Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:30:00 (1744)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
     Virðulegi forseti. Áður en ég tók þá ákvörðun að verða meðflutningsmaður að þessu frv. átti ég um þetta mál ágætar viðræður við 1. flm., fyrst og fremst um afrekssjónarmið og það hvort við værum of upptekin af þeim einstaklingum sem skara fram úr og látum okkur minna varða þá sem eru þátttakendur en lenda aldrei í afreksmannahópnum. Einnig þá sem ekki er kallað eftir að verði með, þá sem hvatningin nær ekki til og verða því ekki aðnjótandi þess að stunda íþróttir sjálfum sér til ánægju og hollustu. Við reyndumst vera sammála um það sjónarmið að opinberar aðgerðir, svo sem hér er lagt til, að stofna sjóð til að styrkja efnilega íþróttamenn eigi einmitt að vera hvatning til ungs fólks að vera með, að taka þátt.
    Auðvitað er það svo að þegar okkar fólk skarar fram úr á alþjóðavettvangi, snýr heim með eftirsóknarverðar viðurkenningar, ég tala ekki um þegar okkar fólk hefur komist á toppinn á meðan við höfum e.t.v. fylgst með glímunni skref fyrir skref í fréttum, jafnvel í beinni útsendingu í sjónvarpi, þá hefur þjóðarstoltið venjulega tekið heljarstökk með hverjum sigri. Og það er sannarlega okkar fólk sem snýr heim með verðlaun í farteskinu. En hvað svo?
    Ég átti viðtal fyrir skömmu við ungan mann sem þrátt fyrir líkamlega fötlun hefur náð langt í sundíþróttinni og m.a. komið heim af olympíu- og heimsleikum fatlaðra með brons og gull í farteskinu. Ég spurði hann þeirrar spurningar hvort við værum með því marki brennd að fagna sigri með þeim sem ynni en værum fljót að gleyma hvað þyrfti að fylgja með í stuðningi þegar sigurvíman hjaðnaði. Hann var hæverskur og taldi að sínum samtökum hefði verið nokkuð vel umbunað og þeim gert kleift að stunda fjölbreyttar íþróttir en sagði sem svo: ,,Auðvitað vill maður alltaf að meira sé gert.`` Hjá honum var það viðhorf ríkjandi hvað það hefði verið mikils virði að stunda sundið frá 10 ára aldri, hvað það hefði þýtt fyrir hann persónulega að iðka íþrótt og seinna að stefna að ákveðnu marki. Að hljóta umbun á þann hátt sem hann hefur gert var þess virði, að hans sögn, að hann mundi byrja á öllu upp á nýtt aftur ef um það væri að ræða. Var hann þá m.a. að vísa í margra klukkustunda æfingar á dag ef mót nálguðust. Íþróttaiðkunin sem slík var þó mikilvægust að hans mati, ekki síst hinn félagslegi þáttur hennar. Þetta var heilbrigður ungur maður þrátt fyrir þá fötlun sem hann lifir með. Það var þetta sjónarmið hans sem ég m.a. var í raun tilbúin að taka undir þegar ég ákvað að vera meðflutningsmaður að þessu frv.
    Með þessu frv. til laga erum við, að mínu mati, að gera ástundun íþrótta eftirsóknarverða frá enn einum sjónarhóli, með því að hver og einn sem efnilegur er geti átt kost á stuðningi. Um leið og ég legg mikla áherslu á að rækta mun betur þann þátt sem íþróttaiðkun er vek ég athygli á þeirri tillögu sem konurnar á Alþingi hafa sameinast um og lagt fram og felur í sér eflingu íþróttaiðkunar kvenna. Ég tel að sú tillaga sé grein af sama

meiði og ég ræði hér um í dag.
    Virðulegi forseti. Ég hef undanfarna daga átt mál á dagskrá þessa þings, sem er þingsályktunartillaga sem ég er fyrsti flm. að, um auknar varnir gegn vímuefnum. Einn þáttur þeirrar tillögu snýr að forvarnastarfi.
    Allt félagsstarf, ekki síst það sem við erum að ræða um, efling íþrótta og stuðningur við efnilegt æskufólk er ákaflega mikilvægt í baráttunni við þann bölvald sem vímuefni eru. Ekki síst þess vegna styð ég þetta mál.