Vatnsveitur sveitarfélaga

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 14:32:00 (1735)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er í sjálfu sér ekki þess eðlis að það veki upp neinar deilur í pólitískum skilningi en það er hins vegar spurning sem vaknar hvort nauðsynlegt hafi verið að flytja frv. um vatnsveitur sveitarfélaga. Ég er ekki sannfærður um að nauðsyn sé að festa þá skyldu í lög að í kaupstöðum skuli vera reknar vatnsveitur þó ég sjái heldur ekki ástæðu til þess að andmæla því eða hafa sérstaklega á móti því að frv. sé flutt.

    Það sem ég vildi benda á við fyrstu yfirferð er að ef það er vilji löggjafarvaldisins að lögbinda þetta hlutverk, sem er út af fyrir sig ekki eðlismunur á, kannski fremur stigsmunur, þá hygg ég að í þeim lögum verði líka að vera ákvæði sem tekur á því hvernig sveitarfélög geti framfylgt þessari skyldu. Aðstæður sveitarfélaga til þess að sinna þessari skyldu með sómasamlegum hætti eru mjög mismunandi, ef ég ræði um þetta eins og það er í frv. Víða eru vandræði með að fá sómasamlegt vatn. Á Vestfjörðum t.d. er mjög mikið notast við yfirborðsvatn og ég hygg að á láglendinu á Suðurlandi séu ýmsir erfiðleikar við að uppfylla þetta með bærilegum hætti. Það er alveg ljóst að kostnaðurinn er mjög misjafnlega mikill í sveitarfélögum eftir því hvernig aðstæður eru til þess að útvega vatn. Ef hugsunin á annað borð er sú að lögbinda þessa skyldu hygg ég nauðsynlegt að breyta því fyrirkomulagi sem nú er en það er þannig að sveitarfélög geta fengið fé úr Jöfnunarsjóði til stofnframkvæmda við vatnsveitur. Ég hygg að þá yrði nauðsynlegt að færa það sem stendur í þessari reglugerð um Jöfnunarsjóð yfir í frv. um Vatnsveitur sveitarfélaga þannig að þetta sé þá jafngilt, kvöðin og rétturinn.
    Ég bendi á að í 2. gr. tel ég nægjanlegt að hafa bara fyrstu setninguna. Ég hygg að annað sem á eftir kemur sé í rauninni óþarft því það er á valdi sveitarstjórnar að kjósa sérstaka stjórn í málið ef hún telur þess þörf. Það þarf ekki að setja heimildargrein um það í þessum sérlögum. Það er í sveitarstjórnarlögunum og að sjálfsögðu er það líka á valdi sveitarstjórnar að ráða mann til sérstakra starfa og því óþarft að mínu mati að setja sérstakt heimildarákvæði í lög til þess eins og hér er gert varðandi vatnsveitustjóra.
    Ég bendi líka á að tilhneiging hefur verið til þess í sveitarstjórnum á undanförnum árum að reyna að draga úr nefndafarganinu og menn hafa verið að endurskoða samþykktir um stjórnir kaupstaða og leitast við að fækka nefndum og ráðum. Meðal þeirra nefnda sem mér sýnist að þó nokkrar sveitarstjórnir hafi lagt niður eru einmitt vatnsveitustjórnir. Í nær öllum sveitarfélögum, eða kaupstöðum skulum við segja, var til sérstök vatnsveitustjórn. Þær hafa margar hverjar verið lagðar niður og verkefni þeirra fellt undir viðkomandi bæjarráð. Ég hygg því að það sé óþarft að hafa annað í 2. gr. en fyrstu setninguna og menn nái þeim markmiðum sem að er stefnt jafnt þótt það sem á eftir kemur sé ekki sérstaklega tekið fram.
    Ég staldra aðeins við 13. gr. Ég velti því fyrir mér hvort hér sé verið að auka miðstýringuna í þessum málaflokki. Þetta hefur verið þannig eins og fram kom í framsöguræðu ráðherra, að hvert sveitarfélag hefur sett sína eigin reglugerð og ákvarðað sína eigin gjaldskrá. Að vísu þarf staðfestingu ráðherra en ég veit ekki til annars en sú staðfesting hafi ævinlega fengist þannig að í framkvæmd hefur málið verið að fullu og öllu í höndum viðkomandi sveitarstjórna. Ég tel rétt að fara yfir 13. gr. í nefnd til þess að átta sig betur á því hvaða hlutverk félmrh. á að hafa samkvæmt henni, hvort það sé meira en nú er því að ég tel í rauninni ekki æskilegt að auka miðstýringuna í þessum málaflokki frá því sem nú er. Það má vera að vaki fyrir flutningsmanni að gæta samræmis, að samræma þessar gjaldskrár og út af fyrir sig er það ágætt markmið. En því geta menn náð einfaldlega í gegnum Samband ísl. sveitarfélaga og ég tel ekki þörf á að ná því með sérstakri lagasetningu og í raun heldur ekki æskilegt.
    Fleira ætla ég ekki að segja um þetta frv. á þessu stigi að öðru leyti. Eins og fram hefur komið hef ég ekki miklar athugasemdir við þetta frv. Það eru fremur spurningar um nauðsyn þess en ég sé ekki, eins og ég tók fram áðan, neina sérstaka ástæðu til að leggjast gegn því. Ég hygg að þetta ætti að geta átt sæmilega greiða leið í gegnum þingið þó að nefndin sem fær þetta til umfjöllunar muni að sjálfsögðu hafa samráð við Samband sveitarfélaga um efni þess.