Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:44:00 (1747)

     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið til máls og svara í örfáum orðum. Fyrst það sem kom fram hjá hv. 18. þm. Reykv. að engin kvennalistakona sé flm. að þessu frv. Ástæðan er ósköp einföld og skýr og kom fram í því sem ég sagði í framsögu að þetta er sama frv. og var flutt á síðasta þingi og eina breytingin er sú að orðið ,,afreksmaður`` var tekið út og ,,efnilegur íslenskur íþróttamaður`` sett í staðinn. Að öðru leyti er þetta nákvæmlega sama frv., þjónar nákvæmlega sama tilgangi og nákvæmlega sama hugsun á bak við það. Á síðasta þingi höfnuðu kvennalistakonur því að vera með í flutningi frv. Það er engin efnisleg breyting á því og ég sá því enga sérstaka ástæðu til þess að leita eftir því aftur að þær væru meðflutningsmenn. Ég bjóst ekki við því að þær ágætu

konur hefðu skipt um skoðun. En ég fagna því að til greina komi að skoða þetta með opnum huga a.m.k. í nefnd hjá þeim hv. þm. sem talaði síðast. Ég er afskaplega ánægður að heyra það. Vona ég að sú vinna verði á þá lund að málið komi sem fyrst úr nefndinni og til afgreiðslu inni í þinginu. Enda er stuðningurinn við frv. slíkur að maður leyfir sér að álykta sem svo að það sé fullur vilji innan þingsins til afgreiðslu á málinu. Ég ræddi ekki við fleiri þingmenn en eru flm. að frv., þannig að hugsanlegt hefði verið að ná hreinum meiri hluta á þskj. ef tími hefði unnist til.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að eyða tíma í að reyna að túlka hvað er afrek. Það er í sjálfu sér afstætt. Að skilgreina afrek með huga íþróttamannsins er að ná einhverjum tilteknum árangri innan tiltekinnar íþróttagreinar hvort heldur mælt er í tíma, með málbandi, með því að skora mörk, vera á svifrá eða synda o.s.frv. Það er að gera það vel að það nálgist þann árangur sem aðrir hafa náð. Hins vegar er afrek mjög afstætt hugtak og ég treysti mér ekki til að brjóta það til mergjar.
    Eins og ég sagði í framsöguræðu er þetta frv. samið með hliðsjón af frv. um skákmenn. Þar stendur þetta nákvæmlega eins og í þessu frv. Í frv. til fjárlaga er fjárveiting fyrir fimm skákmenn og þeir fá 5,4 millj. kr. Einfalt er að deila því niður og sjá að þetta eru rétt rúmar 4 millj. kr. Hins vegar er ég alveg til í að taka undir það að efla og styrkja sjóðinn. En eins og ég sagði í framsöguræðunni fannst mér meginatriðið vera það að koma sjóðnum á og síðan yrði framtíðarverkefni að vinna að því að efla hann og styrkja.
    Hitt er svo annað mál að við erum ekki það stór og fjölmenn þjóð að slíkur fjöldi efnilegra íþróttamanna komi fram að sjóðurinn þurfi að vera stórkostlega sterkur en a.m.k. er þetta byrjunin og við skulum þá vinna að því saman í framtíðinni að styrkja hann.
    Ég ítreka að sjóðurinn er einungis til þess að styrkja einstaklinga. Hann getur ekki gert annað og ef menn ætla að fara út á þá braut að styrkja hópa eða hópíþróttir þá þurfum við verulega að efla hann og miklu meira en hv. þm. kom inn á áðan. Þá erum við að tala um hópa sem eru frá 15 og upp í 30 manns og þar þarf að taka öðruvísi á málum.
    Hv. þm. minntist aðeins á kúluvarpara og ég veit alveg um hvaða mál hann er að tala þar. Ég hélt að komið hefði skýrt fram að ætlunin með frv. er ekki að styrkja þá sem eru orðnir afreksmenn. Það eru til afreksmannasjóðir innan ÍSÍ og þeir afreksmenn hafa þegar aðrar leiðir. Við erum að hjálpa þeim sem eru í farvatninu og við viljum reyna að koma í veg fyrir að við týnum þeim burt. Það sem hefur gerst í gegnum tíðina er að efnilegir og ungir íþróttamenn koma fram en þeir hafa ekki fjárhagslegan grundvöll til að sinna íþrótt sinni og þar viljum við geta gripið inn í. Það er meginhugsunin í þessu.
    Að sjálfsögðu tek ég undir það að það á að efla og styrkja almenningsíþróttir og huga að því að aðstaða sé sköpuð víðast hvar og það er einnig það sem ég kom lítillega inn á áðan þegar ég harmaði það að Íþróttasjóður skyldi hafa verið lagður niður. Hann var lagður niður með því að setja hann inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Menn sjá það alveg fyrir sér þegar sveitarfélög þurfa að fara að gera upp á milli þess hvort þau eigi að bæta aðeins við skólann eða spítalann eða eitthvað annað mjög þarft mál eru íþróttamálin gjarnan sett til hliðar og sú er þegar orðin reyndin.
    Hv. 11. þm. Reykn. talaði hér líka og minntist á fatlaða og rökstuddi það. Það er rétt að það komi fram í einni setningu að að sjálfsögðu tekur sjóðurinn líka til fatlaðra einstaklinga, ekki bara ófatlaðra heldur allra sem stunda íþróttir.
    Hv. þm. Guðni Ágústsson kom inn á aðra þætti, fyrirmynd afreksmanna og hann dvaldi svolítið við afreksmenn. Vissulega er það rétt hjá honum að þeir eru geysileg fyrirmynd og mjög öflugir frá uppeldislegu sjónarmiði. Ég þarf ekki annað en líta inn á mitt eigið heimili til þess að fá staðfestingu á því. Þar eru nokkrir ungar sem eiga nokkrar fyrirmyndir og fylgjast mjög grannt með þeim, vilja gjarnan klæðast eins fötum, drekka sama drykkinn, taka eftir því hvort viðkomandi einstaklingur reykir eða gerir annað slíkt, þannig að vissulega er þetta mjög áríðandi þáttur.
    Það er freistandi að fara aðeins út í forvarnastarfið. Það er kunn staðreynd að þátttaka í íþróttum hefur mikið forvarnagildi, bæði gagnvart neyslu fíkniefna, áfengis, tóbaks o.s.frv. Við hjá íþróttanefnd ríkisins höfum núna beitt okkur fyrir því að fljótlega fer af stað könnun þar sem tekið verður fyrir gildi íþrótta, annars vegar með tilliti til forvarna, fíkniefnaneyslu, áfengisneyslu og tóbaksneyslu og hins vegar á heilbrigði barna, námsárangur og annað slíkt. Við teljum mjög mikilvægt að fá þetta fram og munum í framhaldi af því efna til málþings þegar þær niðurstöður liggja fyrir þar sem farið verður ítarlega yfir þennan þátt mála.
    Hæstv. forseti. Ég held að ekkert sé meira um þetta að segja. Ég vil ítreka það að við erum að reyna að styrkja efnilega íþróttamenn. Við ætlum okkur ekki að grípa inn í hjá þeim sem þegar eru orðnir afreksmenn. Þeir hafa næg tækifæri til þess að styrkja sig annars staðar.