Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:17:00 (1788)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Herra forseti. Ég tek undir það sem tveir síðustu hv. ræðumenn sögðu hér. Í fyrsta lagi tel ég að hæstv. fjmrh. geti ekki boðið okkur upp á röksemdafærslu af því tagi að hægt sé að vera á móti breytingum bara af því að það eru breytingar á málum óháð innihaldinu. Við sem berum djúpa virðingu fyrir hæstv. fjmrh. megum ekki verða fyrir því áfalli hér í skammdeginu að hann lækki sjálfan sig í tign með því móti. Auðvitað vitum við að hæstv. fjmrh. lætur sig efnisatriðin varða og innihaldið og hlýtur að vera tilbúinn til þess að hlusta og taka sönsum eftir því sem rök og gagnrök leggjast í einstökum málum.
    Ég vek athygli hæstv. fjmrh. á því, sem óþarft er auðvitað að gera, að hér er á ferðinni einfalt heimildarákvæði sem sjálfkrafa breytir engu til eða frá um afkomu ríkissjóðs, útgjöld eða annað því um líkt. Ef þröngt verður í búi hjá hæstv. fjmrh. og slíkt harðæri að það verður að bestu manna yfirsýn verr komið fyrir ríkissjóði á næsta ári heldur en strjálbýlisversluninni, þá verður engin deila um það að hæstv. fjmrh. beitir ekki heimildarákvæðinu. Ef þessu verður nú öfugt farið og að bestu manna yfirsýn þannig að ríkissjóður er heldur skár staddur og fremur aflögufær en dagvöruverslunin t.d. í hinum einstöku byggðarlögum á Vestfjörðum, þá kæmi til greina að beita þessum heimildarákvæði ef mönnum sýndist það skynsamlegt og ef það væri í samræmi við niðurstöðu nefndar hæstv. viðskrh. Hæstv. ráðherrar verða auðvitað að átta sig á því að þegar verið er að ætlast til þess að við einstakir alþingismenn afgreiðum mál af þessu tagi, tökum efnislega afstöðu til þess að auka álögur á verslunina, verðum við að gera kröfu til þess að hlutir séu settir í samhengi. Við höfum ekki aðstöðu til né tök á því að hafa áhrif á gang mála í einhverju nefndarstarfi hjá hæstv. viðskrh. sem við eigum ekki aðild að. Mér er t.d. ekki kunnugt um að stjórnarandstöðunni hafi verið boðin aðild að þessari starfsnefnd hæstv. viðskrh. Hann leiðréttir það þá ef það er rangt. Því miður er það vinnulag að mestu aflagt virðist manni að boða stjórnarandstöðuna til þátttöku í slíku ráðslagi og er það mjög miður.
    Þess vegna ítreka ég það að við þurfum að tengja hlutina saman hér á þeim vettvangi þar sem við höfum atkvæðisrétt og ætlast er til þess að við tökum afstöðu í svona málum.
    Ég minni á að í umræðum um þetta, bæði við 1. og 2. umr., gerði ég sérstaklega grein fyrir þeim fyrirvara af minni hálfu að þrátt fyrir það að ég væri samþykkur þessari tekjuöflun í ríkissjóð væri í mínum huga sá hængur á sem lyti að mjög bágri stöðu verslunar á landsbyggðinni sérstaklega, þó reyndar eigi hún víðar erfitt uppdráttar, og af þeim sökum væri mjög nauðsynlegt að skoða þau mál í samhengi.
    Ég vil taka undir óskir hv. 8. þm. Reykn. um að hæstv. ráðherrar hugleiði hvort ekki er hægt að verða við þeirri beiðni okkar að fresta um sinn a.m.k., þó ekki væri nema um nokkrar klukkustundir, afgreiðslu þessa máls, láta tæknimenn líta á hvort tæknilega og í skattalegu tilliti séu nokkrir meinbugir á þessari einföldu og saklausu breytingu sem þarna er á ferðinni sem verður síðan fullkomlega og algerlega í valdi hæstv. ríkisstjórnar sjálfrar að fara með. Það getur því ekki verið fyrir neitt annað en að þeir treysti ekki sjálfum sér, hæstv. ráðherrarnir, ef þeir þora ekki að hafa slíka heimild í lögum. Því trúi ég ekki fyrr en ég tek á því að þá bresti svo kjarkinn að þeir verði myrkfælnir út af einni lítilli heimildargrein eins og þessari. Hvernig fer þá um hin stærri málin ef þetta skelfir þá svo? Ég ítreka þess vegna þessa ósk, virðulegur forseti.
    Gjarnan hefði ég viljað fá að gera hlé á máli mínu svo að ég gæti lokið ræðu minni þegar umræðan héldi áfram. Mundi ég auðvitað flytja hæstv. ráðherrum þakkir ef þeir hefðu fallist á það að reyna að mætast á miðri leið. Ég veit ekki hvort forseti fellst á það að ég geri hlé á ræðu minni og umræðu verði frestað um sinn og þetta mál skoðað. Ella mun það fara svo að ég hafi þá nýtt allan rétt minn sem ræðumaður í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Ég get að sjálfsögðu ekkert gert við því ef þessi ósk mín hlýtur ekki samþykki og lýk þá máli mínu, virðulegur forseti, en ég óska eftir sem áður eftir því að hæstv. fjmrh svari okkur þessu. ( Gripið fram í: Forseti hefur nú engu svarað enn þá.) Ég tek þögn hæstv. forseta sem svar við því að mér verði ekki að ósk minni í þessu.
    Ég ætla þá að segja í mjög vinsamlegum tóni við hæstv. fjmrh. að mér finnst þetta ekki það stórmál að ekki sé þess virði að íhuga hvort við getum ekki náð betur saman m.a. með hliðsjón af því sem í vændum er hér í þinginu á næstu sólarhringum. T.d. þarf hv. efh.- og viðskn. ekki hvað síst að beita kröftum sínum ef það á allt saman að ganga greiðlega fram og klárast sem þar liggur fyrir. Það gætu verið hyggindi sem í hag koma, hæstv. fjmrh,. að sýna sveigjanleika í þessu litla máli.