Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:04:00 (1762)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Mig langar til þess að fara nokkrum orðum um spurningar og ábendingar sem fram hafa komið í máli síðustu þriggja ræðumanna og sný mér fyrst að því sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. Hann benti á að hlutabréfamarkaðurinn ætti erfitt uppdráttar við hlið verðbréfa ríkisins og bankanna sem byðu góð ávöxtunarkjör. Þetta er alveg rétt athugað hjá þingmanninum og þetta eru rök fyrir því að fara gætilega í sölu hlutabréfa í ríkisfyrirtækjum og einkavæðingu ríkisfyrirtækja en þetta eru ekki rök gegn slíkum breytingum. Það hefur hvergi komið fram að Búnaðarbankanum verði breytt í hlutafélag og bréfin í honum boðin öll til sölu í einu á einni og sömu stundinni. Það hefur hins vegar komið fram að ríkisstjórnin muni breyta bankanum í hlutafélag og undirbúa sölu á hlutabréfum í honum. Það verður hugað að aðstæðum á markaði fyrir verðbréf og fyrir áhættufé þegar þær ákvarðanir verða teknar. Þetta hefur komið fram í máli þeirra sem af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa talað um þetta mál.

    Það var rétt athugað hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að ég vék nokkuð að því í mínu máli að við skilyrði fákeppni --- og enn búum við að slíkum skilyrðum --- geti fortölur átt nokkurn rétt á sér. En það breytir því ekki að það er ekki hægt að verja valdboð eins og boðað er með þessu frv. með tilvísun til þess. Hitt er svo annað mál að ríkið er hjá okkur eins og á flestum lánamörkuðum hátekjuþjóða stór viðskiptaaðili og það ræður auðvitað sjálft við hvaða kjörum það býður sínar skuldaviðurkenningar til sölu. Síðan reynir á hvort það tekst. Og auðvitað er það líka rétt að aðilar sem eru stórir á markaði geta oft með yfirlýsingum sínum, með því að segjast vera tilbúnir til að selja á ákveðnu verði, haft áhrif á það sem gerist á markaðnum. Þetta er mjög vel kunnugt en á ekkert skylt við íhlutun í verðákvarðanir annarra. En það er einmitt munurinn sem við ræðum hér, svo einfalt er það mál. Frv. sem við ræðum nú felur í sér vald fyrir ríkið og Seðlabankann til þess að ákveða kjörin hjá öðrum, ekki hjá því sjálfu, það vald er hjá því sjálfu og hefur alltaf verið og það vita allir menn. Hins vegar blanda þessir ágætu flutningsmenn frv. þessu mjög rækilega saman í sínum rökstuðningi og sínum málflutningi.
    Ég mun að þessu sinni ekki ræða ítarlega ríkisfjármálaráðstafanir. Það er auðvitað mikið heppilegra að það verði gert að fjmrh. viðstöddum og nú er skammt til 2. umr. um fjárlagafrv. Ég vona að hv. þm. taki það eins og það er talað. Það er ekki af því að ég sé ófús að eiga við þá orðastað um ríkisfjármálastærðirnar. Ég tel það hins vegar ekki þjóna tilgangi á þessari kvöldstund að taka upp þá umræðu. Hitt vil ég þó segja almenns eðlis að það er svo sannarlega reynt að gera nú raunhæfa gangskör að því að ná ríkisfjárlagahallanum niður. Og það er ekki rétt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að hér sé eingöngu um það að tefla að rifja upp gömlu ráðin. Það sem hann kallaði hér flata lækkun útgjalda, almenna niðurfærslu, er með allt öðrum hætti kynnt nú, rætt og ákveðið en áður hefur verið þótt það hafi eiginlega slysast svo til að bera sama nafn og mislukkaðar ráðstafanir áður.
    Hv. 8. þm. Reykn. saknaði þess að ég ræddi ekki margvísleg málefni sem varða landsins gagn og nauðsynjar í minni ræðu. Það verður nú því miður að vera svo í kvöld sem önnur kvöld að það verður ekki allt sagt í einni predikun. Og það er náttúrlega röksemdafærsla (Gripið fram í.) út í hött að halda því fram að það sem ósagt er í ræðum manna sé vegna þess að þeir skeyti ekki um það. Þetta veit þingmaðurinn, og þetta er ósæmilegur málflutningur. Auðvitað er það ríkið sem ákveður kjörin á þeim pappírum sem það býður, það gildir jafnt í Bandaríkjunum sem hér. Og það er þetta sem hv. þm. virðist ekki hafa áttað sig á þegar rætt er um það sem gert er á vegum ríkisstjórna Bandaríkjanna og seðlabankans þar til þess að hafa áhrif á vextina í því landi. En hann minntist á þennan ágæta Kami, sem hann kallaði jafnaðarmann, og hefði áhyggjur af því að þeir sem væru fátækir í heiminum yrðu stöðugt fátækari en hinir ríku ríkari. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar hv. þm. 7. Reykn. sagði þetta að þessi ágæti maður, dr. Kami, kom hér að mig minnir vorið 1987 til að halda fyrirlestur fyrir Stjórnunarfélagið og tók fyrir það 10.000 dollara fyrir að tala í hálftíma eða eitthvað rúmlega það. Það er von að hann sjái það glöggt að þeir ríku séu að verða ríkari og þeir fátæku fátækari, þessi efnilegi jafnaðarmaður hv. 7. þingmanns Reykn.
    Mér fannst það nú svolítið spaugilegt hvað vitnunum bar illa saman, hv. flm. þessa frv., 7. og 8. þm. Reykn. Annar sagði að ég hefði verið forkur duglegur í fortölunum, hinn sagði að ég hefði bara viljað halda vöxtunum uppi og styðja bankana og helst ekki koma nálægt neinu og hefði verið á móti viðleitni verkalýðshreyfingarinnar að fá vextina niður. Ég held að þessir ágætu þingmenn verði að gera þetta upp sín á milli hvernig þetta var. (Gripið fram í.) Jæja, en ég vildi bara benda á það sem augljóst er að vitnunum ber ekki saman og það er æskilegt að þeir sannprófi sína vitnisburði í einrúmi.
    Ég ætla ekki að segja mikið um það sem kom hér fram hjá hv. 8. þm. Reykn. um

söluna á skuldabréfum ríkisins. Hér birtist allt í einu þessi líka fíni markaðshyggjumaður. (Gripið fram í.) Það er nú það. Talaði með fyrirlitningu og vanþóknun um handaflið, lýsti því hversu snjall hann væri að skilja og kunna betur en aðrir menn lögmál markaðarins svo ljómaði af honum. Þess vegna verður það þeim mun furðulegra og fjarstæðukenndara að þessi ágæti markaðshyggjumaður skuli standa að valdboðsfrv. sem hér er rætt í kvöld. En ég ætla að endurtaka það enn á ný, virðulegi forseti, að ég styð ekki þetta frv.