Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 13:58:00 (1781)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og í máli flm. tillögunnar, hv. 5. þm. Vestf., að dagvöruverslunin glímir víða við vandamál úti um land. Nú er að störfum hópur manna á vegum viðskrn., Kaupmannasamtakanna og Samvinnuhreyfingarinnar til þess að leita leiða í þessu máli og ég held að sú tillaga sem hér er fram komin ætti að fá skoðun í nefndinni. Ég vil á þessari stundu ekki taka afstöðu til þess hvort hún er heimil samkvæmt eðlilegum kröfum um jafnræði fyrir lögunum sem menn gera hér. En ég vil láta það koma fram að meðal tillagna sem hópurinn hefur rætt er einmitt að létta þessum skatti af dreifbýlisversluninni. E.t.v. er ekki jafnauðvelt að framkvæma það eins og að leggja það til. Ég vil með þessum orðum eingöngu láta í ljós að ég tel að þetta mál ætti að athuga. Ég vil að endingu segja að ég tel að það sem skiptir mestu máli í sambandi við stuðning við verslunina úti um land sé betra skipulag hennar, meira samstarf þeirra sem standa fyrir verslun í landshlutunum og það er einmitt á góðum vegi. Í ráði er að viðskrn. leggi til sérstakan ráðgjafa til þess að auðvelda bæði kaupmönnum og kaupfélögum að standa þannig að þessum málum.