Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:12:00 (1763)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. virðist ekki hafa áttað sig á að ef ríkisstjórnin í maí hefði undirbúið markaðinn fyrir breytingu á vöxtum á spariskírteinum ríkissjóðs og látið duga til að byrja með núll-komma-eitthvað í hækkun hefði mátt tala um ákveðnar markaðsaðferðir. En þegar hæstv. ríkisstjórn hækkar vextina með handafli um 1 / 3 að raungildi og hefur þar með áhrif á allt hagkerfið er auðvitað alveg ljóst að ef það á að ná því niður á skömmum tíma dugir ekkert annað en inngrip stjórnvalda með einum eða öðrum hætti. Hæstv. viðskrh. viðurkenndi það auðvitað á vissan hátt í því sem hann sagði um fortölurnar að ríkið á að hafa inngrip. Og hæstv. viðskrh. viðurkenndi það líka í fyrri ræðu sinni í dag þegar hann sagðist vera sammála því sem ég sagði um fákeppnina og eðli íslenska peningamarkaðarins vegna þess að þá segja fræðin að það þurfi inngrip utanaðkomandi aðila til þess að knýja fákeppnisaðilana til að lækka verðið á vöru sinni.
    Við skulum ræða það, ég og hv. 7. þm. Reykn., okkar í milli hvað við eigum sameiginlega að telja að hæstv. viðskrh. hafi verið duglegur við að berja vextina niður með handaflsaðgerðum á hinum mörgu fundum. En ég skal að vísu játa það hér að hann átti hugmyndina að því að gefa bankaráðsmönnunum vöfflur með rjóma til að fá þá til að hlýða ósk ríkisstjórnarinnar um að færa vextina niður með handafli.