Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 18:04:00 (1752)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi láta í ljósi ánægju mína með það að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. skuli hafa komið til þessa fundar eftir erfiða nótt og einnig hæstv. félmrh. Það er mikilvægt vegna þess að við erum að fást við lykilatriðið í efnahagsmálum Íslendinga á næstu missirum.
    Það er mjög mikilvægt að það liggi ljóst fyrir, bæði efnislega og pólitískt, hvað ríkisstjórnin hyggst gera og hvað við ýmsir aðrir viljum að gert sé og einnig hvers vegna og hvaða líkur séu á því að sú aðferð sem menn velja skili árangri.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að nánast allir sem hafa tjáð sig á undanförnum mánuðum, hvort sem það eru aðilar vinnumarkaðarins, samtök launafólks eða samtök atvinnulífsins, við hér sem skipum flokka stjórnarandstöðunnar á Alþingi eða fulltrúar hæstv. ríkisstjórnar, allir þessir aðilar hafa lýst yfir sameiginlegu markmiði, því markmiði að vaxtalækkun, raunvaxtalækkun á næstu vikum og allra næstu mánuðum sé lykilatriði til þess að íslenskt efnahagslíf geti haldið stöðugleika sínum. Ég legg áherslu á orðið lykilatriði. Um þetta er enginn ágreiningur. Ég held t.d. að hæstv. forsrh. hafi oft og reyndar alltaf haft rétt fyrir sér, þegar hann hefur sagt að þessi vaxtalækkun væri lykilatriði í tengslum við efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu á næsta ári. Vandinn snýst ekki um þetta. Vandinn snýst um það hvernig ætla menn að gera þetta. Þar höfum við, ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, flutt frv. sem vegvísi í þessum efnum. Við höfum hins vegar í síðustu viku hlustað á hæstv. viðskrh. lýsa annarri aðferð og við höfum heyrt hæstv. forsrh. segja að ef ríkisstjórnin nái því að afgreiða fjárlög með tæplega fjögurra milljarða halla muni vextirnir lækka og þessi stöðugleiki komast á.
    Ég verð því miður, virðulegi forsrh., að lýsa því yfir að ég held að sú kenning sé á misskilningi byggð. Jafnvel þótt ríkisstjórnin nái því að afgreiða fjárlögin, og þá legg ég áherslu á að það séu raunhæf fjárlög fyrir næsta ár með fjögurra milljarða halla, muni það lítt duga til þess að ná vöxtunum niður.
    Ég ætla að færa fyrir þessu nokkur rök og vona síðan að hæstv. ráðherrar taki efnislegan þátt í umræðunni vegna þess að við erum hér að fást við lykilatriðið í því sem ráðið getur úrslitum um hvort okkur Íslendingum tekst að halda stöðugleikanum.
    Seðlabanki Íslands sendi frá sér skýrslu 4. des. Það er alveg ljóst að í þeirri skýrslu kemur fram ein skýr grundvallarkenning. Þessi grundvallarkenning Seðlabankans er sett fram á bls. 7 í þessari skýrslu og hún hljóðar á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að benda á þá mikilvægu staðreynd að vaxtastigið hér á landi ræðst ekki lengur nema að litlu leyti af vaxtaákvörðunum innlánsstofnana heldur fyrst og fremst á verðbréfamarkaðnum þar sem eftirspurn eftir lánsfé frá ríkissjóði og húsbréfakerfinu hefur nú um skeið skipt mestu máli. Innlánsstofnanir taka síðan mið af vöxtum á spariskírteinum og húsbréfum þegar þær ákveða vexti á verðtryggðum innlánum og útlánum.``
    Þetta er lykilkenningin í skýrslu Seðlabanka Íslands til ríkisstjórnar og Alþingis samkvæmt lögum nr. 36/1986, um þann vanda sem við er að glíma í vaxta- og peningamálum. Ef hæstv. ráðherrar, forsrh. og viðskrh., taka þá afstöðu, sem ráða mátti af yfirlýsingu hæstv. forsrh. sem greint var frá í fjölmiðlum í morgun, að þeir hafni þessari kenningu líkt og hæstv. félmrh. hefur hafnað henni, þá blasir við sú staðreynd að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. hafa um leið hafnað grundvallarkenningu Seðlabankans um það hvernig eigi að ná vöxtunum niður. Það eru vissulega mjög mikilvæg tíðindi. Ég hlýt þess vegna í þessari umræðu að óska eftir því að það komi alveg skýrt fram hjá hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. hvort þeir eru sammála eða ósammála þeirri grundvallarkenningu Seðlabankans að það séu húsbréfin ásamt hallanum á ríkissjóði, eins og kemur fram í skýrslunni hvað eftir annað, enn frekar húsbréfin en hallinn á ríkissjóði, sem ráði vaxtastiginu í bankakerfinu.
    Ég vil í þessu sambandi, virðulegi forseti, vitna til ræðu sem hæstv. viðskrh. flutti ef ég man rétt á föstudagskvöld í síðustu viku. Þar sagði hæstv. viðskrh. orðrétt:
    ,,Ég legg hins vegar á það mjög ríka áherslu að í þessum efnum á bein íhlutun ekki við heldur munu vextirnir lækka með frjálsum ákvörðunum á næstunni.``
    Í skýrslu Seðlabankans kemur skýrt fram að Seðlabankinn telur engar líkur til þess, engar, að vextir muni lækka með frjálsum ákvörðunum á næstunni nema ríkisstjórnin grípi til alvarlegra aðgerða gagnvart húsbréfakerfinu. Ef ríkisstjórnin grípur ekki til neinna aðgerða gagnvart húsbréfakerfinu, segir Seðlabankinn í þessari skýrslu: ,, . . .  vextir munu ekki lækka með frjálsum aðferðum.``
    Ég vil enn fremur vekja athygli hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh.,

sem ég veit að ég þarf kannski ekki gagnvart hæstv. félmrh., á því sem segir á bls. 6 í skýrslu Seðlabankans. Þar kemur fram sú skoðun Seðlabankans að vaxtahækkunin, sem ríkisstjórnin ákvað eftir að hún tók við völdum og hæstv. forsrh. hefur löngum rökstutt með þeim hætti að þetta hafi verið leiðrétting til samræmis við markaðinn --- hæstv. forsrh. staðfestir með höfuðhreyfingum nú eins og hann hefur oft gert áður að þetta var hans kenning og það er rétt --- en Seðlabankinn segir í þessari skýrslu að sú leiðrétting hafi verið óhjákvæmileg og í skýrslunni segir orðrétt: ,, . . . að mestu leyti til samræmis við þá vexti sem þegar voru á húsbréfamarkaðinum.`` Eða með orðum Seðlabankans: Vaxtahækkun ríkisstjórnarinnar í maí var ekki vegna almennra markaðsvaxta í landinu, í peningastofnunum markaðarins, bönkum og sjálfstæðum verðbréfasjóðum, heldur að mestu leyti til samræmis við vextina á húsbréfakerfinu.
    Ég gæti,virðulegi forseti, rakið hér fjölmargar aðrar tilvitnanir í skýrslu Seðlabankans en ég læt þessar nægja að sinni. Það blasir því við að komnar eru upp þrjár kenningar um hvernig eigi að ná vöxtunum niður á næstunni. Í fyrsta lagi er sú kenning sem við tölum hér fyrir, ég og hv. alþm. Steingrímur Hermannsson. Í öðru lagi er sú kenning sem Seðlabankinn talar fyrir. Í henni felst að taka verði á húsbréfakerfinu strax af fullri alvöru. Seðlabankinn lýsir því og gengur meira að segja svo langt að leggja til að ríkisábyrgðin sé tekin af húsbréfunum, og ég mun koma að því á eftir, en það er satt að segja mjög róttæk tillaga hjá Seðlabankanum. En það er þessi síðarnefnda kenning þ.e. sú afstaða Seðlabankans að það muni ekki skila neinum árangri að ná vöxtunum niður nema tekið sé á húsbréfakerfinu. Í þriðja lagi er sú kenning sem manni skildist á forsrh. í morgun að væri hans skoðun, þ.e. hann væri sammála félmrh., að þessi ályktun Seðlabankans væri röng og þess vegna virðist forsrh. treysta sér til þess að ná vöxtunum niður með frjálsum aðferðum án þess að tekið sé á húsbréfakerfinu. Það er þriðja kenningin að vextirnir lækki á markaðinum án þess að tekið sé á húsbréfakerfinu. Nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Er hann sammála kenningu Seðlabankans eða er hann sammála kenningu félmrh.? Ég ræð það af ræðu hæstv. viðskrh. sem hann flutti hér sl. föstudagskvöld að hann er í reynd að boða sams konar kenningu og Seðlabankinn gerir í sinni skýrslu án þess að útfæra hana jafnítarlega og Seðlabankinn gerir.
    Virðulegi forseti. Það er líka mjög alvarlegt í skýrslu Seðlabankans að þeirri grundvallarkenningu er haldið fram til viðbótar að ein meginástæðan hins mikla viðskiptahalla, sem er kannski eitt stærsta vandamálið í íslensku hagkerfi sem við er að glíma á þessu ári og næsta ári, sé sú almenna eyðsla heimilanna í landinu sem aukin hafi verið í gegnum húsbréfakerfið. Seðlabankinn rekur það í sinni skýrslu að hin eiginlega lánsfjárþörf ríkisins í venjulegum skilningi, þ.e. vegna umsvifa ríkisins og hallans á ríkissjóði, sé ekki nema mjög lítill hluti af þessum þáttum en það sé fyrst og fremst umframeyðsla heimilanna, fjármögnuð að verulegu leyti gegnum húsbréfakerfið sem hafi leitt til þessa viðskiptahalla.
    Nú ætla ég ekki að taka afstöðu til þessara kenninga hér og nú en auðvitað er alveg ljóst að ríkisstjórnin hlýtur að hafa það sem meginverkefni að draga úr viðskiptahallanum á næsta ári og verður auðvitað að svara því áður en fjárlög eru afgreidd hér á Alþingi hvort hún er sammála eða ósammála þessari afstöðu. Það væri auðvitað til einskis, nánast til einskis, að vera glíma hér við 1, 2 eða 3 milljarða til og frá í fjárlögum ríkisins ef kenning Seðlabankans er rétt og húsbréfakerfið er látið halda áfram með þeim hætti sem verið hefur í ár. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ná árangri verður hún annaðhvort að sýna fram á að kenning Seðlabankans sé röng eða fara eftir henni. Þetta er mikið alvörumál, sérstaklega vegna þess, virðulegi forsrh. og virðulegi viðskrh., að á árinu 1992 blasir við að þjóðhagslegur sparnaður, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, verður hér

á landi sá minnsti í 40 ár. Fara þarf 40 ár aftur í tímann, aftur til ársins 1951 til þess að finna jafnlágt hlutfall þjóðhagslegs sparnaðar hjá okkar þjóð eins og verður á næsta ári. Það er dæmi eða vegvísir um þær hættur sem við erum komin í. Ef í landinu er síðan kerfi sem nánast með sjálfvirkum hætti fjármagnar eyðslu heimilanna og vaxandi viðskiptahalla við þessar kringumstæður er það ávísun á alveg hrikalega stöðu í efnahagslífi Íslendinga þegar líður að lokum næsta árs.
    Í raun og veru má álykta út frá þeirri kenningu sem Seðlabankinn setur fram í sinni skýrslu að það séu húsbréfin og þáttur heimilanna sem hafi ýtt ríkinu út af markaðinum. Ég bið hæstv. forsh. að taka eftir þessari kenningu Seðlabankans vegna þess að hæstv. forsrh. hefur, sjálfsagt í góðri trú, haldið fram þessari kenningu að vegna þess hve ríkið hafi verið fyrirferðarmikið á markaðnum hafi vextirnir verið svona háir. Nú kemur Seðlabankinn fram með þau viðhorf að í reynd séu það húsbréfin sem eru það fyrirferðarmikil á markaðnum að spariskírteini ríkissjóðs hafa ekki selst og ríkissjóður hafi þess vegna ekki verið fyrirferðarmikill á markaðnum á árinu 1991. Þess vegna sé ekki hægt að skýra hið háa vaxtastig í landinu með fyrirferð ríkissjóðs, hins eiginlega ríkissjóðs, spariskírteinanna og hallavandamálsins á markaðinum, alls ekki. Það sé heldur ekki hægt að skýra hið háa vaxtastig með fyrirferð atvinnufyrirtækjanna á markaðinum vegna þess að Seðlabankinn rekur mjög rækilega tölur um það að atvinnufyrirtækin hafi ekki í auknum mæli sótt á á þessum markaði. Í raun má segja að þegar litið er á þessa skýrslu og hún sett í samhengi, þá er Seðlabankinn að lýsa því yfir að grípi ríkisstjórnin ekki til róttækra aðgerða núna strax gagnvart húsbréfakerfinu muni grundvallarþátturinn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hrynja. Ég vona að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir þessum kjarna málsins vegna þess að illt væri í efni ef hann væri í góðri trú að leggja á sig mikið erfiði við að pína þingflokkana til að samþykkja hér ákveðinn niðurskurð á fjárlögum, haldandi ríkisstjórnarfund fram til kl. 6 í morgun og þingflokksfund kl. 7.30 hjá Sjálfstfl. þegar Seðlabankinn er búinn að lýsa því yfir að þessi viðleitni sé nánast gagnslaus, verði ekki tekið á húsbréfakerfinu.
    Ég vil í því sambandi vekja athygli hæstv. forsrh. á því að sá seðlabankastjóri, sem Sjálfstfl. tilnefndi á síðasta ári, Birgir Ísl. Gunnarsson, flutti þjóðinni þann boðskap í sjónvarpi, mig minnir sl. laugardagskvöld frekar en föstudagskvöld, að þessi skýrsla Seðlabankans væri í samræmi við skoðanir bankastjórnarinnar og hans sjálfs og unnin af færustu sérfræðingum bankans. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. geri sér líka grein fyrir því að Jóhannes Nordal mun einnig líkt og Birgir Ísl. Gunnarsson standa fast á þessari skýrslu. Hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. eru þess vegna komnir í þá stöðu að velja á milli Jóhannesar Nordals og Birgis Ísl. Gunnarssonar annars vegar og hæstv. félmrh. hins vegar. Þeir eru komnir í þá stöðu að ef þeir af pólitískum ástæðum, sem ég skil vel án þess að ég útskýri þær hér í löngu máli, velja að standa með félmrh. og hreyfa ekki við húsbréfakerfinu en Jóhannes Nordal og Birgir Ísl. Gunnarsson reynast hafa rétt fyrir sér, mun ríkisstjórnin standa í þeim sporum allt næsta ár að vextirnir fara ekki niður og viðskiptahallinn minnkar ekki af því að það gangvirki peningamálanna, sem í húsbréfaútgáfunni felst, mun halda raunvöxtunum uppi og viðskiptahallanum háum. Við erum þess vegna ekki að fást við neitt smáatriði. Við erum að fást við það stóra vandamál að við verðum að ræða það mál í gegn hver hefur rétt fyrir sér í þessum efnum.
    Ég vil áður en fundi lýkur vekja athygli hæstv. forsrh. á því og bið hann að skila því til vinar míns, hæstv. fjmrh., að fjmrh. hækkaði raunvexti á spariskírteinum ríkissjóðs í maí um þriðjung. Það var eitt af hans fyrstu verkum . Það var ekki lítil hækkun. Hann hækkaði raunvexti á spariskírteinum ríkisins um þriðjung með einni handaflsaðgerð því auðvitað er það þannig að ríkið getur hækkað vexti með handafli þó að sumir eigi erfitt með að trúa því að ríkið geti lækkað vexti með handafli.

    Ég sagði það hér í ræðustól á Alþingi í maí að líklegast hefði hæstv. fjmrh. fengið þetta vonda ráð frá Seðlabankanum. Ég gat mér þess til og benti hæstv. fjmrh. á það að þetta mundi ekki skila miklum árangri. Ég lýsti því jafnframt yfir þá að ég gerði ekki ágreining við hann um hækkun vaxtanna á ríkisvíxlunum, skammtímapappírunum á markaðnum sem væru í keppni við millibankavextina. Ég hef ítrekað þá skoðun mína hvað eftir annað. En raunvaxtahækkunin á spariskírteinunum var leiðandi aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að réttlæta hið háa raunvaxtastig án þess að ná nokkrum árangri. Og nú, virðulegi forseti, liggja tölurnar fyrir.
    Á fyrstu fjórum mánuðum ársins, á þeim tíma þegar fráfarandi ríkisstjórn fór enn með völd og raunvextirnir á spariskírteinum ríkissjóðs voru 6%, voru seld spariskírteini ríkissjóðs fyrir 1.376 millj. Það var reyndar hærri upphæð, meiri sala á þessum fyrstu fjórum mánuðum en á fjórum mánuðum árið á undan. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti, ef ég mætti fá örfáar mínútur til þess að ljúka þessum tölum og kannski þar með ræðu minni eða fresta henni, þá væri ég þakklátur fyrir það. ( Forseti: Örfáar mínútur.) 1.376 millj. á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Á næstu fjórum mánuðum ársins þar á eftir, þ.e. fyrstu fjórum mánuðunum þegar spariskírteinin bera 8% vexti eftir að ríkisstjórnin hækkar vextina, þá seljast þau fyrir 899 millj. eða fyrir mun lægri upphæð en á þeim fjórum mánuðum þegar þau báru 6% vexti. Við skulum taka tímabilið frá ársbyrjun og til nóvember á þessu ári. Þá hafa samtals selst spariskírteini fyrir 4.399 millj. en á sama tíma í fyrra, þegar vextirnir voru 6% allt tímabilið, voru seld spariskírteini fyrir 6.835 millj. eða fyrir um það bil 2 1 / 2 milljarði meira en á fyrstu 11 mánuðum þessa árs. Það er reyndar þannig, virðulegi forseti, að við seldum spariskírteini fyrir 1.376 millj. á fyrstu fjórum mánuðum ársins en ríkissjóði hefur ekki tekist fram að þessu, eða frá því að 8% hækkunin kom til framkvæmda, að selja spariskírteini fyrir nema um 3 milljarða þegar við seldum á sama tíma í fyrra á 6% vöxtum spariskírteini fyrir 5 1 / 2 milljarð. Þess vegna er alveg ljóst að raunvaxtahækkunin á spariskírteinunum skilaði minni árangri en í sölu spariskírteinanna áður.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú gera hlé á ræðu minni en ljúka henni á skömmum tíma þegar þingfundur hefst hér á nýjan leik. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. forsrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. félmrh. komi hér til fundarins svo að hægt sé að ljúka ræðunni. ( Forseti: Forseti tekur undir þá von hv. 8. þm. Reykn. en hefur verið upplýst að hæstv. forsrh. muni vera kominn hálfa leið því hann er í viðtali niðri í Kringlunni og er væntanlegur innan skamms og mun láta aðra hæstv. ráðherra vita ef þeir hafa ekki heyrt hringingarnar.)
    Virðulegi forseti. Ég hef nokkra samúð með því að hæstv. forsrh. skuli þurfa að tala við fjölmiðla en ég vek athygli virðulegs forseta á því að þetta er í annað sinn á mjög skömmum tíma sem ég get ekki haldið áfram ræðu minni í þinginu vegna þess að ráðherrar eru uppteknir við að tala við fjölmiðla. Á föstudag, ef ég man rétt, varð að gera hlé á þingstörfum vegna þess að hæstv. utanrrh. var að tala við fjölmiðla og nú er ekki hægt að halda áfram þessari umræðu vegna þess að hæstv. forsrh. er að tala við fjölmiðla. Ég minni á að þessir tveir ágætu menn sögðu í rauða sófanum í sjónvarpssal þegar þeir komu úr Viðey kvöldið sem ríkisstjórnin var mynduð að þetta yrði öðruvísi ríkisstjórn en allar aðrar, m.a. vegna þess að nú ættu ráðherrar ekki að vera mikið í fjölmiðlum. ( Forseti: Þeir eru greinilega vinsælli en þeir hafa gert ráð fyrir í upphafi, hæstv. ráðherrar.) Það má vel vera, virðulegi forseti, að þeir álykti sem svo að það sé vegna vinsælda sem fjölmiðlar vilji tala við þá. Ég ætla ekki að tjá mig um þann dóm forsetans. En ég minni á að það á alla vega ekki við um forsrh. samkvæmt síðustu skoðanakönnun. ( Forseti: Forseti mun gera ráðstafanir til að hæstv. ráðherra viti að nærveru þeirra sé óskað hér.) Ég verð því miður, forseti, að bíða. Ég ætlaði að reyna að ljúka ræðu minni á u.þ.b. 5 mínútum en ég tel mig ekki geta byrjað fyrr en hæstv. forsrh. sérstaklega kemur hér. --- Nú kemur hæstv. forsrh.
    Ég var að segja, hæstv. forsrh., að ég hef mikla samúð með því að forsrh. þurfi að tala við fjölmiðla en forsetinn tjáði okkur það að hæstv. forsrh. gæti ekki komið til fundarins vegna þess að hann væri að tala við fjölmiðla. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem þingfundir tefjast hér vegna þess að ráðherrar eru að tala við fjölmiðla. Gera varð hlé á þingstörfum á föstudaginn, ef ég man rétt, vegna þess að hæstv. utanrrh. var að tala við fjölmiðla svo að ég rifjaði það upp, virðulegi forsrh., þegar þið félagarnir sátuð í rauða sófanum í sjónvarpssal kvöldið sem ríkisstjórnin var mynduð. Þá var ein af yfirlýsingunum sú að þessi ríkisstjórn yrði öðruvísi en allar aðrar vegna þess að nú ætluðu ráðherrar ekki að tala mikið við fjölmiðla. Það var farið álíka með það fyrirheit eins og önnur.
    Ástæðan fyrir því að ég vildi hafa hæstv. forsrh. hér í salnum til þess að ég gæti lokið ræðu minni er sú að ég vildi fara fleiri orðum um þær tölur sem ég var að flytja um sölu spariskírteina á þessu ári og hinu síðasta. Hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað flutt þá skoðun, sem stenst nú ekki þegar málið er gaumgæft, að hækkun raunvaxta spariskírteina ríkissjóðs um þriðjung, sem er stórt stökk í hækkun raunvaxta á spariskírteinum, hafi leitt til aukinnar sölu. Salan á spariskírteinum ríkisins frá því að vextirnir voru hækkaðir í 8%, á þessum sjö mánuðum, nemur 3 milljörðum 23 millj. kr. Það er álíka upphæð, hæstv. forsrh., og við seldum fyrir á fjögurra mánaða tímabili frá maí og til ágúst á sl. ári á 6% vöxtum. Þá var selt fyrir 3 milljarða 27 millj. og á jafnlöngu tímabili, sjö mánuðum, frá maí og til nóvember 1990 voru seld spariskírteini fyrir 5 milljarða 550 millj. kr. á 6% vöxtum. Á sjö mánuðum frá því að ríkisstjórnin tók við og vextirnr voru hækkaðir í 8% hafa selst 3 milljarðar 23 millj. kr. Það munar sem sagt 2 1 / 2 milljarði sem selt er af spariskírteinum á 6% vöxtunum á sama tíma í fyrra og selt er á 8% vöxtunum nú. Það er einnig athyglisvert, hæstv. forsrh., af því að svo mikið hefur verið talað um að lítið hafi selst af spariskírteinunum á fyrstu fjórum mánuðum ársins á 6% vöxtunum, að spariskírteini seldust fyrstu fjóra mánuði þessa árs fyrir 1.376 millj. sem er um 100 millj. kr. meira en salan fyrstu fjóra mánuði ársins 1990. Það er einfaldlega þannig að ekki er hægt að finna neinn tölulegan grundvöll fyrir þeim rökum eða þeirri réttlætingu að hækkun raunvaxtanna á spariskírteinunum um þriðjung í maí hafi leitt til aukinnar sölu. Þvert á móti. Salan er umtalsvert minni en hún var á 6% vöxtunum bæði fyrstu fjóra mánuði þessa árs og 11 mánuði ársins í fyrra.
    Ég varaði hæstv. ríkisstjórn við þessu í maí af góðum hug. Ég taldi að það væri alrangt af ríkisstjórninni að álykta sem svo að þessi hækkun raunvaxtastigsins um 1 / 3 mundi leiða til aukinnar sölu. Nú liggja tölurnar fyrir og niðurstaðan er ótvíræð.
    Hins vegar hefur bankakerfið notað þessa raunvaxtahækkun ríkisins til þess að verja sig og sitt raunvaxtastig. Enda er það ekki hækkunin á spariskírteinunum sem er vandamálið að dómi Seðlabankans heldur húsbréfakerfið. Ég vil þess vegna benda hæstv. ríkisstjórn á að ríkisstjórnin getur sjálf haft umtalsverð áhrif á raunvaxtastigið með því að taka að hluta til til baka þær ákvarðanir sem hún tók í maí ef hún er þá reiðubúin að taka að einhverju leyti á húsbréfakerfinu.
    Seðlabankinn hefur verið gagnrýndur nokkuð og með réttu vegna þess að það er margt í því sem hann segir sem orkar tvímælis. Ég held þó og vil lýsa því alveg skýrt hér að þótt ég taki ekki afstöðu með þeirri grundvallarkenningu sem Seðlabankinn setur fram hér um húsbréfin, þá er alveg ljóst að það er ekki hægt að leysa þetta mál, vaxtastigið í landinu, án þess að taka með ákveðnum hætti á húsbréfakerfinu eins og það er í dag. Ríkissjóður er einfaldlega að ónýta öll sín verk fyrir sjálfum sér ef hann heldur áfram útgáfu

húsbréfa sem gera það að verkum að spariskírteini ríkissjóðs standast ekki samkeppnina. Að því leyti skil ég ósköp vel hvers vegna hæstv. núv. félmrh. hefur lýst yfir ánægju sinni með núv. hæstv. fjmrh. því að alveg ljóst er að núv. hæstv. fjmrh. hefur látið húsbréfin hafa forgang fram yfir spariskírteini ríkissjóðs. Það er að vísu ekki meðmæli með fjmrh.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum vekja athygli hæstv. ráðherra á því að á bls. 5 í skýrslu Seðlabankans er því haldið fram að tilurð húsbréfakerfisins hafi valdið þeirri stökkbreytingu á lánsfjármarkaðinum að heildarlántökur ríkisins og annarra opinberra aðila séu hærri en sem nemur öllum peningalegum sparnaði í landinu. Ég vil líka vekja athygli á því, sem kemur fram og hefur verið vitnað í hér áður neðst á þessari blaðsíðu, að af 90 milljarða aukningu heildarskulda á lánamarkaðinum eru aðeins 11 milljarðar sem fara til ríkisins. Það er því ekki með nokkrum rökum hægt að halda því fram að það sé fyrirferð ríkisins í eiginlegri merkingu á þessum markaði sem skapi vandamálin.
    Ég vil einnig vekja athygli á því sem segir hér á bls. 10 og 11 og spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til þeirra tillagna og einnig hæstv. félmrh. Þar er annars vegar lagt til að fjáröflun vegna húsbréfakerfisins verði skorin niður um 4 milljarða. Nú á að afgreiða lánsfjárlög á þinginu næstu daga og Seðlabankinn heldur því fram að ef það verður ekki gert sé nánast borin von að hægt sé að ná jafnvægi á lánsfjármarkaðnum. Ég vil þess vegna spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til þessarar tillögu. Síðan er á bls. 11 að finna þá tillögu að afnema eigi ríkisábyrgðina á húsbréfunum. Það eru auðvitað mjög merkileg tíðindi þegar Seðlabanki Íslands leggur formlega til að ríkissjóður afnemi ábyrgð sína á þessum bréfum.
    Að lokum vil ég einnig spyrja hæstv. viðskrh. að því, sem er þá þriðja atriðið, hvort ætlunin sé að halda áfram því sem tekið var upp í maí á þessu ári að Seðlabankinn telji húsbréf í eigu innlánsstofnana með lausafé á sama hátt og spariskírteini gagnvart reglunum um lausafjárhlutfall. Það er alveg nauðsynlegt að fá svar við þessu því að þetta er eitt af grundvallaratriðunum í efnahagsstefnunni á næsta ári.
    Að lokum vil ég einnig vekja athygli ráðherra á því sem segir á bls. 69 neðst þar sem er samanburður við vaxtastig í öðrum löndum. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Mörg þessara landa eiga við svipaðan og jafnvel alvarlegri ríkisfjármálavanda að glíma en Íslendingar. Ekkert á við slíkan misvægisvanda að etja sem Íslendingar í fjármögnun íbúðarhúsnæðis þar sem lántökur einstaklinga vegna íbúðarhúsnæði eru langt umfram afborganir á áhvílandi lánum.``
    Hér bendir Seðlabankinn sem sagt á þann skýringarþátt misvægisins milli vaxta hér á landi og annars staðar að hið háa hlutfall lána til íbúðarhúsnæðis sé einn af skýringarþáttunum.
    Virðulegi forseti. Ég hef víst nokkrum sinnum sagt ,,að lokum`` og er best að fara að efna það fyrirheit. Þó vil ég ekki fara héðan úr stólnum án þess að rifja upp grundvallartriði hagfræðinnar. Að vísu er búið að segja ýmislegt um hagfræðinga í þessum ræðustól á undanförnum árum. Ég vil ekki styðja þá kenningu að það sé fullkomlega marklaus sveit manna. Ég tel að allt það fræðistarf hafi einhverju skilað. Ein af þeim kenningum sem enn eru í gildi og enginn hefur hrakið með rannsóknum er kenningin um eðli fákeppnismarkaðar. Sú kenning felur það í sér að fyrirtæki á fákeppnismarkaði séu mjög fljót til að hækka verð sinnar vöru en að sama skapi mjög sein til að lækka verð sinnar vöru þó að allar ytri aðstæður mæli með því. Þess vegna mælir kenningin með því að á fákeppnismarkaði sé gripið inn í af hálfu hins opinbera til þess að þvinga fákeppnisaðilana til að lækka verðið á sinni vöru í takt við kringumstæðurnar vegna þess að þeir séu ekki færir um að gera það sjálfir fyrr en of seint.

    Nú er það almennt viðurkennt að banka- og peningamarkaðurinn á Íslandi um þessar mundir sé fákeppnismarkaður og þess vegna eru full fræðileg rök fyrir því, jafnvel þótt menn aðhyllist kenninguna um frjálsa vexti sem meginkenningu, að beita því sem kallað hefur verið handafl eða handleiðsla, sem sagt ígrip hins opinbera inn í þá atburðarás til að knýja þessa fákeppnisaðila til að lækka verðið á sinni vöru, þ.e. vextina. Það er þess vegna engin mótsögn, hæstv. forsrh., milli frjálsra vaxta annars vegar og hins vegar ígripa af hálfu hins opinbera til þess að knýja niður vextina á hinum íslenska peningamarkaði eins og hann lítur út nú. Það gengur því aðeins upp að hafa engin opinber afskipti til þess að knýja vextina niður ef menn ætla að halda því fram og treysta sér til þess að sanna að íslenski peningamarkaðurinn eins og hann er nú sé frjáls samkeppnismarkaður en ekki fákeppnismarkaður. Það er hann hins vegar ekki. Þetta veit ég að hæstv. viðskrh. veit þó að stundum standi dálítið á því að hann viðurkenni það. Og vegna þess að hæstv. forsrh. tók hér dálítið skemmtilegan orðaleik fyrir helgina til þess að reyna að snúa sig út úr ágreiningi sínum og hæstv. sjútvrh. vil ég aðeins segja þetta við hann:
    Það er enginn munur á afstöðunni, sem lýst hefur verið af hálfu hæstv. sjútvrh. og þeirri sem lýst hefur verið af hálfu okkar, hvort sem menn kalla það handleiðslu eða handafl. Við höfum aftur á móti mótmælt þeirri kenningu, sem m.a. kom fram hjá hæstv. viðskrh. í hans ræðu sl. föstudagskvöld, að vextirnir muni lækka af sjálfu í krafti hinnar ósýnilegu handar, hæstv. forsrh. Þess vegna er líkingin um prestinn sem tákn fyrir skoðun hæstv. forsrh., ef á henni á að taka mark, yfirlýsing um að hann sé horfinn frá kenningunni um hina ósýnilegu hönd og vilji nú hafa hinn sýnilega prest fyrir altarinu sem með handahreyfingum sínum færir vextina niður. Sé svo getum við í sjálfu sér orðið sammála því að það skiptir mig engu sérstöku máli hvort þetta er gert með mjúkum strokum prestsins eða einu stuði útkastarans. Aðalatriðið er að það er höndin í bæði skiptin, sem beitt er, en ekki hinn ósýnilegi andi kenningarinnar um hina frjálsu markaðsvexti.