Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:19:00 (1767)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. viðskrh. vék sér nokkuð fimlega undan þeim spurningum sem ég bar til hans.
    Í fyrsta lagi varðandi sölu á Búnaðarbankanum þá þykist ég muna það rétt að bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafi tekið það fram sem lið í aðgerðum í ríkisfjármálum og efnahagsaðgerðum að hraða sölu Búnaðarbankans og fleiri ríkisfyrirtækja. Ég held ég muni það orðrétt eftir öðrum hvorum þeirra að í það yrði farið strax eftir áramót að breyta Búnaðarbankanum í hlutafélag og selja á markaði. Ég vakti líka athygli á því að þetta er í algjörri þversögn við stöðuna á hlutabréfamarkaði í dag og þeim þörfum sem þar eru uppi um eiginfjáraukningu annars atvinnurekstrar. Ég vil því ítreka spurningu mína til viðskrh. hvort hann telji að þetta sé rétt og að þetta hafi verið tímabærar yfirlýsingar af hálfu þessara forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hæstv. forsrh. getur borið þetta til baka ef ekki er rétt eftir haft hjá mér.
    Í öðru lagi skil ég það mjög vel að hæstv. viðskrh. vilji ekki ræða þær aðgerðir, sem boðaðar voru af fjmrh., m.a. á blaðamannafundi í dag og komu fram í fjölmiðlum í kvöld, í ríkisfjármálum og hvaða áhrif þær hafa á fjármagnsmarkaðinn. En miðað við það hvað talsmenn hæstv. ríkisstjórnar hafa lagt á þennan þátt gagnvart vaxtamálinu þá var ekki hægt að búast við öðru en að þessar spurningar sem ég bar hér fram kæmu fram við þessa umræðu.