Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:16:00 (1764)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. hefur ekki hlustað vel, enda var hann á stöðugum hlaupum, ef hann telur að ég hafi ekki verið ánægður með hans framgöngu 1989. Ég fór að vísu ekki svo hástemmdum orðum þar um eins og hv. 8. þm. Reykn., hann hefur hrifist enn meir, en ég sagði og taldi það skýrt að við lögðumst allir á eitt með fortölum, ef menn vilja nota það frekar en handafl, að ná fram lækkun vaxta og okkur tókst það. Hæstv. viðskrh. átti svo sannarlega sem ráðherra þeirra mála stóran þátt í því hvort sem það voru nú vöfflurnar eða þau orð sem hann er manna klókastur að finna. Það tókst og ég vil bara endurtaka að ég vil alls ekki fara úr þessum stól án þess að það sé skilið að ég er mjög þakklátur hæstv. viðskrh. fyrir þá viðleitni sem hann sýndi þá. Hins vegar sagði ég að síðar kom í ljós þessi trú hæstv. viðskrh. að vextirnir eigi í raun að fá að leika lausum hala, því miður. Það virðist ráða nú.
    Ég hitti Kami þegar hann kom hingað og það var margt fróðlegt sem hann sagði. Ég held að ég hafi aldrei sagt að hann væri jafnaðarmaður, en hann er kannski eins mikill jafnaðarmaður og hæstv. viðskrh.