Sjóður til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 15:53:00 (1748)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. en ég get verið sammála hv. þm. Inga Birni Albertssyni um að miklu meira fé hefði þurft að verja til íþrótta. En það er ekki nóg að setja peninga í íþróttahreyfinguna. Maður getur haft ákveðna skoðun á því í hvað helst á að setja peningana.
    Ég er ekki alveg viss um að mér finnist stuðningur við efnilega íþróttamenn vera það sem ætti fyrst og fremst að leggja áherslu á en hins vegar getur það vel verið að það kæmi einhvers staðar ofarlega í forgangsröðina. Ég hef t.d. verið mjög ósátt við það í hvaða röð íþróttahreyfingin hefur varið fé sínu. Ég er ekki sátt við það að meiri hlutinn af fénu fari í meistaraflokk karla en ekki í aðrar greinar. Það er líka spurning um það hvernig forgangsröðin er. Ég tel allt of litlu fé varið í kvennaflokka í íþróttum almennt. Það er verulega miklu minna fé en það sem karlaflokkarnir fá almennt.
    En ég kom í þennan ræðustól fyrst og fremst til þess að benda hv. þm. á það að frá því að þetta frv. var lagt fram hér, ekki reyndar á síðasta þingi heldur á þinginu þar á undan, 113. þingi, ef ég man rétt, hefur orðið svolítið breyting á þingflokki Kvennalistans þannig að það er ekki alveg víst að hann hefði fengið sömu viðbrögð. Þær sem hér eru nýjar voru ekki spurðar um þetta mál þannig að það er ekki alveg víst að hann hefði fengið sömu svör.
    Ég vil jafnframt benda hv. þm. á að 16 af þeim sem flytja þetta frv. sátu ekki á 113. löggjafarþingi heldur aðeins 7 auk 1. flm. Þess vegna er ekki alveg rétt að taka eingöngu þessa skýringu sem góða og gilda. Ég vil a.m.k. ekki gera það.
    Ég vil líka benda þm. á að hv. 11. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, lýsti því að hún hefði ekki viljað skrifa upp á þetta frv. nema vegna þess að nafni frv. var breytt úr afreksmannasjóði í stofnun sjóðs til að styrkja efnilega íslenska íþróttamenn þannig að ýmislegt getur orðið til þess að breyta skoðun þingmanna á því hvort þeir vilja styðja frv. eða ekki.
    Þetta langar mig einungis til þess að komi fram, virðulegi forseti, en að öðru leyti hefur Kvennalistinn góðan fulltrúa í menntmn. þingsins sem mun fá þetta frv. til umfjöllunar.