Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

47. fundur
Þriðjudaginn 10. desember 1991, kl. 14:24:00 (1789)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég skildi orð tillögunnar og þeirra sem talað hafa fyrir henni svo að hér ætti tillögumaður ekki við einstök fyrirtæki heldur einstök skattumdæmi. Og reyndar kom hv. 8. þm. Reykn. hér upp og staðfesti það.
    Nú langar mig til þess að biðja ykkur, ágætu þingmenn, að hugleiða með mér hvað mundi gerast ef verslun færi að ganga mjög illa á Þórshöfn en vel á Akureyri, ef verslun gengi illa á Króksfjarðarnesi en vel á Akranesi. Ef þið settuð ykkur í mín spor og ég

ætti að meta það hvort ég ætti að sleppa þessum skatti í Vesturlandsskattumdæmi eða skattumdæminu Norðurl. e. Hvaða ákvörðun munduð þið taka? Munduð við velja hagsmuni Þórshafnar eða almannahagsmuni ef betra ástand væri á Akureyri en einhvers staðar annars staðar á landinu? Ég vona að menn skilji það að undanþágur og heimildir til undanþága leiða til þrýstings, vonar og biðraða. Þetta skildi hv. 8. þm. Reykn. ákaflega vel þegar hann var ráðherra í ríkisstjórn og áttaði sig á því að slíkar heimildir geta oft orðið til bölvunar og oft orðið til þess að gera upp á milli aðila, lögaðila og manna, með þeim hætti sem erfiðleikum valda. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.
    Ég vil enn fremur minna á að vegna sérstakrar beiðni frá ýmsum aðilum, þar á meðal frá hv. stjórnarandstöðuþingmönnum, var málið tekið aftur fyrir í hv. nefnd sem er óvenjulegt og sérstaklega óvenjulegt um mál sem menn gjörþekkja og er jafneinfalt og þetta mál. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að breyta frv., þ.e. meiri hluti nefndarinnar. Þess vegna hefur málið beðið í nokkuð marga daga eftir umræðu. Það er ekki fyrr en nú þegar 3. umr. hefst að í miðri ræðu flm. tillögunnar er þessari tillögu dreift og það þarf að leita afbrigða á meðan ræðumaður gerir hlé á máli sínu. Þá kemur fram ný krafa þess efnis að nauðsynlega þurfi að senda málið til nefndar aftur til þess að skoða það. Það er slegið af henni og sagt: Við skulum taka okkur nokkra daga og kanna hvort hægt er að breyta þessari tillögu. Við skulum átta okkur á því að þetta er viðkvæmt mál og ég tek undir það með hv. þm. sem hér hafa talað að vissulega er ástæða til þess að horfa til verslunarinnar eins og annarra atvinnugreina úti á landi og víðar. Ég held hins vegar að þetta sé ekki leiðin. Ég hygg að það sé affarasælla að vinna að því að leggja þennan skatt af og að því verður unnið. Eins tek ég undir með þeim sem segja að ástæða sé til þess að kanna ástandið í versluninni með öðrum hætti en þeim sem hér er stungið upp á.
    Nú veit ég að menn koma upp, af því að það er auðvitað gildran sem lögð er fyrir okkur stjórnarsinna, og segja: Hann opnaði til hálfs, nú stökkvum við á hann. Nú skulum við finna upp nýtt bragð. Við biðjum hann um að breyta tillögunni þannig að hún þóknist þeim sjónarmiðum sem verið er að sækjast eftir. Ég segi, því miður er það svo með undanþágur á borð við þær sem hér er verið að leggja til að þær reynast oft gallaðar, koma mönnum í vanda. Ég bið ykkur frekar um hjálp til þess að leggja þennan skatt af. Ég hef sagt að það verði gert þegar eignartekjuskatturinn verði tekinn upp og ég hélt satt að segja að það væri sameiginlegt áhugamál okkar margra. Það er þess vegna ekki af neinum eintrjáningshætti sem ég leggst gegn þessari tillögu og reyndar öðrum tillögum í þessu tiltekna máli. Málið er einfalt og skýrt. Þetta eru lög sem hafa gilt frá 1978 og ég bið hv. þm., ekki síst þá sem fundu þennan skatt upp og hafa fylgt honum sem fastast, að vera ekki að reyna að bora gat á hann í þá fáu mánuði sem hann á eftir að vera í gildi.