnabóta. Ég vil aðeins benda á, virðulegi forseti, að líka var gert ráð fyrir þessu í frv. fyrrv. heilbrrh. sem lagt var fram á Alþingi á sl. vori og um það var fullt samkomulag á milli þeirra flokka sem stóðu að framlagningu þess frv. Það var ekki mér vitanlega ágreiningur um þetta atriði. Í stað barnaörorku kæmu umönnunarbætur, a.m.k. kom það aldrei fram svo ég viti til að ágreiningur hafi verið um þetta. Hér er verið að gera sömu tillögu hvað þetta varðar og var í frv. fyrrv. heilbrrh. Hins vegar var í því frv. einnig ákvörðun um aðrar bótagreiðslur sem ekki eru í þessu frv. Það er rétt hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni. En það sem ég óskaði eftir var að hv. heilbr.- og trn. skoðaði það vandlega hvort í öllum tilvikum væri ljóst að umönnunarbætur gætu komið í staðinn fyrir barnaörorkubætur.

    Í þriðja lagi töluðu bæði hv. 4. þm. Suðurl. og hv. 11. þm. Reykv. um viðbótargreiðslur, þ.e. nauðsyn þess að greiða viðbótargreiðslur umfram þær umönnunarbætur sem hér er gerð tillaga um. Má þar nefna bifreiðakostnað, ferðakostnað, uppihaldskostnað og fleiri bótagreiðsluliði. Auðvitað er barnaörorkan, ef hún er greidd jafnhliða umönnunarbótunum, bótagreiðsluflokkur til viðbótar út af sama tilefninu. Menn geta skoðað þá hluti og það var í frv. fyrrv. hæstv. heilbrrh. Það er hins vegar ekki gerð tillaga um að afgreiða slíkar bætur í þessu frv. enda var í frv. hæstv. fyrrv. heilbrrh. verið að gera tillögur um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu.
    Hér er ekki verið að gera neina slíka tillögu. Í þeirri tillögu um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu var, með lækkun á einum bótaþætti eða greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins vegna eins tiltekins bótaflokks, útvegað fé til að fjármagna þær viðbótargreiðslur sem átti upp að taka, þar á meðal þær sem hér er um að ræða. Hins vegar er ekki verið að gera það hér, aðeins verið að gera skipulagsbreytingar annars vegar og fá lagastoð undir tilteknum afgreiðslum hins vegar.
    Um áframhaldandi greiðslur umönnunarbóta eftir 16 ára aldur vil ég vísa hv. þm. á að um leið og viðkomandi einstaklingur er orðinn 16 ára gamall öðlast hann rétt til örorkulífeyris. Mikið sjúkt barn sem orðið er 16 ára og ekki nýtur lengur umönnunarbóta eða barnaörorku gengur beint inn í greiðslu örorkulífeyris sem það fær sjálft til eigin þarfa. Það er misskilningur, sem mætti ætla af ummælum hv. þm. að slíkar eða sambærilegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins féllu niður vegna umrædds barns við 16 ára aldur. Slíkt er ekki. En þá er enn spurning um það hvort menn kjósa að greiða bæði umönnunarbætur og fullan örorkulífeyri vegna slíks aðila. Ég reikna ekki með að hv. þm. hafi verið að koma með þá tillögu. Þess vegna held ég að hér sé um misskilning að ræða, misskilning sem grundvallast á því að menn hafi ekki áttað sig á að þegar umönnunarbætur falla niður við 16 ára aldurinn kemur örorkulífeyririnn í staðinn.
    Varðandi það sem hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði áðan er það rétt ábending hjá honum að tilgangurinn með þessu frv. er ekki að lækka umönnunarbæturnar frá því sem þær eiga að vera, þ.e. röskar 47 þús. kr. Þetta eru pennaglöp sem hafa orðið við samningu frv. hjá embættismönnum félmrn. og heilbr.- og trmrn. og auðvitað ber ég sem ráðherra ábyrgð á því að uppgötva það ekki fyrr en frv. kemur inn í þing. En ég vil ítreka það að ástæðan fyrir þessu er pennaglöp en ekki sú að menn hafi ekki haft nægan tíma til að skoða þetta einfalda mál. Menn voru ekkert að flýta sér við samningu þessa frv. Þetta var ekki gert á einni nóttu. Menn höfðu nægan tíma en þessi pennaglöp voru gerð.
    Þá minntist hann einnig á, sem rétt er, að í frv. því, sem hann og fleiri hv. þm. Framsfl. flytja, er gert ráð fyrir því að umönnunarbætur vegna fatlaðra barna verði áfram greiddar skv. 10. gr. um málefni fatlaðra en umönnunarbætur vegna sjúkra barna verði greiddar með þeim hætti að Tryggingastofnun sjái ekki bara um greiðsluna heldur úrskurði einnig um bótafjárhæðina. Ég tel að það sé mjög óæskilegt að fyrir mjög sambærileg atvik séu tveir aðilar sem úrskurða. Ég tel einmitt að það hafi komið fram í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur að slíkt getur leitt til mismununar og þess að ekki sé samræmi í úrskurði. Ég held því að það sé rétt viðhorf sem kom fram hjá hv. þm. að bæði sé eðlilegra og æskilegra að gera þá skipulagsbreytingu sem lögð er til í þessu frv. að einn og sami aðilinn úrskurði um bótagreiðsluna í öllum þessum tilvikum.
    Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því, af því að ég hef þær upplýsingar ekki hér með höndum, að gera hv. heilbr.- og trn. mjög glögga grein fyrir því hvaða breytingar hafa verið gerðar bæði til rýmkunar og einnig til takmörkunar --- því þær hafa einnig verið gerðar --- á greiðslu ferðakostnaðar vegna sjúkra barna. Þær upplýsingar mun ég senda inn til heilbr.- og trn. svo nefndin geti kynnt sér það sjálf. Sjálfsagt hefði mátt gera þá kröfu

til ráðherra að hann kæmi með þær upplýsingar hér á þennan fund vegna ummæla sem hv. þm. Finnur Ingólfsson lét falla fyrir nokkrum dögum þegar sama mál var til umræðu. Það gerði ég ekki og það er að sjálfsögðu mín sök en ég mun bæta úr því með því að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að allar þær reglur sem nú eru í gildi --- sem breytt hefur verið bæði til rýmkunar og til takmörkunar --- verði lagðar fyrir heilbr.- og trn.
    Svo ítreka ég þakkir til þessara hv. þm. fyrir jákvæðar undirtektir og treysti því að þeir og aðrir þingmenn stuðli að því að frv. þetta geti orðið að lögum fyrir áramót.