Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 18:30:00 (1754)

     Guðni Ágústsson :
     Hæstv. forseti. Ég auðvitað sakna þess sárlega að sjálfur vaxtakóngurinn, hæstv. fjmrh., skuli vera víðs fjarri við þessa umræðu sem ég held að sé mjög mikilvæg þegar þetta frv. er tekið til umræðu svo og vaxtamál almennt. Hefur hæstv. ráðherra fjarvistarleyfi frá þessum fundi og verður ekki með okkur hér í dag? Veit hæstv. forseti eitthvað um . . . ( Forseti: Sem svar við fyrirspurn ræðumans, þá var beðið um að þrír ráðherrar yrðu hér við, forsrh., viðskrh. og félmrh. Samkvæmt upplýsingum forseta var fjmrh. hér í allan dag en samkvæmt viðveruskrá er hann ekki lengur í húsinu. Ég held að hann sé á fundum utan þinghússins.) Ég geri kannski ekki stífar kröfur um að hann verði kallaður frá öðrum störfum. Hér eru hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. þannig að ég hygg að þeir flytji þeim hæstv. ráðherra, sem stýrir vaxtastiginu á Íslandi í dag, óminn af þeim umræðum sem hafa farið fram og munu fara fram.
    Í þessu frv. er lagt til að sett verði um það lög að Seðlabankinn komi því í kring að hér verði raunvextir útlána innlánsstofnana á árinu 1992 eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands. Enn fremur segir að Seðlabankinn skuli gera tilllögur til ríkisstjórnarinnar um hámarksvexti af ríkistryggðum skuldabréfum og stefnu í peningamálum sem samræmist ákvörðunum hans. Þetta atriði að auki held ég að sé mjög mikilvægt.
    Ég held að allir geri sér grein fyrir því og jafnvel hæstv. forsrh. einnig að þetta mjög svo háa raunvaxtastig fær ekki staðist til lengdar. Atvinnulífið stenst það ekki, launþegarnir standast það ekki, þjóðfélagið í heild strandar ef menn ekki taka á vandamálinu.
    Ég hef alltaf talið að eftir að þjóðarsátt tókst sé mjög mikilvægt að allir þeir aðilar í íslensku þjóðfélagi, sem ráða einhverju um vaxtastigið, myndi einhvers konar þjóðarsátt um lækkun raunvaxta. Það er mjög mikilvægt að halda verðbólgunni niðri en þeir aðilar, sem ráða raunvaxtastiginu, þurfa að ná saman um hvernig á að lækka það. Ég ætla að halda því fram hér í kvöld að menn geti með sátt og samstarfi allra aðilanna, þar á ég við ríkisstjórnina, bankakerfið, Seðlabankann og ekki síst lífeyrissjóðina, nú fyrir jól með sáttagerð lækkað raunvaxtastigið um mörg prósent, kannski um 2--3% og ég tala nú ekki um hið háa nafnvaxtarstig, sem ríkir hér hjá mörgum stofnunum og ég kem að því nánar, jafnvel um tug prósenta. Því mundi ég halda fram ef vaxtakóngur, hæstv. fjmrh., sæti hér í sæti sínu. En ég ætla að sýna fram á það í þessari ræðu að hæstv. fjmrh. er á þessari stundu að bjóða sparifjáreigendum á Íslandi nafnvexti --- veit hæstv. forsrh. upp á hvað þeir nafnvextir eru? --- um 20% nafnvexti á sparifé og ég ætla að koma að því nánar síðar.
    Það hefur verið svo allt of lengi að allir þeir aðilar sem ég hef nefnt, bankarnir, ríkisstjórnin, aðilar vinnumarkaðarins sem ráða lífeyrissjóðunum, benda hver á annan. Aðilar vinnumarkaðarins benda á bankana, bankarnir á ríkisstjórnina, ríkisstjórnin á þá sömu aðila til baka og svona stendur þessi glíma. Þess vegna held ég að menn þurfi að ná handleiðslunni, menn þurfa forustumann sem þorir að ganga í verkið og leiða menn til sátta um lækkun á vöxtum. Sem betur fer eru ýmsir að vakna til vitundar um það. Það gerði t.d. Morgunblaðið núna um helgina. Morgunblaðið talar til hæstv. ríkisstjórnar á sinni aðalsíðu, á bls. 30 þar sem leiðarinn er og helgispjall, í föðurlegum umvöndunartón og meira að segja segir hér í helgispjallinu, með leyfi hæstv. forseta, sem hefur nú trúlega ekki skrifað þennan pistil sem þarna er því að ég hygg að hann hafi nú hvatt ( Gripið fram í: . . . lagt gott til.) Mér hefur fundist hann fremur hvetja hæstv. forsrh. til stórræða um að duga samkvæmt hinni svörtu stefnu úr hinu stóra herbergi sem ég hef minnst fyrr á. En hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Prédikunarstóllinn getur verið hættulegur eins og reynslan sýndi okkur þegar stærsta farþegaskip sögunnar, Titanic, rakst á ísjaka. Það var ósökkvanlegt. Maðurinn var orðinn óskeikull. Enn einn stórisannleikur. En kenningar steyta á skeri. Maðurinn er ekki guð. Ekki enn(!)`` segja þeir síðan. ( Gripið fram í: Er þetta Morgunblaðið?) Þetta er Morgunblaðið núna í sinni sunnudagshugleiðingu í helgispjalli. Þar komast þeir að raun um kannski vegna ferils ríkisstjórnarinnar að enn er maðurinn ekki guð.
    ,,Þeir sem stjórna úr prédikunarstól lýðræðisins og gera út á frelsi hugmyndanna ættu að minnast þess, hvernig fór fyrir Titanic og óskeikulleika mannsins. Hann er einungis einn þáttur í tilverunni; ein guðleg hugdetta --- eins og sólskríkjan.``
    Hér flytur Morgunblaðið mikla hugvekju. Hún minnir kannski á það sem sagt að við erum á Íslandi í dag eins og á ferðalagi á sjálfu Titanic. Þjóðfélagið er nú á mörgum sviðum að rekast á hinn stóra ísjaka. Þúsund Íslendingar hafa fengið uppsagnarbréfið í þessum mánuði. Það fer ótti og skelfing um atvinnulífið við þær aðstæður og þar á ekki síst við, að rekstrargrundvöll vantar og allir gera sér grein fyrir því að raunvaxtastigið mun ganga hér frá atvinnulífinu og taka húseignirnar af fólkinu ef menn setjast ekki yfir þessa

þjóðarsátt sem ég hef hér rætt. En í sjálfum leiðara Morgunblaðsins þennan sama helgidag segir, með leyfi forseta:
    ,,Forsætisráðherra lýsti þeirri skoðun sinni, að raunvextir ættu að geta lækkað í upphafi næsta árs. Því ber að fagna enda augljóst að hvorki atvinnulíf né einstaklingar standa undir því raunvaxtastigi, sem nú er í landinu. Í því sambandi komu fram vísbendingar um, að ríkið mundi ganga á undan með góðu fordæmi, draga stórlega úr lántökum á næsta ári og lækka raunvexti á þeim skuldbindingum, sem ríkissjóður gefur út.``
    Nú ætla ég að færa að því rök að ríkisstjórnin sjálf, og þar á meðal hæstv. forsrh., geti tekið að sér handleiðsluhlutverk, geti tekið að sér forustuhlutverk og lækkað vextina með sama hætti og ný ríkisstjórn hækkaði þá í vor --- án þess að það skilaði nokkrum árangri fyrir ríkissjóð en sú hækkun hefur valdið því að atvinnulífið er nú á heljarþröm svo að menn eru að forða sér úr atvinnurekstrinum vegna stöðunnar.
    Ég minnist þess að á vorþinginu sagði hæstv. forsrh. þessi orð: Við munum lækka raunvextina með haustinu eins og við höfum hækkað þá nú. Við höfum talið nauðsynlegt núna um stundarsakir að hækka þá til þess að stöðva þenslu og mæta fjárþörf ríkissjóðs. Ekkert hefur hann staðið við af þessum orðum sínum.
    Hæstv. fjmrh. auglýsti dag eftir dag og sagði hér í þinginu: Það sem einu sinni fer upp, það kemur niður aftur. Þar átti hann við vextina, þegar hann hækkaði þá úr 6,6 upp í 8,1%, að þeir mundu koma aftur niður með haustinu. Þeir standa þar uppi enn þá.
    Hvað gerði þessi ákvörðun? Við skulum fara yfir eitt atriði gagnvart almenningi í landinu. Við skulum taka húsbréfin sem hæstv. félmrh. hefur þanið sig yfir. Ég hef tekið saman hvaða áhrif þessi aðgerð hafði á húsbréfin. Það er athyglisvert að ávöxtunarkrafa á húsbréf er til aprílloka 7,3--7,5%. Afföllin af húsbréfunum þar til ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekur við voru aldrei nema um 12, 13, 14, 15% sem er ásættanlegt --- ( Gripið fram í: Aldrei ásættanlegt.) --- kannski aldrei ásættanlegt en viðráðanlegra. En strax og vaxtasprenging ríkisstjórnarinnar á sér stað fara afföllin úr 12--14% upp í 20--24% og standa í 20% enn þá. Einn fjórði af láni húsbyggjandans um miðjan september fer beint út um gluggann, hann fær hann aldrei í hendurnar. Þarna ber ríkisstjórnin, sú ríkisstjórn sem hæstv. félmrh. á sæti í, ábyrgð á því hvernig afföllin á húsbréfunum hafa þróast á seinni hluta ársins.
    Hver var svo árangur ríkisstjórnarinnar af vaxtasprengingunni? Hér hafa báðir flm. farið nokkuð yfir það. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef t.d. um spariskírteini ríkissjóðs, þá virðist svo vera að þessi hækkun úr 6,6% upp í 8,1% hafi ekki gefið það sem af er árinu nýtt fé inn fyrir spariskírteinin nema upp á litlar 700 millj. Menn mega ekki rugla saman innlausnum. Ég hygg að þeir sem koma með spariskírteini sín hefðu framlengt þau jafnt eftir sem áður. Það eru líkur á því þótt ríkisstjórnin hefði haldið vaxtastiginu niðri en nýtt fé kemur þarna aðeins upp á 700 millj. árinu. Og ef við skoðum stöðu ríkisvíxla, þá lagaðist í rauninni mjög lítið á þeim vettvangi ef ég lít hér á einhverja mánuði. Í febrúar seldust ríkisvíxlar upp á 1,2 milljarða, í maí upp á 2,2, í júlí upp á 1,8 og í ágúst upp á 1,3. Ég er því sannfærður um að ríkisstjórnin getur með samráði lækkað raunvaxtastigið og vextina í landinu.
    Ég vil líka vekja athygli á því að menn mega ekki tala um bankakerfið eins og eitt í þessu efni því að vissulega er það svo að vextir á milli bankanna hafa verið mjög mismunandi frá því í september í haust. Ef við skoðum tölur í þeim efnum --- ég ætla ekki að tiltaka þar neina sérstaka banka en það má skipta peningastofnunum í tvennt, Búnaðarbankinn annars vegar og sparisjóðirnir, Landsbankinn og Íslandsbanki hins vegar. En svo er komið að munur á útlánsvöxtum á milli bankanna er upp á 3--4%. Víxilvextir í þeim sem eru lægri eru komnir niður í 15,5% meðan hinir eru upp í 17%. Afurðalánavextir í

þeim sem eru lægri eru komnir niður í 15,5% en í hinum sem eru hærri upp í 17%.
    Forstjóri fyrirtækis nokkurs skrifaði mér núna á dögunum og sagði frá því að það munaði sig milljón á mánuði hvort hann ætti viðskipti við þá banka eða peningastofnanir sem væru með lægri afurðalánaviðskipti eða þau hærri þannig að það er mjög rangt að setja alla í einn pott í þessum efnum eins og hent hefur ríkisstjórnina og aðila vinnumarkaðarins. Þarna er mikill munur á milli stofnana. En ríkisstjórnin hefur auðvitað í gegnum húsbréfin og pappíra sótt nýtt fjármagn upp á eina 20 milljarða á árinu meðan sparnaður í bönkum hefur dregist saman um 4 milljarða. Ríkið stendur þannig alls staðar í samkeppninni um peningana. Ég er t.d. hér með fróðlegt súlurit sem sýnir þróun síðustu ára. Þar kemur í ljós að ef fram heldur sem horfir hvað markaðshlutdeild á peningamarkaðnum varðar milli bankanna og ríkisvaldsins, ef sama þróun héldi áfram og hefur verið frá 1988, verður ríkið orðið jafnstórt á markaðnum og bankakerfið allt. Þannig hefur þetta nú þróast.
    En af því að ég hef talað hér fyrir því og ég trúi því að ef menn settust yfir dæmið væri hægt að lækka stórlega vexti þá vil ég segja við aðila vinnumarkaðarins sem komust að þeirri niðurstöðu á dögunum að það ætti að lækka nafnvexti niður í 11%: Ég er sannfærður um að þetta er hægt í dag. Það verða tveir að koma í spilið, aðilar vinnumarkaðarins, sem ráða lífeyrissjóðunum, og ríkisstjórnin. Verðbólga mælist niður í 2 og 3% um þessar mundir. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að menn geri kröfu um 11% nafnvexti útlána en þá verða hinir sem ráða innlánahliðinni að koma með.
    Ég sagði áðan að í Morgunblaðinu dag hvern auglýsti hæstv. fjmrh.: Ríkisbréf gefa mjög góða ávöxtun og hafa sveigjanlegan lánstíma. Ríkisbréf bera breytilega vexti sé miðað við vegið meðaltal útlánsvaxta bankastofnana. Þessir vextir eru mjög háir í dag, eða 19,1%. Þetta er tilboð á sparifé, hæstv. viðskrh. Sá sem á 100 þús. kr. þarf ekki hærri upphæð, hann getur farið og tryggt sér 19,1% vexti á sparifé hjá ríkinu í dag þegar verðbólga, eins og aðilar vinnumarkaðarins segja, er niður undir núlli. Og svo eiga bankar og aðrir að keppa við þennan ofjarl á markaðnum sem auðvitað hlýtur að draga til sín peningana með svona tilboði, hlýtur að halda uppi vaxtastiginu. 19,1% á sparifé. Hvað eru bankarnir að bjóða hæst á sparifé í nafnvöxtum? Á bókum sem bundnar eru í 18 mánuði eru kannski 9--9,5%. En ég vek athygli á því að þetta tilboð ríkisins þarf ekki að vera bundið nema í þrjá mánuði. Þetta sýnir auðvitað að ríkisvaldið gæti ef vilji væri til þess náð samráði um stórfellda lækkun á vöxtum, nafnvöxtum og, í framhaldi af því, raunvöxtum.
    Aðilar vinnumarkaðarins verða líka að gá að því að sá tvískinnungur gengur ekki lengur að þeir segi: Bankarnir verða að fara með nafnvextina niður í 11%. Síðan víkja þeir sér í næsta herbergi og segja við ríkisstjórnina: Við skulum kaupa viðbótarhúsbréf en við verðum að fá afföll upp á 20--24%. Það eru nefnilega aðilar vinnumarkaðarins, sem núna eru að ræða um þjóðarsáttina, og ríkisstjórnin sem ráða því hvernig raunvaxtastigið í landinu er.
    Ég hef bundið vonir við að þeir menn, þó ég styðji þá ekki sem nú sitja að völdum á Íslandi, hefðu til þess þor að ná öllum þeim aðilum saman sem ráða verði peninganna, ganga í það verk að lækka raunvaxtastigið með markvissum hætti. Ég er sannfærður um það sem ég sagði hér í upphafi að húsbyggjendurnir með dýru lánin og atvinnulífið --- viðhorfin mundu breytast á augabragði ef næðist t.d. samstaða um það í næstu viku að stíga þar einhver markviss skref á næstu tveimur mánuðum. Og ég er viss um það að staða ríkisstjórnarinnar, ef hún hefði til þess kjark, mundi breytast dálítið í þjóðfélaginu ef þessir hlutir gerðust. --- [Fundarhlé.]