Seðlabanki Íslands

46. fundur
Mánudaginn 09. desember 1991, kl. 23:24:00 (1769)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil enn ítreka þá grundvallarkenningu sem kemur fram á bls. 7 í skýrslu Seðlabankans, að það séu ekki nema að litlu leyti vaxtaákvarðanir innlánsstofnana sem ákveða vaxtastigið á Íslandi, heldur sé það fyrst og fremst eftirspurn eftir lánsfé frá ríkissjóði og húsbréfakerfinu sem þar skiptir mestu máli. Innlánsstofnanir taka síðan mið af vöxtum á spariskírteinum og húsbréfum. Þetta er grundvallarkenningin, hæstv. viðskrh. Að það séu ekki vaxtaákvarðanir bankanna á þeim markaði sem bankarnir eru á sem ráði vaxtastiginu á Íslandi heldur séu það þær ákvarðanir sem tengjast lánsfé ríkissjóðs og húsbréfakerfinu. Og ef þetta er ekki grundvallarkenning um eðli peningamarkaðarins á Íslandi þá veit ég ekki hvað er grundvallarkenning í þeim efnum, hæstv. viðskrh. Ég skil hins vegar vel að hæstv. viðskrh. treysti sér ekki til að lýsa neinni afstöðu sinni hér gagnvart þeim spurningum sem ég bar fram vegna þess að glerhús ríkisstjórnarinnar er greinilega mjög brothætt eins og fram hefur komið.