Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 18:23:00 (1753)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hæstv. síðasti ræðumaður minntist á hagfræðinga og hvort mark væri á þeim takandi. Ríkið verðleggur hagfræðinga eins og fram kom í frv. sem hér var til umræðu í dag. Þeir þurfa að borga 25 þús. kr. fyrir sitt starfsleyfi meðan ýmsar aðrar stéttir þurfa að borga allt upp í 75 þús. Það segir kannski eitthvað um stöðu hagfræðinganna. En það eru ekki hagfræðingar sem hér eru til umræðu heldur miklu frekar hagfræði og hvernig bregðast skuli við þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir í vaxtamálum. Það er ekki að ástæðulausu að það frv., sem hér er til umræðu, hefur verið lagt fram og ég get svo sannarlega tekið undir það með 1. flm. að það er þörf fyrir neyðaróp í þessum efnum en ég hef vissar efasemdir um þá leið sem hér er lögð til.
    Ástæður þess að þetta frv. er komið fram eru annars vegar þær hve vextir eru orðnir háir, vextir sem eru að sliga atvinnulífið og heimilin í landinu, og hins vegar mikil eftirspurn eftir lánsfé, miklar lántökur ríkisins, atvinnulífsins og þó einkum og sér í lagi einstaklinganna, heimilanna í landinu.
    Í öðru lagi er ástæða þess að við ræðum í dag um vaxtamál nauðsyn þess að ríkið beiti þeim aðferðum sem það ræður yfir til þess að ná niður vöxtunum. Spurningin er hins vegar, hvaða leið eigi að fara. Eftir því sem ég best fæ séð er um þrjár leiðir að velja. Í fyrsta lagi sú sem lögð er til í þessu frv., þ.e. Seðlabankinn hafi ákveðna fasta viðmiðun sem er vextir í helstu viðskiptalöndum Íslendinga. Í öðru lagi að fara þá leið að lækka vexti þegar í stað á ríkisskuldabréfum og ríkisvíxlum og reyna þannig að fá aðrar lánastofnanir til þess að lækka sína vexti og í þriðja lagi að draga úr lánsfjárþörf ríkisins, þ.e. draga úr eftirspurn og samkeppni um lánsfé. Að mínum dómi ætti að fara hinar tvær síðari leiðir, að ríkið grípi þegar í stað til aðgerða og lækki vexti á spariskírteinum ríkissjóðs og ríkisvíxlum, jafnframt því að dregið verði úr lánsfjárþörf ríkisins. Gallinn er bara sá að þó að ríkisstjórnin sé nú að gera tilraun til að draga úr lánsfjárþörfinni þá skilar það sér ekki inn á markaðinn fyrr en eftir töluverðan tíma. Samt sem áður er það algerlega nauðsynlegt.
    Ef ég vík aðeins að þeirri leið sem lögð er til í þessu frv. þá er það nú svo í vaxta- og peningamálum að þar bítur hvað í skottið á öðru og lækkandi vextir þýða væntanlega minni sparnað. En minni sparnaður eykur auðvitað eyðsluna þannig að það gæti fljótlega leitt til þess að aftur yrði að hækka vexti.
    Eins og fram hefur komið í umræðunni er veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála. Það sem vekur auðvitað hvað mesta furðu er hversu gífurleg eftirspurn er eftir lánsfé þrátt fyrir hina háu vexti. Þetta segir mér það, sem ég hef áður nefnt hér í ræðum, að það bremsukerfi sem háir vextir eiga að hafa í för með sér virkar ekki, það einfaldlega virkar ekki. Þetta sjáum við hvað best í húsbréfakerfinu. Það er alveg sama hvað vextirnir hækka og afföllin eru mikil fólk tekur áfram þessi lán þegar það ætti að halda að sér höndum.
    Þær ábendingar sem fram koma í greinargerð Seðlabankans um húsbréfakerfið eru mjög athyglisverðar þó að ég taki undir það sem hér hefur komið fram og ég held að þetta sé heldur ýkt. Það er greinilegt að peningarnir koma annars staðar frá. Þeir koma frá lífeyrissjóðunum og þeir koma frá bankakerfinu og það vekur auðvitað spurningar um það aðhald sem bankarnir ættu að hafa í lánveitingum en eins og við vitum þá hafa þeir átt við erfiðleika að stríða þannig að þetta er einn vítahringur sem erfitt er að komast út úr.
    Ég vil aðeins ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég held að það sé nokkuð varasamt að binda vextina með þeim hætti sem lagt er til í þessu frv. en engu að síður er lífsnauðsynlegt bæði fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu að vextir lækki þegar í stað. Ég skora á hæstv. viðskrh. að beita sér í því máli og tek undir það sem hér hefur komið fram að lækkun vaxta er ein besta kjarabótin sem launafólk getur fengið þó að hún nái alls ekki til allra. Og ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Til hvaða ráða verður gripið nú á allra næstu dögum til þess að ná niður vöxtunum? Þótt nú séu til meðferðar frv. til fjárlaga og lánsfjárlaga og niðurskurðurinn sé gífurlega mikill mun líða verulegur tími þar til það segir til sín á markaðnum.
    Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta mál en blanda mér kannski í umræðuna aftur ef tækifæri gefst til.